Powered By Blogger

fimmtudagur, 18. febrúar 2010

Mikið undrunarefni

Eins og sumir vita þá keypti Rúnar Atli sér fiska og fiskabúr um daginn. Hann var voða ánægður með sína 10 fiska. Endrum og sinnum leit ég á fiskabúrið og fylgdist aðeins með fiskunum og alltaf taldist mér þeir vera 10. Svo einn daginn taldi ég bara níu - sama hvað ég taldi oft. Við Villi ræddum þetta og sættumst á að það væri nú mjög erfitt að fylgja öllum fiskunum eftir og telja þá alla - því þeir eru á sífelldri hreyfingu. En í nokkra daga sat ég og taldi - sjáið þið þetta ekki alveg fyrir ykkur :-) - og alltaf sá ég bara níu stykki. Kom nú að því að Villi fór að telja líka og jú það eru bara níu fiskar í búrinu. Okkur datt í hug að einn fiskurinn hefði drepist og Flora fjarlægt hann á meðan Rúnar var í skólanum. En ekki vildi hún kannast við það.

Þá er stóra spurningin - hvað varð um einn fiskinn??? Því það er alveg krystaltært að þeir voru 10 í upphafi. Þetta er hinn stóri leyndardómur á heimilinu í dag :-) 

sunnudagur, 14. febrúar 2010

Bolla bolla

Bakarinn á heimilinu gerði þessar líka góðu bollur í tilefni dagsins


Þær runnu ljúft niður :-)

Stífar æfingar

Gærdagurinn var mikill æfingadagur hjá feðgunum eins og meðfylgjandi myndir sýna - reyndar náði ég nú eiginlega bara myndum af gólfæfingunum :-) 


Svo var fínt að komast beint í svona hádegisverð :-)

Það fór rosalega vel um mig á meðan á þessum æfingum stóð, sat í stól með góða bók í hönd - toppurinn - ekki spurning :-)

miðvikudagur, 10. febrúar 2010

iPad

Þetta er nýja draumatækið, ekki spurning. Ég sé alveg fyrir mér ánægjuna að liggja uppi í rúmi á kvöldin og lesa góð bók, en að þurfa ekki að halda á sjálfri bókinni heldur einhverju örþunnu og léttu tæki :-) Dásamleg tilhugsun.

Hins vegar geri ég nú ekki ráð fyrir að það sé eins að lesa bók af iPad eins og að fletta sjálfri bókinni. Held það komi ekkert í staðinn fyrir að fletta og heyra skrjáfið :-) 

Ef mér hlotnast aukapeningur einhern tímann þá mun ég kannski versla mér þennan grip en það yrði algjörlega gert fyrir Villa. Því eins og kannski sumir hafa heyrt þá þolir hann illa að það sé ljós á náttborðinu hjá mér heilu næturnar á meðan ég les í bók. iPad mun leysa þann vanda hans. Þegar ég hugsa þetta betur þá náttúrulega hlýtur hann bara að gefa mér svona grip svo hann geti sofið í friði á nóttunni. Og hans vegna mun ég nota iPadinn. Hvað maður leggur ekki á sig fyrir liðið sitt :-)


sunnudagur, 7. febrúar 2010

Loksins, loksins

Um daginn áskotnaðist mér smá peningur sem ég átti eiginlega alls ekki von á og var mikið að velta fyrir mér í hvað ég ætti að nota peninginn. Það var ýmislegt sem kom til greina, eins og fatakaup, matur, eða eitthvað álíka “skemmtilegt”, en ég var ekki alveg sátt við það. Ég vildi kaupa eitthvað sem yrði til í langan tíma. Svo ég brain stormaði smá og datt svo niður á hlut sem mig hefur langað í í mörg ár. Jú jú frúin keypti sér Kitchen Aid hrærivél, eldrauða. Ég hef aldrei átt hrærivél, ekki svona alvöru grip, og þetta er bara æði. Oh ég er svo glöð að hafa fengið óvæntan pening J




laugardagur, 6. febrúar 2010

Samræður

Rúnar: Mamma, hvenær verð ég nógu gamall til að fá tölvu?

Mamma: Af hverju þarft þú tölvu?

Rúnar: þegar ég þarf að senda skilaboð og svoleiðis, þú veist eins og pabbi.

Mamma: ja ég hef bara ekki velt því fyrir mér, ég skal hugsa málið

Rúnar: okey

Frystikista í farangrinum

Ég er meðlimur í samtökum hér í borg – sem ég kalla “makaklúbbinn”. Við í klúbbnum reynum að láta gott af okkur leiða þar sem við getum. Á fimmtudaginn ákváðum við fjórar úr þessum klúbbi að leggja land undir fót og fara til Gobabis (200 km frá Whk). Þannig er nefnilega mál með vexti að við höfðum fengið beiðni frá skóla sem er ca 65 km fyrir austan Gobabis um hvort við gætum gefið þeim frysti. Við skólann er starfrækt heimavist og bændurnir í kring gefa skólanum af og til kjöt en skólinn hefur ekki haft aðstöðu til að geyma slíkan mat og því hafa krakkarnir þurft að klára kjötið sem fyrst svo það skemmist ekki. Þar af leiðandi mun frystir koma að góðum notum.

Við leituðum að góðum frysti og fundum einn slíkan og reyndum eins og við gátum að kríja út smá afslátt en við erum greinilega ekki nógu góðar í svoleiðis umleitunum J En frystinn keyptum við nú þrátt fyrir það.

Á fimmtudaginn var kom svo loks að því að afhenda skólanum frystinn og við ákváðum nokkrar að skella okkur og afhenda hann í eigin persónu. Flestir nemendur við skólann eru San og var tekið á móti okkur af þeirra sið, þ.e. með söng og dansi og það er alltaf jafn gaman að því.

Í skólanum eru um 480 nemendur en á heimavistinni eru rúmlega 300. Við röltum okkur um skólalóðina og fengum að kíkja inn á heimavistina sem telur nokkur hús. Í hverju húsi er þröngt á þingi og sofa t.d. 30 – 40  strákar í einu húsinu en þar voru nú ekki nema 9 rúm. Þannig að það sofa nokkrir í hverju rúmi og svo er einnig gist á gólfinu.

Skólinn hefur yfir að ráða bókasafni sem er nú reyndar vanbúið af bókum en reglusemin er ekki minni en við eigum að venjast.

Ferðin var mjög fróðleg og það er gaman að kynnast aðstæðum sem fólk býr við og sjá færni þeirra í því að gera gott úr litlum efnum. Við vorum allar mjög ánægðar með ferðina og erum vissar um að frystirinn eigi eftir að koma að góðum notum.

Hér eru nokkrar myndir úr heimsókninni í skólann

Þetta er eldunaraðstaðan fyrir heimavistina


Bókasafnið


San-börnin að bjóða okkur velkomin



Svo er bara að snúa sér að næsta verkefni sem verður að aðstoða frábært setur í Katutura, Mountain Sinai Centre. En verkefnið tengist því að varna smiti frá eyðnismituðum mæðrum til barna sinna. Þetta er frábært verkefni og konan sem hóf það og stýrir er stórkostleg. En meira um það síðar.

miðvikudagur, 3. febrúar 2010

Auknar kröfur

Leikskóli og forskóli er greinilega ekki það sama. Forskólinn er miklu meira "structured" en leikskólinn, nú hefst vinnan fyrir alvöru :-) Í leikskólanum máttu krakkarnir t.d. tala ensku sín á milli, þau sem eru enskumælandi, en kennararnir töluðu alltaf þýsku við krakkana og þeir áttu að svara á þýsku. En í forskólanum MEGA krakkarnir ekki lengur tala ensku sín á milli, nú er það bara þýskan takk fyrir. Rúnar fer nú sem betur fer létt með þetta enda svo sem verið í þýskum leikskóla í fjögur ár - svo skárra væri það nú. Þetta ár fer í það að undirbúa þau fyrir 1. bekk og það er margt sem þarf að læra. Það þarf t.d. að læra að bíða þangað til að kemur að þeim, það þarf að hlusta á kennarana og fara að fyrirmælum, það þarf að kunna að standa í röð og hafa hljóð á meðan. 

Svo í haust mun sálfræðingur skólans meta það hvort krakkarnir séu tilbúnir í 1. bekk - ef ekki þá fara þeir aftur í forskólann. Engin miskunn.