Powered By Blogger

þriðjudagur, 27. desember 2011

Listaverk

Stelpurnar tóku sig til og dunduðu sér í mósaík hér í Malawi, enda svo sem lítið um að vera :-) Þær gerðu báðar skálar, mjög ólíkar en báðar mjög flottar. Þetta er skálin hennar Tinnu Rutar, ég var að ljúka við að fúga hana. Enda ekki ráð nema í tíma sé tekið því gellan leggur af stað frá Malawi í dag :-)

mánudagur, 26. desember 2011

Ýmislegt finnst í garðinum


Þessi litli krúttaralegi broddgöltur fannst í garðinum um daginn. Hann fékk að sjálfsögðu strax nafnið Broddi - mjög viðeigandi. Rúnar vildi endilega fá að eiga hann svo við fundum kassa og settum sag í botninn. Svo þurfti að gúggla hvað svona dýr borða eiginlega. Jú það væri fínt að gefa þeim mjólk og kattarmat. Ég náði í mjólk í skál fyrir krílið en hann vildi nú ekki smakka. En Snúlla (hundurinn) var nú ekki sein að klára alla mjólkina :-)

Rúnar passaði svo Brodda allan daginn og fékk að hafa hann inni í húsi, en í kassanum. Ég var nú ekki tilbúin í að leyfa Brodda að sofa inni í húsinu svo við settum kassann út í vaskahús. Svo þegar kíkja átti á krílið daginn eftir þá var hann horfinn úr kassanum. Hann hafði náð að klifra upp og fara á flakk. Ég bað Philomone að fara inn og leita því ég bara þorði því ekki sjálf :-) Auðvitað fannst Broddi og ég ákvað að veita honum bara frelsi aftur. Einhvern veginn var hugmyndin um trítlandi broddgölt út um allt ekki sérlega aðlaðandi fyrir mig :-) En hver veit, kannski finnst annar og þá má endurskoða málið.




sunnudagur, 25. desember 2011

Fiðurfé

Það eru smá fréttir af hænunum mínum. Eggin fóru að detta í hús um miðjan desember og koma svona þrjú til fjögur á dag. Þau eru nú töluvert minni en þau sem ég versla út úr búð en ég held að það muni lagast þegar fram í sækir. Þar sem ég er algjör nýgræðingur í hænsnarækt þá fattaði ég ekki að ég yrði að huga betur að fóðrinu þeirra. Þær hafa verið á ungafóðri en nú var sem sagt kominn tími til að kaupa fóður fyrir varphænur - sem ég og gerði.

Ég hef talað um það áður að af þessum 15 ungum sem ég keypti þá séu átta hanar. En Philimone kom til mín um daginn og tilynnti mér hanarnir væru víst níu ekki átta :-) Þetta finnst mér ansi lélegt, þ.e. að af 15 stykkjum séum níu hanar :-)

En það hefur fækkað heldur betur í hópnum mínum. Ég er búin að gefa sjö hana og svo veiktist ein hænan og dó. Ég veit ekki hvað var að henni en Philimone fór með hana eitthvert til að fá úr því skorið hvað þyrfti að gera svo hinar veiktust ekki og ég þurfti bara að kaupa einhver lyf og gefa hinum og nú á allt að vera í lagi.

Ég er búin að panta nýjan ungahóp og hann kemur vonandi um miðja vikuna - önnur 15 stykki og nú er að vona að hænufjöldinn verði mér í hag :-)

Hanarnir sem eftir eru heita Jónatan og Kjartan, svo heitir ein hænan Jósefína. Nú vantar mig bara nöfn á þrjár hænur. 

Garðyrkja

Garðurinn minn heldur áfram að gefa af sér. Ýmsar tegundir eru þó búnar í bili, eins og t.d. butternut, tómatar og agúrkur. En það er búið að setja fullt af nýjum tegundum niður, ásamt þeim sem búnar eru. Rúnar hefur gaman af þessu og í hvert sinn sem hann fer með mér í matvörubúð þá fær hann að velja sér fræpakka til að kaupa og setja svo niður. Hann er m.a. búinn að kaupa, og gróðursetja, baunir og grasker.

Eins settum við niður um daginn hunangsmelónur og vatnsmelónur og það verður forvitnilegt að sjá hvernig þær koma út :-) Nú er ég líka loksins búin að fá rabbabarafræ og þau komin niður. En ég þarf víst að bíða heillengi eftir rabbabarauppskerunni.

Svo hefur komið í ljós að eitt tréð í garðinum er guavatré þar sem ávöxturinn er alveg að verða tilbúinn. Þannig að nú er bara að fara að borða guava, mangó og avakadó ávaxtasalat :-)

Aðdragandi jóla


Það verður að segjast að aðdragandi jóla hafi verið óhefðbundinn fyrir okkur en alveg yndislegur tími engu að síður. Stelpurnar komu til okkar 15. des og það varð fjör í húsinu :-) Rúnar hefur saknað þeirra afskaplega mikið og það er það erfiða við að búa svona langt í burtu. En við njótum samverunnar enn meira fyrir vikið þegar við hittumst svona sjaldan. En fljótlega eftir að þær komu fórum við niður í Apaflóa og gistum þar tvær nætur. 

Svo var kominn tími til að gera eitthvað jólalegt og huga að skreytingum. Við útbjuggum trölladeig og notuðum jólasmákökumót og gerðum fullt af skrauti sem við svo máluðum og hengdum á arinhilluna. Þetta kom svo vel út að við ákváðum að þetta yrði "jólatréð" okkar því þar sem arininn er ekki notaður þá gátum við sett pakkana þangað inn. Eins útbjuggu krakkarnir miða þar sem á stendur Gleðileg jól á ýmsum tungumálum og einn veggurinn í stofunni er undirlagður. Ég mun setja myndir inn af þessu síðar. 

Á Þorláksmessu fórum við út að borða og á leiðinni heim sáum við það ótrúlegasta ljósasjóv á himninum. Það voru stanslausar eldingar - þetta var ótrúlega fallegt. Við rúntuðum aðeins um til að komast nær og sjá betur svo bara lögðum við bílnum og horfðum á. Þetta var með ólíkindum. Það var náttúrulega enginn með myndavél en Tinna tók þó nokkrar myndir á símann sinn en ég er ekki viss hvort þær hafi komið vel út.

Malavar taka greinilega fullan þátt í jólastússinu :-) Þegar við vorum að keyra heim á Þorláksmessukvöld þá sáust svo vel jólaskreytingarnar í borginni. Hvert einasta hringtorg í borginni er fallega skreytt með jólaljósum, eins er þinghúsið skreytt alveg meiri háttar fallega. Það verður alveg þess virði að skella sér á rúntinn í kvöld og taka myndir af herlegheitunum.


sunnudagur, 11. desember 2011

Litlu jólin

Ég fór í búðina í gær, sem er nú ekki fréttnæmt, nema hvað að búðin var full af alls kyns munaðarvöru. Má nefna t.d. undanrennu og hreina jógúrt, þetta eru vörur sem ég hef ekki fundið í sjálfsagt eina 10 daga og ég var farin að sakna alveg heilmikið. Nú var m.a.s. líka til rjómi og gos í dósum - það var bara eins og jólin hafi komið snemma þetta árið. Það versta var að ég var engan veginn tilbúin í svona stórinnkaup og lúxusvarning, þ.a.l. keypti ég bara það allra nauðsynlegasta. En á morgun verður farið og vonandi verður eitthvað eftir af öllu þessu góðgæti :-)

föstudagur, 9. desember 2011

Hitt og þetta

Það hefur verið rólegt hjá okkur Rúnari undanfarna daga. Villi hefur verið í Namibíu og kemur heim á sunnudaginn. Þetta var síðasta vikan hans Rúnars í skólanum fyrir jólafrí og í fyrradag var jólaskemmtun í skólanum. Allir bekkirnir í barnaskólanum (upp í 6.bekk) sýndu atriði og þetta var voða gaman. Árgangurinn hans Rúnars flutti "The night before Christmas in Africa"sem var mjög flott hjá þeim. Í morgun var svo bekkjarpartý :-) 

Rúnar hefur hlakkar mikið til að komast í jólafrí og er alveg hissa hvað hann fær langt frí miðað við krakka á Íslandi. Enda fljótur að nefna það að hann ætlar sko ekki í skóla á Íslandi á næstunni :-)  

Hann er samur við sig og meiðir sig reglulega. Eins og ég bloggaði um um daginn þá slasaðist hann á fæti í afmælisveislu sem hann var í. Þrátt fyrir góðar ábendingar um að láta lækni kíkja á hann þá lét ég það hjá líða og treysti bara á guð og lukkuna. Sem betur fer virðist hann vera alveg ókey í fætinum. Ég hef ekki einu sinni farið á stúfana að leita að sjúkrahúsi eða heilsugæslu til að vita hvert ég eigi að fara með hann ef eitthvað alvarlegt kemur upp. Ég hef lofað sjálfri mér að um leið og Villi kemur heim þá verði farið að leita. Þá er bara að vona að ekkert komi upp í millitíðinni :-)
Í gær rak hann upp þetta rosa öskur og kom grátandi til mín. Þegar ég var búin að róa hann niður og spurði hvað hefði eiginlega gerst jú þá fékk ég söguna. Sko hann var að setjast í sófann og rak hnéð í tennurnar. Ég velti fyrir mér hvernig í ósköpunum þetta er eiginlega hægt. En drengurinn getur ekki sest eins og venjulegt fólk heldur þarf að vera með einhverjar tilfæringar og hann var greinilega að hoppa til að setjast niður og rak þá hnéð svona illa beint undir tennurnar. Framtennurnar eru mjög beittar þar sem hann braut upp úr þeim í sumar, og Villi bloggaði um, og það sást mjög greinilega far eftir þær á hnénu á honum. En ég var nú aðallega með áhyggjur af tönnunum og honum fannst þær eitthvað lausari en venjulega. Ég bara krosslegg fingur um að þær jafni sig eins og þær gerðu í sumar. Stundum fæ ég smá áhyggjur af því að þessi lukka okkar hljóti að renna sitt skeið fyrr en síðar.
Ég er alveg undrandi hvað drengurinn er alltaf að meiða sig, það líður varla sú vika sem hann er ekki með stórt sár á öðruhvoru hnénu. Ég man bara ekki eftir stelpunum svona, en ég hef svo sem heyrt um krakka sem eiga sitt annað lögheimili á slysó :-)

Rúnar og lífið

Í gærkveldi var ég eitthvað að huga að jólamyndinni sem ég er að sauma (gríp í hana annað slagið). Sé þá margar afklippur af garninu liggja á borðinu. Ég skildi ekkert hvaðan þetta kom en sé þá svipinn á syni mínum og spyr hvort hann kannist eitthvað við þetta. Jú hann viðurkenndi það nú. Hann klippti garnið því hann vildi vita hvernig það væri að klippa garn og segir svo: "veistu mamma, það var bara ekkert erfitt"

Hann er mjög hrifinn af Lego-dóti og á fullt af þessu og vinirnir leika sér endalaust að þessu dóti. Lego star wars er þó í mestu uppáhaldi. Hann á einhver Legoblöð þar sem allt legódótið er sýnt. Honum finnst mjög gaman að liggja uppí rúmi og skoða þessi blöð og hann skoðar þau fram og aftur. Það eru nokkrir hlutir í blöðunum sem hann langar mikið í en því miður finnst ekkert slíkt í búðum hér. Hann spurði mig þá hvort við gætum ekki pantað þetta og látið senda okkur hingað. Svo segir hann: "mamma ef þú gerir það þá skal ég ekki suða um neitt fyrr en árið 2013". En svo var hann fljótur að draga í land og lofaði að suða ekki um neitt fyrr en 2012.

fimmtudagur, 8. desember 2011

Jólaundirbúningur

Eitthvað fer lítið fyrir jólaundirbúningi á þessum bænum. Það er óneitanlega erfitt að koma sér í jólagírinn í 32 stiga hita. Ég tók mig þó til og hlustaði á jólalög á 1. í aðventu en gafst svo upp á því :-) Talandi um aðventuna, þá stendur aðventukransinn minn hérna beint fyrir framan mig og ég sé að ég hef gleymt að kveikja á kerti númer 2 s.l. sunnudag.
Þar sem við höfum ekkert jólaskraut hérna með okkur þá ætlum við að föndra eitthvað og eins að lita jólamyndir og hengja á veggina. Þetta verða svona "minimalist" jól, hvað skraut varðar, sem er bara fínt. Einhver jólin okkar í Namibíu bjuggu stelpurnar til svo til allt jólaskraut og m.a.s. jólatréð líka og ég held svei mér þá að þetta hafi verið flottasta jólaskrautið okkar :-)
Við Rúnar ætlum svo að föndra jólaksraut úr trölladeigi en ég finn hvergi kökuskera með jólamunstri. Þannig að nú er bara að vona að Villi finni slíkt í Namibíu. Eins fann ég þessa jólakarla á netinu og við erum að dunda okkur við að klippa þá út og setja í hillur.
Hvað jólabakstur varðar þá verður ekkert slíkt gert fyrr en Villi kemur heim, eða jafnvel ekki fyrr en stelpurnar koma til okkar. Þá fer allt á fullt :-)

sunnudagur, 4. desember 2011

Geltandi hundur


Hundurinn okkar hún Snúlla, gömul Labrador tík, er alveg ágæt. Suma daga er hún svo löt og þreytt að hún varla hreyfir sig. Hún bara liggur eins og skotin og ég tékka af og til hvort ég sjái hana ekki örugglega anda J En hún er ágætis varðhundur og lætur í sér heyra þegar ókunnir koma inn á lóðina, nú eða bara ganga framhjá húsinu. Sem ég skil nú ekki alveg því það er ca 2ja metra hár steinveggur allt í kringum húsið. En hún finnur það á sér þegar einhver er á vappi fyrir utan.
Stundum fer öryggiskerfið hjá okkur af stað og það verða þessi líka ótrúlegu læti. En þá tekur Snúlla heldur betur við sér og hleypur geltandi um allan garð hringinn í kringum húsið og fylgir verðinum alveg eftir. Hún verður alveg brjáluð og það þýðir ekkert að tala við hana á meðan kerfið er á.
Í morgun fór kerfið af stað og Snúlla og Rotany (vörðurinn) fóru sinn hring um garðinn og tékkuðu hvort eitthvað væri að. En greinilega var ekkert að því skömmu seinna slökknaði á því að sjálfu sér. En aftur fór það af stað eftir nokkrar mínútur og aftur fór Snúlla geltandi sinn hring um garðinn með Rotany. En aftur virtist allt í lagi. En nú slökkti ég á kerfinu því Rotany vildi klippa greinar af Avacadotrénu mínu þar sem þær lágu á rafmagnsvírnum sem er ofan á steinveggnum. Þetta gæti valdið því að kerfið fór af stað.
Í sirka þrjú af fimm skiptum sem kerfið fer í gang hjá okkur koma nokkrir öryggisverðir frá fyrirtækinu. Þeir eru í fullum skrúða, með svaka hjálma og öryggisskyldi. Í morgun komu þeir fullbúnir og þá byrjar Snúlla að láta heyra í sér, hún gelti og gelti. Þeir þorðu ekki inn fyrir hliðið hjá mér, ég varð að gjöra svo vel að fara útfyrir til að tala við þá J Þetta er nú soldið skondið. 

föstudagur, 2. desember 2011

Smá slys

Rúnar var í afmælisveislu í dag hjá einum vini sinum og það var rosa fjör. Það var m.a. vatnsrenningur sem alltaf er jafn skemmtilegur :-) Fjölskyldan er frá Zimbabwe en hefur búið í nokkur ár hér í Malawi, þau búa í næsta húsi við okkur (svo til) og við höfum náð að kynnast þeim ágætlega. En þau hafa gefist upp á Malawi og flytja á sunnudaginn til Zambíu. Þetta var því afmælis/lokaveisla. Okkur Villa var svo boðið í "eftir-partý". Við vorum rétt mætt þegar Rúnar Atli rekur upp þetta rosa öskur og er greinilega sár þjáður. Hann hafði setið á stórum steini og eitthvað gerist sem veldur því að hann dettur niður og steinninn ofan á ökklann á honum. Hjá steininum var trjástubbur og hann virðist hafa klemmst á milli þeirra líka. Alla vega þá var fyrst haldið að hann hefði jafnvel ökklabrotnað því þetta leit ekki vel út. Við fórum beint heim með guttann og hann hefur nú slappað vel af og þetta lítur miklu betur út. Hann hefur ekki einu sinni brákast en hann fær þokkalegt mar á ökklann. Hinn fóturinn er líka vel marinn á kálfanum. En hann stígur í fótinn og þá er þetta í góðu lagi. En þegar eitthvað svona kemur upp á þá finn ég hvað ég þekki akkúrat ekki neitt til hérna í borginni. Ég veit um einn lækni en hann er staddur erlendis. Ég veit ekki einu sinni hvar spítali er hérna. Svo eru ekki allir spítalar/læknastofur með röntgentæki svo ekki getur maður farið hvert sem er.
Hann er að fylgjast með mér að pikka inn þetta blogg og vill ólmur fá að blogga líka :-) Eftirfarandi er frá honum (þetta er sem sagt óskalistinn hans) :

Ég vil Earth Moon, Volcano making kit, Soccer game, Magic (12 töfrabrögð!), Water gun,
Jenga, Lego Star Wars 1PS, Sticker book, Blíantur og Golf Clubs.Frá Rúnari

Lærdómur


Í hverri viku er stafsetningapróf hjá Rúnari og bekknum hans. Þau fá 12 orð sem þau eiga að læra utan að og taka svo próf. Oftast eru þetta nú bara venjuleg orð sem við notum dags daglega. Um daginn kom hann heim með sinn lista eins og venjulega og við erum að fara yfir þetta saman. Rekst ég þá ekki á orðið “geodesic” á listanum hans. Ég hafði bara aldrei séð þetta orð, vissi ekki hvað það þýddi né hvernig átti að bera það fram. Jú jú hann kannaðist við orðið þegar ég spurði hann og kenndi mér réttan framburð á því J Þau hafa eitthvað notað þetta orð í arkitektúraþemanu þeirra. En við Villi þurftum að fletta þessu upp í orðabók.

Svo eru þau greinilega að læra um klassísku tónskáldin í tónmennt. Því hann talar stundum um Beethoven og Bach og hann er greinilega að fíla Bach J

Í lok næstu viku, þann 9. des., kemst hann í langþráð jólafrí. Það verður frí í heilan mánuð. Hann tilkynnti mér um daginn að hann ætli sko að sofa út í fríinu sínu, sennilega fram að hádegi. Hann varð nú ekkert alltof kátur þegar ég sagði honum að það væri algjörlega bannað að eyða fríinu sínu sofandi, stelpurnar fái ekki einu sinni að sofa út á meðan þær eru hérna hjá okkur. 

Annars gengur honum bara mjög vel í skólanum og er orðinn rosalega duglegur að lesa á ensku. Við reynum að halda honum við efnið með lestur á íslensku og gengur það alveg ágætlega.

mánudagur, 28. nóvember 2011

Garðurinn

Garðurinn er allur að lifna við enda sumarið komið. Það eru nokkur tré í garðinum, m.a. límónutré og avacadotré. Avacadatréð er svo stútfullt af avacado að það stendur varla undir sér. Það eru sjálfsagt nokkur hundruð avacadó á trénu. Í gegnum tíðina höfum við nú bara notað avacado í guacamole en við þurfum greinilega að leita að einhverjum uppskriftum þar sem avacado er notað. Því það er algjör synd ef við nýtum þetta ekki. Reyndar fundu Rúnar og einn vinur hans ágæta leið til að nýta avacadoið - þeir léku sér við að brjóta þau til að ná út steininum. Eins tók Rúnar sig til um daginn og vildi búa til nýtt avacadotré. Hann náði sér í ávöxt og við skárum utan af honum svo bara steinninn var eftir. Í steininn settum við þrjá pinna sem liggja svo ofan á fullu glasi af vatni. Þetta á að gera nýtt tré, alla vega samkvæmt skólanum. Þau eru víst að gera svona tilraun þar.
Svo eru tvö önnur tré með einhverja ávexti en ég man ekki hvað þeir heita, né þekki ég þá. Ég þarf að spyrja Philimone að því.
Ég set inn mynd af avacadotrénu þar sem það sést greinilega að ein greinin helst ekki upp vegna þunga af öllum ávöxtunum :-)

Nammi, namm

Merkilegt hvað salat úr eigin garði smakkast miklu betur en það sem keypt er út úr búð :-)

sunnudagur, 27. nóvember 2011

Aðventukransinn

Ég hef einfaldan smekk

laugardagur, 26. nóvember 2011

Handavinna

Ég hef hellt mér af fullum krafti í alls kyns handavinnu síðan ég kom hingað og komið mér í handavinnuklúbba sem hittast vikulega. Á þriðjudögum er bútasaumsklúbbur, en ekki erum við allar að sauma bútateppi; á miðvikudögum mæti ég í embroidery og á fimmtudögum hittumst við í mósaíkklúbbnum.
Þetta er virkilega skemmtilegt og gaman að kynnast hressum og kátum konum í gegnum þetta. Það hefur eiginlega komið mér á óvart hve skemmtilegt mér finnst að embroidera. Þetta hef ég aldrei gert áður, ég hef alltaf bara haldið mig við krosssauminn. En embroideríið er meiriháttar gaman.
Eins finnst mér mjög gaman að vinna í mósaík og hef lokið við tvo platta sem ég er bara þokkalega sátt við. Nú er ég byrjuð á þriðja verkinu og það verður Lazy Susan sem svo kallast. En þetta er kringlóttur platti sem snýst og mun ég nota hann sem ostabakka.
Svo er ég búin að tala eina kunningjakonu mína á það að kenna mér að vinna með Pewter - ég held það kallist Pjátur á íslensku. Ég hlakka mikið til að prófa þetta.
Ég læt fylgja með mynd af plöttunum mínum tveim sem ég vann í mósaík. Ég mun nota þá báða undir kerti. Eins og sést eru þeir ansi einfaldir sem er svo sem ágætt fyrir mig sem algjöran byrjanda. Enda verður Lazy Susan aðeins öðruvísi :-)


Sögur úr "sveitinni"

Það verður að segjast eins og er að síðasta vika var langt í frá auðveld. Það byrjaði strax á mánudagskvöldið, þá gaus upp þessi rosalega hitalykt eins og það væri að kvikna í. Ég geng hnusandi út um allt og kíki út til að sjá hvort lyktin komi þaðan. En nei, hún var sko hér inni og kom hún frá einu ljósi í ganginum. Ég hringi í dauðansofboði í Villa (hann var í burtu alla vikuna) og segist bara ekki geta sofið í húsinu því það sé lykt eins og það sé að kvikna í. Hann róaði mig nú aðeins niður og benti mér að slökkva á réttum takka í ragmangstöflunni sem ég og gerði. Lyktin dofnaði svo þegar leið á kvöldið en ég lagði þó ekki í að sofa inni í herbergi því ef það myndi kvikna í þá kæmust við ekki út úr húsinu. Hér eru rimlar fyrir öllum gluggum og hurðin sem er næst herbergjunum er hinum megin við þetta ljós. Ég endaði á því að bera Rúnar hálfsofandi inn í stofu og þar sváfum við eitthvað fram á nótt. En það fór afskaplega illa um okkur og rúmlega 3 vildi hann fá að komast aftur inn í herbergi. Þá var lyktin eiginlega alveg farin og ég sá að það yrði óhætt að sofa þar :-)

Morguninn eftir var rafvirki fenginn og jú mikið rétt það hafði brunnið yfir einhver transformer inn í ljósinu þess vegna kom þessi lykt.

Á þriðjudaginn tók svo við vatnsleysi sem stendur enn yfir. Á degi eitt var okkur sagt að það væri bara venjulegt viðhald í gangi og vatn yrði komið á síðar um daginn. En ekkert vatn kom. Á degi tvö var hringt aftur og þá fengum við þau svör að þar sem það væri svo mikill skortur á rafmagni væri ekki hægt að dæla vatni í tankana fyrir þetta hverfi. Á degi þrjú, fjögur og fimm var ekkert verið að hringja til að forvitnast.

Þessa vatnslausu daga hefur þó verið smá vatn í krönum snemma morguns þannig að við gátum burstað tennur og þvegið okkur í framan og sturtað niður í klósetti. En svo er bara varla meira vatn að hafa. Í fyrradag var reyndar hægt að þvo tvær vélar svo átti að reyna í gær en það er allt stopp og þvotturinn enn í vélinni.

Til þess að toppa þessa vatnslausu daga var rafmagnið líka tekið af. Það er nú normið hér í hverfinu sem við búum í, þ.e. að rafmagnið er tekið af okkur nokkrum sinnum á dag í ca 1 - 2 tíma í senn. En í gær tók nú alveg steininn úr, þá var rafmagnslaust í fimm tíma yfir hádaginn í 32 stiga hita og raka. Mjög næs, það var ekki einu sinni hægt að kveikja á viftu. Við höfum reyndar rafal en hann gengur fyrir bensíni og hann er bara notaður spari, því hér er ekki hlaupið á næstu bensínstöð til að kaupa bensín.

Ég bað Villa að athuga með þvottavélina því það þýðir ekki að hafa þvottinn í henni í marga daga, hann myglar bara. Hún var alveg dauð en ef hann ýtti aðeins á innstunguna þá kom smá ljós en svo ekki söguna meir. Hann skoðar þetta þá aðeins betur og það segir sig náttúrulega sjálft að þetta eilífa rafmagnsleysi fer ekki vel með hlutina, eins og þessi mynd sýnir.

Annars reyni ég nú yfirleitt að taka bara Pollýönnu á þetta og er afskaplega æðrulaus en svei mér þá ef Pollýanna er ekki bara farin í frí :-)

laugardagur, 19. nóvember 2011

Þar munaði mjóu....


Á föstudögum finnst okkur afskaplega gott að hafa heimabakaða pizzu í kvöldmat og gerum þetta flotta deig í brauðvélinni okkar. Ég ákvað að bregða ekki út af vananum í gærkveldi og setti í vélina svo deigið yrði tilbúið um kl. 17.30. Þetta átti að passa akkúrat því Villi yrði seinn heim.

Deigið leit rosalega vel út og hefaðist mikið og þegar stutt var eftir þar til það yrði tilbúið kveikti ég á ofninum. Þetta átti allt að passa svo vel saman sjáiði J

Svo fer ég bara að dunda mér í að finna til það sem á að fara á pizzuna og ætla svo að setjast út þar til brauðvélin “kallar” á mig. En ég ákvað að kíkja aðeins á deigið áður en ég fer út. Það er bara eins gott að ég kíkti því við hliðina á brauðvélinni er helluborð sem aldrei er notað því platan er brotin. Það vill safnast heilmikið drasl á þetta helluborð og þar sem ég er að kíkja á deigið í gær þá verð ég vör við reyk leggja upp af helluborðinu. Það var við það að kvikna í alls kyns blaðadrasli sem lá á helluborðinu. Þetta voru ýmis frumrit varðandi bílinn minn (mörg frá Namibíu) eins var vegabréfið mitt þarna og sitthvað fleira. Einnig hafði skyndihjálpataskan mín byrjað að bráðna.

Ég fékk nett sjokk því eitthvað af þessum blöðum og pappírum eru sviðnuð og brunnin saman. En vegabréfið mitt slapp sem betur fer. En ég hef ekki þorað að kíkja á þetta og ákvað að bíða eftir því að Villi hafi séns á að kíkja fyrir mig.

Þetta er í annað sinn sem ég bræði eitthvað á þessu bévítans helluborði, um daginn var það fartölvan mín. Þetta er samt ekki bara klikk í mér því þegar ég ætla að nota ofninn þá verð ég að kveikja á takka á veggnum og svo kveikja á ofninum. En þessi takki á veggnum kveikir líka á helluborðinu. Þess vegna verða takkarnir á helluborðinu alltaf að vera stylltir á núll. En þar sem ég nota þetta helluborð aldrei er ég ekkert að spá í það og á það til að nota það sem geymsluborð. En þegar það er þurrkað af þessu borði þá er svo auðvelt að snúa tökkunum og þar með kveikja á hellunum. Svo þegar ég kveiki á takkanum á veggnum þá náttúrulega fer helluborðið á fullt. Þetta á sem sagt að útskýra þetta kveiki-vesen í mér. En það er fátt sem ég hræðist meira en eld og að það kvikni í því skil ég ekki af hverju ég er ekki passasamari með þessa takka á helluborðinu.

föstudagur, 18. nóvember 2011

Matjurtagarðurinn

Jæja þá er komið að því að sýna myndir úr matjurtagarðinum mínum eins og ég lofaði fyrir löngu síðan. Við erum löngu byrjuð að fá kál, eggaldin og agúrkur í hús. Eins hafa komið tveir tómatar og það syttist í gulræturnar. Það er merkilegt hvað allt smakkast betur úr eigin garði heldur en út úr búð :-)
Hér koma myndirnar.
Kálið lítur mjög vel út og smakkast vel. Við settum niður margar tegundir af káli, t.d. kínakál, lettuce, mustard lettuce og eitthvað fleira sem ég man ekki hvað heitir. Það voru bara tvær tegundir sem mér þóttu góðar og gerum við því einhverjar breytingar fyrir næsta sumar.
Ég hlakka mikið til þegar butternutið (veit ekki hvað það heitir á íslensku) verður tilbúið. Þetta er uppáhaldið okkar Villa. Við skerum það í litla bita og bökum í ofni ásamt m.a. kartöflum og gulrótum.
Við settum eggaldin ekki niður og því nokkuð ljóst að þau hafi verið fyrir í garðinum. Sprettan á þeim hefur þó verið mjög góð og ég hef verið að læra að matreiða þau. Ég hef m.a. skorið þau í strimla og sett í ofninn með butternuttinu. Þau eru alveg ágæt en ég geri ekki ráð fyrir að hafa þau næsta sumar.
Svo er það papríkan, hún lítur vel út og fer að styttast í að ég fái hana í hús. Ég þyrfti svo að prufa mig áfram með mismunandi liti. Veltur það ekki allt á þroskastiginu í paprikunni?? Ég held það, en ég er bara enn að læra.
Loks tók ég mynd af lauknum. Hann vex og dafnar vel eins og annað í garðinum.

Ég hef verið að prufa mig áfram með hvað ég vil hafa í garðinum og hvernig ég á að setja það niður. T.d. með kálið, þá settum við of mikið af því niður á sama tíma og því endaði ég á að gefa það flest. Það er nefnilega takmarkað hve miklu við getum torgað af káli á stuttum tíma :-) Ég þarf að dreifa því yfir á lengri tíma því sem ég set niður.

Við tókum til og þrifum garðinn nú í vikunni og kom í ljós að við höfðum meira pláss og settum því niður þrjár nýjar tegundir, blómkál, aðra tegund af káli og svo man ég alls ekki hvað þetta þriðja var :-) Philomone er greinilega mjög hrifinn af kryddjurtum og þau taka mikið pláss í garðinum. Stærðin á beðunum og magnið af hverju er í engu samræmi við það sem við notum þau þannig að við færðum kryddið yfir í minni beð og þá losnaði pláss fyrir grænmeti sem ég nota :-)

Eins settum við niður jarðarber, um 20 stilka, og verða jarðarberin orðin þroskuð og góð um jólin. Það verður frábært að fara út í garð og tína jarðarber til að hafa í eftirrétt á jólunum - bara dásamlegt  :-)

fimmtudagur, 10. nóvember 2011

Hreykin hænumamma


Þar kom að því að hænurnar mínar fengu að fara út og viðra sig aðeins. Þær voru nú ekkert á því og þurfti aðeins að ganga á eftir þessum elskum. En út fóru þær að lokum þó sumar þeirra reyndu að komast gaggandi brjálaðar inn aftur. Philomone sat yfir þeim til að vera öruggur um að þær færu ekki í grænmetisgarðinn okkar og rústuðu honum. Þær voru nú ekkert að skoða sig of mikið um, þær fundur sér bara einn blett í garðinum og voru ánægðar með lífið.

Svo kom að því að henda þeim inn fyrir kvöldið en þær voru ekkert á þeim buxunum.Við reyndum að reka þeir inn en það voru alltaf nokkrar óþekkar sem hlupu í burtu – þetta var bara eins og þegar maður var að smala í sveitinni í denn. Enda sáum við að þetti gengi ekkert og endaði það með því að Philomone varð að halda á hverri einustu inn í hús takk fyrir J


En þær eru algjört æði. Einn haninn er áberandi stærstur og sennilega mun ég halda honum og gefa hina. Við köllum hann Jónatan og hann er m.a.s. farinn að gala fyrir mig enda er það sko hreykin hænumamma sem býr hér J

miðvikudagur, 9. nóvember 2011

Fyll´ann takk!!!!


Það er sko meira en að segja það að fylla bílinn af eldsneyti í Malawi. Undanfarna mánuði hefur verið mikill skortur á bæði bensíni og olíu í landinu og ég hef margheyrt af fólki sem bíður, upp á von og óvon, í marga klukkutíma á einhverri bensínstöðinni. Það verður að segjast að ég hef verið nokkuð heppin hvað þetta varðar. Einu sinni gat ég rennt upp að bensíndælu og gellan átti fullt af bensíni fyrir mig. Svo höfum við bara alltaf átt 20 ltr á brúsa og um leið og brúsinn hefur tæmst höfum við farið á stúfana.

En nú brá svo við í síðustu viku að bíllinn var á síðustu dropunum og bensínbrúsinn galtómur. Ég var orðin verulega áhyggjufull yfir því hreinlega að lokast inni á heimilinu þannig að Villi tók bílinn á föstudaginn og henti honum í biðröð á einhverri bensínstöðinni. En það kom ekkert bensín svo hann kom heim með bílinn aftur, með enn færri dropum en um morguninn ;-)

Á laugardaginn vorum við búin að bjóða fólki heim í grillveislu seinni partinn og við vorum á fullu í undirbúningi þegar Villi fær símtal um að ef við viljum bensín þá verðum við að mæta NÚNA. Villi var að versla og hringdi í mig og ég þýt af stað að sækja hann og við brunum á bensínstöðina. Þannig var þá mál með vexti að maður einn hafði verið með bílinn sinn (sem notar olíu) í biðröð í marga klukkutíma og svo þegar bensín-tankbíll var kominn á stöðina og röðin aðeins farin að hreyfast þá hringdi hann í Villa. Hann var sem sagt að passa pláss í röðinni fyrir minn bíl og þegar ég kem að þá segir hann mér að fara inn í röðina fyrir framan sig og hann muni fara úr röðinni um leið og ég sé komin inn. Það þarf að passa þetta vel því annars koma aðrir bílar og troða sér inn. Ég geri sem mér er sagt og smelli mér inn í röðina fyrir framan. Þess má geta að akkúrat þar sem ég treð mér inn í röðina erum við í miðju hringtorgi. Það gerði þetta aðeins erfiðara vegna umferðar en ég er á litlum og nettum bíl og smeygði mér bara inn. Koma þá að nokkrir gaurar alveg brjálaðir og hundskamma mig fyrir að troða mér inn í röðina. Gaurinn sem var að passa stæðið fyrir mig komst ekki út því það var bíll við bíl því leit þetta út eins ég hefði bara troðið mér inn. Enda héldu mennirnir það og veifuðu höndum og hundskömmuðu mig. Ég varð alveg miður mín og gat ekki útskýrt málið vegna tungumálaörðugleika, þeir skömmuðust bara á sínu tungumáli og ég kann það ekki. Svo loks náði gaurinn “minn” að útskýra hvað væri í gangi, ég væri ekkert að troða mér inn heldur hefði hann verið að passa stæði fyrir mig en hann kæmist ekki út.

Við þessar útskýringar róuðust nú mennirnir heldur betur og fóru að útskýra fyrir mér að ég yrði að fara út úr stæðinu og fara einn hring um hringtorgið svo hinn bílinn kæmist út. Ég hélt nú ekki því þá myndi ég missa plássið mitt og ég færi sko ekki aftast í röðina. En nei nei, þeir lofuðu að passa plássið mitt sem þeir og gerðu.

Eins ég sagði þá var þetta í miðju hringtorgi og það var nokkur umferð enda hádegi og margir á ferli. Ég átti eitthvað erfitt með að komast út og af stað þannig að ég bara ákvað að leggjast á flautuna og leggja af stað. Flautan átti að vara hina bílstjórana við að ég væri á ferð – þetta virkaði alveg þrælfínt og frúin bara keyrir af stað án þess að líta of mikið í kringum sig því annars hefði ég aldrei komist af stað. Svona er nú að keyra í Lilongwe.

En sagan er nú ekki búin. Röðin hreyfist hægt og rólega og voru tvær raðir, önnur fyrir bíla og hin fyrir fólk með brúsa. Ég reyndi að passa mig að færa minn bíl alltaf þegar bílinn á undan fór nær. En eftir einhverja stund kemur sá bílstjóri (og þessi fyrir aftan mig kom líka) til mín og segir mér að ég verði að vera nær sér “það verði að vera stuðari við stuðara” annars koma leigubílstjórarnir og troða sér inn á milli. Ég passaði mig enn betur og færði mig eins nálægt og ég þorði.

Það einfalda atvik að láta fylla bílinn tók alveg þokkalega á taugarnar í frúnni og þykist ég viss um að blóðþrýstingurinn hafi aðeins risið við þessi læti. Eftir tæpa tvo tíma kemst bílinn minn loks að dælunni og ég gat látið fylla hann og svo brunað heim.

Eins og þið getið ímyndað ykkur þá hitnar oft í kolunum þegar fólk er búið að bíða í biðröð í marga klukkutíma. Enda voru þarna vopnaðir hermenn sem reyndu að hafa hemil á mannskapnum.

Það fór heldur lengri tími í þetta bensínstúss en við áttum von á og því varð undirbúningur fyrir grillveisluna kannski ekki eins mikill eins og til stóð – en veislan tókst samt meiri háttar vel og var skemmtileg J

Þó bíllinn sé fullur af bensíni þá vill nú samt þannig til að hann hefur staðið hér fyrir utan óhreyfður síðan á laugardag. 

þriðjudagur, 8. nóvember 2011

Flest flýgur nú....

Eftir hressilega úrkomu stytti upp um hádegið í gær en það var þungt yfir og mikil molla. Þannig að húsið var opið upp á gátt eins og hægt var og eftir að Villi kom heim úr vinnunni sat hann úti. Svo veit ég ekki fyrr til en hann kemur hlaupandi inn og lokar hurðum kyrfilega á eftir sér. Og ástæðan?? jú það hafði bara allt fyllst af fljúgandi maurum og komu þeir í þúsunda tali. Það var allt morandi í þessum kvikindum. Þetta eru stærri maurar en þessi "venjulegu" sem maður þekkir svo vel :-)

Svo þurfti ég að fara á fund í gærkveldi og það var varla að ég vildi fara út í þetta ógeð en af tvennu illu fannst þér þó skömminni skárri að hætta mér út í stað þess að tilkynna forföll vegna maura. Þetta gekk svo yfir á nokkrum klukkutímum en í morgun þegar við komum fram voru öll gólf, bæði inn og úti, þakin af vængjum og dauðum maurum. Reyndar voru þeir líka í sófanum og á borðum. Þetta var afskaplega geðslegt svona í morgunsárið. Svo til að toppa þetta lá dauð mús rétt fyrir utan hurðina þegar við opnuðum út í morgun.

Kunnugir segja mér að þessir fljúgandi maurar séu lostæti á meðan þeir eru lifandi. Það er alveg á hreinu að ekki ætla ég að sannreyna það  :-)


laugardagur, 29. október 2011

Lista- og handverkasýning

Við hjónin skelltum okkur á lista-og handverkasýningu í morgun. Þarna var samankominn dágóður hópur af listafólki sem var að sýna og selja eigin verk. Þetta voru m.a. málverk, ljósmyndir, alls kyns saumaðar vörur, mósaíklistaverk og margt fleira.

Mér fannst nú eiginlega hálfótrúlegt að sjá hve margir listamenn voru þarna að sýna handverkin sín því samfélagið er nú ekkert svaka stórt hérna í Lilongwe. En reyndar voru ekki allir frá Malawi, þarna voru einnig listamenn frá Zimbabwe og Mósambík sem komu gagngert til landsins til þess að sýna listaverkin sín og selja.

Við Villi byrjuðum á að heilsa upp á kunningjakonu okkar sem var með málverkasýningu og þar var að sjálfsögðu opnuð flaska af freyðivíni svona í tilefni opnunar sýningarinnar. Og hvað var klukkan, jú hún rétt náði að verða 10 :-)

En þetta var mjög skemmtilegt og gaman að sjá hve frjótt fólk er í listsköpun sinni.


Bólan kom hlaupandi í hús

Jæja þá kom að því að Rúnar Atli fengi hlaupabóluna. Þetta byrjaði í síðustu viku þegar við vorum í fríi við vatnið (þ.e. ég og Rúnar vorum í fríi, Villi þurfti að vinna). Einn morguninn sáum við nokkra bletti á bakinu á Rúnari og við Villi héldum að þetta væru bara moskítóbit. Svo nokkrum dögum seinna þá tók ég eftir því að bakið á krakkanum var allt út í rauðum blettum. Hann sagðist bara sjálfur halda að þetta væri hlaupabólan. Ha?? Hvernig datt drengnum þetta í hug?? Jú nefnilega ein stelpa í bekknum hans hafði fengið hlaupabóluna nokkrum dögum fyrr og kennarinn hafði farið vel yfir þetta með krökkunum, þ.e. einkenni og þess háttar.

Ég var nú ekki alveg til í að kaupa hlaupabóluna en ákvað nú að sjá til hvernig hann væri daginn eftir. Svo var nú bara eiginlega ekki um annað að ræða þegar ég sá hann daginn eftir. Hann var bókstaflega með rauða flekki út um allt.

Ég vildi nú fá álit læknis bara svona til öryggis. Við höfum haft nafn og númer hjá lækni á ísskápnum hjá okkur og töldum okkur vera til í hvað sem var. Ég hringi og segi við stúlkuna sem svarar að ég vilji panta tíma fyrir son minn hjá þessum ákveðna lækni. Ég náði ekki alveg hverju hún svaraði og áður en ég vissi af var ég komin á bið og loks slitnaði bara sambandið. Ég hringi aftur og tala aftur við sömu stúlkuna og kom þá í ljós að þessi læknir var hættur og þetta sé meira að segja ekki lengur læknastofa!!! Ja hver skollinn, hvað átti ég nú að gera. Ég þekkti enga lækna né vissi ég hvar læknastofur væru í bænum. En í gegnum gott fólk komst ég loks í samband við einn lækni og við Rúnar hittum hann síðar þann sama dag.

Og jú jú þetta reyndist vera hlaupabólan. Hann var kominn með bletti á augnlokin, inn í annað eyrað og m.a.s. á vörina. Það var alveg svakalegt að sjá greyið. Hann þjáðist af töluverðum kláða í ca tvo daga en svo bara ekki söguna meir. Það er með ólíkindum hvað þetta hefur angrað hann lítið svona miðað við hve slæmur hann var.

Nú eru allar bólurnar orðnar þurrar og engar nýjar komið í ca tvo daga þannig að gaurinn kemst loksins í skólann eftir helgi. En það er enn rosalegt að sjá hann eins og sést á þessari mynd. Hann þvertók fyrir það að ég tæki mynd af honum að framan :-)


sunnudagur, 11. september 2011

Hænuungarnir mínir

Jæja þá hef ég loksins náð að taka myndir af hænuungunum mínum. Þeir eru algjör krútt og hafa stækkað sjálfsagt um helming síðan ég fékk þá.

Eftir ca sex vikur þurfa þeir að komast í hænsnahús og Villi ætlar að smíða það fyrir mig. Hann er byrjaður að undirbúa smíðina og er að dunda sér við að skoða hænsnakofa héðan og þaðan og ég geri ráð fyrir að ungarnir mínir fái flott hús :-)


Eins og ég sagði frá um daginn, keypti ég 15 unga og sem betur fer dó enginn þeirra. Nú er bara að vona að sem flestir unganna séu hænur. Ég skoðaði þá soldið vel í morgun og gat ekki betur séð en að sjö þeirra séu með sterka rauða rönd ofan á höfðinu - og mér datt í hug að þetta sé byrjun á hanakambi. Ekki alveg það sem ég óskaði mér og þar sem ég er algjör byrjandi í hænsnastússi þá veit ég svo sem ekkert hvort þessi rönd sé byrjun á hanakambi eða ekki. Þannig að ég krosslegg fingur :-)

laugardagur, 10. september 2011

Myndir

Nú er ég loksins búin að finna myndavélina og er að hlaða hana. Mun reyna að taka myndir á morgun og setja á bloggið.

Rúnar og skólinn

Rúnar Atli er kominn á fullt skrið í skólanum og kominn í góða rútínu. Eftir stóra flutninga er mikilvægt að koma góðri rútínu í gang. Á morgnana fer Villi með Rúnar í skólann og leggja þeir af stað um kl. 7, krakkarnir eiga að vera mættir um tíu mínútur yfir 7. Rúnar er svo búinn kl. 13.30 alla daga vikunnar nema á föstudögum, þá lýkur skólanum kl. 12.10.

Skólavikan telur sex virka daga og þetta kerfi angrar mig þokkalega. Öll fög eru á sínum föstu dögum, svona eins og maður þekkir. En hérna er það hins vegar aldrei á sömu vikudögunum, nema sjöttu hverja viku eða svo. Tökum t.d. leikfimi, Rúnar er í leikfimi á dögum 2 og 5. Í þessari viku var leikfimi einungis á miðvikudaginn því hann var dagur nr. 5. Í næstu viku verður hins vegar leikfimi á mánudaginn og fimmtudaginn. Þannig að á hverjum morgni þarf ég að reikna út hvaða dagur er í dag svo hann fari nú með réttar bækur í skólann og þess háttar. Ég þyrfti eiginlega að útbúa einhvers konar dagatal til að merkja inn á hverjum degi. Ég bara skil ekki hvers vegna svona kerfi er notað.

Við erum reyndar ekki alveg óvön þessu kerfi því þetta var svipað í Namibíu hjá stelpunum. En þar pössuðu þær alveg sjálfar upp á hvaða dagur væri og hvað þær ættu að taka með sér.

Rúnari finnst bara gaman í skólanum, fyrir utan tónmennt. Hann tekur alveg út fyrir að mæta í þá tíma. Sem betur fer (finnst honum) er tónmennt aðeins einu sinni í viku :-) Hann fékk reyndar stóran plús frá kennaranum í gær því hann er sá fyrsti sem kemur með plastaða kennslubókina og þetta gerði kennslustundina eitthvað aðeins skemmtilegri fannst honum :-) Svo finnst honum mjög spennandi að vera í frönsku og tölvutímum. Hann var voða rogginn um daginn því þá fóru þau í fyrsta sinn á internetið í skólanum og honum fannst það alveg meiri háttar. Nú telur hann sig vera útlærðan á internetinu :-)

Fyrir utan hinn hefðbundna skólatíma býðsti nemendum að skrá sig á hin ýmsu námskeið, svo sem íþróttir eða leiki. Eftir mikla ígrundun og valkvíða ákvað hann að skrá sig í golf - takk fyrir. En nú mætir hann sem sagt í golfkennslu á miðvikudagseftirmiðdögum og virðist hafa gaman að :-)

mánudagur, 29. ágúst 2011

Sally skoðar heiminn

Það hefur gengið vel með Sallý (köttinn) og Snapper/Snúllu (hundurinn). Þau virðast vera að aðlagast nýju heimili og nýju fólki alveg þokkalega vel. Sally er inniköttur sem gerir þó þarfir sínar úti - við vorum ánægð með að vera laus við kassa og sand og þess háttar skemmtilegheit.

Sally hefur þó varla þorað út úr húsið síðan hún kom hingað. Hún fann sér fínan stað undir rúminu hans Rúnars og þar virðist fara vel um hana. Við höfum reynt að lokka hana út og af og til borið hana út og um leið og við höfum sleppt henni er hún rokin inn aftur. Ég var farin að velta fyrir mér hvar í ósköpunum hún gerir þarfir sínar.

Ég hafði ekki fundið neina kattarhlandslykt eða neitt slíkt og ekki þorði hún út, þannig að þetta var orðið forvitnilegt.

Í morgun kom svo í ljós hvað mín hafði gert. Hún hafði hoppað upp á kommóðu og komið sér fyrir á fötunum hans Villa og pissað þar. Svo gerði hún enn meira á mottuna og moskítónetið hjá honum, úff eins og hann er nú mikið fyrir ketti :-)

En í morgun þorði hún loksins að stíga sjálf út úr húsi og út á stétt. Hún hafði farið þrisvar sinnum út fyrir kl. 7, bara til að skoða heiminn. Hún fór nú ekki lengra en út á stétt, en þetta er vonandi skref í rétta átt hjá henni.

miðvikudagur, 24. ágúst 2011

Fjölgun í fjölskyldunni

Það fjölgaði heldur betur í fjölskyldunni í dag. Við fengum 15 yndislega krúttaralega hænuunga. Í mínum huga áttu þeir að vera pínulitlir og gulir, en reyndin var nú aðeins önnur. Þeir eru dökkgráir og heldur stærri en ég hafði gert mér í hugarlund. En þeir eru yndislegir.

Við, ég og Philomon (garðyrkjumaðurinn) komum þeim fyrir í kassa og settum ljósaperu ofan í kassann til að halda á þeim hita. Og settum sag í botninn. Svo þurfti ég að fara í Landbúnaðarráðuneytið til að kaupa vítamín og bólusetningarlyf fyrir þá. Konan sem ég talaði við þar spurði hve marga ég hefði fengið. Ég svaraði því til að mér hefði fundist 15 stykki vera fín tala. Nei nei, hún hélt nú ekki. 30 hænur væru fín tala :-) En ég læt mér nú duga þessar 15, alla vega svona í byrjun.

Þeir geta verið í þessum kassa í ca þrjá mánuði en að þeim tíma liðnum verð ég að vera búin að útbúa hænsnakofa fyrir þá.

Svo er bara að vona að þeir týni ekki tölunni hjá mér. Það er víst ekki óalgengt að þeir drepist úr kulda, en þar sem vorið er komið og farið að hitna þá ætti þetta að vera fínn tími fyrir hænuunga. Eins eiga krákurnar það til að grípa hænuunga, því þarf að passa upp á að þeir komist ekki út á meðan þeir eru svona litlir.

Ég ætlaði að setja mynd af þeim hérna á bloggið, en ég man ekkert hvar myndavélin mín er. Svo það verður að bíða betri tíma.

þriðjudagur, 23. ágúst 2011

Ævintýri úr umferðinni

Eins og gengur þarf ég reglulega að fara í bæinn og versla í matinn og þess háttar. Þetta hefur valdið mér nokkrum áhyggjum því ég er enn að læra að rata og eins er umferðin hérna í Lilongwe all sérstök. Það eru nokkur umferðarljós í bænum og ekki öll virka. Þannig að þó maður lendi á grænu ljósi þá er svo sem ekkert endilega víst að það sé grænt á mann. Alla vega virðast aðrir bílstjórar - sem koma þá þvert á mig - ekkert viðurkenna það að það sé grænt á mig. Heldur bara vaða þeir áfram. Svo eru ein ljós sem virka bara alls ekki. Þetta virkar oft frekar eins og 4 way stop. En hvað um það.

Eitt gott ráð virðist vera að bara vaða áfram - því einhver mun þurfa að slaka á svo ekki verði slys. En sá sem slakar á mun hins vegar þurfa að bíða í þó nokkra stund áður en hann kemst áfram aftur. Þannig að ég reyni núna eins og ég get að bara láta mig vaða áfram.

Ég þekki orðið leiðir í nokkrar búðir og eins heim til hinna Íslendinganna sem búa í borginni. Ég er þó nokkuð viss um að ef ég myndi reyna að bæta við einn leið í viðbót í heilabúið á mér þá myndi eitthvað annað detta út :-) Það er bara ekki pláss fyrir meira í bili. Alla vega þangað til ég er orðin öruggari á þessum leiðum sem ég nú rata.

Þegar ég fer í bæinn þá þarf ég alltaf að fara eina ákveðna götu. Sú gata er rosaleg. Þetta er stutt gata en maður keyrir hana ekki hraðar en á ca 10 eða 20. Það eru svakalegar holur. Þær eru bæði djúpar og breiðar og væri reyndar réttara að segja að þetta væru holur með smá malbiki á milli og þá helst á miðju götunnar. Ég fæ alltaf verki þegar ég fer þessa götu og reyni að sikk sakka á billi holanna, en það er ekki nokkur séns að losna framhjá þeim. En Dæjinn minn drattast þetta, þessi elska.

Ég reyni að versla snemma á morgnana því þá er enn nokkuð róleg umferð. Strax upp úr 9 er hún orðin meiri.

En í dag þurfti ég að skjótast út seinni partinn. Umferðin var náttúrulega þokkaleg, bæði af gangandi vegfarendum og bílum. En út þurfti ég. Ég held mína leið og kemst í búðina og á leiðinni til baka fer ég þessa HOLÓTTU götu (vinkonu mína). Þar voru nokkrir bílar á undan mér og við reynum öll að sikk sakka eins og hægt er fyrir umferðinni sem kom á móti. Svo eru nokkrir bílar fyrir framan mig á gatnamótunum tekur þá ekki leigubíll fram úr mér (þetta eru litlir sendiferðabílar) og fer fram fyrir alla hina bílana líka. Fyrst bölvaði ég viðkomandi bílstjóra fyrir frekjuna. En datt svo í hug að sennilega væru allir hinir bílarnir að bíða eftir að geta beygt í hina áttina. Þannig að ég bara ákvað að elta leigubílinn og "bruna" fram úr ca 5 bílum á gatnamótunum. Kemur þá ekki í ljós að hafði elt leigubílstjórann upp á gangstétt og troðið mér fram fyrir alla hina. Ég þurfti að koma mér niður af gangstéttarbrúninni og inn á götuna aftur.

Úbbs, mín fékk smá fyrir brjóstið en gaf bara í og gat andað rólegar þegar ég var komin í öryggið heima hjá mér. Ég neita því ekki að hafa farið með eins og eina eða tvær bænir þegar heim var komið.

Annars er ég viss um að þessi umferð er ekki góð fyrir blóðþrýstinginn :-)

mánudagur, 22. ágúst 2011

Snilld

Eins og Villi hefur bloggað um þá slasaði Rúnar Atli sig um daginn með þeim afleiðingum að brjóta upp úr tveimur framtönnum (báðar fullorðinstennur) og önnur þeirra losnaði. Þessi lausa virðist vera að festa sig aftur og ég fer svo með hann til tannsa aftur á fimmtudaginn og þá bara vona ég að tönnin verði orðin pikkföst.

Þetta gerðist á föstudaginn. Á laugardaginn fór gæinn út að leika sér í fótbolta og kom svo til mín og sagði að það hefði komið smá slys og ég mætti ekki verða brjáluð. Ég varð að fara út með honum svo hann gæti sýnt mér. Kom þá í ljós að boltinn hafði óvart farið í eina rúðu og brotið hana.

Ég velti svo fyrir mér hvort hann kæmist í gegnum sunnudaginn án einhvers atviks - og sem betur fer þá gekk það nú eftir. Hann komst í rúmið í gærkveldi án þess að brjóta eitthvað eða slasa sig. Svo var komið að mánudegi; eftir skóla fór hann út að leika og kom svo haltrandi inn og alveg að drepast í fætinum. Eðlilega spurði ég hvað hefði eiginlega komið fyrir. Jú sko hann sparkaði í eitt tré. Þegar ég forvitnaðist um hvers vegna í ósköpunum hann væri að sparka í tré. Þá vildi hann bara athuga hvort hann gæti sparkað svo fast að eitthvað myndi detta niður úr trénu.

Þessi snilld hlýtur að koma úr föðurættinni :-)

laugardagur, 20. ágúst 2011

Brot ofan á brot

Tannbrot í gær, rúðubrot í dag. Ætli Rúnar Atli komist í gegnum daginn á morgun án þess að brjóta eitthvað???

fimmtudagur, 18. ágúst 2011

Lilongwe

Við höfum verið ansi dugleg við að taka upp úr kössum og koma dótinu okkar fyrir. Það fer m.a.s. að styttast í að við setjum myndir upp á veggi og þá verður þetta allt komið. Húsið er að verða að heimlinu okkar og það er yndisleg tilfinning.

Villi byrjaður að vinna og Rúnar í skólanum. Þannig að lífið er að komast í fastar skorður og bráðum kemst ég af stað með saumaskapinn.

Rúnari líst vel á skólann sinn og er ánægður með kennarann. Það var reyndar frí bæði í gær og dag í skólanum. Í júlí urðu uppþot hérna í Malawi þar sem á bilinu 15 - 19 manns létu lífið (áreiðanlegar tölur eitthvað á reiki) og það var búið að boða til nýrra mótmæla í gær og dag. Þannig að skólinn tók þá ákvörðun að hafa bara lokað, eins voru mörg fyrirtæki lokuð í gær. En á síðustu stundu var mótmælunum frestað en þrátt fyrir það var bærinn víst svo til mannlaus í gær fyrir utan löggur á rölti og eftirliti. En í dag er allt komið í samt lag aftur, nema krakkarnir í skólanum fá annan frídag og veit ég að Rúnar er ekkert ósáttur :-)

Nú þarf ég að fara að huga að garðyrkjunni því hér er vor og þá sjálfsagt rétti tíminn til að huga að slíku. Það hlýtur að vera sama hvort maður sé á suður- eða norður hvelinu, vorið hlýtur að vera tíminn til að setja niður. Philomone, garðyrkjumaðurinn, er að undirbúa beðin fyrir mig, hann er búinn að róta upp moldinni og þrífa allt. Þannig að nú virðist allt til reiðu. Ég hlakka til að koma einhverju niður, en ég hef ekki ákveðið hvað ég ætla að rækta. Mér datt í hug tómatar, gulrætur, og rabbabari. Eins einhverjar kryddjurtir. Þetta verður spennandi.

Ég losna ekki við moskítóflugurnar - þær éta mig lifandi þessar elskur. Ég byrja alla morgna á því að kveikja á coils og set út um allt hús, eins spreyja ég eitri á mig en ekkert virkar. Spurning hvort ég drepi mig bara ekki á þessu eitri - í stað þess að losna við moskítóflugurnar :-)

Ferðasaga

Ég hef verið alveg sérlega blogg-löt undanfarið en ætla að reyna að bæta úr því :-)

Við lögðum af stað frá Windhoek á Dæjanum á föstudagsmorgni og hlökkuðum við til ferðarinnar. Því verður hins vegar ekki neitað að ég var ansi smeyk vegna þess að við vorum með kerruna okkar í eftirdragi og ég var bara ekki viss um að Dæjinn minn hefði það. Hvað ef það væru brattar brekkur á leiðinni; gæti bílinn drifið upp þær með kerruna?? Ég sá alveg fyrir mér að einhvers staðar yrðum við bara hreinlega að skilja kerruna eftir, eða alla vega að skilja dót úr henni eftir. En það var nú svo sem ekki mikill farangur í kerrunni, eiginlega bara töskurnar okkar sem við komum með frá Íslandi.

En sem sagt við lögðum af stað og fyrsta daginn var nú ekki keyrt mjög langt, einhverja 500 km. Sem er eins gott því við lögðu heldur seinna af stað en til stóð. En við náðum á náttstað fyrir myrkur. Svo var lagt af stað eldsnemma daginn eftir því þá þurfti að keyra heldur lengra, held það hafi verið um 800 km. Við gistum á flottu hóteli í Katima Mulilo og það fór vel um okkur. Kerran var til engra vandræða því Namibía er svo flatt og vegirnir breiðir og beinir. Ég keyrði m.a.s. einhvern hluta leiðarinnar :-)

Þennan dag vorum við rúmlega 10 tíma á ferð og ég þakka bara fyrir að Rúnar Atli er góður í bíl og engin bílveiki sem gerir vart við sig (gerist mjög sjaldan). Svo lá leiðin í gegnum Botswana og inn í Zimbabwe. Þar gistum við tvær nætur í Victoria Falls á ótrúlega flottu hóteli. Við ákváðum að vera einn aukadag þar til að slappa af og hlaða batteríin fyrir næsta legg ferðarinnar.

Við gerðum nú ekki mikið í Victoria Falls, við fórum að sjálfsögðu að skoða fossana sem eru alveg ótrúlega mikilfenglegir. En annað gerðum við svo sem ekki. Við vorum þarna fyrir tveimur árum og þá gerðum við fullt af túristahlutum og nenntum því bara ekki í þetta skipti. Það var mjög gott að bara taka hlutunum rólega og skoða í matvöruverslanir - þar var allt í boði sem hægt er að láta sér detta í hug. Það virðist enginn vöruskortur vera þar.

Mér finnst alveg meiri háttar gaman og gott að vera þarna, það fer svo vel um mann og fólk er svo vinalegt. Seinna kvöldið okkar fórum við að borða á Boma Restaurant sem er frábær staður. Það er mikið trommushow þar sem gestir taka virkan þátt og Rúnar Atli stóð sig frábærlega. Eins fékk hann málað ljón og sebra á kinnarnar. Þetta mátti ekki þrífa af í nokkra daga á eftir :-)

Nú var kominn tími til að halda áfram og fara inn til Zambíu og gistum við næst í Lusaka. Sú borg er alveg svakaleg, lætin og umferðin eru ótrúleg. Við komum reyndar inn í borgin á háannatíma og það tók okkur um klukkutíma að komast í gegnum miðbæinn og að hótelinu sem var hinum megin í borginni. Svo voru endalausir sölumenn að ganga á milli bílaraðanna að selja allt milli himins og jarðar. Það er ekki séns að ég hefði þorað að keyra í borginni.

Daginn eftir kom loks að því að keyra síðasta legginn og komast "heim".

Ferðin gekk mjög vel og hvergi lentum við í vandræðum á landamærum, smá ævintýrum kannski eins og Villi hefur bloggað um :-) Það var ótrúlega lítil umferð alla þessa leið, frá Namibíu til Malawi og átti ég von á einhverju allt öðru.

Það var mjög fallegt að keyra þessa leið og sérstaklega var gaman að keyra í gegnum Zambíu, hérna megin við Lusaka. Það var svo fallegt, við keyrðum í gegnum endalausa fjalladali og mikill gróður út um allt. Það er bara eins gott að ég vissi ekki af þessum fjallvegum því þá hefði ég sko ekki þorað að taka kerruna með :-) En Dæjinn klikkaði ekki og fór upp allar brekkur án þess að finna fyrir því að hafa eitthvaði í eftirdragi. Á þessari leið lentum við m.a. á eftir kosningabílum, þar sem einhver frambjóðandinn var að auglýsa sig. Það voru stór gjallarhorn á öðrum bílnum sem bílstjórinn notaði óspart til að spila einhverja tónlist á útopnu. Það var erfitt að taka framúr bæði þessum bílum sem öðrum því það voru svo svakalega stórar holur í veginum sem maður sá ekki fyrr en komið var að þeim. En þetta hafðist nú allt.

Það var mjög gott að komast loks á leiðarenda og þurfa ekki að fara í bíl strax daginn eftir. Þá var bara hægt að skella sér í að taka upp úr kössum :-)


fimmtudagur, 14. júlí 2011

Styttist í þetta

Nú eru tvær vikur í brottför og ég segi bara eins og er að ég er komin með smá hnút í magann. Bæði vegna undirbúnings flutninganna og ferðalagsins sjálfs. Enn og aftur er ég að pakka niður, það eru ekki nema átta mánuðir síðan ég pakkaði síðast niður og ég er alveg komin með upp í kok af þessu. Við Villi flytjum nú "létt", það eru örfáir kassar sem fara vegna okkar, ætli þeir verði ekki fjórir. En það er sonurinn, það er ekki hægt að segja að hann flytji "létt" eins of foreldrarnir. Í þessum töluðum orðum er stofan undirlögð undir Playmo því það þarf að sjálfsögðu að sortera allt áður en því verður pakkað. Ég er nú að vona að ég klári þennan pakka í dag og geti þá fljótlega skellt mér í Legóið - það verður sko ekki minna mál en Playmóið.

Um leið og ég er að pakka þá er ég að reyna að ganga þannig frá íbúðinni að Dagmar geti flutt inn. Hún kemur náttúrulega með sína búslóð og því þarf að gera pláss fyrir hana. Þannig að nú er bara verið að henda og verða sjálfsagt farnar nokkrar ferðir á Sorpu.

Svo er það ferðalagið sjálft. Þar sem við eigum bíl í Namibíu munum við keyra þaðan yfir til Malawi. Við höfðum alltaf gert ráð fyrir að keyra: Namibía, Botswana, Zimbabwe, Mosambík og loks Malawi. En svo var Villa bent á aðra leið, þ.e. að fara í gegnum Zambíu og sú leið virðist töluvert styttri. Þannig að við ákváðum að fara frekar þá leið.

Við erum ansi róleg hvað gistingu á leiðinni varðar og höfum ekki enn pantað gistingu. Við eigum nefnilega eftir að ákveða nákvæmlega hvernig við ætlum að gera þetta, þ.e hvað ætlum við að keyra mikið á dag og þess háttar. En það hlýtur að fara að koma, kannski ekki seinna vænna :-)

- Posted using BlogPress from my iPad

föstudagur, 8. júlí 2011

Tinna Rut og Justin

Þetta er ein af örfáum myndum sem ég tók þegar ég var hjá Tinnu Rut. Gæðin eru nú ekkert sérstaklega mikil en það verður að hafa það.

Nett áfall

Eins og ég hef bloggað um áður, þá fékk ég iPad2 (hér eftir kallaður paddi) í afmælisgjöf. Þetta er algjör dúndurgræja og ég er svo ánægð með hana. Þegar við fórum til Svíþjóðar og Danmerkur í júní tók ég sjálfsögðu þetta töfratæki með mér. Stundum báðu krakkarnir um leyfi til leika sér á paddanum og ég af minni alkunnu góðmennsku veitti þeim náðarsamlegast leyfi. Þar sem ég átti ekki hulstur utan um paddann var ég mjög meðvituð um rispa ekki gripinn. Því varð alltaf vera til taks viskastykki eða einhver mjúk tuska til leggja á borðið undir paddann. Krakkarnir voru með þetta alveg á hreinu og pössuðu mjög vel upp á gripinn.

Svo leið mín til Prince George til hennar Tinnu minnar og sjálfsögðu tók ég paddann með. Þar keypti ég hulstur um gripinn og gat því andað aðeins léttara hvað rispur varðar. Eins og ég hef áður bloggað um átti ég yndislegan tíma hjá henni dóttur minni.

Ferðalagið heim gekk vel, var doldið langt en ókey, ég lenti á Íslandi um miðnætti og var mjög spennt hitta strákana mína aftur. Ég er nýbyrjuð taka fullan toll þegar ég lendi hérna heimanúna í sumar frá Svíþjóð var í fyrsta sinn J Ég sem sagt keypti mínar vínflöskur sem leyfilegar eru og m.a.s. sígarettur (fyrir einvherja ónefnda) J Taskan mín kom fljótlega út og ég var tilbúin hitta gæjana mína sem biðu mín. Annar þeirra var reyndar hálfsofandi bíða eftir mér en það dró ekki úr spenningnum hjá mér hitta þá.

var ég tilbúin ganga í gegn og hitta strákana, kemur þá ekki einn tollari og vill endilega tala við mig og skoða varninginn minn. Hann bað mig voða kurteislega hvort ég vildi ekki koma og leyfa sér skoða í töskurnar mínar. Ég hélt það ekki málið. Hann byrjar skoða tollinn minn og þar var allt í lagi (glætan ég myndi þora taka meiri toll en ég taka með mér inn í landið) J Svo biður hann mig setja töskurnar í gegnum skannanekki málið. vill hann skoða í handtöskuna mína og það var minnsta mál. Þar var ég með paddann og poddann, reyndar tvo því ég var með minn og Tinnu; ásamt einhverju öðru smálegu. Tollarinn reyndar fattaði ekki ég var með padda en ég vissi það ekki fyrr en síðar.

Svo vill hann skoða í stóru ferðatöskuna því hann hafði séð í skannanum ég væri með einhver rafmagnstæki þar. Ég kveikti ekki alveg á hvaða raftæki það væru en hann mátti sko alveg fara í gegnum óhreina þvottinn minn. Svo fattaði ég ég var með gömlu fartölvuna hennar Tinnu (hún virkar ekki eins og hún á gera og því tók ég hana til Íslands). Hann var fljótur sjá þessi fartölva var forngripur og opnaði hana ekki einu sinni. Svo hann þráðlausa lyklaborðið mitt sem ég fékk með paddanum. Ég geymi lyklaborðið enn í kassanum svo það rispist ekki. Tollarinn minn spurði mig hve mikið þetta hefði kostað??? Ha!!!! Hvað meinar maðurinn? Ég sagði honum sem var ég hefði fengið þetta í afmælisgjöf og þetta væri lyklaborð við paddann minn. “Ha, ertu með iPad með þér??? Spyr hann mig . Ég hélt það , hann væri í handtöskunni minni. Hann rýkur beint í handtöskuna mína aftur (munið, hann var búinn skoða allt sem ég hafði í henni). Þar fann hann paddann minn og spyr mig hvar ég keypti hann. Ég sagði honum eins og var maðurinn minn hafi gefið mér hann í afmælisgjöf. “ en ertu með kvittunina fyrir hann???” Nei svaraði ég því þetta var afmælisgjöf og ég hafði ekki fengið kvittun með gjöfinni. Hann segist þá þurfa taka paddann og ég geti komið á morgun með kvittunina til sanna hann keyptur á Íslandi.

Ég bara missti málið og fór næstum gráta. Ætlar maðurin virkilega taka paddann af mér??? hann sagðist verða gera það, þetta væri vinnan hans. En ég benti honum á hann hafði ekki einu sinni séð paddann þegar hann skoðaði í handtöskuna mína, heldur hafði ég sagt honum frá honum. hann viðurkenndi það, en það breytti svo sem engu, ég þyrfti sanna það hann hefði verið keyptur á Íslandi. Svo kom þarna einhver yfirmaður og útbjó eitthvert málanúmer á mig og paddann minn. Ég ligg hálfgrátandi fram á borðið hjá manninum og segist bara ekki trúa því hann ætli taka hann af mér. En ef hann geri það þá er sko eins gott hann fari vel með gripinn og það komi ekki EIN rispa á hann. Hann fann greinilega afskaplega til með mér en sagðist bara vera vinna vinnuna sína. Saman fórum við í gegnum paddann til reyna finna einhverja dagsetningu um það hvenær ég byrjaði nota hann svo ég gæti sannað hann væri keyptur á Íslandi, en við fundum ekkert.

Paddinn minn var núna kominn með eitthvað málanúmer og við bæði komin í tölvuna hjá tollinum og ég með grátstafinn í kverkunum. Þá allt í einu fær frúin hugljómun: “bíddu við…. ef þú leyfir manninum mínum komast inn í heimabankann sinn í tölvunni þinni þá getur hann sýnt þér paddinn var keypur á Íslandi”. Tollaranum leyst mjög vel á þetta og við rukum fram til sækja Villa, og þennan sofandi. Innan við 2 mínútum síðar gátum við sýnt þeim paddinn var sko víst keyptur á Íslandi og ég fékk fara með hann heim. Mig grunar að manninum hafi verið létt þegar hann horfði á eftir þessari erfiðu konu með paddann sinn ganga út úr flugstöðinni :-)

Tollarinn sagði mér þegar fólk væri ferðast með svona dýran grip, þá yrðu þau hafa kvittunina með. Kæru lesendur, hvaða líkur haldið þið séu á því ég fari aftur í flugvél án þess hafa kvittunina með mér???

Þetta er í fyrsta sinn sem ég er stoppuð í tollinum og að lenda í þessu með paddann minn olli því bara að ég fékk nett áfall og ég hef bara ekki getað bloggað um þetta fyrr :-)