Powered By Blogger

mánudagur, 29. nóvember 2010

Duglegir feðgar

Það hefur verið mikið að gera hjá okkur undanfarnar vikur og þó alveg sérstaklega undanfarna daga. Það þurfti m.a. að taka húsgögn í sundur. Eins gott að eiga dugmikinn strák sem hjálpar alveg helling - það er bara svo skrítið að alltaf þegar hann hjálpaði þá einhvern veginn tók verkið lengri tíma :-)

Svo þurfti að hlaða dóti á bílinn til að koma því heim til Lidiu og Floru - og ekki var hann minni hjálparhella þá :-)

söfnunarárátta

Það er ekki furða að farangurinn hans Rúnars sé alltaf þungur þegar við erum á ferðalögum. Ég var að finna til ferðahandtöskuna hans í gær og gera hana klára fyrir ferðalagið á eftir. Ég ákvað nú að þvo allt ryk af henni og athuga hvort nokkuð væri í henni. Detta þá ekki þessir fallegu steinar úr henni :-) Hann er sjúkur í steina og hvert sem við förum, þá skal hann alltaf geta fundið sér steina til að taka með sér heim. Þessi söfnunarátta hjá drengnum breytist vonandi ekki í það að verða eins og hjá Árna Johnsen og hann fari að safns sér steinhellum.


miðvikudagur, 24. nóvember 2010

Mikil hjálparhella

Við erum langt komið með niðurpökkunina, eiginlega bara föt og það sem við þurfum að nota fram á síðasta dag sem á eftir að fara niður í kassa og svo smá dót frá Rúnari.

Rúnar gerir þetta miklu skemmtilegra fyrir móður sína en ella :-) Ég er svo til búin með hans herbergi en hef verið með þrjá kassa af dóti og föndurdóti frá honum opna. Þegar gaurinn kemur heim úr skólanum þá byrjar hann náttúrulega á því að taka upp úr kössunum og daginn eftir pakka ég aftur niður og vona að ég nái að pakka eins vel og deginum áður :-) Enda er ég orðin lúnkin við að pakka niður dótinu hans.

sunnudagur, 21. nóvember 2010

Íslenskir jólasveinar

Það er nokkuð síðan Rúnar Atli fór að tala um íslensku jólasveinana og hve hann hlakkar til að fá í skóinn. Hann er m.a.s. með dagsetninguna á hreinu hvenær fyrsti jólasveinninn kemur til byggða.

Ég nýti mér þetta út í ystu æsar. Hann hefur átt það til undanfarna daga að vera óþekkur (bara ótrúlægt :-) ) og í gær sagði ég honum að nú yrði hann að fara að passa sig því jólasveinarnir á Íslandi eru strax farnir að fylgjast með krökkunum, þ.e. hvort þeir séu góðir eða óþekkir. Svo var þetta ekki rætt neitt meir.

Fyrr en í morgun, þá kemur hann til mín og spyr hvaða dagur sé í dag, ekki hvaða vikudagur heldur númer hvað dagurinn í dag sé. Ég segi honum að í dag sé 21. nóvember. Ókey flott, svo þurfti hann blað og skriffæri og bað mig að hjálpa sér að stafa "nóvember". Jú jú, hann skrifaði niður nóvember og sagði svo fyrst að í dag sé 21. þá hafi verið 20. nóv í gær og skrifaði hann það á blaðið líka. Að þessu loknu forvitnast ég um ástæðu þessara skrifa hans. Jú hann vildi bara hafa það skrifað hvaða dag jólasveinarnir byrja að fylgjast með krökkunum og nú þurfi hann að geyma þetta blað á öruggum stað.

Þetta er yndislegt :-)

Pakka, pakka, pakka

Við erum búin að standa á haus alla helgina við að pakka - get ekki sagt að þetta sé með mínum uppáhaldsverkum. Við erum nú langt komin og allt hannyrðadótið mitt er farið í kassa og ég er bara hálf eyrðarlaus vegna þessa. Datt inn á síður á netinu með hekluppskriftir og finnst alveg ómögulegt að geta ekki gert neitt slíkt :-)

Við Rúnar Atli hlökkum til Evrópuferðarinnar okkar. Við förum héðan 29. nóv og lendum í Svíþjóð 30. Förum svo til Íslands 5. des og það verður meiriháttar.




miðvikudagur, 17. nóvember 2010

Bleyta - bleyta og enn meiri bleyta

Eins og komið hefur fram hjá mér í fyrri færslum, hefur rignt ansi mikið hér í landi síðustu daga. Síðastliðna nótt rigndi held ég bara stanslaust með tilheyrandi þrumum og eldingum svo að svefnherbergið upplýstist reglulega :-) Það er mjög gaman að upplifa svona rigningu.

Í Namibian í morgun (eitt af dagblöðunum) var að sjálfsögðu fjallað um rigninguna og svo til allir sáttir. Það stóð m.a. "... several towns in the eastern and southern areas hit the rain jackpot (lausleg þýðing: margir bæir í austur- og suðurhluta landsins duttu í rigningar-lukkupottinn).

Það er misjafnt hvað fólk telur vera lukkupott :-)

Það eru reyndar ekki allir eins sáttir við bleytuna hér í landi. T.d. eru götusalar í mestu vandræðum því þeir selja ansi lítið af munum í svona veðri. Þeir eru ýmist með plastpoka yfir öllu dótinu sínu nú eða hreinlega fara með það aftur í geymslu. Þeir hafa löngum beðið borgina að setja upp skyggni fyrir sig - einmitt til að verja þá gegn bleytunni :-)

þriðjudagur, 16. nóvember 2010

Dásamlegt :-)

Rúnar kom til mín áðan með hangandi haus og skeifu. Ég forvitnaðist að sjálfsögðu um hvað væri að. Jú málið var sko að hann langaði svo að tefla og hvorki ég né pabbi hans nenntum að tefla við hann.

Hans lausn á þessu vandamáli er sú að eignast bróður og bað hann mig vinsamlegast að redda því hið fyrsta. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að þó hann myndi eignast bróður þá gæti hann ekki teflt við hann fyrr en eftir mörg ár. Hann var ekki alveg að bekena þetta og ég reyndi að útskýra þetta enn betur - en ekkert gekk. Þannig að til að eyða þessu samtali sagði ég honum að pabbi hans væri bara orðinn of gamall til að eignast annað barn :-) Segir ekki þessi stutti þá "við gætum bara fengið nýjan pabba".

Svo fer hann beint til pabba síns og segir honum frá þessu vandamáli sínu og að hann verði eiginlega að fá nýjan pabba þar sem hans pabbi sé orðinn of gamall. Villi varð nú ekkert alltof spenntur fyrir þessari hugmynd hans, skrítið :-)

Þvottur - þvottur - þvottur

Þá er ég búin að fá músaþvottavélina mína aftur heim og það er sko yndisleg tilfinning að hafa hana aftur í húsinu. Það hefur ekki verið hægt að þvo þvott síðan á miðvikudaginn í síðustu viku. Kæra fólk, það eru sko sex dagar síðan og það er bókstaflega allt að verða óhreint, við erum á nippinu.

Það er varla að ég leggi í að segja frá því hvað ég gerði á laugardaginn. Ah jú jú ég læt það bara flakka :-)

Ég sá fram á að á mánudeginum ætti Rúnar Atli engin hrein föt til að mæta í í skólann, þannig að mín bara keypti á hann nýjar stuttbuxur og nærur til að þurfa ekki að þvo í höndunum :-) Bölvuð letin í manni en svona er þetta. Reyndar hef ég mjög góða afsökun, það er búið að rigna svo til non-stop síðan á laugardaginn (ja alla vega síðan á sunnudaginn) - því gat ég ekki hengt neinn þvott út :-)

Við Villi eigum greinilega meira af fötun en gaurinn því ekki höfum við þurft að versla okkur neitt nýtt í fataskápinn. En þar sem það rignir ennþá þá gæti þetta nú breyst fljótlega :-) Ég fer kannski með alveg nýjan fataskáp til Lilongway

Það jákvæða við að eldast :-)

Ég eyddi eftirmeðdeginu inni í leikhbergi hjá Rúnari og er gjörsamlega búin á því. Ég var löngu búin að biðja Flora að fara í gegnum dótið hans og byrja að pakka - sem hún og gerði samviskusamlega. En þetta var ekki gert eins og ég vildi og þurfti ég því að fara í þetta (bara gott á mig). Ég notaði tækifærið þar sem Rúnar var ekki heima og náði að pakka í þrjá kassa sem fara til Lilongway, í annan kassa sem við munum gefa og loks í kassa sem er fullur af drasli sem fer beint á haugana. Ég fatta bara ekki hvernig svona mikið DRASL getur safnast saman hjá einum krakka.

Ég hef ekki oft farið svona í gegnum dótið hans og er af sem áður var. Þegar stelpurnar voru litlar þá skreið ég um gólfin til að finna alla hluti í öll sett sem þær áttu, eins og t.d. Polly Pocket, Barbí og fleira svoleiðis dót. Ég kom ekki upp af gólfinu fyrr en ég hafði fundið alla hluti - sama hve litlir þeir voru. En fyrir vikið vissi ég upp á hár hvaða dót þær áttu. Ég gat ekki slappað af fyrr en ég fann alla bitana. Ég veit, þetta er bilun.

Þessu er aðeins öðruvísi farið með dótið hans Rúnars Atla :-) Það er langur vegur frá því að ég sé eins obsessed með dótið hans og ég var með dót stelpnanna.

Ég trúi því að þessi afslöppun og normal hegðun (on my part) sé til komin með aldrinum og auknum þroska.

Þar kom að því að ég fann eitthvað virkilega jákvætt við það að eldast :-)

sunnudagur, 14. nóvember 2010

Aldur afstætt hugtak

Við vorum að spjalla aðeins við Tinnu Rut og það barst til tals að tvær vinkonur hennar hafa verið mjög veikar undanfarnar vikur og önnur þeirra lenti í uppskurði. Sú var með eitthvað móðurlífsvandamál og eins og Tinna segir þá er mjög sjaldgæft að ungar konur fái þetta, það eru eiginlega bara eldri konur sem fá þetta, konur svona um fertugt!!!!!!

Ha, telst ég þá vera eldri kona????

fimmtudagur, 11. nóvember 2010

Greiðasemi

Hann sonur minn á það til að eiga lata mömmu (eða við skulum segja þreytta mömmu) sem nennir ekki endalaust að vera að hlaupa hingað og þangað til að sjá eitthvað hjá honum. En hann er búinn að finna lausn á þessum vanda sínum :-) Nú þegar hann vill ég geri eitthvað fyrir sig byrjar hann á að spurja hvort ég geti gert sér tvo greiða. Greiði númer eitt sé að gefa sér koss og svo greiði númer tvö er það sem hann vill láta mig gera fyrir sig. Hann var fljótur að finna það út að mamma hans stenst ekki svona yndislegheit og nú hleypur hún út um allt fyrir þessa elsku sína :-)

miðvikudagur, 10. nóvember 2010

Ja hver fjan....

Er þetta kannski eitthvað fyrir mig?? :-) Samkvæmt þessu gæti ég losnað við sirka sjö kíló á þessum sex vikum sem eru til jóla - humm. Set þetta í nefnd :-)

þriðjudagur, 9. nóvember 2010

Svínaflensa

Við fengum bréf heim með Rúnari Atla í gær um að nú væru þrjú staðfest tilfelli svínaflensu í skólanum hans. Nú er bara að krossleggja fingur um að hann smitist ekki því það er svo stutt þangað til við leggjum af stað til Íslands ;-)

mánudagur, 8. nóvember 2010

Nett áfall

Þannig er mál með vexti að þessa dagana erum við að skipta um númeraplötur á krúttinu mínu. En til þess að skipta um plötur þurfti bíllinn að fara í það sem kallast Road-worthy test. Bíllinn var sendur í þetta próf í síðustu viku og haldið þið ekki að hann hafi FALLIÐ. Ja á dauða mínum átti ég von en því að bíllinn minn teldist ekki nógu góður til að keyra um götur landsins. Það er á hreinu að margir bílar í borginni eru stórhættulegir í umferðinni en ekki bíllinn minn.

Í landi eyðumerkurinnar þar sem ekki rignir svo mánuðum skiptir voru það rúðuþurrkublöðin sem felldu bílinn, þau voru ekki nógu góð :-) Það verður nú að segjast að þessi blöð fara mjög illa í sólinni, en ég meina kommon.