Síðast liðið föstudagskvöld var fjáröflunarkvöldið okkar í makaklúbbnum, sem við höfum verið að undirbúa í nærri fjóra mánuði. Kvöldið tókst frábærlega vel og við söfnuðum tæpum 47000 namibískum dollurum, sem mér reiknast til að sé um 800 000 ísl krónur og við erum alveg í skýjunum. Þeir sem vilja lesa um kvöldið geta lesið bloggið hans Villa - hann sagði ágætlega frá þessu þar og óþarfi fyrir mig að endurtaka það hér.
Nú er ritgerðin mín bara eiginlega alveg tilbúin. Ég sendi hana til leiðbeinandans míns og sérfræðingsins í gær og vona að þau nái að lesa hana yfir um helgina því svo þann 5. ágúst þarf ég að skila henni inn. Þetta er bara alveg dásamleg tilfinning (að vera næstum laus við hana), ég er komin með upp í kok af skólastússi og er farin að hlakka til að gera eitthvað allt annað :-) Ég m.a.s. þreif skrifstofuna mína í gær hátt og lágt.
Nú er bara að fara taka upp saumadótið. Um daginn fór ég á heilsdags námskeið í bútasaumi og ætla að fara að dunda mér í saumum. Ég er búin að hanna mörg bútateppin í huganum og nú er bara að koma þeim í framkvæmd.
Sem sagt, helgin verður bara notuð í sauma.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli