Powered By Blogger

miðvikudagur, 4. júní 2008

Símtöl

Eins og ég hef áður sagt frá þá hringir Rúnar Atli reglulega í mömmu sína og suma daga hringir hann nokkrum sinnum. Þessi símtöl eru alltaf mjög stutt en skemmtileg. Um leið og ég svara símanum þá heyrist alltaf í honum "hæ mamma", undantekningarlaust.

Rétt áðan hringdi svo síminn sem er nú ekki í frásögur færandi nema hvað að ég heyri að þetta eru útlönd sem eru að hringja og ég svara náttúrulega "halló" og bíð eftir að heyra "hæ mamma". En í stað þess heyrist "er þetta mamma?" jú jú ég hélt það nú. Heyrðu, það næsta sem ég heyri eru þvílíkur grátur að það var ekki nokkur leið að tala við hann. Þá kom í ljós að hann ætlaði sko að hringja í systur sína og óska henni til hamingju með afmælið. Mamma hans átti sko ekki að svara símanum. Það varð að skella á og leyfa honum aðeins að jafna sig svo hringdi hann aftur og þá sá ég til þess að rétta manneskjan svaraði í símann :-)

Gaman að þessu.

sunnudagur, 1. júní 2008

Háspenna

Handboltaleikurinn í dag á milli Íslands og Svíþjóðar var geggjaður. Það var alveg á mörkunum að ég gæti horft og þegar spennan var alveg að drepa mig fór ég fram og tók úr uppþvottavélinni og gekk frá í eldhúsinu.

Ég held ég hafi aldrei horft á svona góðan handboltaleik hjá íslenska liðinu, alla vega ekki lengi. Það var alveg sérstaklega yndislegt að vinna þennan leik á móti Svíum. Nú er vonandi búið að endanlega jarða Svíagrýluna.

Doddi bloggaði um það að í kjölfar leiksins hefði sænski þjálfarinn verið rekinn. Ég meina kommon, hvað geta menn verið tapsárir. Svo til að bæta gráu ofan á svart þá las ég á mbl.is að Svíar ætli að kæra leikinn og heimta að fá að spila hann aftur. Það er bara ekki í lagi með Svíana hvað þetta varðar. Þeir ættu nú að vera orðnir vanir að tapa fyrir Íslendingum. Við unnum þá í umspili um sæti fyrir síðustu heimsmeistarakeppni (ef ég man rétt).

Ég veit satt að segja ekki hvort er betra; að vinna Svíana eða að komast á ÓL :-)