Powered By Blogger

laugardagur, 24. nóvember 2012

Smá samantekt

Það verður að segjast að ekki hef ég gefið mér mikinn tíma í bloggskriftir undanfarið. Í byrjun september hófst undirbúningur í kvenfélaginu vegna fjáröflunarinnar okkar sem fram fór þann 3ja nóv s.l. U.þ.b. átta vikum fyrir basarinn snérist allt um undirbúning, enda er þetta okkar helsta fjáröflun fyrir árið og það veltur á útkomunni hvort okkur tekst að halda áfram aðstoð við verkefnin okkar á næsta ári.

Þessi basar gekk svona líka rosalega vel og við náðum að safna 2,6 milljónum kvacha sem á gengi dagsins reiknast mér að sé sirka 1,1 milljón íslenskra króna. Við kvenfélagskonur erum afskaplega ánægðar með árangurinn og sjáum fram á að geta haldið stuðningi okkar áfram næsta árið við öll verkefnin okkar og nú er ég að reikna út hvort við getum hækkað stuðning við einstök verkefni um allt að 30% því gengisfellingin fyrr á þessu ári hefur farið illa með mörg verkefnin.

Um leið og basarinn var búinn þá var PTA í skólanum hans Rúnars með sína fjáröflun (ein af þremur stórum yfir skólaárið) og þar er ég líka ansi virk. Sú fjáröflun fór fram 9. nóv og gekk líka vel. Þar sem ég er gjaldkeri í PTA þá þurfti ég nokkra auka daga eftir fjáröflunina til að gera upp og ganga frá fjármálunum. En ég er loksins búin að senda frá mér uppgjör og þess háttar og þarf ekki að gera meira í PTA fyrr en í janúar :-)

Einhvern veginn gefst ekki mikill tími í afslöppun hérna í Malawi, það er alltaf eitthvað í gangi. Sem formaður í verkefnanefnd kvenfélagsins þá reyni ég að fara í reglulegar heimsóknir í verkefnin - þessar heimsóknir eru meiriháttar. Maður kynnist Malawi öðruvísi, og raunverulegra, með þessum heimsóknum. Í morgun var ég t.d. viðstödd jólahátið gamla fólksins í St. Mary's Rehabilitation Centre (sem ég mun blogga um síðar).

Hvolparnir okkar dafna mjög vel og eru orðnir pattaralegir og hlaupandi um allt. Þeir eru í endalausum áflögum og skemmta sér greinilega mjög vel. Í gærkveldi fór ég í jólapartý hjá Hádegisverðaklúbbnum mínum og þegar ég kom heim um miðnætti átti ég erfitt með að komast út úr bílnum fyrir hundum. Sjö hundar og einn köttur tóku yndislega á móti mér og það var ekki auðvelt að komast út út bílnum án þess að stíga ofan á einhvern þeirra :-)

Vatnsvandræði halda áfram hjá mér og suma daga er bara ekkert vatn að fá. Þegar slíkt ástand hefur varað í nokkra daga þá neita ég því ekki að skapið í minni er ekki alveg upp á það besta. Satt að segja öfunda ég oft Filimone (garðyrkjumanninn minn) því fyrir utan húsið hans er þessi fíni brunnur - með hreinu vatni.

Bensínskortur er aftur orðinn til mikilla vandræða í landinu. Bensíntankurinn í mínum bíl er farinn að öskra á bensín en þar sem ekkert fæst þá sjálfsagt hægir um hjá mér því ég kemst ekkert :-) Ég á reyndar bensín á brúsa en ég bara tími varla að nota það - því rafallinn þarf líka bensín. Ég reyni þó að nota rafalinn sem allra minnst (til að spara bensín) og þegar við Rúnar Atli erum ein heima og rafmagnið fer af eftir kvöldmat þá förum við bara upp í rúm og sleppum þar með að kveikja á rafalinum.

Matjurtagarðurinn minn er ekki svipur hjá sjón þessar vikurnar vegna vatnsskorts - hann er bara tómur, fyrir utan kryddjurtir. En Filimone ætlar að vera duglegur í garðinum á meðan ég er á Íslandi og vonandi rignir vel svo það verði eitthvað ætilegt í janúar þegar ég kem út aftur :-)

Nú eru bara 13 dagar í brottför og satt að segja hlakka ég ansi mikið til :-) Það verður fínt að komast í umhverfi þar sem nóg er af vatni, bensíni og rafmagni. Við erum nú í ansi góðum málum á Íslandi :-)