Powered By Blogger

laugardagur, 7. janúar 2012

Myndir

Þá er hinni árlegu myndatöku lokið :-)




föstudagur, 6. janúar 2012

Hitt og þetta

Jæja þá eru báðar dæturnar farnar til síns heima og við orðin þrjú í kotinu aftur. Rúnar hefur skemmt sér konunglega yfir því að hafa báðar systur sínar heima. Og finnst ansi langt þangað til við verðum öll saman aftur. En svona er lífið.

 Þetta er jólaveggurinn okkar. Krakkarnir skrifuðu "Gleðileg jól" á mörgum tungumálum og aðeins hluti þess sést á þessari mynd.
Stellinu í Rúnari fer fækkandi. En mér finnst þetta afskaplega krúttlegt :-)

Annars hef ég nú bara verið að dunda mér í að sortera krosssaumsgarnið mitt í dag. Mér reiknast til að ég eigi 312 mismunandi liti og takmarkið er náttúrulega að eiga allt DMC settið :-) Ég veit svo sem ekki hve margir mismunandi litir eru til en þeir eru klárlega eitthvað fleiri en 312.

Vinnandi fólk

Dagmar fúgaði sína mósaíkhluti áður en hún fór og þeir komu virkilega vel út. Ég virðist hafa steingleymt að taka myndir af lokaafurðinni hjá henni - bara skil það ekki. En ég tók mynd af henni þegar hún er að leggja lokahönd á verkið, þ.e. að fúga það. Eins skelltu strákarnir sér í að fúga gekkóið hans Rúnars. Það er orðið ansi langt síðan Rúnar byrjaði á sínu verki og því er loksins lokið. Hann er svo byrjaður á að gera mósaík kött. En ég veit nú ekki alveg hvort eða hvenær hann klárar hann :-)


miðvikudagur, 4. janúar 2012

Blautt er það

Það sást loks til sólar í morgun eftir endalausa rigningadaga undanfarið. Af síðustu 12 dögum hefur rignt í 11. Og það rignir alveg þokkalega mikið og lengi í einu. En þetta blauta veður hefur valdið því að við höfum lítið nennt að fara út. En við höfum svo sem haft það mjög gott saman heima við :-)

Á aðfangadagsmorgun þurftum við Villi aðeins að útrétta og skelltum okkur í bæinn. Komum svo við í einni búð á leiðinni heim. Þegar við leggjum fyrir utan búðina fór að rigna svona svakalega og náttúrulega engin regnhlíf í bílnum. Þær eru geymdar á góðum stað heima :-) En við létum okkur hafa það og hlupum inn í búð og urðum rennblaut á ca 40 sek sem það tók okkur að koma okkur inn. Við stöndum stutt við í búðinni og enn rignir þegar út kemur. Við stöndum undir skyggninu í nokkrar sekúndur uns Villi tekur sig til og hleypur að bílnum og segist koma með hann til mín, oh þessi elska. En það vill ekki betur til en svo að það er bíl lagt fyrir aftan bílinn okkar svo Villi komst ekkert. En bílstjórinn kemur nú loks og tekur sér góðan tíma að koma sér af stað. Þannig að frú Þolinmóð gafst upp og ákvað að hlaupa út í bíl - ég hlyti að geta það fyrst Villi gat það. Haldið þið ekki að um leið og ég legg hlaupandi af stað í beljandi rigningunni bakkar Villi úr stæðinu og keyrir hring um bílastæðið til að komast til mín. Og ég hlaupandi á eftir /&%$#&/ bílnum. Hann sá mig ekki hlaupandi og veifandi höndum á eftir sér. Frúin var í pilsi og sandölum öslandi bleytuna upp að ökklum. En það vill nú til að frúin er þekkt fyrir sitt langlundargeð og stillingu og lét þetta nú ekki pirra sig :-)

sunnudagur, 1. janúar 2012

Gamlársdagur

Ég óska öllum gleðilegs nýs árs og þakka allt gamalt og gott.

Gamlárskvöld rann upp hér, sem annars staðar og áttum við yndislegt kvöld saman fjölskyldan, það vantaði bara Tinnu mína. Þessi gamlársdagur var í rólegri kantinum. Undanfarin ár höfum við Villi verið með matarboð á gamlárskvöld þar sem boðið er upp á kalkún og saltkjöt og baunir. Dagurinn hefur farið í undibúning og þess háttar og lítið um afslöppun. Nema hvað ég hef alltaf stolist til að horfa á Kryddsíldina á milli þess sem ég huga að matseldinni.

Þetta gamlárskvöld var ekkert stórt matarboð og því var dagurinn rólegur og án Kryddsíldar. Við vorum með Gammon steik í matinn og Villi sá alveg um eldamennskuna og stóð sig vel í því eins og hans er von og vísa. Svo eftir matinn skemmtum við okkur við það að horfa á og hlusta á tónlist á Youtube. Aldrei þessu vant var netsambandið bara mjög gott og við lékum okkur við það að finna skemmtileg lög og horfa á. Við byrjuðum á að horfa á mörg myndbönd með Baggalúti og þeir komu okkur í gírinn - þeir eru frábærir. Þetta var "skaupið" okkar og við skemmtum okkur mjög vel, m.a.s. Rúnar skemmti sér vel. Við höfðum keypt nokkur stjörnuljós og hann var í þeim pakkanum allt kvöldið. 

Það var eitthvað um flugelda hérna í hverfinu, en afskaplega lítið og stóð stutt yfir svona ef maður miðar við Ísland. En það á kannski ekki að miða við Ísland þegar kemur að flugeldum :-)

Ég vona að þið hafið öll átt yndislegt gamlárskvöld og að árið 2012 færi ykkur gleði og ánægju :-)

Næsta gamlárskvöld verður sko aftur matarboð í Æsufellinu, Kryddsíldin og skaupið - geggjað