Rúnar Atli er kominn á fullt skrið í skólanum og kominn í góða rútínu. Eftir stóra flutninga er mikilvægt að koma góðri rútínu í gang. Á morgnana fer Villi með Rúnar í skólann og leggja þeir af stað um kl. 7, krakkarnir eiga að vera mættir um tíu mínútur yfir 7. Rúnar er svo búinn kl. 13.30 alla daga vikunnar nema á föstudögum, þá lýkur skólanum kl. 12.10.
Skólavikan telur sex virka daga og þetta kerfi angrar mig þokkalega. Öll fög eru á sínum föstu dögum, svona eins og maður þekkir. En hérna er það hins vegar aldrei á sömu vikudögunum, nema sjöttu hverja viku eða svo. Tökum t.d. leikfimi, Rúnar er í leikfimi á dögum 2 og 5. Í þessari viku var leikfimi einungis á miðvikudaginn því hann var dagur nr. 5. Í næstu viku verður hins vegar leikfimi á mánudaginn og fimmtudaginn. Þannig að á hverjum morgni þarf ég að reikna út hvaða dagur er í dag svo hann fari nú með réttar bækur í skólann og þess háttar. Ég þyrfti eiginlega að útbúa einhvers konar dagatal til að merkja inn á hverjum degi. Ég bara skil ekki hvers vegna svona kerfi er notað.
Við erum reyndar ekki alveg óvön þessu kerfi því þetta var svipað í Namibíu hjá stelpunum. En þar pössuðu þær alveg sjálfar upp á hvaða dagur væri og hvað þær ættu að taka með sér.
Rúnari finnst bara gaman í skólanum, fyrir utan tónmennt. Hann tekur alveg út fyrir að mæta í þá tíma. Sem betur fer (finnst honum) er tónmennt aðeins einu sinni í viku :-) Hann fékk reyndar stóran plús frá kennaranum í gær því hann er sá fyrsti sem kemur með plastaða kennslubókina og þetta gerði kennslustundina eitthvað aðeins skemmtilegri fannst honum :-) Svo finnst honum mjög spennandi að vera í frönsku og tölvutímum. Hann var voða rogginn um daginn því þá fóru þau í fyrsta sinn á internetið í skólanum og honum fannst það alveg meiri háttar. Nú telur hann sig vera útlærðan á internetinu :-)
Fyrir utan hinn hefðbundna skólatíma býðsti nemendum að skrá sig á hin ýmsu námskeið, svo sem íþróttir eða leiki. Eftir mikla ígrundun og valkvíða ákvað hann að skrá sig í golf - takk fyrir. En nú mætir hann sem sagt í golfkennslu á miðvikudagseftirmiðdögum og virðist hafa gaman að :-)