Powered By Blogger

sunnudagur, 31. október 2010

Flakk

Villi hefur verið á flakki undanfarnar vikur, bara svona eins og oft vill verða. En í síðustu viku ákváðum við Rúnar Atli að skella okkur með Villa þegar förinni var heitið til Malawi. Það var mjög gaman að koma þangað. Lilongwe er talsvert öðruvísi en Windhoek en eins og Windhoek þá er borgin mjög falleg.

Það vildi svo "skemmtilega" til að þessa daga sem vorum þarna þá var einhver heljarins ráðstefna í borginni og því voru öll hótel og gistiheimili uppbókuð. En það var hægt að troða okkur á eitt gestahúsið sem fær nú kannski ekki beint 10 í einkunn frá mér. Rafmagnið var af skornum skammti (sem er víst algengt vandamál í borginni) og þ.a.l. var lítið um loftkælingu. En það sem verra var að það var ekkert heitt vatn :-) En það var mjög gaman að koma þarna og sjá eitthvað nýtt.

Næst er förinni heitið til Opuwo og förum við þangað á fimmtudaginn og komum sennilega heim aftur á sunnudaginn. Ég held að Opuwo sé minn uppáhaldsstaður í Namibíu, það jafnast ekkert á við að liggja á sundlaugarbakkanum með hvítvínsglas og horfa á fegurðina. Þið sem hafið komið þarna vitið hvað ég meina :-) Svo er líka alltaf jafn skemmtilegt að heimsækja Himbana.

þriðjudagur, 19. október 2010

Dulin meining

Við Villi og Rúnar vorum í ferðalagi í síðustu viku og þar sem Villi hefur bloggað um ferðalagið þá nenni ég því ekki.

Ég var í klippingu í morgun sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að í þetta sinn lét ég ekki lita á mér hárið. Ilse - hárgreiðslukonan mín (hefur séð um hárið á mér í mörg ár) var mjög hissa en lét svo sem á litlu bera. Svo spyr hún mig voða varfærnislega hvort ég ætli nú bara að "go totally grey"!!! Ég svaraði því til að ég væri bara svo forvitin að sjá hversu gráhærð ég væri orðin.

Ég man eins og það hefði gerst í gær þegar ég fann fyrsta gráa hárið, þetta mun hafa verið um mánaðarmótin mars-apríl 1993. Þá nótt var ég að leggja af stað ein með stelpurnar frá Vancouver til Íslands í gegnum Seattle og New York. Ég var ansi stressuð og taldi að grá hárið væri bara sökum þess. Ég var nú ekki lengi að kippa þessu eina gráa út, reyndar var það snjóhvítt en ekki grátt - en það er nú önnur saga.

Svo hef ég látið lita á mér hárið í mörg ár og um leið og ræturnar eru orðnar gráar er arkað af stað til Ilse og hún reddar málum hjá mér. Það er að segja, þar til núna.

Í morgun byrjar hún sem sagt að klippa mig og kom með þessa athugasemd sína. Eftir svarið mitt hélt hún bara áfram að klippa; svo spyr hún mig hvort ég ætli að halda þessu "new look" mínu og ég gaf nú lítið út á það. Það færi náttúrulega eftir því hversu grá ég væri orðin. Svo klikkir hún út með því að "nei ég muni láta lita á mér hárið innan tíðar - ég væri alltof ung fyrir þetta look".

Þannig að þetta var svo sem ekki dulin meining hjá henni - ég er alltof gráhærð :-)

mánudagur, 11. október 2010

11. október

Í dag hefði pabbi orðið 65 ára. Það er ekki nokkur leið að ég sjái hann fyrir mér 65 ára - hann var bara 56 ára þegar hann dó.

Félagsmál

Ég hef verið meðlimur makaklúbbsins - Association of Diplomatic Spouses - hér í Windhoek síðan október 2007 - tók þá strax við sem ritari klúbbsins og í apríl 2009 varð ég forseti.

Meðlimir klúbbsins koma frá öllum heimshornum, Zimbabwe, Zambiu, Angola, Botswana, Egyptalandi, Indónesíu, Kína, Finnlandi, Rússlandi, Þýskalandi, svo nokkur lönd séu nefnd.

Það hefur verið alveg meiri háttar skemmtilegt að starfa með þessum samtökum og að kynnast þessum konum. Hópurinn hefur orðið mín önnur fjölskylda. En þar sem veru minni hér í Namibíu fer að ljúka kom að því að ég varð að segja af mér og í ágúst tilkynnti ég uppsögn mína bæði sem ritari og forseti. Uppsögnin tók svo gildi um mánaðarmótin sept - okt. Þessi mynd var tekin í tilefni síðasta fundarins þar sem ég var forseti.

Oh, ég á eftir að sakna þessa hóps mikið - en svona er lífið.

Soroptomistar

Eins og ég talaði um um daginn, sjá hér - þá er ég meðlimur í hópi sem er að reyna að koma soroptomista klúbbi á laggirnar hérna í Windhoek. Við höldum fundi reglulega og þessi mynd var tekin á síðasta fundi okkar. Við vorum fáliðaðar á þessum fundi, einungis níu, yfirleitt erum við um 15 sem mætum á fundi. En þetta er sterkur hópur og ég er þess fullviss að næsta vor verði búið að ganga frá öllum formsatriðum varðandi klúbbinn.

Að sjálfsögðu mættum við allar í einhverju bleiku svona í tilefni þess að október mánuður er cancer awareness mánuður.

Tækjafrík

Villi kom heim í gær og að sjálfsögðu kom hann ekki tómhentur - frekar en fyrri daginn. Við fjölskyldan stórgræðum á þessu flakki í honum :-)

Hann færði mér þennan líka flotta Docking Speaker - hátalara fyrir iPodinn minn - geggjað og ekki skemmir liturinn fyrir, skærbleikur.

iPodinn fékk ég í afmælisgjöf í vor og þetta er sennilega sú græja sem ég nota hvað mest. Ég hef keypt fullt af bókum til að hafa á honum og svo ligg ég uppi í rúmi á kvöldin og les. Villi er líka mjög ánægður með þetta því ég þarf þá ekki að hafa ljós á lampanum mínum alla nóttina :-)

Svo er hérna önnur græja sem ég fékk í afmælisgjöf í fyrra - digital myndarammi og hann er algjör snilld. Mér finnst þessi hugmynd alveg meiriháttar.

Það er kannski eitthvað til í því sem Villi segir, þ.e. að ég sé tækjafrík :-)


sunnudagur, 10. október 2010

Sunnudagsmorgunn

Við Rúnar erum í stökustu vandræðum - þar sem Villi er ekki heima þennan sunnudagsmorguninn fáum við hvorki íslenskar pönnukökur né vöfflur í morgunmat ;-(

laugardagur, 9. október 2010

Sjónvarpsefni

Ég held að það komist enginn með tærnar þar sem BBC er með hælana hvað sjónvarpsþáttagerð varðar. Einhvern tímann í fyrra keypti ég The Darling Buds of May þáttaseríuna - þessi séría var sýnd í sjónvarpinu heima fyrir einhverjum árum, eftir að við Villi flytjum til Kanada. Ég man að mömmu þótti þessi sería meiri háttar góð og einhverra hluta vegna mundi ég alltaf nafnið á seríunni. Svo ákvað ég að kanna þetta nánar og keypti svo seríuna. Ég get horft endalaust á hana og í hvert sinn sem ég horfi þá treyni ég mér síðasta diskinn til þess að eiga eitthvað eftir :-)

Núna er ég að horfa á síðasta diskinn og get svo byrjað aftur :-)

Sýnishorn

Ég ákvað að taka myndir af þeim bútateppum sem ég er byrjuð á - nokkurs konar sýnishorn af því sem komið er so far :-)

Þetta munstur heitir Crazy Quilt (minnir mig) og á námskeiðinu sem ég fór á um daginn gerðum við nokkrar svona blokkir. Þegar heim var komið ákvað ég að gera nokkrar fleiri blokkir og setja saman í þetta litla teppi. Þetta kemur bara þokkalega vel út.

Þetta munstur heitir Cubbie Holes og ég fékk það í þessum klúbbi sem ég hef verið áskrifandi að í þrú ár. Meiri háttar góð síða.
Þetta teppi finnst mér meiri háttar flott, þó ég segi sjálf frá :-) Munstrið heitir Easy Beginners' Rail Fence og ég fann það á sama stað

Nú þarf ég bara að læra að klára teppin, þ.e. að gera borders og samloka þau. En ég er viss um að ég get kennt mér það sjálf eins og annað.

Crazy Quilt munstrið hér efst er reyndar miklu flottara en það kemur út á þessari mynd. Ég er komin með annað teppi í huga þar sem ég nota sama munstrið en litagreini það. Þar sem ein lína í teppinu verður öll t.d. í rauðum litum, sú næsta í bláum litum, o.s.frv. Ég held það muni koma mjög flott út. Ég sá einhvers staðar mynd af svipuðu teppi og það var mjög flott.

En nú veit ég ekki alveg hvort ég hafi tíma til að gera fleiri bútateppi. Rúnar Atli er nefnilega farinn að biðja um útsaumaðar myndir og ég hef lofað honum að athuga það mál :-)

miðvikudagur, 6. október 2010

Næturgestur

Ég hef alla tíð átt við mikla myrkfælni að stríða og það hefur reynst mér mjög erfitt þegar Villi er á ferðalögum og ég ein heima með krakkana. Á meðan Tinna bjó hérna þá varð hún alltaf að sofa hérna uppi þegar pabbi hennar var í burtu til þess að veita móður sinni smá andlegan styrk. Hún hefur alltaf verið voða dugleg við þetta greyið og ekkert sett sig upp á móti því að þurfa að yfirgefa eigið herbergi til að "passa" mömmu sína :-) En nú er Tinnan mín farin að heiman og þá er það bara ég og Rúnar Atli. Ég hef haft þann háttinn á að um leið og Rúnar fer upp í rúm á kvöldin þá fer ég líka inn í herbergi og fer ekkert meira fram.

Myrkfælnin var orðin svo slæm að við réðum alltaf næturvörð þegar Villi var í burtu. En svo hætti það að virka því ég var farin að ímynda mér að þar sem næturvörðurinn vissi náttúrulega að ég væri ein heima og lítil fyrirstaða ef hann vildi ráðast inn. Þannig að það varð ekkert auðveldara að hafa hann. Svo hef ég líka heyrt af öryggisfyrirtæki sem stundar það að ráðast inn á heimili sem það er að verja. Þannig að þetta er nú ekki BARA bilun í mér. Ég man síðast þegar við vorum með næturvörð þá svaf ég ekki í tvær nætur en þriðju nóttina bara gafst ég upp og steinsofnaði um leið og ég lagðist á koddann. Ég var búin að ákveða það að ef ég svæfi ekki þriðju nóttina þá færi ég með Rúnar Atla á hótel þar til Villi kæmi heim. Þannig að síðast þegar Villi fór í ferðalag þá bað ég ekki um næturvörð og heldur ekki núna, eins og lesendur kannski vita þá er Villi staddur þessa vikuna í Mósambík á fundastússi.

Í gærkveldi þurfti ég að fara á fund og kom ekki heim fyrr en um 20.30 þá var orðið dimmt og Flora fór heim um leið og ég kom og Rúnar sofnaður. Heyrðu, mín bara sest inn í stofu og fer að horfa á sjónvarp eins og venjuleg manneskja og dundar sér svo við að læsa húsinu og svoleiðis og leið bara skolli vel - ekkert hrædd. Ég gat m.a.s. farið aftur fram án nokkurra vandræða :-) Ég varð náttúrulega voða ánægð með sjálfa mig og hugsa hvort ég sé kannski loksins farin að þroskast og fullorðnast hvað myrkfælnina varðar. Þetta var bara frábært.

Svo um leið og ég leggst á koddann kemur þá ekki næturgestur í formi fljúgandi kakkalakka (held þetta sé kakkalakki) og sest á vegginn beint fyrir ofan hausinn á okkur Rúnari (Rúnar fær alltaf að sofa hjá mér þegar Villi er ekki heima). Ég hélt ég yrði ekki eldri - þetta var ógeðslega stórt kvikindi og það var ekki góð tilhugsun að hafa kvikindið fyrir ofan okkur alla nóttina. Svo ég reyni að stugga við honum og þá datt hann á milli rúmsins og veggjarins alveg við höfuðið á Rúnari. Þetta þýddi það náttúrulega að mér kom varla dúr á auga í alla nótt því ég var alltaf að passa að kvikindið væri ekki komið upp í rúm og væri rétt hjá Rúnari. Ég var með ljósin á í alla nótt til að sjá ef kvikindið kæmi og var sífellt að tékka á hvort nokkuð sæist til hans á koddunum eða í sængunum. Svo einhvern tímann í nótt sný ég mér á hina hliðina - bara svona eins og gengur og gerist - og opna augun er þá ekki kvikindið bara á koddanum mínum og horfir beint á mig. Ég er þess fullviss að helv.... glotti að mér. En ég náði að reka hann aftur niður á gólf.

Svo þegar ég loks drattast fram úr í morgun þá er það það fyrsta sem ég sé að kvikindið er aftur komið á vegginn fyrir ofan rúmið. Okey nú varð mín fúl, dríf Rúnar Atla í föt og hendi honum fram því nú skyldi drepa helv.... kvikindið með Doom. Ég leita um allt hús að Doom-i því venjulega erum við með nokkra brúsa en í morgun fannst ekki einn einasti brúsi sama hvað ég leitaði. En ég gat bara ekki hugsað mér að hafa kvikindið hérna inni í herbegi og eiga svo aðra svefnlitla nótt framundan. Þannig að mér datt sú snilldarlausn í hug að reyna að veiða hann með því að setja ruslatunnu yfir hann og smeygja svo spjaldi á milli tunnunnar og veggjarins.

Heyrðu, þetta tókst í fyrstu tilraun og það var mikill léttir þegar þetta var búið. Nú er bara að losa sig við kvikindið og ég ætla að henda honum út á lóðina hérna fyrir neðan - það býr enginn þar svo það er okey.

En ég tók mynd að "vini" mínum til að sýna að ég er sko ekki að ýkja, hvorki hvað stærð né ógeðslegheit varðar.
Nú er bara að vona að hvorugt mæti aftur, þ.e. myrkfælnin né óboðinn næturgestur.

laugardagur, 2. október 2010

Ahh, bara rólegheit

Enn ein helgin komin og það eru bara rólegheit í dag. Ég hef dundað mér í flottu bútateppi. Mitt helsta vandamál þar er skortur á góðu efni, þannig að ég leitaði djúpt í fataskápum feðganna og mín heppin að finna nokkrar skyrtur af báðum sem þeir eru hættir að nota og ég gat nýtt í teppið - flott mál.
Kemur flott út :-)

Við grilluðum kessler og pylsur í kvöldmat, rosa gott eins og alltaf. Svona til að hafa eitthvað annað en bara kjöt þá grilluðum við kartöflur líka. En hérna eru grillin kjöt, kjöt og svo má meira kjöt :-)