Powered By Blogger

miðvikudagur, 22. desember 2010

Hundaheppni

Ég held það sé engin spurning að sumir eru heppnari en aðrir :-) Það mætti halda að yngri dóttir mín hafi lesið bloggið mitt um daginn (ég veit þó að hún gerði það ekki) þar sem ég tala um hve gaman mér finnist að þvo þvott hérna heima og ganga frá honum. Haldið þið ekki að litla gullið mitt hafi komið heim með fulla ferðatösku af óhreinum þvotti fyrir mömmu sína :-) Þetta er bara yndislegt.

sunnudagur, 19. desember 2010

&7%&$#"$ flug

Ótrúlegt þetta klúður í London og þvílíkt vesen að fá eiginmanninn heim. Það er fúlt að hafa hann tvo sólarhringa í London í eitthverju dútli þegar hann stoppar bara nokkra daga á Íslandi. En ég vona innilega, og krosslegg fingur, að flugáætlunin fyrir morgundaginn standi. Ef svo verður þá mun Villi lenda í Keflavík kl. 12 á hádegi.

Mér datt í hug að kíkja á heimasíðu Icelandair til að athuga með flugið á morgun og fékk nett sjokk. Þar stóð "Flugáætlun til og frá London fyrir 20. des og flug til Parísar fellt niður". Ég mislas þetta eitthvað og tók þetta sem að flugið frá London væri líka fellt niður á morgun. En svo róaði ég mig aðeins niður og las betur og þá skildi ég þetta :-) Þar er sem sagt Parísarflugið sem er fellt niður á morgun.

Ég fer nefnilega að lenda í smá klandri, svona fyrir utan það að vita af Villa einum í London - og ekkert að skemmta sér neitt sérstaklega - þá hafði ég nefnilega ákveðið að byrja ekki á neinu jólastússi fyrr en hann kæmi heim :-) Þannig að það verður sett í jólagírinn á morgun (vonandi)

Við Rúnar Atli þurfum að taka daginn snemma á morgun þar sem Tinna Rut lendir kl. 06.45 og því eins gott að fara að koma sér í háttinn. Það mun varla ganga vel fyrir Rúnar að sofna þar sem hann var vakinn kl. 10 í morgun :-) Honum finnst svo gott að sofa út

fimmtudagur, 16. desember 2010

Bara gaman

Ég verð að viðurkenna að það skemmtilegasta sem ég veit er að þvo þvott í minni eigin þvottavél og setja í minn eiginn þurrkara - og að ganga svo frá þvottinum. Bara yndislegt. Það er verst að þar sem við erum bara tvö á heimilinu, eins og er, þá tekur svo marga daga að safna í heila vél :-)

þriðjudagur, 14. desember 2010

Spenningur

Mikil gleði ríkir á heimilinu fyrst jólasveinarnir eru farnir að tínast til byggða. Yfirleitt sefur Rúnar Atli frameftir á morgnana - þegar enginn skóli er -og á hann auðvelt með að sofa til að ganga 10. En morguninn sem Stekkjastaur kom til byggða var hann vaknaður rúmlega 7 :-)

Hann á svo yndislegar frænkur í Svíþjóð sem gáfu honum Lego jóladagatal þar sem hann fær Lego dót á hverjum degi til jóla. Spennan og hamingjan er sko síst minni með jóladagatalið og satt að segja held ég að spennan sé meiri að sjá hvað kemur úr dagatalinu. Mér hefur heyrst á honum að honum finnist jólasveinarnir gefa frekar lítið í skóinn :-)

Stór dagur

Í dag eigum við Villi 24 ára brúðkaupsafmæli. Mér finnst alveg með ólíkindum hvað tíminn hefur verið fljótur að líða. Er ekki sagt að tíminn líði hratt þegar maður hefur það skemmtilegt :-)

Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem við hjónin höldum ekki upp á daginn saman en Rúnar Atli ætlar að bjóða mömmu sinni út að borða í staðinn :-)

Svo er stefnt að einhverju mjög skemmtilegu að ári þegar við höldum upp á Silfurbrúðkaupið. Spurning að fara að skipuleggja eitthvað strax :-)

Mjög forvitnilegt

Það er skemmtilegt að velta fyrir sér hvernig maður setur eitt stykki banka á hausinn á örfáum árum. Eins og við vitum þá keyptu Björgúlfsfeðgar Landsbankann árið 2003 og ef marka má skýrslur sem unnar hafa verið á vegum Sérstaks saksóknara þá var þessi banki í raun kominn í þrot árið 2007 og hefði átt að missa bankaleyfið.

Það er eiginlega priceless að lesa þær miklu hugmyndir sem stóðu að baki sölu bankanna, eins og lesa má t.d. eftirfarandi:

Í kjölfar sölunnar á eignarhluta ríkisins í Landsbankanum stendur til að ríkið losi um hluti sinn í Búnaðarbankanum og eru viðræður þegar hafnar við tvo aðila um þau kaup. Ef sú sala nær fram að ganga má segja að eitthvert stærsta pólitíska þrekvirki Íslandssögunnar hafi verið unnið og ljóst að áhrifa þess gætir um allt samfélagið. Einkavæðing bankakerfisins skapar umhverfi sem er bæði einstaklingum og fyrirtækjum miklum mun hagstæðara heldur en nokkru sinni gat orðið á meðan pólitísk sjónarmið réðu mestu um ákvarðanatöku á íslenskum fjármagnsmörkuðum.

Er þetta ekki dásamlegt?? :-) Stærsta pólitíska þrekvirki sögunnar, hvorki meira né minna. Eins væri mér forvitni á að vita hve mörg fyrirtæki og einstaklingar sjá sinn hag betri (eins og staðan er í dag) eftir þessa einkavæðingu :-)

En það sem ég furða mig hvað mest á er hversu fljótt þessum snillingum tókst að setja heilan banka á hausinn. Ég meina í minni einfeldni þá hefði ég haldið að slíkt tæki aðeins fleiri ár, en samkvæmt skýrslu (og fjallað var um í Kastljósi í síðustu viku) sem unnin var fyrir tilstuðlan sérstaks þá hefði Landsbankinn átt að missa starfsleyfið árið 2007. Aðeins fjórum árum eftir einkavæðingu.

Mín spurning er þessi: hvernig fer maður að því að setja heilan banka á hausinn á fjórum árum??? Spyr sá sem ekki veit.

Í mínum huga er það gjörsamlega ógerlegt að gera banka fallit - en ég hef svo sem aldrei verið talin til útrásasnillinga og þ.a.l. hef ég náttúrulega ekki hundsvit á þessu :-) En það má svo sem alveg segja að þetta sé snilld að geta þetta á svo stuttum tíma.

mánudagur, 13. desember 2010

Allt er þegar þrennt er – og fullreynt í fjórða

Eins og okkur Rúnari Atla finnst nú frábært að vera komin til Íslands, þá er einn og einn hlutur sem angrar okkur (mig) aðeins. Þegar við vorum nýkomin heim og frúin ætlaði í sturtu til að skola af sér ferðarykinu, þá bara kom ekkert vatn úr sturtunni. Sama hvað ég reyndi þá gekk ekkert, svo var ég að flýta mér til Dagmarar í mat þannig að ég lét þetta eiga sig í bili. Aftur reyndi ég daginn eftir en enn gekk ekkert. En nú gekk ekki lengur að sætta sig við vatnsleysi – það var bara ekki séns að frúin færi út án þess að sturtast J

Þannig að nú var brugðið á það ráð að tala við Reddarann (Davíð mág) og þá kom í ljós að það þurfti að skrúfa fyrir vatnið þar sem það lak alltaf með blöndunartækjunum. Okey, búið að redda því og frúin komst í sturtu. En það var ekki fyrr en ég stóð í sturtunni að ég fattaði að það var ekkert sturtuhengi svo allt varð rennandi inni á baði. Einhverra hluta vegna hafði stöngin sem hélt uppi sturtuhenginu dottið niður einhvern tímann og ég get ekki sett hana upp aftur. Það þarf eitthvað að sansa þetta til.

Villi mun hafa nóg að gera þegar hann loksins drattast til landsins, það er á hreinu.

Þetta er sko ekki búið J Þegar ég keyrði bílinn í fyrradag var eitthvað aukahljóð hjá framdekkinu bílstjóramegin. Hljóðið angraði mig þar sem ég vissi ekki hvað þetta var. Þegar við Rúnar fórum svo í bæinn í morgun hafði hljóðið magnast um allan helming og mér leist nú bara ekki á blikuna. Ég hélt satt að segja að bíllinn væri að hrynja undan okkur mæðginum. Ég sendi þessum vel gifta sms og kvartaði mikið undan bílnum. Hann sendir mér til baka heimilisfang á einhverju bílaverkstæði í Kópavogi og segir mér að kíkja þangað. Ég bruna beint á verkstæðið og spyr gaurinn hvort það sé nokkur séns að hann geti kíkt undir bílinn þar sem ég haldi að hann sé að hrynja undan mér. Kom þá í ljós að demparinn bílstjóramegin er brotinn – takk fyrir. Sem betur fer gat hann strax reddað dempara og tók bílinn inn og ég fæ hann aftur á morgun.

Svo eigum við hjónin svo yndislega vini að það fyrsta sem einum þeirra datt í hug var hvort ég skyldi ekki örugglega þessi skilaboð??? Sem sagt bílstjórinn (hún ég) bara aðeins og þung fyrst að demparinn brotnar undan mér J

Gaman að þessu. En eins og máltækið segir, "þá er allt þegar þrennt er” – en svo er nefnilega annað máltæki sem segir “fullreynt í fjórða”. En ég hef fingur krosslagða um að ekkert annað komi upp, alla vega ekki áður en Villi kemur heim. Hann getur staðið í þessu veseni J

Tannlæknir

Það fækkar tönnunum í Rúnari Atla hægt en rólega. Hann hefur misst tvær framtennur í neðrigóm og það var ekkert mál, þær duttu bara sjálfar þegar allt var tilbúið. En nú hefur hann, í um tvo mánuði, haft eina laflausa framtönn í efri góm. Hann jagast í tönninni alla daga og hún orðin laflaus en ekki datt hún. Hann var orðinn rauður og þrútinn í tannholdinu hjá tönninni og kveinkaði sér þegar ég burstaði tennurnar. Því reyndist nauðalendingin sú að kíkja til tannlæknis sem við og gerðum í morgun.

Hann var strax byrjaður um kl. 10 í morgun að bíða hvenær við færum nú til hennar Sonju Rutar (tannlæknirinn). Hann hlakkaði svo til að hitta hana, loksins um hádegið fórum við. Þegar við komum inn á tannlæknastofuna sagði hann “oh mamma, ég elska þessa tannlæknalykt”. Barnið er ekki alveg okey – sækir þetta örugglega í föðurættina J

En tönnin er loksins farin og nú lítur gæinn svona út

miðvikudagur, 8. desember 2010

Ísland

Það fer ansi vel um okkur Rúnar Atla hérna á klakanum, fyrir utan nokkur atriði. Hann er að verða vitlaus yfir því að eiga ekkert dót hérna í Æsufellinu og spyr reglulega "mamma, hvað á ég að gera núna?" Það þarf varla að taka það fram að þetta reynir á þolinmæði móðurinnar :-)

En við erum búin að vera dugleg og komin í jólagírinn. Við þrifum alla glugga í gær og settum upp jólaseríur - allt voða fínt :-)

Núna bíður hann bara eftir því að það fari að snjóa svo hann geti leikið úti í snjónum eins og hann gat gert í Svíþjóð.

Tæknifríkin hún ég var að skipta um forsíðumynd á blogginu mínu um daginn en kann ekki að minnka hana - hún tekur bara eiginlega upp alla síðuna :-) Vona að þetta pirri ykkur ekki kæru lesendur en ég bið Villa að líta á þetta þegar hann kemur heim.

laugardagur, 4. desember 2010

Ellen og Olivia

Olivia og Ellen eru rosalega duglegar á skautum og á þessum myndum er Olivia að sýna listir sínar (Ellen var hætt).

Hún er að æfa sig að fara sundur og saman með fæturnar.

Hérna kemur hún á fleygiferð.

En snillingarnir detta víst líka stundum :-)

Gaman í Svíþjóð

Í morgun fórum við Doddi með krakkana á skauta í hokkíhöllinni. Rúnar Atli var að taka sín fyrstu skautaspor og þetta var meiriháttar gaman þó oft hafi hann nú steinlegið á svellinu :-)

Þetta byrjaði bara nokkuð vel og gæinn tók sig bara vel út á svellinu með grind til aðstoðar. Það er verst hvað það var erfitt að komast af stað.

En æ æ, svo bara steinlá maður...

þá var nú öruggara bara að hanga á veggnum og ganga meðfram honum.

En svo komu frænkurnar og reyndu sitt besta til að hjálpa honum af stað.

En það gekk eitthvað illa svo þeim þótti bara best að Rúnar fengi sér sæti og þær myndu bara skauta með hann.

Oh, svo var nú gott að fá sér pulsu eftir allt erfiðið.

fimmtudagur, 2. desember 2010

Jólalegt

Það er alveg ótrúlega fallegt og jólalegt hérna í Oxelösund og bara ekki hægt annað en að komast í jólaskap. Á meðan Doddi vinnur og Ellen og Olivia eru í skólanum, sitjum við mæðginin og horfum á jólamynd og borðum mandarínur.

Ég varð að taka myndir af útsýninu hérna hjá Dodda - ótrúlega fallegt


miðvikudagur, 1. desember 2010

Í snjónum skemmti ég mér tralla la lallala

Ég var búin að blogga í morgun og setja inn myndir, en einhverra hluta vegna birtist það ekki hérna.

En sem sagt þá gekk ferðalagið okkar Rúnars Atla alveg ágætlega þó ekki hafi mikið verið sofið frá Jóhannesarborg til Lundúna. Rúnar átti mjög erfitt með að finna góða svefnstellingu og ég eyddi megninu af nóttinni í að reyna að aðstoða hann við lítinn árangur :-)

En það var mikið gott að komast til Svíþjóðar og eftirvæntingin var mikil alla ferðina. Svo skemmdi nú ekki að það var stoppað á McDonalds á leiðinni heim, enda sársvangir ferðalangar á ferð.

Þegar við lentum í gær var um 8 stiga frost og það vill til að það hafði fundist slatti af vetrarfötum á Rúnar hérna svo hann er vel gallaður. Enda drógu frænkur hans hann með sér út að renna sér í gærkveldi. Svo beið hann bara eftir að vakna í morgun til að ná mér út og sýna mér alls kyns kúnstir. Þegar við vöknuðum þá var hins vegar aðeins búið að herða á frostinu og það var 17 stiga frost svo það verður bara að segjast eins og er að mamman var ekkert rosa spennt fyrir því að fara út enda ekki með mikið af vetrarfatnaði með sér :-) En drengurinn gaf sig ekki og um miðjan morgun náði hann að draga mig út og þá var nú heldur búið að hlýna og sýndi mælirinn "aðeins" 12 stiga frost.

En hér koma nokkrar myndir af alls kyns hundakúnstum




mánudagur, 29. nóvember 2010

Duglegir feðgar

Það hefur verið mikið að gera hjá okkur undanfarnar vikur og þó alveg sérstaklega undanfarna daga. Það þurfti m.a. að taka húsgögn í sundur. Eins gott að eiga dugmikinn strák sem hjálpar alveg helling - það er bara svo skrítið að alltaf þegar hann hjálpaði þá einhvern veginn tók verkið lengri tíma :-)

Svo þurfti að hlaða dóti á bílinn til að koma því heim til Lidiu og Floru - og ekki var hann minni hjálparhella þá :-)

söfnunarárátta

Það er ekki furða að farangurinn hans Rúnars sé alltaf þungur þegar við erum á ferðalögum. Ég var að finna til ferðahandtöskuna hans í gær og gera hana klára fyrir ferðalagið á eftir. Ég ákvað nú að þvo allt ryk af henni og athuga hvort nokkuð væri í henni. Detta þá ekki þessir fallegu steinar úr henni :-) Hann er sjúkur í steina og hvert sem við förum, þá skal hann alltaf geta fundið sér steina til að taka með sér heim. Þessi söfnunarátta hjá drengnum breytist vonandi ekki í það að verða eins og hjá Árna Johnsen og hann fari að safns sér steinhellum.


miðvikudagur, 24. nóvember 2010

Mikil hjálparhella

Við erum langt komið með niðurpökkunina, eiginlega bara föt og það sem við þurfum að nota fram á síðasta dag sem á eftir að fara niður í kassa og svo smá dót frá Rúnari.

Rúnar gerir þetta miklu skemmtilegra fyrir móður sína en ella :-) Ég er svo til búin með hans herbergi en hef verið með þrjá kassa af dóti og föndurdóti frá honum opna. Þegar gaurinn kemur heim úr skólanum þá byrjar hann náttúrulega á því að taka upp úr kössunum og daginn eftir pakka ég aftur niður og vona að ég nái að pakka eins vel og deginum áður :-) Enda er ég orðin lúnkin við að pakka niður dótinu hans.

sunnudagur, 21. nóvember 2010

Íslenskir jólasveinar

Það er nokkuð síðan Rúnar Atli fór að tala um íslensku jólasveinana og hve hann hlakkar til að fá í skóinn. Hann er m.a.s. með dagsetninguna á hreinu hvenær fyrsti jólasveinninn kemur til byggða.

Ég nýti mér þetta út í ystu æsar. Hann hefur átt það til undanfarna daga að vera óþekkur (bara ótrúlægt :-) ) og í gær sagði ég honum að nú yrði hann að fara að passa sig því jólasveinarnir á Íslandi eru strax farnir að fylgjast með krökkunum, þ.e. hvort þeir séu góðir eða óþekkir. Svo var þetta ekki rætt neitt meir.

Fyrr en í morgun, þá kemur hann til mín og spyr hvaða dagur sé í dag, ekki hvaða vikudagur heldur númer hvað dagurinn í dag sé. Ég segi honum að í dag sé 21. nóvember. Ókey flott, svo þurfti hann blað og skriffæri og bað mig að hjálpa sér að stafa "nóvember". Jú jú, hann skrifaði niður nóvember og sagði svo fyrst að í dag sé 21. þá hafi verið 20. nóv í gær og skrifaði hann það á blaðið líka. Að þessu loknu forvitnast ég um ástæðu þessara skrifa hans. Jú hann vildi bara hafa það skrifað hvaða dag jólasveinarnir byrja að fylgjast með krökkunum og nú þurfi hann að geyma þetta blað á öruggum stað.

Þetta er yndislegt :-)

Pakka, pakka, pakka

Við erum búin að standa á haus alla helgina við að pakka - get ekki sagt að þetta sé með mínum uppáhaldsverkum. Við erum nú langt komin og allt hannyrðadótið mitt er farið í kassa og ég er bara hálf eyrðarlaus vegna þessa. Datt inn á síður á netinu með hekluppskriftir og finnst alveg ómögulegt að geta ekki gert neitt slíkt :-)

Við Rúnar Atli hlökkum til Evrópuferðarinnar okkar. Við förum héðan 29. nóv og lendum í Svíþjóð 30. Förum svo til Íslands 5. des og það verður meiriháttar.




miðvikudagur, 17. nóvember 2010

Bleyta - bleyta og enn meiri bleyta

Eins og komið hefur fram hjá mér í fyrri færslum, hefur rignt ansi mikið hér í landi síðustu daga. Síðastliðna nótt rigndi held ég bara stanslaust með tilheyrandi þrumum og eldingum svo að svefnherbergið upplýstist reglulega :-) Það er mjög gaman að upplifa svona rigningu.

Í Namibian í morgun (eitt af dagblöðunum) var að sjálfsögðu fjallað um rigninguna og svo til allir sáttir. Það stóð m.a. "... several towns in the eastern and southern areas hit the rain jackpot (lausleg þýðing: margir bæir í austur- og suðurhluta landsins duttu í rigningar-lukkupottinn).

Það er misjafnt hvað fólk telur vera lukkupott :-)

Það eru reyndar ekki allir eins sáttir við bleytuna hér í landi. T.d. eru götusalar í mestu vandræðum því þeir selja ansi lítið af munum í svona veðri. Þeir eru ýmist með plastpoka yfir öllu dótinu sínu nú eða hreinlega fara með það aftur í geymslu. Þeir hafa löngum beðið borgina að setja upp skyggni fyrir sig - einmitt til að verja þá gegn bleytunni :-)

þriðjudagur, 16. nóvember 2010

Dásamlegt :-)

Rúnar kom til mín áðan með hangandi haus og skeifu. Ég forvitnaðist að sjálfsögðu um hvað væri að. Jú málið var sko að hann langaði svo að tefla og hvorki ég né pabbi hans nenntum að tefla við hann.

Hans lausn á þessu vandamáli er sú að eignast bróður og bað hann mig vinsamlegast að redda því hið fyrsta. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að þó hann myndi eignast bróður þá gæti hann ekki teflt við hann fyrr en eftir mörg ár. Hann var ekki alveg að bekena þetta og ég reyndi að útskýra þetta enn betur - en ekkert gekk. Þannig að til að eyða þessu samtali sagði ég honum að pabbi hans væri bara orðinn of gamall til að eignast annað barn :-) Segir ekki þessi stutti þá "við gætum bara fengið nýjan pabba".

Svo fer hann beint til pabba síns og segir honum frá þessu vandamáli sínu og að hann verði eiginlega að fá nýjan pabba þar sem hans pabbi sé orðinn of gamall. Villi varð nú ekkert alltof spenntur fyrir þessari hugmynd hans, skrítið :-)

Þvottur - þvottur - þvottur

Þá er ég búin að fá músaþvottavélina mína aftur heim og það er sko yndisleg tilfinning að hafa hana aftur í húsinu. Það hefur ekki verið hægt að þvo þvott síðan á miðvikudaginn í síðustu viku. Kæra fólk, það eru sko sex dagar síðan og það er bókstaflega allt að verða óhreint, við erum á nippinu.

Það er varla að ég leggi í að segja frá því hvað ég gerði á laugardaginn. Ah jú jú ég læt það bara flakka :-)

Ég sá fram á að á mánudeginum ætti Rúnar Atli engin hrein föt til að mæta í í skólann, þannig að mín bara keypti á hann nýjar stuttbuxur og nærur til að þurfa ekki að þvo í höndunum :-) Bölvuð letin í manni en svona er þetta. Reyndar hef ég mjög góða afsökun, það er búið að rigna svo til non-stop síðan á laugardaginn (ja alla vega síðan á sunnudaginn) - því gat ég ekki hengt neinn þvott út :-)

Við Villi eigum greinilega meira af fötun en gaurinn því ekki höfum við þurft að versla okkur neitt nýtt í fataskápinn. En þar sem það rignir ennþá þá gæti þetta nú breyst fljótlega :-) Ég fer kannski með alveg nýjan fataskáp til Lilongway

Það jákvæða við að eldast :-)

Ég eyddi eftirmeðdeginu inni í leikhbergi hjá Rúnari og er gjörsamlega búin á því. Ég var löngu búin að biðja Flora að fara í gegnum dótið hans og byrja að pakka - sem hún og gerði samviskusamlega. En þetta var ekki gert eins og ég vildi og þurfti ég því að fara í þetta (bara gott á mig). Ég notaði tækifærið þar sem Rúnar var ekki heima og náði að pakka í þrjá kassa sem fara til Lilongway, í annan kassa sem við munum gefa og loks í kassa sem er fullur af drasli sem fer beint á haugana. Ég fatta bara ekki hvernig svona mikið DRASL getur safnast saman hjá einum krakka.

Ég hef ekki oft farið svona í gegnum dótið hans og er af sem áður var. Þegar stelpurnar voru litlar þá skreið ég um gólfin til að finna alla hluti í öll sett sem þær áttu, eins og t.d. Polly Pocket, Barbí og fleira svoleiðis dót. Ég kom ekki upp af gólfinu fyrr en ég hafði fundið alla hluti - sama hve litlir þeir voru. En fyrir vikið vissi ég upp á hár hvaða dót þær áttu. Ég gat ekki slappað af fyrr en ég fann alla bitana. Ég veit, þetta er bilun.

Þessu er aðeins öðruvísi farið með dótið hans Rúnars Atla :-) Það er langur vegur frá því að ég sé eins obsessed með dótið hans og ég var með dót stelpnanna.

Ég trúi því að þessi afslöppun og normal hegðun (on my part) sé til komin með aldrinum og auknum þroska.

Þar kom að því að ég fann eitthvað virkilega jákvætt við það að eldast :-)

sunnudagur, 14. nóvember 2010

Aldur afstætt hugtak

Við vorum að spjalla aðeins við Tinnu Rut og það barst til tals að tvær vinkonur hennar hafa verið mjög veikar undanfarnar vikur og önnur þeirra lenti í uppskurði. Sú var með eitthvað móðurlífsvandamál og eins og Tinna segir þá er mjög sjaldgæft að ungar konur fái þetta, það eru eiginlega bara eldri konur sem fá þetta, konur svona um fertugt!!!!!!

Ha, telst ég þá vera eldri kona????

fimmtudagur, 11. nóvember 2010

Greiðasemi

Hann sonur minn á það til að eiga lata mömmu (eða við skulum segja þreytta mömmu) sem nennir ekki endalaust að vera að hlaupa hingað og þangað til að sjá eitthvað hjá honum. En hann er búinn að finna lausn á þessum vanda sínum :-) Nú þegar hann vill ég geri eitthvað fyrir sig byrjar hann á að spurja hvort ég geti gert sér tvo greiða. Greiði númer eitt sé að gefa sér koss og svo greiði númer tvö er það sem hann vill láta mig gera fyrir sig. Hann var fljótur að finna það út að mamma hans stenst ekki svona yndislegheit og nú hleypur hún út um allt fyrir þessa elsku sína :-)

miðvikudagur, 10. nóvember 2010

Ja hver fjan....

Er þetta kannski eitthvað fyrir mig?? :-) Samkvæmt þessu gæti ég losnað við sirka sjö kíló á þessum sex vikum sem eru til jóla - humm. Set þetta í nefnd :-)

þriðjudagur, 9. nóvember 2010

Svínaflensa

Við fengum bréf heim með Rúnari Atla í gær um að nú væru þrjú staðfest tilfelli svínaflensu í skólanum hans. Nú er bara að krossleggja fingur um að hann smitist ekki því það er svo stutt þangað til við leggjum af stað til Íslands ;-)

mánudagur, 8. nóvember 2010

Nett áfall

Þannig er mál með vexti að þessa dagana erum við að skipta um númeraplötur á krúttinu mínu. En til þess að skipta um plötur þurfti bíllinn að fara í það sem kallast Road-worthy test. Bíllinn var sendur í þetta próf í síðustu viku og haldið þið ekki að hann hafi FALLIÐ. Ja á dauða mínum átti ég von en því að bíllinn minn teldist ekki nógu góður til að keyra um götur landsins. Það er á hreinu að margir bílar í borginni eru stórhættulegir í umferðinni en ekki bíllinn minn.

Í landi eyðumerkurinnar þar sem ekki rignir svo mánuðum skiptir voru það rúðuþurrkublöðin sem felldu bílinn, þau voru ekki nógu góð :-) Það verður nú að segjast að þessi blöð fara mjög illa í sólinni, en ég meina kommon.

sunnudagur, 31. október 2010

Flakk

Villi hefur verið á flakki undanfarnar vikur, bara svona eins og oft vill verða. En í síðustu viku ákváðum við Rúnar Atli að skella okkur með Villa þegar förinni var heitið til Malawi. Það var mjög gaman að koma þangað. Lilongwe er talsvert öðruvísi en Windhoek en eins og Windhoek þá er borgin mjög falleg.

Það vildi svo "skemmtilega" til að þessa daga sem vorum þarna þá var einhver heljarins ráðstefna í borginni og því voru öll hótel og gistiheimili uppbókuð. En það var hægt að troða okkur á eitt gestahúsið sem fær nú kannski ekki beint 10 í einkunn frá mér. Rafmagnið var af skornum skammti (sem er víst algengt vandamál í borginni) og þ.a.l. var lítið um loftkælingu. En það sem verra var að það var ekkert heitt vatn :-) En það var mjög gaman að koma þarna og sjá eitthvað nýtt.

Næst er förinni heitið til Opuwo og förum við þangað á fimmtudaginn og komum sennilega heim aftur á sunnudaginn. Ég held að Opuwo sé minn uppáhaldsstaður í Namibíu, það jafnast ekkert á við að liggja á sundlaugarbakkanum með hvítvínsglas og horfa á fegurðina. Þið sem hafið komið þarna vitið hvað ég meina :-) Svo er líka alltaf jafn skemmtilegt að heimsækja Himbana.

þriðjudagur, 19. október 2010

Dulin meining

Við Villi og Rúnar vorum í ferðalagi í síðustu viku og þar sem Villi hefur bloggað um ferðalagið þá nenni ég því ekki.

Ég var í klippingu í morgun sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að í þetta sinn lét ég ekki lita á mér hárið. Ilse - hárgreiðslukonan mín (hefur séð um hárið á mér í mörg ár) var mjög hissa en lét svo sem á litlu bera. Svo spyr hún mig voða varfærnislega hvort ég ætli nú bara að "go totally grey"!!! Ég svaraði því til að ég væri bara svo forvitin að sjá hversu gráhærð ég væri orðin.

Ég man eins og það hefði gerst í gær þegar ég fann fyrsta gráa hárið, þetta mun hafa verið um mánaðarmótin mars-apríl 1993. Þá nótt var ég að leggja af stað ein með stelpurnar frá Vancouver til Íslands í gegnum Seattle og New York. Ég var ansi stressuð og taldi að grá hárið væri bara sökum þess. Ég var nú ekki lengi að kippa þessu eina gráa út, reyndar var það snjóhvítt en ekki grátt - en það er nú önnur saga.

Svo hef ég látið lita á mér hárið í mörg ár og um leið og ræturnar eru orðnar gráar er arkað af stað til Ilse og hún reddar málum hjá mér. Það er að segja, þar til núna.

Í morgun byrjar hún sem sagt að klippa mig og kom með þessa athugasemd sína. Eftir svarið mitt hélt hún bara áfram að klippa; svo spyr hún mig hvort ég ætli að halda þessu "new look" mínu og ég gaf nú lítið út á það. Það færi náttúrulega eftir því hversu grá ég væri orðin. Svo klikkir hún út með því að "nei ég muni láta lita á mér hárið innan tíðar - ég væri alltof ung fyrir þetta look".

Þannig að þetta var svo sem ekki dulin meining hjá henni - ég er alltof gráhærð :-)

mánudagur, 11. október 2010

11. október

Í dag hefði pabbi orðið 65 ára. Það er ekki nokkur leið að ég sjái hann fyrir mér 65 ára - hann var bara 56 ára þegar hann dó.

Félagsmál

Ég hef verið meðlimur makaklúbbsins - Association of Diplomatic Spouses - hér í Windhoek síðan október 2007 - tók þá strax við sem ritari klúbbsins og í apríl 2009 varð ég forseti.

Meðlimir klúbbsins koma frá öllum heimshornum, Zimbabwe, Zambiu, Angola, Botswana, Egyptalandi, Indónesíu, Kína, Finnlandi, Rússlandi, Þýskalandi, svo nokkur lönd séu nefnd.

Það hefur verið alveg meiri háttar skemmtilegt að starfa með þessum samtökum og að kynnast þessum konum. Hópurinn hefur orðið mín önnur fjölskylda. En þar sem veru minni hér í Namibíu fer að ljúka kom að því að ég varð að segja af mér og í ágúst tilkynnti ég uppsögn mína bæði sem ritari og forseti. Uppsögnin tók svo gildi um mánaðarmótin sept - okt. Þessi mynd var tekin í tilefni síðasta fundarins þar sem ég var forseti.

Oh, ég á eftir að sakna þessa hóps mikið - en svona er lífið.

Soroptomistar

Eins og ég talaði um um daginn, sjá hér - þá er ég meðlimur í hópi sem er að reyna að koma soroptomista klúbbi á laggirnar hérna í Windhoek. Við höldum fundi reglulega og þessi mynd var tekin á síðasta fundi okkar. Við vorum fáliðaðar á þessum fundi, einungis níu, yfirleitt erum við um 15 sem mætum á fundi. En þetta er sterkur hópur og ég er þess fullviss að næsta vor verði búið að ganga frá öllum formsatriðum varðandi klúbbinn.

Að sjálfsögðu mættum við allar í einhverju bleiku svona í tilefni þess að október mánuður er cancer awareness mánuður.

Tækjafrík

Villi kom heim í gær og að sjálfsögðu kom hann ekki tómhentur - frekar en fyrri daginn. Við fjölskyldan stórgræðum á þessu flakki í honum :-)

Hann færði mér þennan líka flotta Docking Speaker - hátalara fyrir iPodinn minn - geggjað og ekki skemmir liturinn fyrir, skærbleikur.

iPodinn fékk ég í afmælisgjöf í vor og þetta er sennilega sú græja sem ég nota hvað mest. Ég hef keypt fullt af bókum til að hafa á honum og svo ligg ég uppi í rúmi á kvöldin og les. Villi er líka mjög ánægður með þetta því ég þarf þá ekki að hafa ljós á lampanum mínum alla nóttina :-)

Svo er hérna önnur græja sem ég fékk í afmælisgjöf í fyrra - digital myndarammi og hann er algjör snilld. Mér finnst þessi hugmynd alveg meiriháttar.

Það er kannski eitthvað til í því sem Villi segir, þ.e. að ég sé tækjafrík :-)


sunnudagur, 10. október 2010

Sunnudagsmorgunn

Við Rúnar erum í stökustu vandræðum - þar sem Villi er ekki heima þennan sunnudagsmorguninn fáum við hvorki íslenskar pönnukökur né vöfflur í morgunmat ;-(

laugardagur, 9. október 2010

Sjónvarpsefni

Ég held að það komist enginn með tærnar þar sem BBC er með hælana hvað sjónvarpsþáttagerð varðar. Einhvern tímann í fyrra keypti ég The Darling Buds of May þáttaseríuna - þessi séría var sýnd í sjónvarpinu heima fyrir einhverjum árum, eftir að við Villi flytjum til Kanada. Ég man að mömmu þótti þessi sería meiri háttar góð og einhverra hluta vegna mundi ég alltaf nafnið á seríunni. Svo ákvað ég að kanna þetta nánar og keypti svo seríuna. Ég get horft endalaust á hana og í hvert sinn sem ég horfi þá treyni ég mér síðasta diskinn til þess að eiga eitthvað eftir :-)

Núna er ég að horfa á síðasta diskinn og get svo byrjað aftur :-)

Sýnishorn

Ég ákvað að taka myndir af þeim bútateppum sem ég er byrjuð á - nokkurs konar sýnishorn af því sem komið er so far :-)

Þetta munstur heitir Crazy Quilt (minnir mig) og á námskeiðinu sem ég fór á um daginn gerðum við nokkrar svona blokkir. Þegar heim var komið ákvað ég að gera nokkrar fleiri blokkir og setja saman í þetta litla teppi. Þetta kemur bara þokkalega vel út.

Þetta munstur heitir Cubbie Holes og ég fékk það í þessum klúbbi sem ég hef verið áskrifandi að í þrú ár. Meiri háttar góð síða.
Þetta teppi finnst mér meiri háttar flott, þó ég segi sjálf frá :-) Munstrið heitir Easy Beginners' Rail Fence og ég fann það á sama stað

Nú þarf ég bara að læra að klára teppin, þ.e. að gera borders og samloka þau. En ég er viss um að ég get kennt mér það sjálf eins og annað.

Crazy Quilt munstrið hér efst er reyndar miklu flottara en það kemur út á þessari mynd. Ég er komin með annað teppi í huga þar sem ég nota sama munstrið en litagreini það. Þar sem ein lína í teppinu verður öll t.d. í rauðum litum, sú næsta í bláum litum, o.s.frv. Ég held það muni koma mjög flott út. Ég sá einhvers staðar mynd af svipuðu teppi og það var mjög flott.

En nú veit ég ekki alveg hvort ég hafi tíma til að gera fleiri bútateppi. Rúnar Atli er nefnilega farinn að biðja um útsaumaðar myndir og ég hef lofað honum að athuga það mál :-)

miðvikudagur, 6. október 2010

Næturgestur

Ég hef alla tíð átt við mikla myrkfælni að stríða og það hefur reynst mér mjög erfitt þegar Villi er á ferðalögum og ég ein heima með krakkana. Á meðan Tinna bjó hérna þá varð hún alltaf að sofa hérna uppi þegar pabbi hennar var í burtu til þess að veita móður sinni smá andlegan styrk. Hún hefur alltaf verið voða dugleg við þetta greyið og ekkert sett sig upp á móti því að þurfa að yfirgefa eigið herbergi til að "passa" mömmu sína :-) En nú er Tinnan mín farin að heiman og þá er það bara ég og Rúnar Atli. Ég hef haft þann háttinn á að um leið og Rúnar fer upp í rúm á kvöldin þá fer ég líka inn í herbergi og fer ekkert meira fram.

Myrkfælnin var orðin svo slæm að við réðum alltaf næturvörð þegar Villi var í burtu. En svo hætti það að virka því ég var farin að ímynda mér að þar sem næturvörðurinn vissi náttúrulega að ég væri ein heima og lítil fyrirstaða ef hann vildi ráðast inn. Þannig að það varð ekkert auðveldara að hafa hann. Svo hef ég líka heyrt af öryggisfyrirtæki sem stundar það að ráðast inn á heimili sem það er að verja. Þannig að þetta er nú ekki BARA bilun í mér. Ég man síðast þegar við vorum með næturvörð þá svaf ég ekki í tvær nætur en þriðju nóttina bara gafst ég upp og steinsofnaði um leið og ég lagðist á koddann. Ég var búin að ákveða það að ef ég svæfi ekki þriðju nóttina þá færi ég með Rúnar Atla á hótel þar til Villi kæmi heim. Þannig að síðast þegar Villi fór í ferðalag þá bað ég ekki um næturvörð og heldur ekki núna, eins og lesendur kannski vita þá er Villi staddur þessa vikuna í Mósambík á fundastússi.

Í gærkveldi þurfti ég að fara á fund og kom ekki heim fyrr en um 20.30 þá var orðið dimmt og Flora fór heim um leið og ég kom og Rúnar sofnaður. Heyrðu, mín bara sest inn í stofu og fer að horfa á sjónvarp eins og venjuleg manneskja og dundar sér svo við að læsa húsinu og svoleiðis og leið bara skolli vel - ekkert hrædd. Ég gat m.a.s. farið aftur fram án nokkurra vandræða :-) Ég varð náttúrulega voða ánægð með sjálfa mig og hugsa hvort ég sé kannski loksins farin að þroskast og fullorðnast hvað myrkfælnina varðar. Þetta var bara frábært.

Svo um leið og ég leggst á koddann kemur þá ekki næturgestur í formi fljúgandi kakkalakka (held þetta sé kakkalakki) og sest á vegginn beint fyrir ofan hausinn á okkur Rúnari (Rúnar fær alltaf að sofa hjá mér þegar Villi er ekki heima). Ég hélt ég yrði ekki eldri - þetta var ógeðslega stórt kvikindi og það var ekki góð tilhugsun að hafa kvikindið fyrir ofan okkur alla nóttina. Svo ég reyni að stugga við honum og þá datt hann á milli rúmsins og veggjarins alveg við höfuðið á Rúnari. Þetta þýddi það náttúrulega að mér kom varla dúr á auga í alla nótt því ég var alltaf að passa að kvikindið væri ekki komið upp í rúm og væri rétt hjá Rúnari. Ég var með ljósin á í alla nótt til að sjá ef kvikindið kæmi og var sífellt að tékka á hvort nokkuð sæist til hans á koddunum eða í sængunum. Svo einhvern tímann í nótt sný ég mér á hina hliðina - bara svona eins og gengur og gerist - og opna augun er þá ekki kvikindið bara á koddanum mínum og horfir beint á mig. Ég er þess fullviss að helv.... glotti að mér. En ég náði að reka hann aftur niður á gólf.

Svo þegar ég loks drattast fram úr í morgun þá er það það fyrsta sem ég sé að kvikindið er aftur komið á vegginn fyrir ofan rúmið. Okey nú varð mín fúl, dríf Rúnar Atla í föt og hendi honum fram því nú skyldi drepa helv.... kvikindið með Doom. Ég leita um allt hús að Doom-i því venjulega erum við með nokkra brúsa en í morgun fannst ekki einn einasti brúsi sama hvað ég leitaði. En ég gat bara ekki hugsað mér að hafa kvikindið hérna inni í herbegi og eiga svo aðra svefnlitla nótt framundan. Þannig að mér datt sú snilldarlausn í hug að reyna að veiða hann með því að setja ruslatunnu yfir hann og smeygja svo spjaldi á milli tunnunnar og veggjarins.

Heyrðu, þetta tókst í fyrstu tilraun og það var mikill léttir þegar þetta var búið. Nú er bara að losa sig við kvikindið og ég ætla að henda honum út á lóðina hérna fyrir neðan - það býr enginn þar svo það er okey.

En ég tók mynd að "vini" mínum til að sýna að ég er sko ekki að ýkja, hvorki hvað stærð né ógeðslegheit varðar.
Nú er bara að vona að hvorugt mæti aftur, þ.e. myrkfælnin né óboðinn næturgestur.

laugardagur, 2. október 2010

Ahh, bara rólegheit

Enn ein helgin komin og það eru bara rólegheit í dag. Ég hef dundað mér í flottu bútateppi. Mitt helsta vandamál þar er skortur á góðu efni, þannig að ég leitaði djúpt í fataskápum feðganna og mín heppin að finna nokkrar skyrtur af báðum sem þeir eru hættir að nota og ég gat nýtt í teppið - flott mál.
Kemur flott út :-)

Við grilluðum kessler og pylsur í kvöldmat, rosa gott eins og alltaf. Svona til að hafa eitthvað annað en bara kjöt þá grilluðum við kartöflur líka. En hérna eru grillin kjöt, kjöt og svo má meira kjöt :-)




föstudagur, 24. september 2010

BÚIN

Jæja þá kom að því, ritgerðin hefur verið samþykkt af leiðbeinanda og prófdómara og er m.a.s komin í prentun :-) Þetta er alveg yndisleg tilfinning. Ég læt náttúrulega prenta slatta af eintökum af svona mikilvægum grip :-)

Ég taldi mig vera búin að fá meira en nóg af ritgerðinni um daginn og gat bara ekki hugsað mér að þurfa að lesa hana aftur yfir. Haldiði ekki að ég hafi komið sjálfri mér gjörsamlega á óvart. Ég las hana yfir og það fyrsta sem mér datt í hug var "Gulla mín, þetta er bara skolli professional hjá þér" he he. En svona í alvöru, þá fannst mér bara gott að lesa yfir hana.

Svo þarf ég bara að hafa samband við uppáhalds máginn minn og vona að hann geti sótt eintökin úr prentun :-/


Litadýrð

Mér finnst vorið hér í Namibíu alltaf með fallegri árstíðum, það er svo mikil litadýrð út um allt. Trén eru ýmist fjólublá, rauð, bleik, gul, appelsínugul, og blá (ég er örugglega að gleyma einhverjum lit). Þetta er alveg ótrúlega fallegt að sjá. Ég verð eiginlega að munda myndavélina um helgina og henda svo inn myndum af þessum fallegu trjám. Það er m.a.s. eitt tré hérna rétt hjá okkur sem blómgast í kremuðum lit og verður loðið - það er bara eiginlega ekki hægt að lýsa þessu með orðum. Verð að taka myndir :-)


laugardagur, 18. september 2010

Fjáröflun

Dagurinn var tekinn snemma í morgun, svona fyrir að vera laugardagur. Ég er í skólastjórn í einum skóla hér í borg og við höfðum ákveðið að hafa fjáröflun fyrir skólann í dag. Það er heilmikil undirbúningsvinna sem liggur að baki svona degi. Við grilluðum og það þurfti að útvega kjöt, svo þurfti að setja upp tjöld til varnar sólinni og ýmislegt annað.

Rúnar Atli þvertók fyrir það að fara með mér þannig að það þurfti að ræða við Flora um að koma hingað í morgun og vera í ca 3 tíma. Því svo fór Rúnar Atli í afmæli og þá gat hún farið heim.

Það var heilmikið um að vera í skólanum og margt að gera fyrir litlu krakkana, eins og hoppukastali, andlitsmálning, vatnsleikir o.fl. Þetta var mjög skemmtilegur dagur.

Ég var að vona að dagurinn yrði ekki mjög heitur, en gendólína mín :-) Þegar við Rúnar Atli komum heim lagðist ég út á pall og steinsofnaði alveg úrvinda eftir hitann. Rumskaði við einhvern óheyrilegan hávaða innan úr stofu þar sem Rúnar var að dunda sér, hlustaði í smástund og í stað öskurs talaði hann bara við sjálfan sig þannig að ég var örugg um að gaurinn væri ok og dottaði aftur í nokkrar mínútur.


Þetta er hluti skólastjórnarinnar, Leah, Patricia, ég og Isobel.

Það var að sjálfsögðu hin hefðbundna bílaþvottastöð og krúttlegi kagginn var tekinn í gegn :-)

föstudagur, 17. september 2010

Rólegheit

Villi er á ferðalagi í Rundu og við Rúnar Atli ákváðum að í stað þess að elda kvöldmat í kvöld fyrir tvo þá sé bara málið að fara út að borða :-)

Notalegt

þriðjudagur, 14. september 2010

Kom aððí

Jæja það hlaut að koma að því að ég heyrði frá prófdómaranum varðandi ritgerðina mína. Ég fékk sem sagt póst frá leiðbeinandanum mínum í dag með umsögn prófdómarans. Það er eins gott að hún gerir bara nokkrar smávægilegar athugasemdir sem ekki verður mikið mál að lagfæra. Því ef ég á að segja eins og er þá er ég komin með upp í kok af þessari blessaðri ritgerð.

Nú er bara að vona að ég nái að láta prenta hana og skila henni inn í háskóla fyrir 1. okt. Krosslegg fingur. Annars getur nú varla verið mikið að gera hjá Háskólaprent á þessum árstíma svo ég hef ekki mjög miklar áhyggjur eins og er :-)

Krúttlega krúttið mitt

Það er alveg á hreinu að ég á eftir að sakna krúttlega krúttsins míns. Ef stýrið væri "réttu" megin er engin spurning að kagganum yrði komið til Íslands. Það er voðalega góð tilfinning að geta gengið að bílnum vísum hér fyrir utan hús. Þetta er smá hint til Tinnu minnar - en auðvitað vildi ég heldur hafa hana hérna heima heldur en að getið gengið að bílnum þegar ég vil. Ég held það sé bara engin spurning :-)

þriðjudagur, 7. september 2010

Soroptomistar

Ég er í nefnd sem er að reyna að koma Soroptomista-klúbbi á koppinn hér í Namibíu. Nefndin hittist nokkuð reglulega og svo einu sinni í mánuði er almennur fundur. Þetta gengur ósköp hægt en samt komumst við alltaf aðeins áfram. Var einmitt á nefndarfundi í gær - ein úr nefndinni var að koma af ráðstefnu þessara klúbba í Suður Afríku.

Það eru um 3000 slíkir klúbbar í 125 löndum heimsins. Markmið Soroptomista er að efla og styrkja konur og börn. Þetta er mjög skemmtilegt starf og það eru svo mörg mál hérna í Namibíu sem slíkur klúbbur getur aðstoðað. Það er líka gaman að taka þátt í stofnun svona klúbbs.

Ótrúlegt hvað maður finnur sér alltaf eitthvað til dundurs :-)

sunnudagur, 5. september 2010

Ein ég sit og sauma

Ég er algjörlega forfallin í handavinnu þessa dagana. Ég er búin að gera tvö bútateppi - á þó eftir að klára þau. Ég er búin með munstrin en þarf bara að klára að "samloka" þau. Svo er ég dottin í krosssauminn aftur. Ég reyni að skipta þessu jafnt niður, þ.e. bútasaumi og krosssaumi því ég er að þjálfa sjálfa mig í bútasaumnum.

Um daginn kom upp sú staða að mér var boðin kennarastaða í Hólabrekkuskóla fyrir þetta skólaár. Það hefði þýtt að ég hefði þurft að rjúka til Íslands innan við viku eftir að fá þetta tilboð. Ég var mjög heit fyrir þessu og rauk í það að fara í gegnum saumadótið mitt svo það yrði tilbúið í kassa og svo í gáminn. Því ekki treysti ég Villa til að fara í gegnum saumadótið mitt ;-) En þegar til kom, þá guggnaði ég á að taka tilboðinu frá Hólabrekkuskóla. Þetta var bara of stuttur fyrirvari fyrir mig. En hvað sem því líður, þá fékk ég aftur handavinnu-bakteríuna, á háu stigi, við það að fara í gegnum dótið mitt :-)

Ég fann nokkur stykki sem ég er langt komin með og þarf nokkra daga til að klára. Því ákvað ég að taka nú skurk í þessu og klára þessi stykki. Mér hættir greinilega til að byrja á of mörgum stykkjum án þess að klára hin fyrri. Ég er nefnilega með svo margar hugmyndir að því sem ég vil sauma og get ekki beðið eftir að byrja á næsta stykki, en það leiðir oft til þess að ég klára ekki það sem ég var með á undan.

En áður en ég gat byrjað að klára nokkuð stykki, þá datt mér í hug að henda í einn jólalöber fyrir sjálfa mig. Ég kláraði hann á nokkrum dögum og er núna loksins dottin í það að klára stóran borðdúk. Ég á svo lítið eftir af honum og mun ég klára hann í næstu viku. Ég hlakka svo til að sjá hann fullkláraðan. Munstrið í þeim dúk er alveg rosalega fallegt og ég vona að dúkurinn líti eins vel út þegar ég klára hann :-)

Svo þarf ég að klára myndir fyrir krakkana mína, þetta eru svona myndir þar sem fram koma fæðingardagur, klukkan hvað þau fæddust og hve stór þau voru. Ég hef nokkrum sinnum byrjað á svona mynd fyrir Dagmar Ýr en alltaf verið óánægð með útkomuna, þannig að ég hætti alltaf við. Þangað til í fyrra, eða hitteðfyrra, þá ákvað ég loks að hunskast í þetta og er búin með Dagmarar og Tinnu myndir og er hálfnuð með Rúnars.

Svo þarf ég líka að klára svona mynd fyrir lítinn frænda norðan heiða :-)

Eins er ég á fullu að hanna bútateppi (í huganum) og verður teppið með afrísku þema. Ég á nokkur afrísk krosssaumsmunstur og ætla ég að tengja saman krossaumaðar afrískar myndir ásamt hefðbundnum bútasaum. Ég er búin að kaupa efni í teppið með afrísku munstri. Þetta teppi verður geggjað og ég get ekki beðið eftir að byrja á því.

En mér finnst alveg yndislegt að geta bara einbeitt mér að handavinnu og eins gott að nýta tímann vel fram að áramótum. Því þá tekur alvaran við og sjálfsagt gefst mér lítill tími til handavinnu :-)

Sunnudagur til sælu

Dagurinn byrjar vel, íslenskar vöfflur með rjóma í morgunmat, nammi namm :-) Það hafa verið kanadískar pönnukökur svo til á hverjum sunnudagsmorgni síðan í maí en þar sem Tinnan mín er farin aftur á norðurslóðir, þá er hægt að hafa vöfflur eða íslenskar pönnukökur aftur. Við Rúnar erum hrifnari að þeim en þessum kanadísku :-)

Svo ætlum við litla fjölskyldan að kíkja í bíó á eftir, ætlum að sjá The sorcerer's apprentice með Nicholas Cage - örugglega mjög góð mynd.


Flutningar

Það styttist all svakalega í það að við flytjum héðan frá Namibíu. Við gerum ráð fyrir að yfirgefa landið í kringum 10. desember, og að gámurinn fari í kringum 20. nóvember. Það verður heilmikil vinna að fara í gegnum allt "draslið" sem við höfum sankað að okkur undanfarin ár og henda því sem á að henda og pakka hinu. En ég held satt að segja að það sé gott mál að fara svona í gegnum dótið manns á nokkurra ára fresti - góð leið til að losa sig við drasl :-)

Það eru blendnar tilfinningar yfir því að yfirgefa Namibíu, við höfum búið hérna svo lengi, það verða níu ár í allt um áramót. Annars vegar er mikill söknuður enda yndislegt að búa hérna. Hins vegar er mikil tilhlökkun í að gera eitthvað annað

Það eru spennandi tímar framundan, eins og ónefnd þingkona Sjálfstæðisflokksins sagði í upphafi hruns :-)

Ýmislegt

Ég hef enn ekkert heyrt varðandi ritgerðina mína og er bara þakklát fyrir það, því það er ekki nokkur leið að ég nenni að vinna í athugasemdum þessa dagana. En það hlýtur nú eitthvað að fara að heyrast því ég held að ég eigi að koma henni í prentun fyrir 1. október n.k.

Tinna mín er loksins komin heim til sín eftir langt og strangt ferðalag. Hún stoppaði reyndar tvær nætur á Íslandi á leið sinni frá Namibíu til Prince George. Ef ég þekki hana rétt þá var það ánægð ung stúlka sem lagðist á koddann sinn, í nýja rúminu sínu, í gærkveldi og fór að sofa. Hún, ásamt einni vinkonu sinni, leigir nú íbúð í Prince George og hún hlakkaði mikið til að komast heim og fara að versla til heimilisins :-)




Veður hlýnandi fer

Nú er farið að hlýna í Namibíu og greinilegt að sumarið er á næsta leyti. En sumrinu fylgja auðvitað ýmsir fylgikvillar, eins og skordýrin og moskítóflugurnar. En maður tekur því bara og þakkar fyrir hlýnandi veður.

Tímanum hérna var breyttt í nótt og við það "misstum" við einn klukkutíma og erum núna tveimur tímum á undan Íslandi. Það angrar mig þegar tíminn breytist í þessa áttina, því mér finnst muna heilmiklu hvort ég fari fram úr klukkan 8 eða 9 á morgnana :-)


föstudagur, 20. ágúst 2010

Gott líf

Þá er ritgerðin komin til prófdómara og ég vona bara hið besta. Ég held ég eigi ekki eftir að nenna að gera einhverjar meiriháttar lagfæringar - bara búin að fá nóg af ritgerðinni :-) En ég á nú svo sem ekki von á mörgum athugasemdum. Því leiðbeinandinn minn og sérfræðingurinn eru jú báðir búnir að liggja yfir gripnum og setja út á :-)

Þannig að ég held bara áfram að sauma og leika mér. Var að klára að setja saman bútateppið (þ.e.a.s. alla bútana - á eftir að gera saml0kuna) og er hálfnuð með jólalöber (krosssaum). Það er gaman að lifa :-)

þriðjudagur, 3. ágúst 2010

Back to reality

Mín bara búin að sitja við sauma núna í nokkra daga :-) Í gær sneið ég allt í eitt stórt rúmteppi og setti annað saman (reyndar lítið - æfingastykki). Þetta er ótrúlega gaman. Ég er að reyna að hanna í huganum bútateppi sem ég get líka notað krosssauminn í. Hef nokkuð góða hugmynd en vantar bara uppskriftir af stökum blómum.

Ég var bara algjörlega dottin í leik og dundur :-) Var sem sé búin að leggja ritgerðina mína á hilluna; þar til ég heyrði eitthvað til baka frá leiðbeinandanum mínum. Fékk svo þennan líka fína skammt til baka í morgun með athugasemdum frá honum og sérfræðingnum. Úff, mín þarf að setjast aftur við tölvuna og gera nokkrar lagfæringar. Þetta er svo sem ekki alvarlegar athugasemdir, en það verður erfitt að koma sér aftur í gang með skriftir þar sem ég var bara hætt (í huganum alla vega) :-) Sem sagt, aftur í alvöruna.

föstudagur, 30. júlí 2010

Kom að því

Rosalega hvað ég hef verið löt við að blogga undanfarið. Ég sé að það er heill mánuðum frá síðasta bloggi. Það er nú eitthvað búið að stússast síðan þá.

Síðast liðið föstudagskvöld var fjáröflunarkvöldið okkar í makaklúbbnum, sem við höfum verið að undirbúa í nærri fjóra mánuði. Kvöldið tókst frábærlega vel og við söfnuðum tæpum 47000 namibískum dollurum, sem mér reiknast til að sé um 800 000 ísl krónur og við erum alveg í skýjunum. Þeir sem vilja lesa um kvöldið geta lesið bloggið hans Villa - hann sagði ágætlega frá þessu þar og óþarfi fyrir mig að endurtaka það hér.

Nú er ritgerðin mín bara eiginlega alveg tilbúin. Ég sendi hana til leiðbeinandans míns og sérfræðingsins í gær og vona að þau nái að lesa hana yfir um helgina því svo þann 5. ágúst þarf ég að skila henni inn. Þetta er bara alveg dásamleg tilfinning (að vera næstum laus við hana), ég er komin með upp í kok af skólastússi og er farin að hlakka til að gera eitthvað allt annað :-) Ég m.a.s. þreif skrifstofuna mína í gær hátt og lágt.

Nú er bara að fara taka upp saumadótið. Um daginn fór ég á heilsdags námskeið í bútasaumi og ætla að fara að dunda mér í saumum. Ég er búin að hanna mörg bútateppin í huganum og nú er bara að koma þeim í framkvæmd.

Sem sagt, helgin verður bara notuð í sauma.

þriðjudagur, 29. júní 2010

Vinnandi konur

Ég var á leiðinni heim af fundi eitt kvöldið fyrir nokkru. Klukkan að verða átta og því orðið þokkalega dimmt úti. Ég keyri sem leið liggur í gegnum miðbæinn. Það var lítil umferð og ég er eitthvað að spá voða mikið í umhverfið. Sé þá unga konu ganga upp götuna sem ég var við. Hún vakti athygli hjá mér fyrir klæðnaðinn. Var í háhælaskóm og í ansi stuttu pilsi og níðþröngum toppi. Umhyggjan í minni fór á fullt og ég velti fyrir mér hvort konu greyinu væri ekki ískalt.

Ég greinilega vakti hennar athygli líka því gellan fór að veifa mér til að stoppa og tala við sig. Þegar ég áttaði mig á því að þetta var "vinnandi kona" spólaði ég í burtu og skildi greyið eftir í reyk. Ég sá mig ekki alveg fyrir mér fara að prútta um verð :-)

Það er bara það

Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Mér finnst ég vera nýbúin að blogga en sé að það er kominn einn og hálfur mánuður síðan.

Það er svo sem ekkert mikið að frétta af okkur. Allir gestir löngu farnir og það er bara rólegt í kotinu.

Ég er farin að telja niður dagana þangað til ég skila inn meistararitgerðinni minni, reiknast til að í dag séu 37 dagar þangað til. Ég held ég muni alveg ná þessu. Aðferðafræðin og theorían er komin og á morgun mun ég byrja að vinna úr viðtölunum. Það er það skemmtilega við svona rannsóknir. Ég er ótrúlega heppin að vera með aðstoðarmanneskju sem sér um að afrita viðtölin fyrir mig því það fer svakaleg vinna og tími í slíkt. Ég hef á meðan bara getað einbeitt mér að öðrum köflum í meistarasmíðinni :-)

Tinna spurði mig svo í dag hvað ég ætlaði eiginlega að taka mér fyrir hendur þegar ég verð búin með ritgerðina. Því var fljótsvarað - SAUMA, ekki spurning. Hlakka mikið til.

Annars er ég líka á fullu í makaklúbbnum. Núna 23. júlí ætlum við að halda svakafjáröflun, verðum með gala dinner á Hótel Safari takk fyrir. En þetta krefst náttúrulega mikils undirbúnings og vinnu. Ég reyni að púsla dagana mína þannig að ekkert skarist. Því svo er ég líka í undirbúningsnefnd fyrir stofnun Soroptomistaklúbbs í Windhoek og þar þarf að funda reglulega :-) Svo er ég líka í skólastjórn eins skólans hér í borg, þar er reyndar ekki fundað eins stíft og í öðrum nefndum sem ég er í. En það verður kynningardagur daginn eftir gala dinnerinn þannig að það er eins gott að ég verði ekki lengi að skemmta mér það kvöldið :-) Það gengur ekki að vera þreytt að hitta foreldra í skólanum.

En sem sagt, þá hef ég bara nóg að gera og finnst það alveg meiri háttar.

Tinnan mín hefur verið á fullu að vinna fyrir mig undanfarna daga (afrita viðtölin). Það er varla að hún komist út úr húsi :-) En hún er nú að fara að heiman um helgina. Ein vinkona hennar er að halda upp á 18 ára afmælið sitt og hátíðarhöldin verða alla helgina hérna rétt fyrir utan borgina.

Rúnar er bara eins og alltaf. Kátur og hress. Hann bíður núna spenntur eftir að fá playmo dót. Hann hefur verið að safna Safari dýrum, og bíður núna eftir einum stórum pakka.




þriðjudagur, 11. maí 2010

Hitt og þetta í upphafi vetrar

Þá er ég búin að skila inn síðasta verkefninu mínu í síðasta háskólaáfanganum mínum - ever og get farið að einbeita mér að rannsókninni minni. Ég ætla að vera rosa dugleg og skila henni inn í byrjun ágúst n.k. Bjartsýnin ríður húsum hér í borg :-)

Dagmar lagði af stað til okkar á sunnudagskvöld en er ekki komin lengra en til London. Hún þurfti að taka rútu til Akureyrar og var komin þangað í morgunsárið á mánudag. En svo var fluginu hennar til London frestað í marga klukkutíma og ekki bara það heldur var flogið til Glasgow en ekki London. Þetta þýddi náttúrulega að allt tengiflug riðlaðist og hún ákvað að ferðast án ferðatösku svo taskan væri ekki ekki að tefja hana (að þurfa að sækja hana og tékka hana aftur inn í næsta flug). Villi eyddi gærdeginum í að púsla flug fyrir hana áfram og var í stöðugu sambandi við British Airways og Lufthansa en allt kom fyrir ekki og þegar Dagmar loksins lenti í London í gær þá fékk hún ekki að fara með öðru flugi - Lufthans vildi ekki breyta miðanum hennar. Varð hún því strandaglópur á Heathrow.

En það vill svo skemmtilega til :-) að hann Villi minn á voðalega góða vinkonu hérna í borginni sem starfar á ferðaskrifstofu og hún er að redda þessu öllu fyrir okkur. Hún fór m.a.s. á skrifstofuna sína í gærkveldi fyrir Villa til að reyna að fá annað flug fyrir Dagmar. En þetta virðist vera komið í lag núna og við vonum svo bara að frumburðurinn komist heim á morgun.

Það er heldur betur farið að kólna núna og greinilegt að veturinn er á næsta leyti, brrr. Nú þarf að finna ofna og koma þeim út um allt hús. En það er verst að hitinn helst eiginlega ekki inni í húsinu því það eru stórar rifur á milli allra glugga og hurða :-) Gaman að þessu.

sunnudagur, 2. maí 2010

Vídeókvöld fjölskyldunnar

Um helgar tökum við okkur til, fjölskyldan, og horfum saman á DVD. Við höfum þetta þannig að hvert okkar velur ca tvær myndir og svo er valið úr þeim. Í kvöld, varð úr að horfa á Jungle Book og sú mynd er alltaf jafn góð.

Svo setti ég Bó og Sinfónúhljómsveitina í og þá bara hurfu feðgarnir. Er núna komin á lag nr 12 og ekkert sést enn til feðganna. :-)

miðvikudagur, 28. apríl 2010

Gestagangur

Jæja þá eru gestirnir okkar farnir. Begga vinkona og mamma hennar eru búnar að vera hjá okkur í um tvær vikur. Við höfum ferðast heilmikið og hlegið enn meira :-)

Við fórum til Etosha og keyrðum í gegnum garðinn, það tók nú ekki „nema“ sex klukkutíma en var mjög gaman og við sáum fullt af dýrum. Svo lá leiðin til Opuwo þar sem við heimsóttum Himbana. Það er alltaf jafn gaman að hitta þá og sjá hvernig þeir lifa. Eins fórum við til Omaruru og sátum við vatnsbólið og höfðum það gott.

Þetta er bara búið að vera frábært og Begga og Stína, takk fyrir samveruna.

Svo eru tvær vikur í næstu gesti :-)

laugardagur, 10. apríl 2010

quilt teppið




Ég lofaði því um daginn að henda inn mynd af bútasaumsteppinu sem ég byrjaði á um daginn. Ég hef unnið eins mikið í því og ég reikna með að gera. Ég sem sagt kláraði bara framhliðina, og það vantar m.a.s. síðasta hringinn hjá mér. En ég reikna ekki með að klára meira af þessu teppi sökum tímaleysis. Ég er þokkalega sátt með árangurinn hjá mér, en ef vel er skoðaða má sjá að hornin passa ekki og ég hefði sennilega átt að velja betur saman litina. En þetta er prufa hjá mér og sem slík er þetta ekki algjör hörmung :-)


Ég lærði alla vega að "applique" og það er nú bara ágætt :-)

fimmtudagur, 1. apríl 2010

Tíminn líður

Þá er bara kominn 1. apríl árið 2010. Ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram - en gott á meðan gaman er.

Annars heldur nú lífið bara áfram hérna hjá okkur - svo sem ekkert nýtt í fréttum.

laugardagur, 27. mars 2010

Jahérna jæja

Flestu má nú reyna að telja krökkum trú um :-)

Samtal okkar mæðgina í morgun:

Rúnar: mamma, er Doddi frændi bróðir þinn?

Ég: já

Rúnar: Hvað er hann gamall?

Ég: hann er jafngamall pabba þínum

Rúnar: Nema hann er sterkari

Ég: hvernig veistu það?

Rúnar: Doddi sagði mér það í fyrra

Góður þessi :-)

föstudagur, 26. mars 2010

Spillt af eftirlæti

Villi hefur verið ansi duglegur að spilla okkur Rúnari Atla með morgunmat um helgar. Flestar helgar fáum við íslenskar pönnukökur annan morguninn og vöfflur hinn.

Nú vill svo til að Villi er á ferðalagi um þessa helgi og við Rúnar vorum eitthvað að ræða það í gær að nú fengjum við hvorki pönnukökur né vöfflur um helgina. Heyrist þá í honum „hvað fáum við?“

Greinilega ekki gert ráð fyrir að mamma reddi þessum málum :-)

þriðjudagur, 9. mars 2010

Rehoboth

Við í framkvæmdanefnd makaklúbbsins höfum verið ansi duglegar það sem af er ári. Eins og ég bloggaði um um daginn þá fórum við til Góbabis með frystikistu með okkur. Svo erum við að vinna að verkefni í Mount Sinai Centre í Katutura sem ég á eftir að blogga um.

Í dag skelltum við okkur til Rehoboth, sem er bær rúmlega 80 km fyrir sunnan Windhoek. Við heimsóttum elliheimili þar og fengum að skoða okkur um og spjalla við starfsfólkið. Þarna búa 11 vistmenn með fjóra starfsmenn. Húsið sjálft er í góðu standi og það er mjög hreinlegt þar en það er ekki neitt til neins. Það búa þrír vistmenn saman í herbergi og enginn er með persónulega hluti með sér. Tveir af þremur hafa náttborð og dýnurnar eru nú ekki til að hrópa húrra fyrir. Við töldum átta brotnar rúður og hurðar að herbergjum hafa ekki hurðarhúna og þ.a.l. ekki hægt að loka þeim. Það er sár þörf á pípulagningarmanni til að laga klósett, þau virka fá. Það er ekki borð fyrir vistmennina til að borða við og ekkert heitt vatn. Þetta er svona það helsta. Reyndar er þvottavélin ónýt og sú sem sér um þvottinn þarf að handþvo allan þvott daglega og notar til þess baðkarið sem hún þarf að bogra yfir.

Við tókum fullt af myndum og munum svo á næsta fundi ræða um hvað/hvort makaklúbburinn geti gert til að aðstoða þetta yndislega fólk. Því þrátt fyrir það sem við köllum bágar aðstæður þá eru vistmenn ánægðir með sitt og glaðir.


Hluti vistmanna.

Sem þakklætisvott, færðum við öllum vistmönnum poka með ýmsum hreinlætisvörum, kexi og súkkulaði. Þessi maður (hér að ofan) fór strax með sinn poka inn í herbergi og passaði vel upp á sitt :-)

Framkvæmdanefndin ásamt Silvíu, húsmóðir heimilisins, f.v. Maarika, Silvia, Teresa, Margret og ég. Á morgun heimsækjum við svo skóla í Katutura og sjáum til hvort við getum ekki greitt skólagjöld fyrir einhverja nemendur. Svo eigum við fund með Khomas Women for Development og fáum að heyra hvað þær eru að gera og að lokum kíkjum við í Mount Sinai Centre. Það verður sem sagt enn einn dagurinn á morgun þar sem lærdómur kemst ekki að :-)


Ýmsar stellingar

Ótrúlega þægilegt að horfa á sjónvarpið í þessari stellingu :-)

föstudagur, 5. mars 2010

Þrjóskan komin í hús

Mig hefur langað að læra bútasaum í mörg ár, en einhvern veginn hefur aldrei orðið neitt úr því. Ég hef þó reynt nokkrum sinnum; fer í búðir og skoða blöð, vel flott efni og eyði helling af peningum í þetta :-) Kem svo heim og reyni mitt besta en árangurinn hefur látið á sér standa og allt endar lengst inni í skáp.

Svo í fyrra komst ég loks í samband við konu eina hér í borg sem heldur bútasaumsnámskeið. Ég ræddi við hana í maí í fyrra og hún lofaði að hringja þegar námskeiðin hæfust aftur (ca ágúst/sept). Árið 2009 leið án þess að ég heyrði í henni. Þannig að núna í janúar hringdi ég aftur og nú sagði hún að námskeiðin hæfust í febrúar og hýn myndi hafa samband. Nú er kominn mars og ekki hef ég heyrt í henni. Þannig að í vikunni fékk ég nóg og fór aftur af stað í innkaupaleiðangur. Ég er núna að taka námskeið á netinu og ég ætla ekki að hætta fyrr en ég er búin að ná tökum á þessu - ætla að fara þetta á þrjóskunni :-)

Ég er nú þegar búin með þrjár "blokkir" og þetta gengur bara þokkalega. Lofa að setja mynd inn á bloggið sama hvernig árangurinn verður :-)

mánudagur, 1. mars 2010

..og eftir voru sjö

Fiskunum hans Rúnars heldur áfram að fækka, eru komnir niður í sjö stykki. Ég get nú ekki sagt að ég syrgi þá - gullfiskar fríka mig út, úff. 

Hann tekur þessari fækkun ósköp rólega. Reyndar náðu þau Flora þessum síðasta sem dó og sá var settur í eldspýtnabox. Eftir að hafa verið með boxið á sér í um klukkutíma var honum svo bara hent í ruslið. 

Ekki málið

fimmtudagur, 18. febrúar 2010

Mikið undrunarefni

Eins og sumir vita þá keypti Rúnar Atli sér fiska og fiskabúr um daginn. Hann var voða ánægður með sína 10 fiska. Endrum og sinnum leit ég á fiskabúrið og fylgdist aðeins með fiskunum og alltaf taldist mér þeir vera 10. Svo einn daginn taldi ég bara níu - sama hvað ég taldi oft. Við Villi ræddum þetta og sættumst á að það væri nú mjög erfitt að fylgja öllum fiskunum eftir og telja þá alla - því þeir eru á sífelldri hreyfingu. En í nokkra daga sat ég og taldi - sjáið þið þetta ekki alveg fyrir ykkur :-) - og alltaf sá ég bara níu stykki. Kom nú að því að Villi fór að telja líka og jú það eru bara níu fiskar í búrinu. Okkur datt í hug að einn fiskurinn hefði drepist og Flora fjarlægt hann á meðan Rúnar var í skólanum. En ekki vildi hún kannast við það.

Þá er stóra spurningin - hvað varð um einn fiskinn??? Því það er alveg krystaltært að þeir voru 10 í upphafi. Þetta er hinn stóri leyndardómur á heimilinu í dag :-) 

sunnudagur, 14. febrúar 2010

Bolla bolla

Bakarinn á heimilinu gerði þessar líka góðu bollur í tilefni dagsins


Þær runnu ljúft niður :-)

Stífar æfingar

Gærdagurinn var mikill æfingadagur hjá feðgunum eins og meðfylgjandi myndir sýna - reyndar náði ég nú eiginlega bara myndum af gólfæfingunum :-) 


Svo var fínt að komast beint í svona hádegisverð :-)

Það fór rosalega vel um mig á meðan á þessum æfingum stóð, sat í stól með góða bók í hönd - toppurinn - ekki spurning :-)

miðvikudagur, 10. febrúar 2010

iPad

Þetta er nýja draumatækið, ekki spurning. Ég sé alveg fyrir mér ánægjuna að liggja uppi í rúmi á kvöldin og lesa góð bók, en að þurfa ekki að halda á sjálfri bókinni heldur einhverju örþunnu og léttu tæki :-) Dásamleg tilhugsun.

Hins vegar geri ég nú ekki ráð fyrir að það sé eins að lesa bók af iPad eins og að fletta sjálfri bókinni. Held það komi ekkert í staðinn fyrir að fletta og heyra skrjáfið :-) 

Ef mér hlotnast aukapeningur einhern tímann þá mun ég kannski versla mér þennan grip en það yrði algjörlega gert fyrir Villa. Því eins og kannski sumir hafa heyrt þá þolir hann illa að það sé ljós á náttborðinu hjá mér heilu næturnar á meðan ég les í bók. iPad mun leysa þann vanda hans. Þegar ég hugsa þetta betur þá náttúrulega hlýtur hann bara að gefa mér svona grip svo hann geti sofið í friði á nóttunni. Og hans vegna mun ég nota iPadinn. Hvað maður leggur ekki á sig fyrir liðið sitt :-)


sunnudagur, 7. febrúar 2010

Loksins, loksins

Um daginn áskotnaðist mér smá peningur sem ég átti eiginlega alls ekki von á og var mikið að velta fyrir mér í hvað ég ætti að nota peninginn. Það var ýmislegt sem kom til greina, eins og fatakaup, matur, eða eitthvað álíka “skemmtilegt”, en ég var ekki alveg sátt við það. Ég vildi kaupa eitthvað sem yrði til í langan tíma. Svo ég brain stormaði smá og datt svo niður á hlut sem mig hefur langað í í mörg ár. Jú jú frúin keypti sér Kitchen Aid hrærivél, eldrauða. Ég hef aldrei átt hrærivél, ekki svona alvöru grip, og þetta er bara æði. Oh ég er svo glöð að hafa fengið óvæntan pening J