Powered By Blogger

þriðjudagur, 22. febrúar 2011

Vetrarfrí

Í gær og í dag erum við Rúnar Atli í vetrarfríi og við erum sko meira en sátt við það :-) Það er mjög gott að fá svona fjögurra daga helgi og við höfum tekið þessu nokkuð rólega og bara dundað okkur. Fórum í sjö ára afmæli á sunnudaginn - sem var mjög skemmtilegt. Í gær fórum við svo á bókasafnið í Gerðubergi. Við vorum þar í langan tíma því það þurfti að skoða svo margar bækur og ákveða hvaða bækur ætti að fá lánaðar. En hann fékk sitt eigið bókasafnsskírteini og kom heim með sjö bækur. Í morgun fórum við svo í Húsdýragarðinn. Garðurinn kom mér skemmtilega á óvart. Ég hef aðeins einu sinni áður farið þangað og var það árið 1991 - sumarið sem við fluttum erlendis. Ég held að Rúnar Atli hafi farið einu sinni, fyrir kannski þremur árum, alla vega man hann ekki eftir því.

Við skemmtum okkur mjög vel og fórum sjálfsagt þrjá hringi um garðinn. Honum fannst greinilega skemmtilegast að fylgjast með selunum og við vorum svo heppin að þeim var gefið á meðan við vorum þar.

Þó það hafi nú ekki verið kalt úti, þá komum við heim hálfloppin en mjög ánægð :-)

mánudagur, 21. febrúar 2011

Mikil hamingja

Það varð mikill hamingjudagur sem rann upp í dag. Það var hringt í okkur Rúnar Atla í morgun og okkur tilkynnt að dótið hans Rúnars væri loksins komið til landsins og það yrði komið með það heim eftir hádegið.

Eins og sést á þessari mynd var gaurinn þokkalega sáttur :-)


Það voru örugglega nokkur hundruð litlir hlutir sem komu upp úr kössum og pokum, sem þurfti svo að setja saman, eins og t.d. spítalann. Rúnar Atli var nú ekki lengi að redda því.


Þegar stofan var orðin undirlögð undir dót, hvarflaði að mér í nokkrar sekúndur hvort það gæti verið að við Villi höfum verið aðeins of viljug að kaupa dót fyrir hann. En nei nei, það held ég varla :-) En herbergið hennar Tinnu er Playmo-herbergið og hans eigið er Lego-herbergið. Svo sefur hann í hjónaherberginu - alveg frábært líf :-)

laugardagur, 12. febrúar 2011

Hvað breytist???

Við mæðginin erum að horfa á lokakeppni íslensku júróvisjónkeppninnar og Páll Óskar er að spyrja Heru Björk hvernig hennar líf hafi breyst frá þátttöku sinni í fyrra. Rúnar Atli mátti nú ekkert vera af því að heyra hvernig hennar líf hefði breyst því hann var fljótur að segja "mamma, mitt líf hefur ekkert breyst". Ég: ha, bíddu þú ert fluttur til Íslands og byrjaður í 1. bekk". Nei mamma, mitt líf er bara venjulegt".

Yndislega einfalt :-)