Powered By Blogger

föstudagur, 24. september 2010

BÚIN

Jæja þá kom að því, ritgerðin hefur verið samþykkt af leiðbeinanda og prófdómara og er m.a.s komin í prentun :-) Þetta er alveg yndisleg tilfinning. Ég læt náttúrulega prenta slatta af eintökum af svona mikilvægum grip :-)

Ég taldi mig vera búin að fá meira en nóg af ritgerðinni um daginn og gat bara ekki hugsað mér að þurfa að lesa hana aftur yfir. Haldiði ekki að ég hafi komið sjálfri mér gjörsamlega á óvart. Ég las hana yfir og það fyrsta sem mér datt í hug var "Gulla mín, þetta er bara skolli professional hjá þér" he he. En svona í alvöru, þá fannst mér bara gott að lesa yfir hana.

Svo þarf ég bara að hafa samband við uppáhalds máginn minn og vona að hann geti sótt eintökin úr prentun :-/


Litadýrð

Mér finnst vorið hér í Namibíu alltaf með fallegri árstíðum, það er svo mikil litadýrð út um allt. Trén eru ýmist fjólublá, rauð, bleik, gul, appelsínugul, og blá (ég er örugglega að gleyma einhverjum lit). Þetta er alveg ótrúlega fallegt að sjá. Ég verð eiginlega að munda myndavélina um helgina og henda svo inn myndum af þessum fallegu trjám. Það er m.a.s. eitt tré hérna rétt hjá okkur sem blómgast í kremuðum lit og verður loðið - það er bara eiginlega ekki hægt að lýsa þessu með orðum. Verð að taka myndir :-)


laugardagur, 18. september 2010

Fjáröflun

Dagurinn var tekinn snemma í morgun, svona fyrir að vera laugardagur. Ég er í skólastjórn í einum skóla hér í borg og við höfðum ákveðið að hafa fjáröflun fyrir skólann í dag. Það er heilmikil undirbúningsvinna sem liggur að baki svona degi. Við grilluðum og það þurfti að útvega kjöt, svo þurfti að setja upp tjöld til varnar sólinni og ýmislegt annað.

Rúnar Atli þvertók fyrir það að fara með mér þannig að það þurfti að ræða við Flora um að koma hingað í morgun og vera í ca 3 tíma. Því svo fór Rúnar Atli í afmæli og þá gat hún farið heim.

Það var heilmikið um að vera í skólanum og margt að gera fyrir litlu krakkana, eins og hoppukastali, andlitsmálning, vatnsleikir o.fl. Þetta var mjög skemmtilegur dagur.

Ég var að vona að dagurinn yrði ekki mjög heitur, en gendólína mín :-) Þegar við Rúnar Atli komum heim lagðist ég út á pall og steinsofnaði alveg úrvinda eftir hitann. Rumskaði við einhvern óheyrilegan hávaða innan úr stofu þar sem Rúnar var að dunda sér, hlustaði í smástund og í stað öskurs talaði hann bara við sjálfan sig þannig að ég var örugg um að gaurinn væri ok og dottaði aftur í nokkrar mínútur.


Þetta er hluti skólastjórnarinnar, Leah, Patricia, ég og Isobel.

Það var að sjálfsögðu hin hefðbundna bílaþvottastöð og krúttlegi kagginn var tekinn í gegn :-)

föstudagur, 17. september 2010

Rólegheit

Villi er á ferðalagi í Rundu og við Rúnar Atli ákváðum að í stað þess að elda kvöldmat í kvöld fyrir tvo þá sé bara málið að fara út að borða :-)

Notalegt

þriðjudagur, 14. september 2010

Kom aððí

Jæja það hlaut að koma að því að ég heyrði frá prófdómaranum varðandi ritgerðina mína. Ég fékk sem sagt póst frá leiðbeinandanum mínum í dag með umsögn prófdómarans. Það er eins gott að hún gerir bara nokkrar smávægilegar athugasemdir sem ekki verður mikið mál að lagfæra. Því ef ég á að segja eins og er þá er ég komin með upp í kok af þessari blessaðri ritgerð.

Nú er bara að vona að ég nái að láta prenta hana og skila henni inn í háskóla fyrir 1. okt. Krosslegg fingur. Annars getur nú varla verið mikið að gera hjá Háskólaprent á þessum árstíma svo ég hef ekki mjög miklar áhyggjur eins og er :-)

Krúttlega krúttið mitt

Það er alveg á hreinu að ég á eftir að sakna krúttlega krúttsins míns. Ef stýrið væri "réttu" megin er engin spurning að kagganum yrði komið til Íslands. Það er voðalega góð tilfinning að geta gengið að bílnum vísum hér fyrir utan hús. Þetta er smá hint til Tinnu minnar - en auðvitað vildi ég heldur hafa hana hérna heima heldur en að getið gengið að bílnum þegar ég vil. Ég held það sé bara engin spurning :-)

þriðjudagur, 7. september 2010

Soroptomistar

Ég er í nefnd sem er að reyna að koma Soroptomista-klúbbi á koppinn hér í Namibíu. Nefndin hittist nokkuð reglulega og svo einu sinni í mánuði er almennur fundur. Þetta gengur ósköp hægt en samt komumst við alltaf aðeins áfram. Var einmitt á nefndarfundi í gær - ein úr nefndinni var að koma af ráðstefnu þessara klúbba í Suður Afríku.

Það eru um 3000 slíkir klúbbar í 125 löndum heimsins. Markmið Soroptomista er að efla og styrkja konur og börn. Þetta er mjög skemmtilegt starf og það eru svo mörg mál hérna í Namibíu sem slíkur klúbbur getur aðstoðað. Það er líka gaman að taka þátt í stofnun svona klúbbs.

Ótrúlegt hvað maður finnur sér alltaf eitthvað til dundurs :-)

sunnudagur, 5. september 2010

Ein ég sit og sauma

Ég er algjörlega forfallin í handavinnu þessa dagana. Ég er búin að gera tvö bútateppi - á þó eftir að klára þau. Ég er búin með munstrin en þarf bara að klára að "samloka" þau. Svo er ég dottin í krosssauminn aftur. Ég reyni að skipta þessu jafnt niður, þ.e. bútasaumi og krosssaumi því ég er að þjálfa sjálfa mig í bútasaumnum.

Um daginn kom upp sú staða að mér var boðin kennarastaða í Hólabrekkuskóla fyrir þetta skólaár. Það hefði þýtt að ég hefði þurft að rjúka til Íslands innan við viku eftir að fá þetta tilboð. Ég var mjög heit fyrir þessu og rauk í það að fara í gegnum saumadótið mitt svo það yrði tilbúið í kassa og svo í gáminn. Því ekki treysti ég Villa til að fara í gegnum saumadótið mitt ;-) En þegar til kom, þá guggnaði ég á að taka tilboðinu frá Hólabrekkuskóla. Þetta var bara of stuttur fyrirvari fyrir mig. En hvað sem því líður, þá fékk ég aftur handavinnu-bakteríuna, á háu stigi, við það að fara í gegnum dótið mitt :-)

Ég fann nokkur stykki sem ég er langt komin með og þarf nokkra daga til að klára. Því ákvað ég að taka nú skurk í þessu og klára þessi stykki. Mér hættir greinilega til að byrja á of mörgum stykkjum án þess að klára hin fyrri. Ég er nefnilega með svo margar hugmyndir að því sem ég vil sauma og get ekki beðið eftir að byrja á næsta stykki, en það leiðir oft til þess að ég klára ekki það sem ég var með á undan.

En áður en ég gat byrjað að klára nokkuð stykki, þá datt mér í hug að henda í einn jólalöber fyrir sjálfa mig. Ég kláraði hann á nokkrum dögum og er núna loksins dottin í það að klára stóran borðdúk. Ég á svo lítið eftir af honum og mun ég klára hann í næstu viku. Ég hlakka svo til að sjá hann fullkláraðan. Munstrið í þeim dúk er alveg rosalega fallegt og ég vona að dúkurinn líti eins vel út þegar ég klára hann :-)

Svo þarf ég að klára myndir fyrir krakkana mína, þetta eru svona myndir þar sem fram koma fæðingardagur, klukkan hvað þau fæddust og hve stór þau voru. Ég hef nokkrum sinnum byrjað á svona mynd fyrir Dagmar Ýr en alltaf verið óánægð með útkomuna, þannig að ég hætti alltaf við. Þangað til í fyrra, eða hitteðfyrra, þá ákvað ég loks að hunskast í þetta og er búin með Dagmarar og Tinnu myndir og er hálfnuð með Rúnars.

Svo þarf ég líka að klára svona mynd fyrir lítinn frænda norðan heiða :-)

Eins er ég á fullu að hanna bútateppi (í huganum) og verður teppið með afrísku þema. Ég á nokkur afrísk krosssaumsmunstur og ætla ég að tengja saman krossaumaðar afrískar myndir ásamt hefðbundnum bútasaum. Ég er búin að kaupa efni í teppið með afrísku munstri. Þetta teppi verður geggjað og ég get ekki beðið eftir að byrja á því.

En mér finnst alveg yndislegt að geta bara einbeitt mér að handavinnu og eins gott að nýta tímann vel fram að áramótum. Því þá tekur alvaran við og sjálfsagt gefst mér lítill tími til handavinnu :-)

Sunnudagur til sælu

Dagurinn byrjar vel, íslenskar vöfflur með rjóma í morgunmat, nammi namm :-) Það hafa verið kanadískar pönnukökur svo til á hverjum sunnudagsmorgni síðan í maí en þar sem Tinnan mín er farin aftur á norðurslóðir, þá er hægt að hafa vöfflur eða íslenskar pönnukökur aftur. Við Rúnar erum hrifnari að þeim en þessum kanadísku :-)

Svo ætlum við litla fjölskyldan að kíkja í bíó á eftir, ætlum að sjá The sorcerer's apprentice með Nicholas Cage - örugglega mjög góð mynd.


Flutningar

Það styttist all svakalega í það að við flytjum héðan frá Namibíu. Við gerum ráð fyrir að yfirgefa landið í kringum 10. desember, og að gámurinn fari í kringum 20. nóvember. Það verður heilmikil vinna að fara í gegnum allt "draslið" sem við höfum sankað að okkur undanfarin ár og henda því sem á að henda og pakka hinu. En ég held satt að segja að það sé gott mál að fara svona í gegnum dótið manns á nokkurra ára fresti - góð leið til að losa sig við drasl :-)

Það eru blendnar tilfinningar yfir því að yfirgefa Namibíu, við höfum búið hérna svo lengi, það verða níu ár í allt um áramót. Annars vegar er mikill söknuður enda yndislegt að búa hérna. Hins vegar er mikil tilhlökkun í að gera eitthvað annað

Það eru spennandi tímar framundan, eins og ónefnd þingkona Sjálfstæðisflokksins sagði í upphafi hruns :-)

Ýmislegt

Ég hef enn ekkert heyrt varðandi ritgerðina mína og er bara þakklát fyrir það, því það er ekki nokkur leið að ég nenni að vinna í athugasemdum þessa dagana. En það hlýtur nú eitthvað að fara að heyrast því ég held að ég eigi að koma henni í prentun fyrir 1. október n.k.

Tinna mín er loksins komin heim til sín eftir langt og strangt ferðalag. Hún stoppaði reyndar tvær nætur á Íslandi á leið sinni frá Namibíu til Prince George. Ef ég þekki hana rétt þá var það ánægð ung stúlka sem lagðist á koddann sinn, í nýja rúminu sínu, í gærkveldi og fór að sofa. Hún, ásamt einni vinkonu sinni, leigir nú íbúð í Prince George og hún hlakkaði mikið til að komast heim og fara að versla til heimilisins :-)




Veður hlýnandi fer

Nú er farið að hlýna í Namibíu og greinilegt að sumarið er á næsta leyti. En sumrinu fylgja auðvitað ýmsir fylgikvillar, eins og skordýrin og moskítóflugurnar. En maður tekur því bara og þakkar fyrir hlýnandi veður.

Tímanum hérna var breyttt í nótt og við það "misstum" við einn klukkutíma og erum núna tveimur tímum á undan Íslandi. Það angrar mig þegar tíminn breytist í þessa áttina, því mér finnst muna heilmiklu hvort ég fari fram úr klukkan 8 eða 9 á morgnana :-)