Powered By Blogger

laugardagur, 29. október 2011

Lista- og handverkasýning

Við hjónin skelltum okkur á lista-og handverkasýningu í morgun. Þarna var samankominn dágóður hópur af listafólki sem var að sýna og selja eigin verk. Þetta voru m.a. málverk, ljósmyndir, alls kyns saumaðar vörur, mósaíklistaverk og margt fleira.

Mér fannst nú eiginlega hálfótrúlegt að sjá hve margir listamenn voru þarna að sýna handverkin sín því samfélagið er nú ekkert svaka stórt hérna í Lilongwe. En reyndar voru ekki allir frá Malawi, þarna voru einnig listamenn frá Zimbabwe og Mósambík sem komu gagngert til landsins til þess að sýna listaverkin sín og selja.

Við Villi byrjuðum á að heilsa upp á kunningjakonu okkar sem var með málverkasýningu og þar var að sjálfsögðu opnuð flaska af freyðivíni svona í tilefni opnunar sýningarinnar. Og hvað var klukkan, jú hún rétt náði að verða 10 :-)

En þetta var mjög skemmtilegt og gaman að sjá hve frjótt fólk er í listsköpun sinni.


Bólan kom hlaupandi í hús

Jæja þá kom að því að Rúnar Atli fengi hlaupabóluna. Þetta byrjaði í síðustu viku þegar við vorum í fríi við vatnið (þ.e. ég og Rúnar vorum í fríi, Villi þurfti að vinna). Einn morguninn sáum við nokkra bletti á bakinu á Rúnari og við Villi héldum að þetta væru bara moskítóbit. Svo nokkrum dögum seinna þá tók ég eftir því að bakið á krakkanum var allt út í rauðum blettum. Hann sagðist bara sjálfur halda að þetta væri hlaupabólan. Ha?? Hvernig datt drengnum þetta í hug?? Jú nefnilega ein stelpa í bekknum hans hafði fengið hlaupabóluna nokkrum dögum fyrr og kennarinn hafði farið vel yfir þetta með krökkunum, þ.e. einkenni og þess háttar.

Ég var nú ekki alveg til í að kaupa hlaupabóluna en ákvað nú að sjá til hvernig hann væri daginn eftir. Svo var nú bara eiginlega ekki um annað að ræða þegar ég sá hann daginn eftir. Hann var bókstaflega með rauða flekki út um allt.

Ég vildi nú fá álit læknis bara svona til öryggis. Við höfum haft nafn og númer hjá lækni á ísskápnum hjá okkur og töldum okkur vera til í hvað sem var. Ég hringi og segi við stúlkuna sem svarar að ég vilji panta tíma fyrir son minn hjá þessum ákveðna lækni. Ég náði ekki alveg hverju hún svaraði og áður en ég vissi af var ég komin á bið og loks slitnaði bara sambandið. Ég hringi aftur og tala aftur við sömu stúlkuna og kom þá í ljós að þessi læknir var hættur og þetta sé meira að segja ekki lengur læknastofa!!! Ja hver skollinn, hvað átti ég nú að gera. Ég þekkti enga lækna né vissi ég hvar læknastofur væru í bænum. En í gegnum gott fólk komst ég loks í samband við einn lækni og við Rúnar hittum hann síðar þann sama dag.

Og jú jú þetta reyndist vera hlaupabólan. Hann var kominn með bletti á augnlokin, inn í annað eyrað og m.a.s. á vörina. Það var alveg svakalegt að sjá greyið. Hann þjáðist af töluverðum kláða í ca tvo daga en svo bara ekki söguna meir. Það er með ólíkindum hvað þetta hefur angrað hann lítið svona miðað við hve slæmur hann var.

Nú eru allar bólurnar orðnar þurrar og engar nýjar komið í ca tvo daga þannig að gaurinn kemst loksins í skólann eftir helgi. En það er enn rosalegt að sjá hann eins og sést á þessari mynd. Hann þvertók fyrir það að ég tæki mynd af honum að framan :-)