Powered By Blogger

fimmtudagur, 5. nóvember 2009

Með fiðring í maganum

Það ríkir mikil spenna á heimilinu vegna fyrirhugaðrar Íslandsferðar. Alla vega erum við Rúnar Atli mjög spennt og tölum mikið um það. 

Ég verð komin heim eftir 22 daga - bara þrjár stuttar vikur og hitt liðið mitt kemur svo til Íslands átta dögum síðar. 

Ég hlakka alveg hreint ótrúlega til en hef því miður lítinn tíma eins og er til að stunda dagdrauma um Íslandsferðina. Það er heilmikið að gera, ég þarf að ljúka tveimur ritgerðum, útbúa próf fyrir nemendur mína - prófið þeirra verður þann 23. - þá tekur við prófyfirferð og að skrifa comment um hvern og einn nemanda. Svo þyrfti ég að skjótast til Gobabis með frystiskáp fyrir einn skóla þar frá makaklúbbnum. En það góða við þetta er þó að tíminn líður mjög hratt :-)

Tinna Rut þarf reyndar að fara í það núna að pakka niður og ganga frá öllu sínu dóti. Ákveða hvað hún ætlar að taka með sér til Vesturheims og hvað hún ætlar að skilja eftir hjá okkur. Það rann upp fyrir henni (svona fyrir alvöru) í gær að hún á bara eftir að vera hérna í fjórar vikur. Eftir átta ára búsetu í Namibíu á hún bara fjórar vikur eftir og hún veit ekki alveg hvernig henni líður með það. Hún er náttúrulega spennt að byrja nýtt ár á nýjum stað og í nýjum skóla. En hér skilur hún við yndislega vini, góðar minningar og bara gott líf. Þannig að spenningur og eftirsjá takast á hjá henni.

Lærdómur

Undanfarna daga hefur Rúnar haft mikinn áhuga á "skólaleik" og hann og Flora læra og læra. Svo eftir að Flora var farin heim í gær hélt hann áfram að skrifa stafi og finna orð og þess háttar. Þetta gekk rosa vel hjá honum og hann tók þessu mjög alvarlega. Svo rétt fyrir kl. átta í gærkveldi þurfti Villi að skjótast til að sækja Tinnu þar sem hún var að koma í bæinn. Þegar Rúnar var spurður hvort hann vildi ekki fara með pabba sínum að sækja elsku Tinnu þá var hann nú til í það. Nema, það var smá vandamál, hann var nefnilega ennþá að læra. Ég sagði honum að stundum þegar maður er að læra er bara nauðsynlegt að taka pásu. Þá heyrist í mínum "Oh ég vissi það ekki".

Þetta er yndislegt og vonandi helst þessi mikli áhugi um ókomin ár :-)