Powered By Blogger

föstudagur, 29. febrúar 2008

Tíðarfar

Það er eiginlega með óíkindum hvað veðrið hefur verið leiðinlegt hérna undanfarið. Á hverjum degi núna í langan tíma hafa verið miklar þrumur og eldingar með tilheyrandi rigningu og þegar það rignir hér þá er úrhelli. Um daginn þurfti ég t.d. að skjótast út í ca eina mínútu og ég varð gegndrepa á þessari mínútu, það var bara eins og ég hafði verið dregin upp úr polli. Í gær þurfti ég svo að versla (sem er nú ekki í frásögur færandi) og hentist aðeins í Game. Þegar ég var á kassanum að borga urðu svo mikil læti í úrhellinu að það heyrðist ekki mannamál inni í búðinni. Þetta var með ólíkindum og starfsfólkið stóð bara og brosti sínu breiðasta en það var ekki nokkur leið fyrir okkur að spjalla saman því við hreinlega heyrðum ekki hvert í öðru. Þegar ég er svo komin út úr Game þá sé ég að það er haglél en ekki rigning og ég held ég hafi aldrei séð svona stórt hagl, það var að stærð ca eins og nöglin á þumalputta. En alla vega, við erum sjálfsagt um 20 viðskiptavinir sem húkum þarna saman undir skyggninu og bíðum þess að það stytti upp. En eftir nokkurra mínútna bið var nú þolinmæði minnar á þrotum. Bíllinn minn mjög nálægt og ég vissi að það tæki mig ekki nema nokkur augnablik að komast í öruggt skjól. Svo konan með víkingablóð í æðum, og í örþunnum hlýrabol, beygði höfuðið undir sig og arkaði á móti haglinu. En auðvitað komst ég ekki eins fljótt og auðveldlega inn í fararskjótann og ég hafði hugsað mér. Ég var nefnilega með nokkra stóra innkaupapoka í hvorri hönd og varð að koma þeim af mér í skottið og þetta tók náttúrulega sinn tíma. En í stuttu máli sagt varð ég gjörsamlega gegndrepa eftir þennan verslunarleiðangur.

Svo núna í morgunsárið heilsar rok og rigning og það er ansi dimmt yfir. Þetta er bara eins og ekta íslenskt veður enda skildi Rúnar Atli það vel að hann yrði að fara í peysu í skólann í dag því þetta var bara eins og á Íslandi.

Núna um 7.30 var heimasætan hér í Namibíu að fara í helgarferðalag. Það er nú ekki laust við að ég sé með í maganum. Þær ætla fimm vinkonurnar að keyra upp til Etosha og vera þar um helgina. Veðrið er nú ekki alveg með besta móti til að keyra þetta enda var ein mamman sem ég ræddi við í morgun líka ansi stressuð yfir þessu. Svo eru vegirnir hérna svo hættulegir, eða réttara sagt eru sjálfir vegirnir mjög góðir, eru beinir og breiðir, en fólk keyrir svo hratt og því soldið um framúrakstur. En þessi mamma sem ég ræddi við ætlaði að ítreka það við Dominic (bílstjórann) að hún yrði að keyra varlega. Ég mun sjálfsagt senda slatta af sms-um um helgina bara svona til að tékka á að allt sé í lagi. En svo var mér tilkynnt það í gær að þær vinkonurnar væru búnar að gera það að reglu að þær mættu ekki vera að kjafta í símann að deginum til. Hún mundi senda mér sms að morgni og svo hringja í mig að kveldi. Það var sem sagt verið að benda mér mjög pent á það að það þýddi lítið fyrir mig að vera að senda sms allan daginn. Ég sagðist nú ekki taka mark á svona reglum og ég mun senda FULLT af sms-um allan daginn alla helgina og hún yrði að gjöra svo vel að svara mér - takk fyrir :-)

Það er alla vega alveg á hreinu að ég verð mjög þakklát þegar þessi helgi verður liðin og mánudagsmorgunn runninn upp og allir vaknaðir og að borða morgunmat saman :-)

mánudagur, 25. febrúar 2008

Helgin búin

Nú styttist í að Elli, Allý og börn komi í heimsókn og við förum saman í ferðalag um landið. Það verður án efa mjög skemmtilegt, bæði er náttúrlega félagsskapurinn góður og eins er Namibía alveg afskaplega fallegt land og gaman að ferðast hérna.

Annars er nú lítið um að vera hérna hjá okkur þessa dagana. Tinna fór aftur að fljúga með Sibby snemma á laugardagsmorgun. Þær komust reyndar ekki í langa túrinn en í staðinn flugu þær yfir Okapuka og sáu slatta af dýrum, eins og t.d. oryx og springbok. Fyrir þá sem ekki vita, þá er Okapuka búgarður hérna skammt fyrir norðan borgina með alls kyns dýrum. Gestir eru keyrðir um búgarðinn og leitað að dýrum til að sýna.

Næstu helgi fer Tinna með nokkrum vinkonum sínum til Etosha sem er þjóðgarður í norðurhluta landsins. Þær fara á föstudaginn og koma til baka á sunnudaginn. Þetta verður stelpuhelgi og mikil spenna í gangi :-) Það verður nú að segjast að hún er ekki svona viljug að fara með foreldrum sínum í svona ferðir - ég skil bara ekkert hvernig stendur á því.

Enn einn daginn hafa verið þrumur og eldingar með tilheyrandi rigningu. Á laugardaginn rigndi svo svakalega að það rigndi niður um reykháfinn. Eins fóru nokkrir gluggar að leka, gluggarnir í húsinu þola ekki svona mikið úrhelli. Þetta var voðalega smekklegt, handklæði í öllum gluggakistum :-) En þrumurnar í dag voru svo miklar að gler í ljósakrónum hristust og það glamraði ansi hátt í þeim. Það er eins gott að enginn í þessari fjölskyldu ætlaði að horfa á óskarsverðlaunaafhendinguna í kvöld. Því þegar svona viðrar þá dettur sjónvarpið yfirleitt út :-)

laugardagur, 23. febrúar 2008

Hamingjuóskir

Elsku Jóhanna okkar, innilega til hamingju með daginn :-)

föstudagur, 22. febrúar 2008

Ég er alltaf svo heppin

Þessi eilífa eldamennska er frekar leiðinleg að mínu viti. Enda er ég afskaplega hugmyndasnauð þegar ég stend í eldhúsinu, svona dags daglega. En ég er svo heppin í kvöld að umdæmisstjórinn í Úganda er stödd hér í Namibíu og að sjálfsögðu veldur það því að við "neyðumst" til að fara út að borða í kvöld. Umm, það verður sko pöntuð girnileg steik, ekki spurning.

"Ég lifi í draumi"

Hann Rúnar minn er ansi ágætur. Þannig er mál með vexti að við eigum nokkuð góða digital vigt (nei, ekki bökunar) og við Rúnar skellum okkur oft á vigtina - bara svona til að fylgjast með þyngdinni. Svo áðan þá varð hann að skella sér á hana, ok hann kveikir á vigtinni og bíður eftir að það standi 0,00 því hann veit að þá er vigtin tilbúin. Hann kemur sér fyrir á henni og bíður eftur að þyngdin birtist og mamman les fyrir hann, jú hann er 17,7 kg. Þá er kominn tími fyrir mömmuna að koma sér á vigtina og hann las fyrir mömmu sína. "Mamma, þú ert líka 17,7" - góður :-)

Bútasaumur og flug

Þá er ég loksins komin af stað með bútasaumsteppi. Ég skráði mig á grunnnámskeið í bútasaumi og ég fékk senda uppskrift af einföldu teppi. En afskaplega eru lýsingarnar á því sem ég á að gera lélegar og litlar. Það er greinilega gert ráð fyrir að maður viti sitt hvað um bútasaum. En þrjóskan í minni veldur því að ég er bara að kenna sjálfri mér þetta. Ég er búin að setja nokkra búta saman og var voða hreykin af sjálfri mér og sýndi Tinnu meistarastykkið og var náttúrlega að monta mig aðeins í leiðinni. Heyrist þá í minni "mamma þú ert svo hlédræg". Ég sagðist nú vita það og það hái mér frekar en hitt :-)

En ég er alla vega komin af stað. Nú þarf ég bara að læra að setja munstur ofan á annað efni, ég er ekki alveg að fatta hvernig það er gert án þess að það sjáist saumur. En það kemur eins og annað.

Ein vinkona Tinnu (Sibby) er að læra að fljúga og Tinna fór með henni í flugtíma í dag. Þetta er í annað sinn sem Tinna flýgur með henni. Í fyrra skiptið þá var ég ein taugahrúga, því verður nú ekki neitað. En ég var afskaplega afslöppuð í dag. Þetta átti að vera langur flugtúr, tveggja tíma, en vegna veðurs þá gekk það ekki. Þess í stað var flogið yfir borginni og eitthvað smá í kring. En í fyrramálið ætla þær aftur að fljúga og á að fara í loftið kl. 8. Tinna er rosalega hrifin af þessu og það er efst á óskalistanum hennar að fá að læra að fljúga.

Um daginn var nokkurs konar "framadagur" í skólanum hjá Tinnu og var m.a. verið að kynna þetta flugnám. Mín kom heim með allar upplýsingar um námið. Hún má byrja að læra að fljúga þó hún sé ekki orðin 16 ára, en fær bara ekki réttindin fyrr en eftir sextán ára afmælið. Ég er bara ekki viss um að ég hefði taugar í það að vita af dóttur minni einni uppi að fljúga í lítilli rellu. Úff...

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

ÞÖGN

Jæja þá er ég loksins orðin nettengd aftur. Tengingin datt út á sunnudaginn og komst ekki aftur í gagnið fyrr en seint í gærkveldi. Það er með ólíkindum hvað það hefur verið erfitt að vera netsambandslaus - úff. En nú er sem sagt þögninni lokið. En þá hef ég bara ekkert sniðugt að segja.

Ég vil óska Loga Snæ innilega til hamingju með afmælið í gær. Gæinn bara orðinn fjögurra ára :-)

sunnudagur, 17. febrúar 2008

Arsenal - Man. utd

Ég get lítið sagt um þennan blessaða leik í gær. Ég var þó með rétt úrslit, bara ekki rétt vinningslið - þetta fyrirfórst eitthvað hjá mér þegar ég var að spá fyrir um úrslitin í gær :-)

En það vill bara svo vel til að við gátum ekki horft á þennan hræðilega leik. Þegar það eru miklar þrumur, eldingar með rigningu þá dettur sambandið við gervihnöttinn út og það gerðist í gær akkúrat þegar fyrirliðar liðanna voru búnir að takast í hendur. Þannig að það má segja að ég hafi sloppið við að horfa. Hins hefði Villi verið til í að horfa á leikinn enda unnu hans menn.

En svona er þetta.

laugardagur, 16. febrúar 2008

móttaka, sýning, 4 - 0 fyrir Arsenal

Í gærmorgun fórum við Villi að State House (forsetahúsið) í boði forseta Namibíu. Það er árlegur viðburður að forsetinn býður öllum diplómötum í móttöku skömmu eftir áramót til að bjóða öllum gleðilegs nýs árs. Þetta var rosalega formlegt og flott. Bílstjórinn af skrifstofunni hans Villa keyrði okkur eins og vanalega í svona móttökur. Þegar hann er að renna bílnum upp að hliðinu þá standa þar lífverðir og heilsa að hermannasið. Þeir standa þannig þangað til bíllinn er alveg stopp og þá opna þeir bílhurðarnar fyrir okkur Villa. Svo er annar heilsandi-vörður þegar við göngum upp tröppurnar.

Svo eru tvö eða þrjú security tékk á leiðinni, þar sem við þurfum að segja frá hvaða landi við erum. Svo loksins komust við upp á grasflötina þar sem móttakan er. Þá er okkur vísað á okkar stað í röðinni og þar urðu allir að bíða þar til forsetinn kom. Það voru tvær raðir, önnur fyrir diplómata og maka þeirra og hin fyrir ráðherra og yfirmenn opinberra stofnana í Namibíu. Svo loksins er allt tilbúið og þá eru nöfn og lönd diplómata lesin upp og viðkomandi aðili átti að ganga til foretans og taka í höndina á honum, forsætisráðherranum og mig minnir að þriðji maðurinn hafi verið utanríkisráðherra. Svo voru fluttar ræður og skálað fyrir heilsu og velferð forsetans og allra annarra. Þetta tók nú slatta tíma.

En að þessu loknu var boðið upp á léttar veitingar og drykki. Og þá loksins gat maður farið að hreyfa sig og kjafta við þá sem maður kannast við :-)

Svona móttökur geta nú verið ansi erfiðar fyrir bakið, það verð ég að segja. Því það er ekki auðvelt fyrir mig að standa kjurr í hátt í tvo tíma, á mishæðóttri grasflöt. En þetta var voða gaman.

Svo um kvöldið var okkur boðið á opnun sýningar hér í borg. Þannig vill til að eiginmaður sænska charge des affairs (ég veit ég stafa þetta ekki rétt - þetta er svona eins og Villi er) er blaðamaður og mikill grúskari. Hann gróf upp á sænsku safni eldgömul (og áður óbirt) kort af Namibíu. Það var einhver sænskur gaur sem kom hingað til lands um 1850. Hann hefur verið að skoða sögu þess manns hérna í Namibíu og þetta er mjög forvitnilegt.

Nú bíðum við bara eftir að stórleikur Arsenal og Man utd hefst, þar sem mínir menn munu taka hrokagikkina í utd í nefið :-)

Murder she wrote

Þetta hefur verið algjör letidagur. Villi hefur verið að dunda sér í bílskúrnum að smíða, Rúnar að leika sér í nýju dóti sem hann keypti sér í morgun og ég hef bara verið að sauma. Heimasætan hefur ekki sést hér í allan dag, fyrir utan ca 20 mín áðan. Í gærkvöldi var Valentínusarball í skólanum hennar og hún bauð einum vini sínum með sér. Hann heitir Rasheed og er víst fyrrverandi kærasti :-) Krakkarnir nenntu nú ekki að vera allan tímann á ballinu heldur var farið heim til annars vinar og þar var "hittingur". Svo fékk gellan að sofa heima hjá vinkonu sinni. Og jú jú, ég tékkaði á því og ræddi við mömmu stelpunnar þannig að ég veit fyrir víst að dóttir mín svaf þar en ekki annars staðar :-) Hún rétt rak andlitin hér inn áðan og skellti sér í sturtu og var svo rokin út aftur.

Við Rúnar erum núna að horfa saman á Morðgátu. Ég fékk gefins fyrstu seríuna í jólagjöf og keypti mér aðra seríu. Þetta eru yndislegir þættir. Ég veit ekki hvort þið munið eftir þessum þáttum en þeir voru sýndir í sjónvarpinu fyrir all nokkrum árum. Rúnar hefur voða gaman að því að horfa með mér. Ja, hann situr og horfir í 10 mínútur en er svo rokinn í allt annað. Þolinmæðin við að finna út "who donn´it" er greinilega ekki meiri.

mánudagur, 11. febrúar 2008

Rigning - rigning - rigning

Það er alveg með ólíkindum hvað það rignir mikið hérna þessa dagana. Þetta hefur hinar ýmsu afleiðingar, fyrir utan flóð og aðra erfiðleika fólks fyrir norðan þá er þessi fjölskylda að lenda í vandræðum. Þannig er nefnilega mál með vexti að Lidia þvær og þvær þvottinn af okkur og hengir út en þar rignir hann bara niður. Í morgun varð ég að stoppa hana í að hengja út. Ég á nefnilega hvorki til þurrkara né inni-snúrur. En þetta veldur því að handklæðin á bænum eru að verða uppurin. Það verða sjálfsagt slagsmál í kvöld þegar kemur að sturtu því ég held það sé eitt handklæði til hreint og þurrt. Það verður sem sagt fyrstur kemur fyrstur fær. En Rúnar þyrfti reyndar að fá þetta handklæði í leikskólann á morgun því hann fer í sundtíma á þriðjudögum og þarf þ.a.l. handklæði :-)

Það verður gaman að sjá hvernig þetta fer allt saman. Ég sé fyrir mér að í fyrramálið þegar búðir opna verði ég að laumast út með sólgleraugu og derhúfu (svo ég þekkist ekki) og kaupa nokkur handklæði.

Annars eru þessi handklæða-vandræði ekki stór miðað við vandræði fólksins fyrir norðan. En það sem stendur manni næst.....

sunnudagur, 10. febrúar 2008

Eitt og annað í helgarlok

Ferðin okkar Villa norður í land var bara mjög fín, að vísu soldið mikil keyrsla en ókey. Ég hafði víst bloggað um að Villi þyrfti að funda með sýslustjóranum í Ohakene sýslu. Sýsla með þessu nafni er víst ekki til í Namibíu :-) En sýslurnar þarna fyrir norðan heita allar mjög svipað og eru kallaðar The four O´s. Það er ekki nokkur leið að ég muni hvað þær heita og bæirnir heita líka mjög svipað. En ferðin var sem sagt mjög fín en það var sorglegt að sjá flóðin þar. Það hafa t.a.m 44 skólar þurft að loka vegna flóða - sorglegt.

En það jákvæða (fyrir mig) var hitinn þarna. Ég var síðast fyrir norðan í lok október s.l. og þá var varla hægt að anda fyrir hita. En núna var bara svalt vegna rigninga. Það var svo notalegt.

Villi þurfti líka að funda með einum skólastjóra fyrir norðan. Í þeim skóla eru bara heyrnarlaus og blind börn. Endaði það svo með því að skólastjórinn (Abraham) og kona hans (Rachel)buðu okkur Villa heim til sín í kvöldmat það kvöld. Að þeirra sið var boðið upp á kjúkling og porridge. Það er víst þannig að þegar fólk úr þeirra ættbálkum fær gesti í mat, þá á að bjóða upp á slíkt. Annað er ekki til umræðu og maturinn smakkaðist mjög vel. Kjúklingurinn var með heimagerðri sósu sem var mjög góð. Þessi porridge var nú ekki grautur eins og maður hefði haldið, heldur meira eins og mjög þykk (ja ég veit svei mér ekki hvað). En hann var alveg ókey. Við áttum mjög góða kvölstund með þeim hjónum og litla guttanum þeirra sem er níu mánaða.

Þegar við komum svo heim á föstudaginn þá var líka svalt í veðri í Windhoek og hefur verið alla helgina og rignt mikið. Lidia var t.d. nýbúin að hengja út þvott á föstudagsmorgun þegar fór að rigna og blessaður þvotturinn er ennþá úti, rennandi blautur. En þessi svali hefur verið yndislegur, ég hef verið í síðbuxum alla helgina og m.a.s. í sokkum og lífið gerist varla mikið betra :-)

föstudagur, 8. febrúar 2008

Enn að dunda mér með síðuna

Athygli mín hefur verið vakin á því að ég hef ekki leyft öllum að kommenta á bloggið mitt. Ég hélt nú reyndar að ég hefði hakað við að allir mættu kommenta hjá mér en svo virðist ekki vera. Ég er sem sagt búin að laga það núna og bara vona að það virki.

þriðjudagur, 5. febrúar 2008

Ferðalag

Á morgun þarf Villi að fara norður í land og funda með sýslustjóranum í Ohakene sýslu. Að sjálfsögðu er mér boðið með og það verður fínt að komast aðeins í annað umhverfi. Krakkarnir verða bara heima hjá Flora. Ég er búinn að fylla ísskápinn að ýmsu matarkyns svo þau ættu ekki að þurfa að líða skort :-)

Við komum heim aftur seinni partinn á föstudaginn og þá sjáflsagt læt ég heyra frá mér aftur.

Smá vandkvæði svona i upphafi

Ég á nú í einhverjum smá erfiðleikum með að setja síðuna almennilega upp, en við sjáum til.

Prufa

Þá er að láta á það reyna hvort ég geti sett upp bloggsíðu. Ég var eiginlega búin að ákveða með sjálfri mér að athuga hvort ég gæti ekki sett upp bloggsíðu alveg hjálparlaust. Ég hlýt að geta þetta eins og aðrir :-)