Powered By Blogger

mánudagur, 27. febrúar 2012

Nóg að gera


Ég er á fullu í handavinnunni. Ég kláraði loksins ostabakkann minn, Lazy Susan. Þetta er kringlóttur bakki sem snýst á borðinu. Ég er bara mjög sátt við hann. Litirnir sjást kannski ekki nógu vel á myndinni, en hann kom vel út að mér finnst.

Svo er ég nýbúin að klára krosssaumsmynd og eina í útsaumi. Ég þarf bara að taka myndir og skella þeim inn. Ég var svo að byrja á annarri útsaumsmynd sem er aðeins erfiðari og það verður gaman að vinna í henni. Svo er ég komin áleiðis með nýtt verkefni í mósaíkinu. 
Ég er svo að vona að í apríl fari ég að læra að vinna með pjátur. Ég hlakka mikið til að prófa það. Verður geggjað :-) Bútasaumsteppið mitt er svo við hliðina á mér og bíður eftir að ég haldi áfram með það. Þegar ég loksins gef mér tíma í það þá verð ég ekki lengi að klára það (held ég) :-) 

Ég er ansi virk í alþjóðlega kvenfélaginu sem er hér í Malawi. Ég er í verkefnanefndinni og sjáum við um að velja þau verkefni sem kvenfélagið styrkir. Eins fylgjumst við með verkefnunum sem við styrkjum, þ.e. að fjármunir fari í það sem þeir eiga að fara í. Þetta er mjög skemmtileg vinna og gefur mér mjög gott tækifæri til að kynnast Malövum og aðstæðum margra þeirra. Það er heilmikið stúss í kringum þessa nefnd. Við erum núna á fullu að reyna að finna kennslubækur fyrir einn skóla í borginni. Skólinn sendi okkur beiðni um kennslubækur fyrir alla árganga og alla nemendur skólans, sjálfsagt um 500 nemendur. Það er bara alltof mikið fyrir okkur en við ákváðum að kaupa fimm kennslubækur fyrir tvo árganga í fjórum fögum. En búðin sem selur kennslubækur á lítið á lager, en við sjáum til hvað við getum gert. 
Í gær var svo meðlimum verkefnanefndarinnar boðið í hádegismat hjá einni í nefndinni ásamt níu nunnum sem sjá um eitt verkefnið sem við styðjum. Það var mjög gaman. Nunnurnar koma frá Spáni og Indlandi og hafa verið hér í mörg ár. Sú sem lengst hefur verið kemur frá Spáni og hefur verið hér í 25 ár.

Einhvern veginn datt ég inn í hádegisverðarklúbb asískra kvenna um daginn og mætti í hádegismat með hópnum. Það var mjög gaman að kynnast þeim konum. Margar þeirra hafa búið hér í nokkra tugi ára en tala litla sem enga ensku. Alveg ótrúlegt finnst mér. 
Til að bæta svo aðeins í hjá mér þá var mér boðið í vikulegan spilaklúbb þar sem spilað er Mahjong. Ég hef bara aldrei heyrt um þetta áður og forvitnin rak mig af stað. Þetta var reyndar mjög gaman og skemmtilegar konur sem eru í þessu. 
Það er sem sagt alveg meira en nóg að gera hjá mér. En ég geri nú ekki ráð fyrir að mæta aftur i Mahjongið - ég verð bara einhvers staðar að skera niður. Því ég er að velta fyrir mér að byrja í skrappklúbbi :-) Um daginn fór ég heim til konunnar sem sér um þann klúbb og það var eins og að koma inn í skrappverslun - ótrúlega mikið úrval sem hún er með fyrir þetta. Eins eru þeir munir sem búnir eru til á námskeiðum hjá henni mjög fallegir og mér datt í hug að það gæti verið gaman að skella sér á námskeið. 
Eins er ég í PTA í skólanum hans Rúnars, þetta er foreldra- og kennararáð skólans. Við erum núna á fullu að undirbúa Alþjóðlegan dag sem haldinn verður 16. mars n.k. í skólanum. Þá munu foreldrar koma með mat frá sínu heimalandi og selja. Þetta verður örugglega mjög skemmtilegt. Nemendur skólans koma frá öllum löndum heimsins, eða svo til :-) Ég veit að í einum fjórða bekknum koma nemendur frá 18 löndum.

Helgin liðin

Þá er enn ein helgin liðin, ótrúlegt hvað það er stutt á milli þeirra :-) Við höfðum það bara óskaplega gott um helgina, svona eins og alltaf. Það er nauðsynlegt að eiga rólegar helgar og hlaða batteríin því oft er vikan ansi þéttsetin hjá mér.

Á föstudaginn var fór Rúnar ásamt bekknum sínum í stutt skólaferðalag. Það var farið að skoða stíflu einhvers staðar hér fyrir utan borgina. Foreldrum er velkomið að fara með í svona ferðalög en þurfa að mæta á eigin bílum. Þar sem mikill bensínskortur er í landinu þá tímir maður nú ekki alveg að eyða svarta gullinu í slíkt :-) En hann fékk að fara með myndavélina mína með sér í ferðalagið og tók tæplega 90 myndir, hvorki meira né minna. Þær eru margar mjög góðar hjá honum og nú þarf bara að prenta út nokkrar fyrir hann svo hann geti sett í myndaalbúmið sitt.

föstudagur, 10. febrúar 2012

Eins og lofað var

Jæja þá loksins læt ég verða að því að setja inn myndir af mósaíkverkunum hennar Dagmarar sem hún gerði hérna úti um jólin. Eins og sjá má, er þetta mjög flott hjá henni.




fimmtudagur, 2. febrúar 2012

Foreldrafundur

Á mánudaginn voru umsagnir um nemendur sendar heim til foreldra. Það eru engar einkunnir heldur bara ítarlegar umsagnir kennara. Ég verð að segja að Rúnar kemur bara mjög vel út. Í gær var svo foreldrafundur og að sjálfsögðu mættum við. Þar sem Rúnar er í upper primary átti hann að mæta með okkur, sem hann og gerði.

Rúnari gengur greinilega mjög vel í skólanum og hefur tekið miklum framförum í lestri, að tjá sig á ensku og í skrift. Einnig stendur hann sig vel í stærðfræði. Hann stendur sig sem sagt bara vel námslega séð. Ég hef átt soldið erfitt með að fylgjast með náminu hans og framförum hjá honum því kerfið hérna er allt öðruvísi en ég hef nokkurn tímann kynnst. Hér er námsgreinum ekki skipt niður, það er t.d. engin sérstök stærðfræðikennslustund né enska og svo framvegis. Heldur fer þetta allt fram í þemum, sem þýðir að þau taka eitthvað eitt fyrir eins og þau gerðu með arkítektúrinn. Í gegnum það þema lærðu þau og æfðu lestur, skrift, stærðfræði og allt annað. Núna er þemað hjá þeim vatn, vatnsnoktun og hvernig spara má vatn.

En sem sagt þá gengur Rúnari bara mjög vel í skólanum. Í lok fundarins benti kennarinn hans okkur á það að nafnið hans væri uppi á töflu og hún útskýrði ástæðuna. Það eru nokkur nöfn uppi á töflu, það þýðir að þeir nemendur mega ekki sitja saman í kennslustundum. Rúnar og Hope, sem eru bestu vinir, mega sem sagt ekki sitja saman. Humm, þeir nefnilega tala of mikið saman og trufla hvorn annan. Þannig að undanfarið hefur Rúnar setið við hliðina á Malko sem er annar góður vinur en það stendur víst til að setja þeirra nöfn upp á töflu líka. Ég varð nú bara í hálfgerðu rusli út af þessu. Ég hef aldrei upplifað þetta áður, dætur mínar voru greinilega alltaf fyrirmyndarnemendur :-) Ég man ekki til þess að kennarar hafi einhvern tímann kvartað undan of miklu kjaftamali í þeim. Einu kommentin sem við fengum stundum var að þær mættu gjarnan tala meira :-)

Ha?

Ég tók eftir því um daginn að Rúnar Atli var með lítið sár undir hökunni. Auðvitað forvitnaðist ég um hvað hefði komið fyrir gaurinn. Svarið sem ég fékk var: "mamma, ég hljóp á gólfið".