Powered By Blogger

fimmtudagur, 3. desember 2009

Komin heim

Þá er ég búin að vera á Íslandi í tæpa viku og hafa það ágætt. Ferðalagið heim gekk þokkalega. Lenti reyndar í því að þurfa að sitja í miðjusæti í langa fluginu og var klesst á milli tveggja kalla - annar frá Hollandi og hinn frá Englandi - mjög viðeigandi í ljósi stöðunnar :-)

Það var heldur þröngt um mig og ég eyddi allri nóttinni í að horfa á vídeómyndir og gat þannig lifað flugið af. Svo fór vel um mig á eðalstofunni í London og var orðin óþreyjufull eftir að komast í Flugleiðavélina - en lenti þá í tveggja tíma töf. Það var eitthvað sem bilaði í vélinni og það þurfti að laga það, eðlilega. Loksins lenti ég þó í Keflavík en taskan ákvað að vera tvo aukadaga í London. 

Ég viðurkenni fúslega að ég hef gert lítið sem ekkert þessa tæpu viku hérna heima. Nema ég náði að klára aðra ritgerðina í gær og skilaði henni í morgun. Eins held ég að hin ritgerðin sé á réttu róli og ég hef nú ekki áhyggjur af henni. 

Nú bíð ég bara eftir að Villi og krakkarnir komi heim því það er hálfeinmanalegt að vera ein hérna í Æsufellinu :-)

fimmtudagur, 5. nóvember 2009

Með fiðring í maganum

Það ríkir mikil spenna á heimilinu vegna fyrirhugaðrar Íslandsferðar. Alla vega erum við Rúnar Atli mjög spennt og tölum mikið um það. 

Ég verð komin heim eftir 22 daga - bara þrjár stuttar vikur og hitt liðið mitt kemur svo til Íslands átta dögum síðar. 

Ég hlakka alveg hreint ótrúlega til en hef því miður lítinn tíma eins og er til að stunda dagdrauma um Íslandsferðina. Það er heilmikið að gera, ég þarf að ljúka tveimur ritgerðum, útbúa próf fyrir nemendur mína - prófið þeirra verður þann 23. - þá tekur við prófyfirferð og að skrifa comment um hvern og einn nemanda. Svo þyrfti ég að skjótast til Gobabis með frystiskáp fyrir einn skóla þar frá makaklúbbnum. En það góða við þetta er þó að tíminn líður mjög hratt :-)

Tinna Rut þarf reyndar að fara í það núna að pakka niður og ganga frá öllu sínu dóti. Ákveða hvað hún ætlar að taka með sér til Vesturheims og hvað hún ætlar að skilja eftir hjá okkur. Það rann upp fyrir henni (svona fyrir alvöru) í gær að hún á bara eftir að vera hérna í fjórar vikur. Eftir átta ára búsetu í Namibíu á hún bara fjórar vikur eftir og hún veit ekki alveg hvernig henni líður með það. Hún er náttúrulega spennt að byrja nýtt ár á nýjum stað og í nýjum skóla. En hér skilur hún við yndislega vini, góðar minningar og bara gott líf. Þannig að spenningur og eftirsjá takast á hjá henni.

Lærdómur

Undanfarna daga hefur Rúnar haft mikinn áhuga á "skólaleik" og hann og Flora læra og læra. Svo eftir að Flora var farin heim í gær hélt hann áfram að skrifa stafi og finna orð og þess háttar. Þetta gekk rosa vel hjá honum og hann tók þessu mjög alvarlega. Svo rétt fyrir kl. átta í gærkveldi þurfti Villi að skjótast til að sækja Tinnu þar sem hún var að koma í bæinn. Þegar Rúnar var spurður hvort hann vildi ekki fara með pabba sínum að sækja elsku Tinnu þá var hann nú til í það. Nema, það var smá vandamál, hann var nefnilega ennþá að læra. Ég sagði honum að stundum þegar maður er að læra er bara nauðsynlegt að taka pásu. Þá heyrist í mínum "Oh ég vissi það ekki".

Þetta er yndislegt og vonandi helst þessi mikli áhugi um ókomin ár :-)

þriðjudagur, 25. ágúst 2009

Sundkennsla

Rúnar Atli hefur verið í sundkennslu í vel á þriðja ár og er orðinn rosalega duglegur. Hann fer alltaf vikulega og eru krakkarnir sóttir í leikskólann. Þessa viku er leikskólinn í fríi og var okkur boðið að koma með Rúnar í sund sjálf og fylgjast með honum. 

Í morgun fóru þeir feðgar í sund og Villi náði nokkrum myndum. Núna er Rúnar að læra bringusund, flugsund, skriðsund og baksund. Þetta er alveg frábært og hann skemmtir sér voða vel.





Dansleikur

Síðast liðið föstudagskvöld var lokadansleikur hjá Tinnu Rut og hennar skólasystkinum. Þetta var alveg meiriháttar flott og allt dúlleríið í kringum þetta var ekkert smá. Hún þurfti að verða sér úti um kjól og fann hún saumakonu sem gat hannað kjól akkúrat eins og hún sjálf vildi. 

Að sjálfsögðu þurfti svo að finna skó sem fóru við kjólinn og eins veski. Svo þurfti að fara í handsnyrtingu, klippingu og litun. Allt þetta var verið að vinna í síðustu dagana fyrir dansleikinn. Á sjálfan daginn var byrjað á að fara í nudd, svo hárgreiðslu og förðun. Svo var búið að redda því að eldgamall Chevy kom og sótti þau. 

Þetta var svona "once in a life time" upplifun held ég.

Allt tilstandið var nú alveg þess virði því hún leit alveg rosalega vel út gellan :-) Tekur sjálfsagt eftir henni mömmu sinni þessi elska. 

Kvöldverðurinn og dansleikurinn tókust mjög vel og vorum við á staðnum til að verða miðnætti. Þá var nemendahópurinn farinn að þynnast því þeir vildu komast eitthvert þar sem foreldrar og kennarar væru hvergi sjáanlegir :-) Þannig að um miðnætti kom hún heim og skipti um föt og far svo rokin út á klúbb. Hún hafði fengið mig til að samþykkja það að þetta kvöld væri hún ekki með neinn útivistartíma og ætla ég ekkert að tjá mig um það hvenær stúlkan kom heim. En hún hélt reglunni okkar og sendi mér sms á klukkutímafresti allan tímann.

Hér eru nokkrar myndir af kvöldinu.









Komast aftur í blogg-gírinn

Ég hef verið alveg ótrúlega löt við að blogga undanfarnar vikur en ætla að reyna að bæta úr því hið fyrsta.

Það styttist óðum í það að Rúnar Atli verði fimm ára og var tekið forskot á sæluna um daginn. Við ákváðum að halda smá afmæliskaffi áður en Dagmar Ýr og Doddi fóru til síns heima. Rúnar var að sjálfsögðu alsæll með þetta fyrirkomulag og eins og myndirnar bera með sér var hann meira en sáttur við pakkana sem hann fékk.









fimmtudagur, 16. júlí 2009

Rökræðusnilld

Hann sonur minn á það til að vera ansi latur að gera hlutina sjálfur, svona eins og að klæða sig á morgnana eða hátta sig á kvöldin. Honum finnst voðalega gott að láta foreldra sína bara sjá um þetta. Mamman var eitthvað að flýta sér eitt kvöldið og bað hann nú að byrja að hátta sig sjálfur. Þetta var stutt samtal því ég varð bara kjaftstopp og vissi ekki í fljótu bragði hvernig ég átti að svara þessu.

Mamman: Rúnar minn þú ert orðinn svo stór strákur að þú átt að hátta þig sjálfur, þeir sem eru að verða fimm ára eiga að gera þetta sjálfir.

Rúnar Atli: Hvernig veistu það?


fimmtudagur, 18. júní 2009

Svartur dagur

Æi þá kom að því að við Villi þurftum að endurnýja örbylgjuofninn okkar. Þetta var orðið hið versta mál því heimasætan gat ekki poppað sér almennilega því ofninn var bara svo til hættur að virka. Það var ekki hætt að suða fyrr en nýr örbylgjuofn var kominn í hús. Ég fór tvisvar í búð að skoða nýjan grip en gat bara ekki ákveðið mig og fannst mjög erfitt að þurfa að kaupa nýjan. 

Ástæða þess að þetta var svona erfitt fyrir mig er sú að við Villi fengum þennan ofn í brúðkaupsgjöf fyrir tæpum 23 árum - takk fyrir. Ofninn hefur fylgt okkur Villa í þrjár heimsálfur og aldrei klikkað. Hann er algjör snilld - allt hægt að gera í honum og ég er sannfærð um að þrátt fyrir háan aldur þá er hann enn sá besti og fullkomnasti á markaðnum - ekki spurning. 

Vonandi er þetta ekki "omen" um það sem koma skal, þ.e. að fleiri breytingar og endurnýjanir séu í vændum eftir tæp 23 ár :-) 

mánudagur, 15. júní 2009

Snatt okkar mæðgna

Þá erum við mæðgur að fara að hitta saumakonu. Þannig er nefnilega mál með vexti að Tinna útskrifast sem stúdent í lok þessa árs en lokaballið verður í lok ágúst. Því eftir ágúst taka prófin við. En hún þarf sem sagt að láta sérsauma á sig kjól þessi elska. Hún fann myndir af rosaflottum kjólum og ætlar að athuga hvort saumakonan eigi eitthvað svipað munstur. 

Þetta lokaball er víst algjört spari-ball. Foreldrum er boðið í matinn og það verður gaman að sjá alla útskriftarnemana í sínu fínasta pússi.

sunnudagur, 14. júní 2009

Nokkrar myndir af fjölskyldunni (4/5)



Einbeitingin hjá Rúnari er gríðarleg enda verkefnið mikilvægt

Við Villi og Rúnar skelltum okkur í stutt ferðalag í mars
Svo bíð ég bara eftir því að Dagmar komi til okkar í júlí og þá tek ég fullt af myndum af öllum krökkunum 

Hannyrðir

Ég hef verið á fullu að sauma fallegan stóran jóladúk og er búin með aðalmunstrið en á eftir að falda hann og sauma munstur í hvert horn. En ég er strax farin að velta fyrir mér næsta verkefni og er eiginlega dottin niður á þennan dúk. 
Þetta er meiriháttar fallegur heklaður dúkur og hef ég m.a.s byrjað á honum nokkrum sinnum í gegnum tíðina, en alltaf gefist upp. En nú ætla ég sem sagt að gera aðra tilraun.



Brrrr

Nú þegar vetur er genginn í garð verður ansi kalt hér í húsinu. Hús hérna hafa ekki ofna, heldur reynir maður að hita upp með því að kveikja upp í arninum - nú eins kaupir fólk sér litla rafmagnsofna og notar þá. En hvað sem því líður er mjög kalt í húsinu okkar. Nú einn morguninn vorum við Rúnar að borða morgunmat og það var svo kalt að hann var í úlpu, með húfu og trefil, eins og sést á meðfylgjandi mynd. Það er frekar ónotalegt að byrja daginn svona

Þetta er nú alveg með ólíkindum

Það eru greinilegar nokkrar fréttirnar í vikunni sem komu mér á óvart. Hér er önnur frétt - það er reyndar ekki fréttin sjálf heldur að þetta skuli hafa verið með vinsælustu fréttum í liðinni viku á eyjunni. Ég meina kommmmon - er það virkilega svona fréttnæmt að einhver leikkona sé með harðar geirvörtur????

Jahérna

Flest á nú að banna eða takmarka, ég átti bara varla til orð þegar ég las þessa frétt í mogganum um daginn. Hér í Namibíu heilsast og kveðjast allir unglingar með því að faðma hvern annan. Það eru ekki bara unglingarnir sem faðmast heldur varð ég vör við það um daginn þegar ég fór með Rúnar í leikskólann að þar faðmast litlu krakkarnir líka þegar þeir hittast. 

Ég á erfitt með að skilja við hvað fólk er hrætt þegar unglingar/krakkar faðmast - ég meina hvað er vandamálið. Mér finnst þetta einmitt vera ljóst dæmi þess að krakkarnir eru öruggir með sig. Hver vill ekki byrja daginn á faðmlagi frá vini/vinkonu?? Mér finnst þetta bara frábært.

mánudagur, 27. apríl 2009

Veitingahús

Það kemur fyrir að við hjónin nennum engan veginn að elda kvöldmat og er þá bara farið út að borða. Við förum nú alltaf á hefðbundna veitingastaði - pizzur, steikhús, e.þ.h. -. Við höfum reyndar ekki um marga staði að velja því ekki allir fjölskyldumeðlimir eru sáttir við sömu veitingahúsin.

Um daginn reyndum við þó eitthvað nýtt og fórum á Owambo veitingastað í Katutura. Eftir að hafa lesið matseðilinn þótti mér nú öruggast að fá mér hvítvínsglas sem borið var fram í tréglasi :-) 

Á matseðlinum var margt á boðstólum eins og soðinn/steiktur kjúklingur, þurr fiskur, alls kyns mauksoðið grænmeti, geitarhaus, mopane ormar og eitthvað fleira. Allt var borið fram í tréskálum og diskarnir voru einnig úr tréi. Engin voru hnífapörin þannig að notast varð við guðsgaflana. Enda var komið með vatnsskál svo hægt væri að þvo sér um hendur áður en maturinn var borinn fram. 

Bekkirnir sem setið var á voru trjádrumbar sem búið var að skera út setur í og borðin voru bæði lítil og ansi nálægt moldargólfinu. Ég neita því ekki að eftir að hafa setið þarna í dágóða stund var ansi erfitt að koma sér aftur á fætur :-)

Ég get nú ekki sagt að ég hafi farið heim södd en þetta var mjög skemmtileg reynsla.


föstudagur, 24. apríl 2009

Alsæla

Ostar, kex, vínber, hvítvín og The best of Haydn á föstudagseftirmiðdegi - þetta er lífið :-)

sunnudagur, 19. apríl 2009

Orðaforði

Það verður nú að segjast eins og er að búseta okkar erlendis undanfarin 18 ár (með smá hléi) hafi haft áhrif á íslenskan orðaforða barnanna okkar. En við lásum alltaf mikið fyrir stelpurnar á sínum tíma og núna fyrir Rúnar Atla. Villi var svo séður að taka tvær góðar bækur með sér hingað út (svona fyrir utan allar hinar). En þessar tvær heita "sögur afa og ömmu" og "sögur pabba og mömmu". Þetta eru bækur sem voru gefnar út fyrir um 40 árum og orðanotkunin er oft skrítin fyrir okkur nútímabörnin. En Rúnar hefur voða gaman af þessum sögum og ég held að Villi hafi jafn gaman af því að lesa sögurnar fyrir hann. 

Í gær vorum við eitthvað að spjalla saman, hann, ég og Villi. Þá heyrist í mínum "ég ætla að skipta um roð". Ha?? Við Villi vorum nú ekki alveg að fatta þetta og reyndum að spurja hann aðeins út í þetta. Kom þá í ljós að hann hafði skipt um skoðun. En ruglað þessu svona saman - spurning hvort orðaforða-kennsla okkar Villa sé ekki að virka he he :-) 

fimmtudagur, 5. mars 2009

Þetta gerist ekki betra

Hann sonur minn getur verið alveg yndislegur - svona inn á milli :-)

Í dag var ég inni eldhúsi og hann er hlaupandi fram og til baka á fullu. Svo allt í einu stoppar hann og segir við mig "mamma, ég elska þig sannarlega mikið". 


Mér finnst sólin góð!!

Ákvað að blogga um elsku sólina og sjá hvort það hafi áhrif á veðrið :-) Heyrði reyndar í útvarpinu í morgun langtímaveðurspá fyrir Windhoek og það á að rigna fram á þriðjudag í næstu viku, þann dag á að vera þurrt - jahúúúuu. 

Svo er bara spennandi hvað gerist eftir það. 

mánudagur, 23. febrúar 2009

Mér finnst rigningin góð!!

Það hefur rignt alveg ótrúlega hérna undanfarnar vikur og stundum verður manni bara ekki um og ó. Þrumurnar og eldingarnar eru alveg meiriháttar og úrhellið sem fylgir er frábært. 

Þegar rignir svona mikið þá verða sumar göturnar erfiðar yfirferðar og m.a.s. lokar Nelson Mandela oft þegar þannig stendur á. Ég þrusa dæjanum mínum í gegnum þetta allt saman og Rúnar finnst það alveg "stórkostlegt" svo ég noti hans eigin orð. Í dag kom svo í ljós að númeraplatan að framan af kagganum mínum er horfin og hefur sennilega dottið af í einhverri ferðinni í gegnum vatnselginn :-) Ég verð greinilega að fara varlegar með elsku bílinn minn.

Læt tvær myndir fylgja með sem teknar eru af pallinum hérna en þær ná samt ekki alveg að sýna úrhellið. 

Lego æði

Nú er Rúnar Atli gjörsamlega dottinn í Lego-ið. Honum finnst alveg æði að sitja og búa til bíla, gröfur, nú eða þyrlur. Það er góð leikfangabúð hérna í borginni sem selur Lego og þangað vill Rúnar fara reglulega og helst annan hvern dag. Við förum nú ekki alveg svona oft með hann þangað en Tinnu Rut finnst við þó fara alveg nógu oft með hann. 

Um hverja helgi spyr hann hvort við þurfum ekki að fara í Sam hobby´s - stundum gefum við eftir og skreppum og skoðum og jú jú oft kaupum við eitthvað Lego. Hérna var hann nýbúinn að fá þyrluna sína. Hann var svo ánægður því hann var lengi búinn að sverma fyrir henni, okkur hefur fundist hún vera of stór en svo kom stóri dagurinn og hann fékk að kaupa hana. Það eru mörg hundruð kubbar, pínulitlir og "skemmtilegir" í kassanum. Það tók hann um hálfan dag að setja þyrluna saman og um leið og hann var búinn vildi hann taka hana í sundur til að byrja aftur. Foreldrarnir voru nú ekki tilbúnir í það fyrr en daginn eftir. Því þó hann setur dótið saman þá þurfum við að taka það í sundur.








mánudagur, 16. febrúar 2009

Einn þreyttur

Eitt kvöldið í síðustu viku ætluðum við út að borða á Joe´s Beerhouse með fullt af fólki. Rúnar var voða spenntur því eins og hann segir sjálfur þá elskar hann Joe´s. Hann fékk að horfa á Latabæ þangað til tími var kominn til að fara. Svo sirka 15 mín fyrir brottför förum við að tékka á gæjanum og þá blasti þessi sjón við okkur. Hann var steinstofnaður á grjónapungnum og klukkan ekki orðin 18.30. Við Villi sáum okkur leik á borði að komast út án hans og Tinna var sett í það að passa. Það fyrsta sem hann sagði daginn eftir var: "en við gleymdum að fara á Joe´s"


þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Síðbúin afmælisgjöf

Þessi vel gifti kom heim færandi hendi um daginn. Haldið þið ekki að hann hafi fært mér þessa flottu digital myndavél í síðbúna afmælisgjöf :-) En eins og þeir sem vel til þekkja vita þá á ég afmæli að vori. En það var voða gaman að fá pakka og myndavélin er rosalega flott - bleik - geggjuð.

Ég er að æfa mig á hana þessa dagana og fer svo að drita inn myndum :-)

laugardagur, 17. janúar 2009

Ja hver fja.....

Um daginn heyrist í syninum "mamma, af hverju ertu ekki eins og barbie?". Mamman verður nú bara gjörsamlega orðlaus og kjaftstopp og veltir fyrir sér hvort krakkinn sé kominn með vaxtarlag mömmunnar á heilann (sbr færslu hér um daginn). Ég vissi ekki hvernig ég ætti að svara svona spurningu og ákvað bara að eyða henni og fara að tala um eitthvað allt annað :-) Þar sem það er svo auðvelt að breyta umræðuefni svona ungra krakka þá gekk það bara mjög vel og við fórum að tala um eitthvað allt annað.

Það var svo í dag sem ég fékk skýringu á þessum ummælum sonarins. Feðgarnir höfðu keypt geisladisk í fríhöfninni á Íslandi þegar við vorum að leggja af stað til Namibíu. Geisladiskurinn heitir Gilligill og er barnadiskur með Valdimar Skúlasyni og Memfismafíunni. Þennan disk hlusta feðgarnir alltaf á á morgnana á leiðinni í skólann og eitt lagið á diskinum heitir svo skemmtilega "Mamma og Barbie" og í því lagi er m.a. spurt hvers vegna mamman geti ekki verið eins og Barbie. Þar kom skýringin :-)

En þetta er meiri háttar góður diskur og lagið "Pabbi minn er ríkari en pabbi þinn" er á honum og er snilld.

föstudagur, 9. janúar 2009

Sushi

Nú er búið að stofna klúbb kvenna sem hafa farið reglulega saman í sushi í Namibíu. Þær sem búa á Íslandi fara stundum í sushi hér heima og eins er alltaf farið þegar ég kem heim. Klúbburinn fékk þetta fína nafn: HNSVF - Hnamibíska sushi vinafélag - takk fyrir. Í kvöld var svo stofnfundur félagsins og við mættum, sjö kellurnar, á efri hæðina í Iðu og fengum okkur ljúffengan sushi. Þetta var frábært og þegar upp var staðið lágu sjö diskar hjá hverri, úff :-) En þeir sem til þekkja vita auðvitað að diskarnir eru alveg sérlega litlir og lítið á hverjum diski - he he. En þetta er mjög gaman. Félagið fékk meira að segja sitt eigið tákn (fyrir þá sem tala táknmál) :-)

Gaman að þessu

Algjört æði

Í gærkveldi fór ég í Háskólabíó til að hlýða á Vínartónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þetta var alveg meiri háttar. Ég bauð eiginmanninum með mér en þegar til kom gat hann ekki farið - hann tók vinnuna framyfir kvöldstund með konunni. En ég á svo góða vinkonu sem gat farið með mér :-)

En svona í alvöru þá var þetta alveg meiri háttar og ég var með endalausa gæsahúð. Það er pottþétt að ég fer aftur um næstu áramót.

laugardagur, 3. janúar 2009

"Maga-mál"

Var að byrja að elda kvöldmatinn í kvöld og þurfti nokkrum sinnum að fara í búrið til að sækja ýmislegt til þess. Í eitt skiptið rakst ég utan í einn fjögurra ára sem var að þvælast þar. Heyrist þá í gæjanum: "Mamma ertu með svona stóran maga? Ertu með barn í maganum?"

Ef þetta rekur mann ekki í ræktina þegar ég kem heim þá veit ég ekki hvað mun koma mér þangað :-)