Powered By Blogger

mánudagur, 29. ágúst 2011

Sally skoðar heiminn

Það hefur gengið vel með Sallý (köttinn) og Snapper/Snúllu (hundurinn). Þau virðast vera að aðlagast nýju heimili og nýju fólki alveg þokkalega vel. Sally er inniköttur sem gerir þó þarfir sínar úti - við vorum ánægð með að vera laus við kassa og sand og þess háttar skemmtilegheit.

Sally hefur þó varla þorað út úr húsið síðan hún kom hingað. Hún fann sér fínan stað undir rúminu hans Rúnars og þar virðist fara vel um hana. Við höfum reynt að lokka hana út og af og til borið hana út og um leið og við höfum sleppt henni er hún rokin inn aftur. Ég var farin að velta fyrir mér hvar í ósköpunum hún gerir þarfir sínar.

Ég hafði ekki fundið neina kattarhlandslykt eða neitt slíkt og ekki þorði hún út, þannig að þetta var orðið forvitnilegt.

Í morgun kom svo í ljós hvað mín hafði gert. Hún hafði hoppað upp á kommóðu og komið sér fyrir á fötunum hans Villa og pissað þar. Svo gerði hún enn meira á mottuna og moskítónetið hjá honum, úff eins og hann er nú mikið fyrir ketti :-)

En í morgun þorði hún loksins að stíga sjálf út úr húsi og út á stétt. Hún hafði farið þrisvar sinnum út fyrir kl. 7, bara til að skoða heiminn. Hún fór nú ekki lengra en út á stétt, en þetta er vonandi skref í rétta átt hjá henni.

miðvikudagur, 24. ágúst 2011

Fjölgun í fjölskyldunni

Það fjölgaði heldur betur í fjölskyldunni í dag. Við fengum 15 yndislega krúttaralega hænuunga. Í mínum huga áttu þeir að vera pínulitlir og gulir, en reyndin var nú aðeins önnur. Þeir eru dökkgráir og heldur stærri en ég hafði gert mér í hugarlund. En þeir eru yndislegir.

Við, ég og Philomon (garðyrkjumaðurinn) komum þeim fyrir í kassa og settum ljósaperu ofan í kassann til að halda á þeim hita. Og settum sag í botninn. Svo þurfti ég að fara í Landbúnaðarráðuneytið til að kaupa vítamín og bólusetningarlyf fyrir þá. Konan sem ég talaði við þar spurði hve marga ég hefði fengið. Ég svaraði því til að mér hefði fundist 15 stykki vera fín tala. Nei nei, hún hélt nú ekki. 30 hænur væru fín tala :-) En ég læt mér nú duga þessar 15, alla vega svona í byrjun.

Þeir geta verið í þessum kassa í ca þrjá mánuði en að þeim tíma liðnum verð ég að vera búin að útbúa hænsnakofa fyrir þá.

Svo er bara að vona að þeir týni ekki tölunni hjá mér. Það er víst ekki óalgengt að þeir drepist úr kulda, en þar sem vorið er komið og farið að hitna þá ætti þetta að vera fínn tími fyrir hænuunga. Eins eiga krákurnar það til að grípa hænuunga, því þarf að passa upp á að þeir komist ekki út á meðan þeir eru svona litlir.

Ég ætlaði að setja mynd af þeim hérna á bloggið, en ég man ekkert hvar myndavélin mín er. Svo það verður að bíða betri tíma.

þriðjudagur, 23. ágúst 2011

Ævintýri úr umferðinni

Eins og gengur þarf ég reglulega að fara í bæinn og versla í matinn og þess háttar. Þetta hefur valdið mér nokkrum áhyggjum því ég er enn að læra að rata og eins er umferðin hérna í Lilongwe all sérstök. Það eru nokkur umferðarljós í bænum og ekki öll virka. Þannig að þó maður lendi á grænu ljósi þá er svo sem ekkert endilega víst að það sé grænt á mann. Alla vega virðast aðrir bílstjórar - sem koma þá þvert á mig - ekkert viðurkenna það að það sé grænt á mig. Heldur bara vaða þeir áfram. Svo eru ein ljós sem virka bara alls ekki. Þetta virkar oft frekar eins og 4 way stop. En hvað um það.

Eitt gott ráð virðist vera að bara vaða áfram - því einhver mun þurfa að slaka á svo ekki verði slys. En sá sem slakar á mun hins vegar þurfa að bíða í þó nokkra stund áður en hann kemst áfram aftur. Þannig að ég reyni núna eins og ég get að bara láta mig vaða áfram.

Ég þekki orðið leiðir í nokkrar búðir og eins heim til hinna Íslendinganna sem búa í borginni. Ég er þó nokkuð viss um að ef ég myndi reyna að bæta við einn leið í viðbót í heilabúið á mér þá myndi eitthvað annað detta út :-) Það er bara ekki pláss fyrir meira í bili. Alla vega þangað til ég er orðin öruggari á þessum leiðum sem ég nú rata.

Þegar ég fer í bæinn þá þarf ég alltaf að fara eina ákveðna götu. Sú gata er rosaleg. Þetta er stutt gata en maður keyrir hana ekki hraðar en á ca 10 eða 20. Það eru svakalegar holur. Þær eru bæði djúpar og breiðar og væri reyndar réttara að segja að þetta væru holur með smá malbiki á milli og þá helst á miðju götunnar. Ég fæ alltaf verki þegar ég fer þessa götu og reyni að sikk sakka á billi holanna, en það er ekki nokkur séns að losna framhjá þeim. En Dæjinn minn drattast þetta, þessi elska.

Ég reyni að versla snemma á morgnana því þá er enn nokkuð róleg umferð. Strax upp úr 9 er hún orðin meiri.

En í dag þurfti ég að skjótast út seinni partinn. Umferðin var náttúrulega þokkaleg, bæði af gangandi vegfarendum og bílum. En út þurfti ég. Ég held mína leið og kemst í búðina og á leiðinni til baka fer ég þessa HOLÓTTU götu (vinkonu mína). Þar voru nokkrir bílar á undan mér og við reynum öll að sikk sakka eins og hægt er fyrir umferðinni sem kom á móti. Svo eru nokkrir bílar fyrir framan mig á gatnamótunum tekur þá ekki leigubíll fram úr mér (þetta eru litlir sendiferðabílar) og fer fram fyrir alla hina bílana líka. Fyrst bölvaði ég viðkomandi bílstjóra fyrir frekjuna. En datt svo í hug að sennilega væru allir hinir bílarnir að bíða eftir að geta beygt í hina áttina. Þannig að ég bara ákvað að elta leigubílinn og "bruna" fram úr ca 5 bílum á gatnamótunum. Kemur þá ekki í ljós að hafði elt leigubílstjórann upp á gangstétt og troðið mér fram fyrir alla hina. Ég þurfti að koma mér niður af gangstéttarbrúninni og inn á götuna aftur.

Úbbs, mín fékk smá fyrir brjóstið en gaf bara í og gat andað rólegar þegar ég var komin í öryggið heima hjá mér. Ég neita því ekki að hafa farið með eins og eina eða tvær bænir þegar heim var komið.

Annars er ég viss um að þessi umferð er ekki góð fyrir blóðþrýstinginn :-)

mánudagur, 22. ágúst 2011

Snilld

Eins og Villi hefur bloggað um þá slasaði Rúnar Atli sig um daginn með þeim afleiðingum að brjóta upp úr tveimur framtönnum (báðar fullorðinstennur) og önnur þeirra losnaði. Þessi lausa virðist vera að festa sig aftur og ég fer svo með hann til tannsa aftur á fimmtudaginn og þá bara vona ég að tönnin verði orðin pikkföst.

Þetta gerðist á föstudaginn. Á laugardaginn fór gæinn út að leika sér í fótbolta og kom svo til mín og sagði að það hefði komið smá slys og ég mætti ekki verða brjáluð. Ég varð að fara út með honum svo hann gæti sýnt mér. Kom þá í ljós að boltinn hafði óvart farið í eina rúðu og brotið hana.

Ég velti svo fyrir mér hvort hann kæmist í gegnum sunnudaginn án einhvers atviks - og sem betur fer þá gekk það nú eftir. Hann komst í rúmið í gærkveldi án þess að brjóta eitthvað eða slasa sig. Svo var komið að mánudegi; eftir skóla fór hann út að leika og kom svo haltrandi inn og alveg að drepast í fætinum. Eðlilega spurði ég hvað hefði eiginlega komið fyrir. Jú sko hann sparkaði í eitt tré. Þegar ég forvitnaðist um hvers vegna í ósköpunum hann væri að sparka í tré. Þá vildi hann bara athuga hvort hann gæti sparkað svo fast að eitthvað myndi detta niður úr trénu.

Þessi snilld hlýtur að koma úr föðurættinni :-)

laugardagur, 20. ágúst 2011

Brot ofan á brot

Tannbrot í gær, rúðubrot í dag. Ætli Rúnar Atli komist í gegnum daginn á morgun án þess að brjóta eitthvað???

fimmtudagur, 18. ágúst 2011

Lilongwe

Við höfum verið ansi dugleg við að taka upp úr kössum og koma dótinu okkar fyrir. Það fer m.a.s. að styttast í að við setjum myndir upp á veggi og þá verður þetta allt komið. Húsið er að verða að heimlinu okkar og það er yndisleg tilfinning.

Villi byrjaður að vinna og Rúnar í skólanum. Þannig að lífið er að komast í fastar skorður og bráðum kemst ég af stað með saumaskapinn.

Rúnari líst vel á skólann sinn og er ánægður með kennarann. Það var reyndar frí bæði í gær og dag í skólanum. Í júlí urðu uppþot hérna í Malawi þar sem á bilinu 15 - 19 manns létu lífið (áreiðanlegar tölur eitthvað á reiki) og það var búið að boða til nýrra mótmæla í gær og dag. Þannig að skólinn tók þá ákvörðun að hafa bara lokað, eins voru mörg fyrirtæki lokuð í gær. En á síðustu stundu var mótmælunum frestað en þrátt fyrir það var bærinn víst svo til mannlaus í gær fyrir utan löggur á rölti og eftirliti. En í dag er allt komið í samt lag aftur, nema krakkarnir í skólanum fá annan frídag og veit ég að Rúnar er ekkert ósáttur :-)

Nú þarf ég að fara að huga að garðyrkjunni því hér er vor og þá sjálfsagt rétti tíminn til að huga að slíku. Það hlýtur að vera sama hvort maður sé á suður- eða norður hvelinu, vorið hlýtur að vera tíminn til að setja niður. Philomone, garðyrkjumaðurinn, er að undirbúa beðin fyrir mig, hann er búinn að róta upp moldinni og þrífa allt. Þannig að nú virðist allt til reiðu. Ég hlakka til að koma einhverju niður, en ég hef ekki ákveðið hvað ég ætla að rækta. Mér datt í hug tómatar, gulrætur, og rabbabari. Eins einhverjar kryddjurtir. Þetta verður spennandi.

Ég losna ekki við moskítóflugurnar - þær éta mig lifandi þessar elskur. Ég byrja alla morgna á því að kveikja á coils og set út um allt hús, eins spreyja ég eitri á mig en ekkert virkar. Spurning hvort ég drepi mig bara ekki á þessu eitri - í stað þess að losna við moskítóflugurnar :-)

Ferðasaga

Ég hef verið alveg sérlega blogg-löt undanfarið en ætla að reyna að bæta úr því :-)

Við lögðum af stað frá Windhoek á Dæjanum á föstudagsmorgni og hlökkuðum við til ferðarinnar. Því verður hins vegar ekki neitað að ég var ansi smeyk vegna þess að við vorum með kerruna okkar í eftirdragi og ég var bara ekki viss um að Dæjinn minn hefði það. Hvað ef það væru brattar brekkur á leiðinni; gæti bílinn drifið upp þær með kerruna?? Ég sá alveg fyrir mér að einhvers staðar yrðum við bara hreinlega að skilja kerruna eftir, eða alla vega að skilja dót úr henni eftir. En það var nú svo sem ekki mikill farangur í kerrunni, eiginlega bara töskurnar okkar sem við komum með frá Íslandi.

En sem sagt við lögðum af stað og fyrsta daginn var nú ekki keyrt mjög langt, einhverja 500 km. Sem er eins gott því við lögðu heldur seinna af stað en til stóð. En við náðum á náttstað fyrir myrkur. Svo var lagt af stað eldsnemma daginn eftir því þá þurfti að keyra heldur lengra, held það hafi verið um 800 km. Við gistum á flottu hóteli í Katima Mulilo og það fór vel um okkur. Kerran var til engra vandræða því Namibía er svo flatt og vegirnir breiðir og beinir. Ég keyrði m.a.s. einhvern hluta leiðarinnar :-)

Þennan dag vorum við rúmlega 10 tíma á ferð og ég þakka bara fyrir að Rúnar Atli er góður í bíl og engin bílveiki sem gerir vart við sig (gerist mjög sjaldan). Svo lá leiðin í gegnum Botswana og inn í Zimbabwe. Þar gistum við tvær nætur í Victoria Falls á ótrúlega flottu hóteli. Við ákváðum að vera einn aukadag þar til að slappa af og hlaða batteríin fyrir næsta legg ferðarinnar.

Við gerðum nú ekki mikið í Victoria Falls, við fórum að sjálfsögðu að skoða fossana sem eru alveg ótrúlega mikilfenglegir. En annað gerðum við svo sem ekki. Við vorum þarna fyrir tveimur árum og þá gerðum við fullt af túristahlutum og nenntum því bara ekki í þetta skipti. Það var mjög gott að bara taka hlutunum rólega og skoða í matvöruverslanir - þar var allt í boði sem hægt er að láta sér detta í hug. Það virðist enginn vöruskortur vera þar.

Mér finnst alveg meiri háttar gaman og gott að vera þarna, það fer svo vel um mann og fólk er svo vinalegt. Seinna kvöldið okkar fórum við að borða á Boma Restaurant sem er frábær staður. Það er mikið trommushow þar sem gestir taka virkan þátt og Rúnar Atli stóð sig frábærlega. Eins fékk hann málað ljón og sebra á kinnarnar. Þetta mátti ekki þrífa af í nokkra daga á eftir :-)

Nú var kominn tími til að halda áfram og fara inn til Zambíu og gistum við næst í Lusaka. Sú borg er alveg svakaleg, lætin og umferðin eru ótrúleg. Við komum reyndar inn í borgin á háannatíma og það tók okkur um klukkutíma að komast í gegnum miðbæinn og að hótelinu sem var hinum megin í borginni. Svo voru endalausir sölumenn að ganga á milli bílaraðanna að selja allt milli himins og jarðar. Það er ekki séns að ég hefði þorað að keyra í borginni.

Daginn eftir kom loks að því að keyra síðasta legginn og komast "heim".

Ferðin gekk mjög vel og hvergi lentum við í vandræðum á landamærum, smá ævintýrum kannski eins og Villi hefur bloggað um :-) Það var ótrúlega lítil umferð alla þessa leið, frá Namibíu til Malawi og átti ég von á einhverju allt öðru.

Það var mjög fallegt að keyra þessa leið og sérstaklega var gaman að keyra í gegnum Zambíu, hérna megin við Lusaka. Það var svo fallegt, við keyrðum í gegnum endalausa fjalladali og mikill gróður út um allt. Það er bara eins gott að ég vissi ekki af þessum fjallvegum því þá hefði ég sko ekki þorað að taka kerruna með :-) En Dæjinn klikkaði ekki og fór upp allar brekkur án þess að finna fyrir því að hafa eitthvaði í eftirdragi. Á þessari leið lentum við m.a. á eftir kosningabílum, þar sem einhver frambjóðandinn var að auglýsa sig. Það voru stór gjallarhorn á öðrum bílnum sem bílstjórinn notaði óspart til að spila einhverja tónlist á útopnu. Það var erfitt að taka framúr bæði þessum bílum sem öðrum því það voru svo svakalega stórar holur í veginum sem maður sá ekki fyrr en komið var að þeim. En þetta hafðist nú allt.

Það var mjög gott að komast loks á leiðarenda og þurfa ekki að fara í bíl strax daginn eftir. Þá var bara hægt að skella sér í að taka upp úr kössum :-)