Powered By Blogger

fimmtudagur, 18. júní 2009

Svartur dagur

Æi þá kom að því að við Villi þurftum að endurnýja örbylgjuofninn okkar. Þetta var orðið hið versta mál því heimasætan gat ekki poppað sér almennilega því ofninn var bara svo til hættur að virka. Það var ekki hætt að suða fyrr en nýr örbylgjuofn var kominn í hús. Ég fór tvisvar í búð að skoða nýjan grip en gat bara ekki ákveðið mig og fannst mjög erfitt að þurfa að kaupa nýjan. 

Ástæða þess að þetta var svona erfitt fyrir mig er sú að við Villi fengum þennan ofn í brúðkaupsgjöf fyrir tæpum 23 árum - takk fyrir. Ofninn hefur fylgt okkur Villa í þrjár heimsálfur og aldrei klikkað. Hann er algjör snilld - allt hægt að gera í honum og ég er sannfærð um að þrátt fyrir háan aldur þá er hann enn sá besti og fullkomnasti á markaðnum - ekki spurning. 

Vonandi er þetta ekki "omen" um það sem koma skal, þ.e. að fleiri breytingar og endurnýjanir séu í vændum eftir tæp 23 ár :-) 

mánudagur, 15. júní 2009

Snatt okkar mæðgna

Þá erum við mæðgur að fara að hitta saumakonu. Þannig er nefnilega mál með vexti að Tinna útskrifast sem stúdent í lok þessa árs en lokaballið verður í lok ágúst. Því eftir ágúst taka prófin við. En hún þarf sem sagt að láta sérsauma á sig kjól þessi elska. Hún fann myndir af rosaflottum kjólum og ætlar að athuga hvort saumakonan eigi eitthvað svipað munstur. 

Þetta lokaball er víst algjört spari-ball. Foreldrum er boðið í matinn og það verður gaman að sjá alla útskriftarnemana í sínu fínasta pússi.

sunnudagur, 14. júní 2009

Nokkrar myndir af fjölskyldunni (4/5)



Einbeitingin hjá Rúnari er gríðarleg enda verkefnið mikilvægt

Við Villi og Rúnar skelltum okkur í stutt ferðalag í mars
Svo bíð ég bara eftir því að Dagmar komi til okkar í júlí og þá tek ég fullt af myndum af öllum krökkunum 

Hannyrðir

Ég hef verið á fullu að sauma fallegan stóran jóladúk og er búin með aðalmunstrið en á eftir að falda hann og sauma munstur í hvert horn. En ég er strax farin að velta fyrir mér næsta verkefni og er eiginlega dottin niður á þennan dúk. 
Þetta er meiriháttar fallegur heklaður dúkur og hef ég m.a.s byrjað á honum nokkrum sinnum í gegnum tíðina, en alltaf gefist upp. En nú ætla ég sem sagt að gera aðra tilraun.



Brrrr

Nú þegar vetur er genginn í garð verður ansi kalt hér í húsinu. Hús hérna hafa ekki ofna, heldur reynir maður að hita upp með því að kveikja upp í arninum - nú eins kaupir fólk sér litla rafmagnsofna og notar þá. En hvað sem því líður er mjög kalt í húsinu okkar. Nú einn morguninn vorum við Rúnar að borða morgunmat og það var svo kalt að hann var í úlpu, með húfu og trefil, eins og sést á meðfylgjandi mynd. Það er frekar ónotalegt að byrja daginn svona

Þetta er nú alveg með ólíkindum

Það eru greinilegar nokkrar fréttirnar í vikunni sem komu mér á óvart. Hér er önnur frétt - það er reyndar ekki fréttin sjálf heldur að þetta skuli hafa verið með vinsælustu fréttum í liðinni viku á eyjunni. Ég meina kommmmon - er það virkilega svona fréttnæmt að einhver leikkona sé með harðar geirvörtur????

Jahérna

Flest á nú að banna eða takmarka, ég átti bara varla til orð þegar ég las þessa frétt í mogganum um daginn. Hér í Namibíu heilsast og kveðjast allir unglingar með því að faðma hvern annan. Það eru ekki bara unglingarnir sem faðmast heldur varð ég vör við það um daginn þegar ég fór með Rúnar í leikskólann að þar faðmast litlu krakkarnir líka þegar þeir hittast. 

Ég á erfitt með að skilja við hvað fólk er hrætt þegar unglingar/krakkar faðmast - ég meina hvað er vandamálið. Mér finnst þetta einmitt vera ljóst dæmi þess að krakkarnir eru öruggir með sig. Hver vill ekki byrja daginn á faðmlagi frá vini/vinkonu?? Mér finnst þetta bara frábært.