Powered By Blogger

laugardagur, 24. nóvember 2012

Smá samantekt

Það verður að segjast að ekki hef ég gefið mér mikinn tíma í bloggskriftir undanfarið. Í byrjun september hófst undirbúningur í kvenfélaginu vegna fjáröflunarinnar okkar sem fram fór þann 3ja nóv s.l. U.þ.b. átta vikum fyrir basarinn snérist allt um undirbúning, enda er þetta okkar helsta fjáröflun fyrir árið og það veltur á útkomunni hvort okkur tekst að halda áfram aðstoð við verkefnin okkar á næsta ári.

Þessi basar gekk svona líka rosalega vel og við náðum að safna 2,6 milljónum kvacha sem á gengi dagsins reiknast mér að sé sirka 1,1 milljón íslenskra króna. Við kvenfélagskonur erum afskaplega ánægðar með árangurinn og sjáum fram á að geta haldið stuðningi okkar áfram næsta árið við öll verkefnin okkar og nú er ég að reikna út hvort við getum hækkað stuðning við einstök verkefni um allt að 30% því gengisfellingin fyrr á þessu ári hefur farið illa með mörg verkefnin.

Um leið og basarinn var búinn þá var PTA í skólanum hans Rúnars með sína fjáröflun (ein af þremur stórum yfir skólaárið) og þar er ég líka ansi virk. Sú fjáröflun fór fram 9. nóv og gekk líka vel. Þar sem ég er gjaldkeri í PTA þá þurfti ég nokkra auka daga eftir fjáröflunina til að gera upp og ganga frá fjármálunum. En ég er loksins búin að senda frá mér uppgjör og þess háttar og þarf ekki að gera meira í PTA fyrr en í janúar :-)

Einhvern veginn gefst ekki mikill tími í afslöppun hérna í Malawi, það er alltaf eitthvað í gangi. Sem formaður í verkefnanefnd kvenfélagsins þá reyni ég að fara í reglulegar heimsóknir í verkefnin - þessar heimsóknir eru meiriháttar. Maður kynnist Malawi öðruvísi, og raunverulegra, með þessum heimsóknum. Í morgun var ég t.d. viðstödd jólahátið gamla fólksins í St. Mary's Rehabilitation Centre (sem ég mun blogga um síðar).

Hvolparnir okkar dafna mjög vel og eru orðnir pattaralegir og hlaupandi um allt. Þeir eru í endalausum áflögum og skemmta sér greinilega mjög vel. Í gærkveldi fór ég í jólapartý hjá Hádegisverðaklúbbnum mínum og þegar ég kom heim um miðnætti átti ég erfitt með að komast út úr bílnum fyrir hundum. Sjö hundar og einn köttur tóku yndislega á móti mér og það var ekki auðvelt að komast út út bílnum án þess að stíga ofan á einhvern þeirra :-)

Vatnsvandræði halda áfram hjá mér og suma daga er bara ekkert vatn að fá. Þegar slíkt ástand hefur varað í nokkra daga þá neita ég því ekki að skapið í minni er ekki alveg upp á það besta. Satt að segja öfunda ég oft Filimone (garðyrkjumanninn minn) því fyrir utan húsið hans er þessi fíni brunnur - með hreinu vatni.

Bensínskortur er aftur orðinn til mikilla vandræða í landinu. Bensíntankurinn í mínum bíl er farinn að öskra á bensín en þar sem ekkert fæst þá sjálfsagt hægir um hjá mér því ég kemst ekkert :-) Ég á reyndar bensín á brúsa en ég bara tími varla að nota það - því rafallinn þarf líka bensín. Ég reyni þó að nota rafalinn sem allra minnst (til að spara bensín) og þegar við Rúnar Atli erum ein heima og rafmagnið fer af eftir kvöldmat þá förum við bara upp í rúm og sleppum þar með að kveikja á rafalinum.

Matjurtagarðurinn minn er ekki svipur hjá sjón þessar vikurnar vegna vatnsskorts - hann er bara tómur, fyrir utan kryddjurtir. En Filimone ætlar að vera duglegur í garðinum á meðan ég er á Íslandi og vonandi rignir vel svo það verði eitthvað ætilegt í janúar þegar ég kem út aftur :-)

Nú eru bara 13 dagar í brottför og satt að segja hlakka ég ansi mikið til :-) Það verður fínt að komast í umhverfi þar sem nóg er af vatni, bensíni og rafmagni. Við erum nú í ansi góðum málum á Íslandi :-)

mánudagur, 15. október 2012

Elskulegur sonur

Í dag er Mæðradagurinn hér í Malawi og því frí í skólanum. Rúnari fannst nú ekki slæmt að fá langa helgi :-)

Villi er á ferðalagi og þegar hann er ekki heima þá er reglan sú að Rúnar fær að kúra hjá mér - alveg yndislegt. Í gærkveldi þegar við erum alveg að sofna þá fer hann að nudda bakið á mér og segir svo við mig "mamma, ef það væri mæðradagur í dag þá mundi ég nudda bakið þitt í heilan klukkutíma. En það er ekki mæðradagur svo ég ætla ekki að gera það." - Það er nefnilega það :-)

Hann hafði föndrað kort fyrir mig í skólanum í síðustu viku svona í tilefni dagsins og í morgun færði hann mér það. Þetta eru hendur klipptar út og þegar kortið er svo brotið saman myndast hjarta í miðjunni - mjög flott. Svo hafði hann skrifað á það hamingjuóskir í tilefni mæðradagsins og inn í kortið skrifað hann að ég væri besta mamma í heiminum og ætlaði að tilgreina 10 ástæður fyrir því. Hann útbjó sem sagt 10 línur til að fylla svo út. Heyrið þið, hann gat bara fundið upp fimm ástæður svo hann strikaði bara út síðustu fimm línurnar :-)

sunnudagur, 14. október 2012

Bara yndislegt

Um daginn var verið að kjósa bekkjarfulltrúa í skólanum hjá Rúnari. Ég veit nú satt að segja ekki alveg hvað þessir bekkjarfulltrúar gera, en... Þeir nemendur sem vildu fara í framboð urðu að semja framboðsræður og lesa þær upp fyrir bekkinn sinn. Rúnar tók þessu mjög alvarlega og sat heilan eftirmiðdag við það að semja sína framboðsræðu - því hann vildi sko verða kosinn. Hann samdi fína ræðu sem hann svo las fyrir sinn bekk.

Eftir að hafa hlustað á allar ræðurnar fóru svo kosningarnar fram. Þegar til kom, kaus hann ekki sjálfan sig og ástæðan - jú honum leist betur á ræðu sem ein bekkjarsystir hans hélt. Ræðan hennar var víst lengri en hans ræða og eitthvað aðeins betri fannst honum. Þannig að ekki gat hann kosið sjálfan sig :-) Mér finnst þetta alveg yndislegt.

Í tveimur efstu sætunum voru stelpur og sú sem hann kaus vann. Rúnar kom svo þriðji og hann var bara nokkuð ánægður með sig :-)

laugardagur, 15. september 2012

Með betri fæðingardeildum í Malaví

Kunningjakona mín ein, Harriett, er formaður Samtaka malavískra hjúkrunarfræðinga og bauð hún mér á skrifstofuna sína í gær til að segja mér frá ýmsum verkefnum sem þessi samtök vinna að. Allir útskrifaðir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður verða að skrá sig í þessi samtök og borga árgjald. Í staðinn sjá samtökin m.a. um samningamál og ýmis réttindi þeirra. Í fimm ár hafa þessi samtök verið studd af Félagi norskra hjúkrunarfræðinga og hafa þau byggt sér skrifstofuaðstöðu hér í borginni. Þar fer fram þjálfun, fyrirlestrar og fleira í þeim dúr.

Í malavísku hjúkrunarsamtökunum eru rúmlega 8.000 hjúkrunarfræðingar og ljósmæður skráðar en aðeins um 4.000 þeirra eru virkar og starfa sem slíkar. Af þessum rúmlega 4.000 virku hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum lifa u.þ.b. 400 þeirra opinskátt með alnæmi. Samtökin veita þessum meðlimum mikla aðstoð, aðallega með sálrænum stuðningi. Eins hvetja samtökin þessa smituðu hjúkrunarfræðinga og ljósmæður til að halda fyrirlestra fyrir aðra meðlimi og veita þeim aðstöðu fyrir slíkt.

Annað sem samtökin gera er t.d. að þjálfa hjúkrunarfræðinga og ljósmæður og undirbúa þær í að fara út í þorpin í kringum landið. Þar eru aðstæður vægast sagt frumstæðar. Ennfremur styðja samtökin við bakið á þeim hjúkurnarfræðingum og ljósmæðrum sem vilja setja á laggirnar eigin heilsugæslustofu eða fæðingardeild til að ná til fleiri kvenna. Til að setja slíkt á stofn þarf að sjálfsögðu fjármagn og samtökin reyna að finna tengiliði sem gætu stuttu fjárhagslega við slíkt.

Hátt hlutfall mæðradauða hér í Malawi er helst skýrt með háu hlutfalli heimafæðinga þar sem mikill skortur er af fæðingardeildum og heilsugæslum um landið. Við heimafæðingar sjá sjálfmenntaðar ljósmæður oftast um fæðinguna. Jafnframt fara mjög fáar malavískar konur í mæðraskoðun. Þetta tvennt, þ.e. heimafæðingar og engin mæðraskoðun, er helsta ástæða fyrir háu hlutfalli mæðradauða í Malawi, samkvæmt Harriett.

Þegar upp koma vandamál við fæðingar þá er ekki óalgengt að verðandi móðir sé flutt í hjólbörum, með barnið hálf- eða alkomið út, á næsta sjúkrahús. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig slíkt endar oftast fyrir bæði móður og barn.

Yfirvöld hafa sett nýja stefnu til að reyna að draga úr mæðra- og ungbarnadauða og eru fæðingar í heimahúsum nú bannaðar og eins megar þessar sjálfmenntuðu ljósmæður ekki taka á móti börnum. En þar sem enn er mikill skortur á fæðingardeildum í þorpum landsins og starfandi ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum þá halda konur áfram að eiga börnin sín heima og leita til þeirra sjálfmenntuðu.

Í gær bauð Harriett mér að heimsækja fæðingardeild í einu hverfi borgarinnar. Þetta er mjög fjölmennt og afskaplega fátækt hverfi, hverfi 23. Þessi fæðingardeild var stofnsett árið 2008 af konu að nafni Charity. Charity er ljósmóðir og hafði unnið sem slík í mörg ár. Hún vann mikið í hverfi 23 og fór þá heim til kvennanna þegar komið var að fæðingu. Engin fæðingardeild var í þessu hverfi og það er þónokkur vegalengd að næsta sjúkrahúsi svo heimafæðingar voru almennar. 

Draumur Charity var að stofnsetja fæðingardeild í hverfinu og geta þannig náð til fleiri kvenna og að hvetja þær til að koma í mæðraskoðun. Á þessum fjórum árum síðan Charity opnaði hefur hún tekið á móti u.þ.b. 4.000 börnum og enn hefur hún ekki misst neina móður. Charity hefur fengið styrki frá Félagi skoskra hjúkrunarfræðinga og gat hún keypt sér lítinn bíl til að geta komið mæðrunum á spítalann ef og þegar vandamál koma upp í fæðingu.

Það var mjög gaman að fá að skoða aðstæður á þessari fæðingardeild og ég tók fullt af myndum og set margar þeirra hér inn - svona fyrir hjúkrunarfræðinginn okkar fyrir vestan. Svo hann geti borið saman aðstæður :-)


Þetta er fæðingardeildin, Chipatala. Auk fæðingardeildar, býður Charity upp á mæðraskoðun, ungbarnaeftirlit, eftirskoðun fyrir mæðurnar, eins veitir hún mæðrum ráðgjöf um hvaða getnaðarvarnir eru í boði og hvað hentar hverri og einni. Hún hvetur feður til að mæta í slíka ráðgjöf og einhverjir þeirra mæta. Eins hvetur hún feður til að vera viðstadda fæðingar til að gera sér grein fyrir því hvað móðirin þarf að ganga í gegnum og til að ýta undir að þeir myndi strax tengsl við nýfædd börn sín.


Hér erum við stödd í skoðunarherberginu og er þetta lyfjaskápurinn - heldur tómlegur. Í þessu herbergi fer fram mæðraskoðun, ungbarnaeftirlit, ráðgjöf og eftirlit mæðra.

 Skoðunarbekkurinn í því herbergi.


Hreinlæti er að sjálfsögðu mjög mikilvægt og þar sem ekkert rennandi vatn er í húsinu útbjó Charity þennan „vask“ í skoðunarherberginu.


Nú erum við komin í fæðingarherbergið. Hér eru tvö fæðingarrúm og þessi „snyrtiaðstaða“ er á milli rúmanna. Svona ef konan þarf á klóið í miðri fæðingu.


Hér má sjá bæði fæðingarrúmin og svunturnar, sem ljósmóðirin setur á sig við fæðingar, eru tilbúnar.


Hér eru börnin vigtuð og allt er skráð í þar til gerðar bækur. Í lok hvers mánaðar þarf Charity svo að geta yfirvöldum skýrslu þar sem fram kemur fjöldi fæðinga, aldur móður, hve mörg börn hún á, hvernig fæðingin fór fram, voru notuð lyf og ef svo hvaða lyf, og fleira í þeim dúr.


Í þetta rúm eru börnin sett eftir fæðingu á meðan móðirin þrífur sig og gerir sig klára.


Undir barnarúminu eru geymdir nokkrir plastdunkar. Í þessa dunka eru þau áhöld sett sem notuð eru við fæðingar. Þetta er sótthreinsiferlið fyrir áhöldin, notuð áhöld - klórvatn - hreint soðið vatn.


Í þessum plastdunki eru litlir taupokar og í þessum pokum eru svo áhöldin sett eftir sótthreinsun og eru þá tilbúin fyrir næstu fæðingu.


Í þessum lyfjaskáp eru öll bóluefnin geymd.


Í þessum lyfjaskáp, við erum enn í fæðingarherberginu, eru geymd þau lyf sem verða að vera í kæli. Þær konur í hverfinu sem eru á eyðnilyfjum frá spítalanum geta komið til Charity og hún geymir þau lyf fyrir þær. Því húsin hafa ekkert rafmagn og þ.a.l. engan ísskáp.


Enn erum við í fæðingarherberginu. Í þessum dunkum er m.a. klór til sótthreinsunar, hreint vatn, notaðir plasthanskar fara í einn dunkinn, í annan eru fylgjurnar settar, o.s.frv.


Nú erum við komin í hvíldarherbergið. Hér eru þrjú rúm og gert er ráð fyrir að konur liggi þarna í sex klukkutíma eftir fæðingu, svo mega þær fara heim. Þegar ég kom voru tvær nýfarnar heim.


Í þessari plasttunnu bak við hús eru vatnsbirgðir fæðingardeildarinnar geymdar.


Í bakgarðinum er líka þessi „fylgju-hola“. Það er mikilvægt að losa sig við fylgjurnar á hreinlegan og öruggan hátt. Þarna stendur Charity ofan á fylgjuholunni. Þetta er djúp hola með steinhellu ofan á og þarna er öllum fylgjum hent ofan í. Einu sinni í viku er svo hellt klór yfir til að varna því að það komi lykt eða flugur. Það er víst mjög mikilvægt að enginn viti hvar fylgjunum er fargað því þær eru notaðar í alls kyns skottulækningar og galdraathafnir.


Charity er einnig með skráð hjá sér um 400 vannærð börn yngri en fimm ára gömul. Þau koma til hennar þrjá morgna í viku og fá graut sem gerður er úr þessu mjöli. Þetta er blanda af maísmjöli, muldum steiktum hnetum og sykri. Þetta er svo hrært út í heitu vatni.


Þetta er eldunaraðstaðan fyrir grautinn.

Það var mjög forvitnilegt að fá að heimsækja fæðingardeildina. Það er alveg sama hvað maður heyrir oft um erfiðar aðstæður og þess háttar. Það er aldrei það sama og að sjá með eigin augum. 

Charity rukkar K1.000 fyrir hverja fæðingu, það er um 500 kr. Hins vegar eru mjög fáar konur sem hafa efni á að borga þannig að hún fær ekki mikinn pening. Einnig rukkar hún K50 (um 25 kr) fyrir hverja máltíð sem börnin fá. Sá peningur sem hún fær með þessu tvennu fer í að borga húsaleigu sem er um K30.000 (15.000 kr) á mánuði plús rafmagn. Svo til öll hennar innkoma fer í þetta tvennt. Eins þarf hún stundum að borga annarri ljósmóður fyrir að koma inn og leysa sig af. 

Í hverjum mánuði fær hún um K40.000 (20.000 kr) frá Skoska hjúkrunarfélaginu og sá peningur nær að greiða fyrir mjölið fyrir þau 400 börn sem hún gefur að borða. En fjöldi vannærðra barna í þessu hverfi er mikill og um leið og börn hafa náð þokkalegri þyngd detta þau út úr þessu prógrammi en ný koma í staðinn.

Charity og hennar fæðingardeild eru ekkert einsdæmi, þær eru þó nokkrar sem eru að gera svipaða hluti og Charity. Að mínu mati eru það konur eins og Charity sem eru hinar sönnu hetjur. Ég skil ekki hvernig þær viðhalda orkunni og ná að gera þetta daginn út og daginn inn alla daga ársins í mörg ár. Þær fá engin laun, og flestar borga margt úr eigin vasa. Endalausar áhyggjur af því hvaðan þær fá pening til að halda áfram næsta mánuð hlýtur að vera hræðilega lýjandi. En einhvern veginn halda þær áfram og eru alltaf brosandi og í góðu skapi. 

Charity í er í góðu samstarfi við „yfirvöld“ í hverfinu. Þessi yfirvöld eru allt karlar og eru höfðingjar síns þorps (þaðan sem fjölskyldan þeirra kemur frá). Saman mynda þau nokkurs konar stjórn þessa fæðingardeildar og nú er búð að koma mér í þessa stjórn. Það verður forvitnilegt að kynnast því hvernig stjórnin vinnur og hvað höfðingjarnir nákvæmlega gera til að létta Charity lífið.

Sumarblóm

Ég er ansi hreykin af þessum blómum. Við settum niður sólblómafræ í grænmetisgarðinum því hann er bakvið hús og hænurnar komast ekki í hann. Þær eru nefnilega svona við það að eyðileggja framgarðinn fyrir mér með því að grafa upp öll fræ og éta  :-)

En mér finnst sumarblóm meiri háttar falleg og þessi eru orðin um 160 cm há. Það er ca vika síðan ég tók þessar myndir og núna eru komin fleiri blóm. Ég kannski hendist út í dag og tek fleiri myndir.


sunnudagur, 9. september 2012

"Hreinn" og sæll

Nei þetta er ekki málning á krakkanum, eins og maður gæti haldið.


Eins og Villi bloggaði um um daginn þá vorum við vatnslaus í einhverja daga. Svoleiðis smámunir stoppa nú ekki Rúnar Atla af í neinu og hann skellti sér út í garð að leika sér, bara eins og venjulega. Svona kom gaurinn inn og nú voru góð ráð dýr því þetta var áður en við fengum vatnstunnurnar :-) Ég endaði með að nota dýrmætar drykkjarvatnsflöskurnar okkar í að þrífa hann, svona eins og hægt var. En sem betur fer er nú vatnið komið aftur á fullt.

miðvikudagur, 5. september 2012

St. Mary's Rehabilitation Centre

Eins og ég hef nefnt áður er ég meðlimur í IWAM sem stendur fyrir International Women Association of Malawi. Þessi samtök stunda fjáröflun til að styðja ýmis kvenna- og barnaverkefni hér í Malawi. Eitt þessara verkefna sem við höfum verið að styðja við kallast St. Mary's Rehabilitation Centre. Þessu verkefni er stjórnað af nunnum frá Indlandi og Spáni. Þarna búa að staðaldri 122 munaðarlaus börn, á laugardögum koma svo önnur munaðarlaus börn úr nærhverfinu sem búa þó hjá fjölskyldum sínum og fá þau mat og föt. Eins reka þessi samtök fimm hreyfanlegar heilsugæslur. Á staðnum er einnig heilsugæsla þar sem er starfandi læknir. Auk þessa, koma 240 eldri borgarar einu sinni í mánuði og fá morgunmat og 10 kílóa poka af maísmjöli.

Þetta er mjög fallegur staður og gaman að heimsækja þessi samtök og hitta nunnurnar og eldri borgarana. Andrúmsloftið þarna er yndislegt og bara gott að vera þarna. Í síðustu viku fórum við nokkrar úr IWAM í heimsókn og tók ég þessar myndir þá.

Nunnurnar hugsa vel um garðinn sinn og blómin. Eins eru þær með mjög stóran grænmetisgarð sem veitir ekki af því þær sjá um mörg börn.

Gamla fólkið mætir snemma þann dag mánaðarins sem þau koma í mat. Á hverju ári eru þeim gefin ný föt (nokkurs konar einkennisbúningur). Allir eiga að mæta í þessum búningi og vera hreinir og snyrtilegir.

 Svo setjast allir í fínar raðir og bíða eftir matnum.

Það er eldaður nokkurs konar hafragrautur í tveimur svona stórum pottum eins og sést á þessari mynd. Það dugar til þess að allir geta fengið sér tvisvar á diskinn.

Þennan dag fengu allir aukaglaðning, fengu poka með salti, kryddi, elspýtustokk, handsápu og þvottaefni. Þetta vakti mikla gleði og var mikið sungið og þessi gamli maður varð svo glaður að hann steig dans fyrir okkur.

 Allir bíða kurteisir og þolinmóðir eftir því að röðin komi að þeim.


Þegar maturinn er búinn fá allir 10 kílóa poka af mjöli með sér heim. Mikið af þessu gamla fólki sér um barnabörnin sín og eru með marga á framfæri. Því veitir þeim sko ekki af þessum mjölpoka en ég velti oft fyrir mér hve lengi hann dugar. En þetta er þó betra en að fá ekkert og bjargar mörgum.

Ég skil nú ekki hvernig þau fara að því að bera 10 kíló á höfðinu og sumir eru reyndar það gamlir að ættingi bíður fyrir utan og tekur pokann fyrir þau. En flestir taka þetta á hausinn og ganga langar leiðir heim, allt upp í nokkra kílómetra.


Flestir þeirra sem mæta eru um og upp úr 70. Sá elsti sem er skráður í þetta prógramm er fæddur 1916 en hann er of lasburða til að mæta svo ættingi hans mætir og tekur 10 kíló pokann heim fyrir hann. 

Matarprógrammið fyrir eldra fólkið var stutt af Spáni en eftir efnahagshrunið urðu þeir því miður að draga í land (eins og fleiri) og hættu stuðningi við þetta prógramm. En það var alls ekki hægt að bara hætta með þetta því oft á tíðum er þetta eina örugga máltíðin sem gamla fólkið fær í einhverja daga. Þannig að það var farið í að safna peningum fyrir hvern mánuð. Það kostar um 13.000 ísl krónur á mánuði að halda þessu prógrammi gangandi. Við í IWAM reynum að finna fólk eða fyrirtæki til að styðja þetta verkefni mánuð fyrir mánuð og Kvenfélagið á Suðureyri borgaði fyrir maímánuð á þessu ári. Í janúar n.k. mun svo Eygló tengdó borga fyrir matinn þann mánuðinn. Ástarþakkir fyrir það Eygló og Jóhanna :-)

Þarna erum við nokkrar úr IWAM ásamt Sister Rosmary (önnur frá vinstri) hún er reyndar að hætta og flytja aftur til Indlands. Sister Lissy situr á miðri mynd og hún mun taka við stjórninni.