Powered By Blogger

mánudagur, 27. júní 2011

Brekkuskógur

Á föstudaginn var mættum við fjölskyldan í Brekkuskóg. Þar höfðum við fengið úthlutað sumarbústað í viku. Þetta er gamall, lítill sumarbústaður en okkur líður afskaplega vel í honum. Á laugardeginum kíktu góðir vinir í heimsókn og við skemmtum okkur konunglega :-)

Annars höfum við bara legið í leti og farið í pottinn þess á milli. Nú er verið að hlaða batteríin fyrir næsta ferðalag og undirbúning fyrir það.

laugardagur, 25. júní 2011

Prince George

Þá er ég komin heim frá Prince George. Það var frábært að vera þar hjá dóttur minni. Við höfðum það ósköp notalegt við mæðgurnar. Við vorum með bílaleigubíl allan tímann og innifalið í verðinu voru 1050 km. Ég hins vegar "túrhestaðist" akkúrat ekki neitt. Það eina sem við gerðum var að fara í búðir og versla aðeins :-) Enda skemmtum við okkur ágætlega. Ég held ég hafi tekið alveg heilar fjórar myndir og þar af voru þrjár af Tinnu Rut og Justin.

Almennt finnst mér mjög stressandi að vera með bílaleigubíl því ég er svo hrædd um að hann rispist eða eitthvað svoleiðis. Þannig að ég passaði alveg sérstaklega vel upp á hann. Svo þegar ég skilaði honum þá spurði daman "og hvað er búið að keyra hann mikið?". Ég sagði henni rúmlega 130Km. Henni fannst þetta nú eitthvað ótrúlega léleg keyrsla á frúnni :-) Svo átti ég bara að láta hana fá lyklana og einhverjir gaurar myndu fara yfir bílinn síðar þann sama dag. Ég sagðist nú ekki alveg vera sátt við það, því hvað ef einhver kæmi og rispaði bílinn eftir að ég er búin að skila honum og áður en þeir fara yfir hann??? Ég ætla sko ekki að fá einhvern stjarnfræðilega háan reiknin í bakið. Það endaði með því að daman bauðst til að koma út og skoða bílinn fyrir mig. Ég þakkaði henni kærlega fyrir og til að bæta aðeins í fékk ég líka nafnið á henni, bara svona til öryggis.

Það er ekki tekið út með sældinni að leigja frúnni bíl :-)

föstudagur, 17. júní 2011

Loks mætt til Prince George

Lokahluti ferðarinnar hingað til Prince George gekk mjög vel. Flugið frá New York til Vancouver er álíka stutt og frá Íslandi til New York, eða um 5 og hálfur tími (minnir mig). Þetta er fínn flugtími, hægt að horfa á tvær myndir og lesa smá, á milli þess sem maður borðar :-)

Immigration í Vancouver var algjör andstæða þess í New York. Engin biðröð og þetta tók ekki nema um 2 mínútur. Það má svo sem taka það fram að lent var um 1 að nóttu í Vancouver en ekki seinni part eins og í NY, en það er sama.

Hótelið sem ég gisti á í Vancouver var frábært. Þar var allt til alls og mér fannst verst að vera þar bara eina nótt :-)

Svo loks lá leiðin til PG. Það tók því nú varla að setjast niður því um leið og ég var búin að spenna mig vorum við lent kannski smá ýkjur, en flugið tók bara um 50 mín.

Það var yndislegt að hitta hana Tinnu mína aftur :-)


- Posted using BlogPress from my iPad

miðvikudagur, 15. júní 2011

Tæknigellan

Jæja þá er ég komin til New York. Flugið hingað gekk bara vel. Mannhafið við immigration var alveg með ólíkindum en það tók sjálfsagt ekki nema um 45 mín að komast í gegnum þar.

Nú er ég búin að fá mér að borða og fann stað til að hlaða iPoddinn fyrir næsta flug. Mér datt svo í hug að athuga hvort JFK byði upp á ókeypis nettengingu. En svo virðist ekki vera heldur komu upp skilaboð í paddann að ég gæti downloadað app sem heitir Boingo Og í gegnum þetta app gæti ég tengst netinu í klukkutíma í senn og það verður gjaldfært af iTunes reikningnum mínum. Snilld. Villi minn, segðu svo að ég sé technically challenged :-)

Nú er bara að bíða eftir næsta flugi og að komast loks á hótelið í Vancouver. Vona bara að ég sofni ekki hér og missi af fluginu mínu. Get ekki neitað því að ég sé þokkalega þreytt.


- Posted using BlogPress from my iPad

mánudagur, 13. júní 2011

Heimferð

Jæja þá fer að líða að heimferð eftir margra daga ofát og skemmtilegheit. Dvölin í Danmörku var meiriháttar og það var yndislegt að hitta "norsku" fjölskylduna :-) Þar var fínn matur á hverjum degi og maður lá bara á meltunni - Takk Ásgeir minn fyrir okkur :-)

Svo lá leiðin aftur til Svíþjóðar í enn fleiri matarveislur. Það er eins gott að yfirvigt reiknast ekki af líkamsþyngdinni :-)


En nú er sem sagt komið að heimferð. Þó það sé skemmtilegt í ferðalögum þá er alltaf frábært að komast heim aftur :-)

Ég stoppa reyndar stutt á Íslandi núna, reiknast til að það verði um 14 klukkustundir áður en ég legg af stað í næstu ferð. Þá verður farið aðeins lengra, eða til Prince George norður í rass.... í Bresku Kólumbíu. Það verður meiriháttar að hitta Tinnu Rut og sjá hvernig hún býr :-)