Powered By Blogger

miðvikudagur, 24. desember 2008

Smá gleymska

Litli gæinn orðinn óþolinmóður eftir að fá að taka upp nokkra pakka (hann er reyndar ekki einn um það). Það þurfti aðeins að tala hann til og segja honum að á jólunum eiga allir að vera góðir. Heyrist þá í þeim stutta: "Ó ég var alveg búinn að gleyma því".

Gleðileg jól öll sömul.

laugardagur, 13. desember 2008

Bloggleti

Jæja frúnni fannst vera kominn tími til að kíkja á bloggið sitt, orðið langt síðan síðast :-)

Við mæðgur erum komnar til landsins og höfum verið hér í tæpar tvær vikur. Tinna hefur verið dugleg að vinna og svo er hún alltaf í bílatímum þannig að hún er farin snemma í rúmið á kvöldin - útkeyrð. Dagmar komst í jólafrí (þ.e.a.s frá skólanum) um daginn og kann að njóta lífsins svona þegar hún er ekki að vinna. Ég hef varla litið upp úr skólabókunum síðan ég kom heim enda hef ég afkastað miklu á þessum dögum: prófundirbúningi og prófi, stóru verkefni, svo í dag lagði ég lokahönd á ritgerð númer 2 - úff.

Lagði mikið á mig til að klára allt í síðasta lagi í dag þar sem eiginmaður og sonur koma til landsins á morgun og eins eigum við hjónin víst 22 ára brúðkaupsafmæli svo ekki vil ég eyða deginum í lærdóm. Mér finnst eiginlega bara lygilegt að það séu komin 22 ár - ég meina næstum aldarfjórðungum kommon. Ég sem er alltaf bara 25 í anda - hvernig er þetta hægt???

fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Breytingar í vændum

Það breytist margt við það að eiga afmæli. Samtal okkar mæðginanna um daginn:

Rúnar: Mamma, þegar ég verð 16 ára þá verð ég stelpa.

Ég: nú er það?

Rúnar: Kannski, það gæti verið. Við sjáum til

mánudagur, 6. október 2008

Aðeins of fölur

Rúnar Atli tók sig til einn daginn og fann grilltöngina sem Villi notar í eldiviðinn þegar hann grillar. Hann ákvað svo að lita sig aðeins í framan svo hann yrði eins á litinn og Flora :-)

Allur er varinn góður



Það er eins gott að vera vel undirbúinn svo manni verði ekki kalt á fótunum á nóttunni. Þetta er miklu betra en að þurfa að sofa með einhverja sæng :-)

laugardagur, 20. september 2008

klukk

Ég var klukkuð og hér kemur þetta.

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
Afgreiðslustúlka í bakaríi
Í hreinsun á fiski í BÚR (fyrir þá sem ekki vita, Bæjarútgerð Reykjavíkur)
Kennari
Námsráðgjafi

Fjórar kvikmyndir sem ég held upp á:
Terms of endearment
Les Miserables
Rauða akurliljan
Allar myndir eftir Agöthu Christie

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Útey við Laugarvatn
Breiðholti
Vancouver
Windhoek

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
Friends
Grey´s Anatomy
Diagnosis murder
Midsomer Murders

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Vennesla í Noregi
Oxelösund í Svíþjóð
Kampala í Úganda
Cape Town í Suður Afríku

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:
mbl.is
blakkur.khi.is
ugla.hi.is
visir.is

Fernt sem ég held upp á matarkyns:
Mexican chillie pizza á Sardinia í Windhoek
mexikóskir réttir sem Villi eldar
saltkjöt og baunir
chadoeaubriand nautasteik á Cattle Baron í Wondhoek

Fjórar bækur sem ég les oft:
Allar bækurnar hennar Agöthu Cristie
Price of honour
Dýrin mín stór og smá
Allar bækurnar hans Arnaldar Indriðasonar

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna:
Æsufellið
Vennesla
Oxelösund
Æsufellið

og hana nú. Nú held ég að ég eigi að klukka einhverja fjóra og ég ætla að klukka Fanneyju Skagamær, Maju, Dodda og Tinnu.

Bæjó.

sunnudagur, 14. september 2008

Jedúddamía

Þá er kominn tími á það að yngri dóttirin læri að keyra bíl. Pabbi hennar fór með hana út fyrir borgina í dag svo hún gæti æft sig að keyra því hún ætlar að taka bílatíma á Íslandi um jólin. Hún þarf að fara að fá tilfinningu fyrir kúplíngu, bremsu og hvenær á að skipta um gír. Hún hefur nokkrum sinnum fengið að leggja bílnum mínum hérna á bílaplaninu en núna þarf eitthvað meira. Mér var nú svo sem ekki boðið með í bíltúrinn, enda veit ég ekki hvort ég hefði haft taugar í það :-) En þetta gekk víst voða vel hjá henni og hún fékk að keyra 60 km.

"Mamma, ég er orðinn stór strákur"

Rúnar Atli er allur í því að tilkynna hvað honum finnst viðeigandi og hvað ekki, og hvað passar og hvað ekki. Hann fór ásamt pabba sínum og Tinnu Rut í bíltúr í dag. Þegar hann kom heim þá tilkynnti hann það háum rómi að hann þyrfti sko ekki að hafa barnalæsingu í bílnum því hann væri orðinn fjögurra ára gamall, og hana nú. Það þýddi ekkert að rökræða við krakkann, hann sat fastur á sínu.

MIsjafnt læra börnin

Rúnar Atli kom til mín um daginn og sagðist vilja eiga ömmu. Ég sagði honum að hann ætti nú eina mjög góða ömmu, hana Eygló ömmu. Jú jú hann viss það alveg, en hann vill fleiri ömmur. Ég reyndi nú að útskýra fyrir honum að mamma mín, hún Ollý amma, væri því miður dáin. Við ræddum aðeins hvað það þýðir að vera dáin en ég veit svo sem ekki hvort né hve mikið hann skilur af svoleiðis pælingum. En alla vega við ræddum um englana sem passa okkur og svoleiðis. Svo spyr hann mig af hverju hún Ollý amma dó. Ég sagði sem er að hún var veik á spítala og dó. Hann hugsar sig aðeins um og spyr svo "kom svo einhver og skjótti hana?". Ég varð að passa mig að skella ekki upp úr. En hvar læra börnin svona. Lalla amma sagði alltaf að það læra börnin sem fyrir þeim er haft. En ég vil nú ekki meina það að ég gangi um og þykist skjóta mann og annan. Þannig að ekki hefur blessað barnið lært þetta af mér :-) Það er þá spurning hvað pabbinn er að gera með syninum þegar þeir eiga góða stund saman :-)

Þetta hefur greinilega legið honum á hjarta því nokkrum dögum síðar liggjum við saman uppi í rúmi og þá fer hann að tala um englana sem passa okkur. Hann tilkynnt mér að hann vildi að ég og hann mundum deyja til að verða englar og þá gætum við flogið upp til guðs og hitt Ollý ömmu.

Æi það er gaman að þessu.

fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Staðalímyndir

Mér finnst oft merkilegt að velta staðalímyndum fyrir mér og hve oft við höfum rétt/rangt fyrir okkur þegar við notum þær um fólk sem við ekki þekkjum.

Um daginn bauð Villi mér að mæta á fund sem þeir í vinnunni voru með þar sem sérfræðingar í ECD (early childhood development) mættu og ræddu sín á milli hvað sé hægt að gera í þessum málum hér í Namibíu (það stendur nefnilega til að styrkja þennan málaflokk hérna). Ég sem sagt mæti á þennan fund og akkúrat þegar ég kem er hópurinn að vinna í nokkrum litlum hópum og því enginn í fundarherberginu þá stundina. Ég geng bara um og læt lítið fara fyrir mér, fljótlega tek ég eftir manni sem er einhvers staðar á milli þrítugs og fertugs. Ástæðan fyrir því að ég tók eftir honum er sú að hann var með stóra gullhringi á nokkrum fingrum beggja handa og sennilega með fimm þykkar gullkeðjur um hálsinn. Eins var hann vel klæddur og með hatt á höfði og það skein af honum sjálfsöryggið og það var eins og hann ætti staðinn. Það fyrsta sem mér datt í hug var að þetta væri ekta gangster-týpa (með alla þessa hringi og gullkeðjur).

Þegar hópurinn kom svo saman aftur í fundarherbergið þá er þessi maður meðal þeirra. Þá kom í ljós að "gangsterinn" minn er einn af sérfræðingunum í ECD og kom bara skolli vel fyrir og greinilega fær í sínu fagi. En svona getur maður verið fljótur að ákveða hvað einhver einstaklingur sem maður ekki þekkir sé.

Hormónarnir á fullu

Suma daga er Rúnar Atli á útopnu allan daginn og maður hræðist helst að hann kafni í testosterone. Í dag kom hann t.d. hlaupandi fram með þessu líka svaka argi og öskraði "King Kong is here" með tilheyrandi barsmíðum á bringuna og látum. Svo rauk hann inn í eldhús og fór að lyfta upp stólum með ekki minni látum. Þegar við Flora og Lidia vorum búnar að sjá hvað hann væri "rosalega sterkur" þá rauk hann inn í herbergi aftur.

Er þetta í lagi??? Er von að ég spyrji því dætur mínar voru svo rólegar og yfirvegaðar og það er hálfgert sjokk að fá svona orkubolta í lokin :-)

mánudagur, 11. ágúst 2008

Skoðun

Jæja þá er bíllinn minn búinn í eins árs skoðun og allt í fínasta lagi og fékk stimpil í service planið. Bíllinn átti að koma í þessa skoðun annað hvort eftir 12 mánuði eða eftir að vera keyrður 15 000 km, hvort sem kæmi fyrr. Þar sem sparibíllinn er aðeins keyrður 7.029 km þá mætti hann að sjálfsögðu í skoðun eftir 12 mánuði :-)

Jú jú, ég tók svona mesta draslið úr bílnum áður en ég fór með hann í morgun. Svo er voða þægilegt að reglulega þvær garðyrkjumaðurinn okkar bílinn. Sennilega gerir hann það þegar honum er farið að ofbjóða rykið á kagganum :-)

laugardagur, 9. ágúst 2008

Kraftur kvenna

Síðastliðna þrjá daga hef ég setið kvennaráðstefnu hér í Windhoek, Namibian Women Summit. Þetta er annað árið í röð sem þessi ráðstefna er haldin og er stefnt á að halda hana árlega. Þessi ráðstefna er haldin til að virkja kraft kvenna og hjálpa þeim að mynda vináttu- eða samstarfstengsl við aðrar konur. Konur alls staðar af landinu komu og hver sýsla átti sína fulltrúa, og skipti þá engu máli hve langt í burtu, og afskekkt, konurnar búa. Ráðstefnan í fyrra tókst svo vel að fjöldi ráðstefnugesta snarhækkaði þetta árið og komu miklu fleiri konur en skipuleggjendur áttu von á. Þær konur sem búa í rafmagns- og símaleysi gátu að sjálfsögðu ekki skráð sig til þátttöku fyrirfram og því kom fjöldinn á óvart. En það var bara gaman.

Ráðstefnan var sett á miðvukudagseftirmiðdaginn og var m.a. boðið upp á leikrit frá Suður Afríku um líf konu. Leikritið var rosalega gott og "powerful". Svo klukkan 7.30 á fimmtudagsmorgun var mætt í ráðstefnusalinn og var byrjað á sameiginlegum morgunmat. Eftir morgunmat voru fyrirlestrar og workshops. Um kvöldið var svo gala dinner og það var meiri háttar gaman.

Á föstudagsmorgun var aftur mætt kl. 7.30 í morgunmat. Á meðan við vorum að borða kom söngkona og ætlaði að syngja eitt lag. En fljótlega eftir að hún byrjar að syngja þá stendur ein kona upp og fer að dansa með tónlistinni. Áður en maður vissi af voru fullt af afrískum konum í traditional kjólum farnar að dansa sína dansa. Við hinar sátum og klöppuðum. Þetta var meiri háttar. Svo lýkur laginu en þá var farið fram á annað lag og söngkonan átti nú ekki í erfiðleikum með það og hóf að syngja annað lag. Þá skipti engum togum að við hinar vorum dregnar út á gólfið og allar konur í salnum (sjálfsagt vel á þriðja hundrað) vorum farnar að dansa saman. Þetta var stórkostlegt, ég vildi að ég hefði haft myndavél en reynið að sjá þetta fyrir ykkur. Konur á öllum aldri, sú yngsta sjálfsagt um tvítugt og sú elsta ekki undir 70, flestar í fallegum litsterkum kjólum með höfuðfat í stíl, að dansa saman á milli borðanna og syngja með. Enda var þetta svo skemmtilegt að söngkonan endaði með að syngja þrjú lög í stað eins eins og til stóð í upphafi.

Vel að merkja þá var þetta klukkan um 8.30 að morgni þegar fjörið var sem mest. Getið þið ímyndað ykkur að hefðbundnar ráðstefnur hefjist svona?? :-) Sjáið þið karlana fyrir ykkur dansandi á milli matarborðanna og klappandi og veifandi höndum??? :-)

mánudagur, 14. júlí 2008

Vetur konungur

Það hefur verið svo kalt undanfarnar vikur að það hálfa væri nóg og þar sem ekkert hitakerfi er í húsinu þá verður maður að notast við arininn til að orna sér aðeins. Annars sit ég bara með sultardropa í nefinu og loppnar hendur að reyna að sauma. Þið getið nú rétt ímyndað ykkur hve erfitt það er.

Undanfarið hefur Villi farið fram um 5.30 á morgnana til að kveikja upp og svo hef ég haldið eldinum við allan daginn.

Við höfum líka litla rafmagnsofna í hverju herbergi en þeir segja nú svo sem ekki mikið og þegar eldað er á kvöldin þá þarf að slökkva á ofnunum annars slær rafmagnið út. Þannig að það er heilmikið púsl að hita húsið; þ.e. byrja á því að kveikja upp í arninum; þegar líður á daginn kveiki ég á ofnunum í herbergjunum til að fá smá hita áður en ég fer að elda; slekk svo á öllum ofnum þegar ég byrja að elda; strax eftir matinn kveiki ég aftur og vona að það verði þokkalegur ylur þegar við förum að sofa. Gaman að þessu :-)

Sólin nær ekki að skína inn í húsið og hita það og sum kvöldin hefur verið svo kalt í húsinu að það hefur verið erfitt að koma sér upp í rúm, sérstaklega þegar við komum heim úr ferðunum okkar því þá hafði ekkert verið kveik upp í nokkra daga. Ég man eftir einu kvöldi þar sem ég varð fyrst að vefja mig inn í flísteppi áður en ég lagðist undir sæng, brrr. Mér verður bara kalt við tilhugsunina. Samkvæmt hitamælinum þá fór hitinn stundum niður í um 3 gráður yfir hánóttina og hitinn hélst í ca 7 stigum innan húss.

Það var svo kalt að vatnið fraus í vatnsleiðslum víða í Windhoek. Sem betur fer fraus það nú ekki hjá okkur en það hefur verið nær óbærilegt að þvo sér um hendurnar því vatnið er svo kalt og það virðist bara verða kaldara því lengur sem ég læt það renna (jú jú ég skrúfa frá réttum krana, þ.e. þeim heita). En það er greinilega farið að hlýna aðeins og ég held að vorið sé að vinna á vetrinum. Í gær kveiktum við t.d. ekki upp fyrr en langt var liðið á daginn og nú er bara að vona að veturinn sé að kveðja.

39 dagar!!!!!!!!

Var að telja hve langt er síðan ég bloggaði síðast og ég get ekki betur séð en að það séu komnir 39 dagar síðan síðast. Það er svo margt búið að gerast á þessum tíma að það er erfitt að koma sér að því að blogga um þá, og því lengra sem líður því erfiðara verður það :-)

Íslandsferðin var mjög góð en það var samt gott að komast heim aftur. Daginn eftir að við Dagmar lentum í Windhoek komu Doddi og Emil sonur hans. Þeir voru hér í tæpar þrjár vikur og við ferðuðumst töluvert á meðan. Við fórum til Etosha sem er þjóðgarður fyrir norðan og sú ferð var meiri háttar. Við keyrðum um garðinn um leið og við komum þangað og sáum nú slatta af dýrum. En seinni partinn og kvöldið sátum við bara við vatnsbólið sem er hjá húsunum þar sem gist er. Það var alveg stórkostlegt að sitja þar. Það voru svo margir fílar við bólið og taldist okkur til að það hafi verið um 77 fílar í tveimur stórum hópum. Þetta var meiri háttar. Morguninn eftir keyrðum við lítinn hring í garðinum á leiðinni út og þar sáum við á bilinu 20 og 30 gíraffa á rölti við veginn. Stórkostlegt. Svo voru náttúrulega fullt af sebrahestum og alls kyns antilópum. En þar sem fílar og gíraffar eru uppáhaldsdýrin mín þá var þessi heimsókn til Etosha alveg ógleymanleg.

Frá Etosha lá leiðin til Opuwo sem er í norð-vestur hluta landsins. Þar gistum við á frábæru hóteli með stórkostlegu útsýni. Við heimsóttum að sjálfsögðu Himbana og það er alltaf jafn forvitnilegt og gaman að hitta þá. Maður lærir alltaf eitthvað nýtt í hverri heimsókn.

Við komum til Opuwo á föstudegi og vorum þar í aflsöppun fram á sunnudagsmorgun þegar lagt var af stað heim. Ferðin heim tekur um 8 klukkutíma og það er alveg merkilegt hvað Rúnar Atli er rólegur í bíl á svona langferðum.

Svo var að sjálfsögðu farið til Swakopmund og á fjórhjól. Mér finnst ferlega gaman að vera á fjórhjóli í eyðimörkinni en ég velti því nú fyrir mér hvort ég fái aldrei leið á því. Ég veit ekki hvað ég er búin að fara oft á fjórhjól og það er alltaf jafn gaman.

Ég, Dagmar, Doddi og Emil fórum svo til Omaruru og gistum þar í eina nótt. Það er frábær staður. Ætli það sé ekki tæplega þriggja tíma keyrsla þangað frá Windhoek. Þetta er svo yndislegur staður, vatnsbólið er alveg við húsin sem gist er í og dýrin koma alveg að veitingastaðnum. Emil var í því að klappa nashyrningum, strútum og kúdu og gefa dýrunum að borða. Svo fórum við í gamedrive og kíktum á flóðhesta.

Svo var þetta frí náttúrulega búið áður en maður náði að snúa sér við og allir farnir heim aftur og það varð hálftómlegt í kofanum satt að segja.

Það er verst að allar myndirnar sem við tókum á ferðalaginu eru á hinni tölvunni og ég þarf eiginlega að sækja nokkrar til að velja úr og setja á bloggið mitt.

miðvikudagur, 4. júní 2008

Símtöl

Eins og ég hef áður sagt frá þá hringir Rúnar Atli reglulega í mömmu sína og suma daga hringir hann nokkrum sinnum. Þessi símtöl eru alltaf mjög stutt en skemmtileg. Um leið og ég svara símanum þá heyrist alltaf í honum "hæ mamma", undantekningarlaust.

Rétt áðan hringdi svo síminn sem er nú ekki í frásögur færandi nema hvað að ég heyri að þetta eru útlönd sem eru að hringja og ég svara náttúrulega "halló" og bíð eftir að heyra "hæ mamma". En í stað þess heyrist "er þetta mamma?" jú jú ég hélt það nú. Heyrðu, það næsta sem ég heyri eru þvílíkur grátur að það var ekki nokkur leið að tala við hann. Þá kom í ljós að hann ætlaði sko að hringja í systur sína og óska henni til hamingju með afmælið. Mamma hans átti sko ekki að svara símanum. Það varð að skella á og leyfa honum aðeins að jafna sig svo hringdi hann aftur og þá sá ég til þess að rétta manneskjan svaraði í símann :-)

Gaman að þessu.

sunnudagur, 1. júní 2008

Háspenna

Handboltaleikurinn í dag á milli Íslands og Svíþjóðar var geggjaður. Það var alveg á mörkunum að ég gæti horft og þegar spennan var alveg að drepa mig fór ég fram og tók úr uppþvottavélinni og gekk frá í eldhúsinu.

Ég held ég hafi aldrei horft á svona góðan handboltaleik hjá íslenska liðinu, alla vega ekki lengi. Það var alveg sérstaklega yndislegt að vinna þennan leik á móti Svíum. Nú er vonandi búið að endanlega jarða Svíagrýluna.

Doddi bloggaði um það að í kjölfar leiksins hefði sænski þjálfarinn verið rekinn. Ég meina kommon, hvað geta menn verið tapsárir. Svo til að bæta gráu ofan á svart þá las ég á mbl.is að Svíar ætli að kæra leikinn og heimta að fá að spila hann aftur. Það er bara ekki í lagi með Svíana hvað þetta varðar. Þeir ættu nú að vera orðnir vanir að tapa fyrir Íslendingum. Við unnum þá í umspili um sæti fyrir síðustu heimsmeistarakeppni (ef ég man rétt).

Ég veit satt að segja ekki hvort er betra; að vinna Svíana eða að komast á ÓL :-)

laugardagur, 31. maí 2008

Símtöl

Það verður nú að segjast eins og er að Rúnar Atli er orðinn ansi vanur því að mamma hans fari til Íslands og sé þar í einhvern tíma. Þ.a.l. er ekki mikið vandamál að kveðja hann á flugvellinum í Windhoek. En eftir að við fengum okkur íslenskt símanúmer úti í Namibíu þá er Rúnar mjög duglegur að hringja í mömmu sína og suma daga hringir hann oft á dag. Þessi símtöl eru nú ansi stutt en seinna símtalið hans til mín í dag er það allra stysta hingað til.

Símtal 2 í dag:

R: Hæ mamma. Ég er ótrúlega duglegur að borða matinn.

M: Hæ elskan mín. Ertu svona duglegur?

R: Já.

M: Hvað fékkstu í kvöldmat?

R: Pulsu og pasta og ég kláraði allt. Okey, bless.

Þetta símtal tók ca 30 sekúndur og er met en það er gaman að þessu.

Léttur fídonskraftur

Það verður nú að segjast eins og er að ég hef tekið lífinu með ró síðan ég kom til Íslands. Ég bara vakna á morgnana þegar mér hentar og er svo bara að dúlla mér á daginn. Svona letilíf er fínt í nokkra daga en svo hellist yfir mann einhver leiði á letinni.

Það rofaði sem sagt til hjá minni í letinni í gær. Ég byrjaði daginn á því að raða öllum gluggapósti sem hefur borist í Æsufell 4 (2-E) síðan í janúar í þar til gerða bókhaldsmöppu. Þar kom nú ýmislegt forvitnilegt í ljós, eins og t.d. hellings inneign hjá Orkuveitu Reykjavíkur - gott mál. Þessi bóhalds-pósts-innröðun tók nú ágætis tíma því það þurfti að sjálfsögðu að raða öllu eftir dagsetningu og á réttan stað í möppuna.

Svo var rokið í bæinn með frumburðinn til að útrétta ýmislegt. Við skelltum okkur svo á American Style og rétt komum heim til að gera okkur sætari áður en við fórum á Ladda sýninguna. Sýningin var meiri háttar og við mæðgur og Sigga mágkona skemmtum okkur mjög vel.

Svo í morgun flutti ný vinkona Dagmarar inn og ég reyndi nú að koma herberginu "hennar" í ágætt horf. Þá var komið að gluggunum í borðstofunni og stofunni. Til stóð að þrífa þá bæði að innan og utan og þeir eru orðnir ótrúlega flottir og hreinir að innan. Það er bara eins og ég hafi sett upp gleraugun því það var svo flott að horfa út um þá. Svei mér þá ef það hefur ekki birt aðeins í stofunni líka :-)

Þetta eru nú kannski smá ýkjur hjá minni, en flottir eru gluggarnir.

En svo settist ég niður og horfði á hádegisfréttir og þá finn ég orkuna leka úr mér. Það er því alls óvíst að gluggar verði þvegnir að utan í dag. Enda er nú kannski algjörlega tilgangslaust að slíta sér út við þrif á einum degi, kommon.

Afmæli

Frúin átti afmæli s.l. mánudag og ég þakka kærlega fyrir góðar afmæliskveðjur. Elsku dætur mínar, þessar frábæru stelpur, gáfu mömmu sinni að sjálfsögðu góðar gjafir. Ég fékk DVD diska. Annar diskurinn er sería nr. 6 af Morðgátu. Ég er að safna þessum seríum og var sjötta serían kærkomin viðbót við safnið.

Fyrir þá sem ekki muna eftir Morðgátu (Murder she wrote) þá eru þettar þættir sem hafa sjálfsagt verið á skjánum á níunda áratugnum með Angela Lansbury í aðalhlutverki. Það er svo gaman að horfa á þættina, sykursætir og góðir :-)

Hinn diskurinn sem elsku stelpurnar mínar gáfu mér heitir Murder most horrid. Þetta eru frábærir grín-afbrota þættir með Dawn French. Snilld.

miðvikudagur, 28. maí 2008

Fótboltafærsla

Ég verð að taka það sérstaklega fram í titli þessarar færslu um hvað hún fjallar svo að fótbolta-antistar (er þetta orð?) geti sleppt því að lesa hana, eins og til dæmis frúin vestur á fjörðum.

Rosalega fóru íslensku stelpurnar flott með sinn leik í dag gegn Serbíu, 4 - 0. Þetta er frábært hjá þeim og eins og íþróttafréttamaðurinn sagði þá eru þær næstum örugglega komnar áfram í Evrópukeppnina. Það eina sem þær þurfa að gera er að vinna Slóveníu og Grikkland í júní og gera jafntefli við Frakka í haust. Ekki málið, þær eru bara komnar áfram og búnar að vinna þetta :-)
En öllu gríni slepptu, þá er þetta frábært hjá þeim og vonandi ná þær að komast áfram.

Svo þarf ég aðeins að fjalla um ensku deildina. Sá það í fréttum áðan að hlutfall enskra leikmanna í byrjunarliðum í ensku úrvalsdeildinni er 34%. "Íslendingaliðið" West Ham er víst með hæsta hlutfall erlendra leikmanna í úrvalsdeildinni (í byrjunarliðum). En mitt lið ARSENAL er með hins vegar með hæsta hlutfall enskra leikmanna ég man þó ekki prósentutöluna. En ef aðeins 34% byrjunar-leikmanna í úrvalsdeildinni eru enskir er þá einhver von að enska landsliðið stendur sig ekki betur á alþjóðamótum?? Ég bara spyr. En alltaf kemur það þeim illilega á óvart að vinna ekki öll stórmót. Minnir mann soldið á okkur Íslendinga hvað Júróvisjón varðar :-) Ekki orð um það meir.

Nú er vináttuleikur Íslendinga og Wales að byrja svo ég læt þetta nægja og ætla að horfa á leikinn. Vonandi standa strákarnir sig jafn vel og stelpurnar fyrr í dag.

föstudagur, 16. maí 2008

Mæðradagurinn

Eins og flestir vita sjálfsagt þá var mæðradagurinn um daginn. Ég er svo rík af börnum og gullin mín brugðust ekki móður sinni núna frekar en venjulega. Heldur færðu mér gjafir í tilefni dagsins :-)

Í Namibíu fékk ég þennan fallega blómavönd frá Tinnu Rut


og þegar ég kom til Íslands þá beið þessi fallega blómakarfa eftir mér frá Dagmar Ýr


Frá Rúnari Atla fékk ég fallegt listaverk sem hann hafði gert í leikskólanum en ég er því miður ekki með mynd af því.

En það er yndislegt að vera svona heppin mamma :-)

Ísland

Jæja þá er ég komin á klakann og það er bara alveg þokkalega ágætt :-) Flugferðin gekk mög vel. Reyndar gat ég lítið sofið á næturfluginu því það var lítið barn nokkrum röðum fyrir framan mig og reglulega um nóttina fór barnið að hágráta. Því leið greinilega ekki vel en ég vorkenndi foreldrunum mikið, því ekki bara var barnið þeirra hágrátandi heldur hafa þau örugglega haft miklar áhyggjur af því að barnið þeirra hélt vöku fyrir öllum öðrum í vélinni - úff það getur ekki verið þægilegt.

En þrátt fyrir grátinn þá gekk ferðin bara vel og var fljót að líða. Svo þegar til London kom þá þurfti ég að skipta um flugvöll og koma mér á Heathrow. Það var nú bara ein stutt rútuferð, ja kannski ekki stutt, hún tók rúman einn og hálfan tíma. Flugið til Íslands gekk líka mjög vel. Ég var svo heppin að lenda í vél sem Iceland Air hefur tekið í gegn. Nú var vel rúmt á milli sæta og sætið við hliðina á mér var autt þannig að við sátum tvö í þremur sætum - sem er mjög gott. Það var ekki nóg með að ég hefði nóg pláss heldur var ég líka með mitt eigið sjónvarp og nýtti ég mér það heldur betur. Ég hafði reyndar ætlað mér að sofa á leiðinni til Íslands en ákvað að prófa sjónvarpið. Ég fann þættina "Two and a half man" og ég ákvað að horfa á þá. Ætli ég hafi ekki horft á ca sex þætti. Mér finnst þessir þættir alveg meiri háttar skemmtilegir enda gat ég stundum ekki haldið niðri í mér hlátrinum en ég reyndi eins og ég gat en það gerði bara illt verra. Því það komu bara skrækir og þess háttar skemmtileg hljóð. Ég hálf vorkenndi manninum sem sat í sömu röð og ég því sjónvarpið hans var bilað og ég var með þessi skemmtilegu hljóð. En vorkunninn risti nú ekki mjög djúpt. Æi svona er þetta bara.

Ég er nú hálf svekkt því ég legg á mig þetta langa ferðalag til að vera með eldri dóttur minni. En nei nei, ég er búin að vera heima í tvo daga þá er hún þotin út úr bænum og kemur ekki heim fyrr en á sunnudaginn. Svo ég verð alein alla helgina.

sunnudagur, 11. maí 2008

4961 km

Eins og sum ykkar kannski vita þá fjárfesti ég í nýjum bíl síðasta ár, nánar tiltekið þann 8. ágúst s.l. Gripurinn er Daihatsu Sirion 1400 vél, kolsvört og geðveikt flott sporttýpa. Ég var eitthvað að velta fyrir mér um daginn hvenær ég ætti að mæta með kaggann í olíutékk og þess háttar og bað Villa að athuga það fyrir mig. Jú sko, samkvæmt sölubókinni þá er fyrsta svona tékk annað hvort eftir 12 mánuði eða eftir 15 000 kílómetra, hvort sem kemur fyrr. Humm, ég leit á kílómetramælinn og sá að ég hef keyrt elsku bílinn minn 4961 kílómetra á þessum níu mánuðum sem komnir eru. Og þar sem aðeins vantar þrjá mánuði í eitt ár tel ég nokkuð ljóst að ég næ ekki að keyra bílinn 15 000 kílómetra fyrir 8. ágúst og mæti því með hann í skoðun í byrjun ágúst.

Stundum legg ég bílnum fyrir framan húsið (en ekki í bílastæðin við hliðina á húsinu) svo ég geti kíkt út og séð bílinn og dásamað hann svona þegar ég er ekki að keyra hann :-) (ég veit, ég veit, ég er ekki alveg heilbrigð eins og yngri dóttir mín bendir mér oft á).

Ég vildi óska þess að ég gæti flutt bílnn minn með mér til Íslands þegar við flytjum heim. En það er víst hægara sagt en gert þar sem stýrið er "vitlausu" megin. Í Namibíu er sem sagt vinstri umferð. Annars heyrði ég í den um verkstæði sem sérhæfa sig í að umbreyta svona bílum svo þeir henti hægri umferð. En það eru nú möööörg ár síðan. Ef einhver þekki til þess þá endilega að að láta mig vita.

mánudagur, 5. maí 2008

Íslandsferð

Þá fer að koma að Íslandsferð frúarinnar á þessum bæ. Þann 13. maí legg ég af stað héðan og verð komin heim þann 14. Við höfum yfirleitt flogið með Air Namibia til Gatwick og þaðan með British Airways til Íslands og svo eins heim aftur. En núna eru því miður British Airways hættir að fljúga þessa leið og því verð ég að skipta um flugvöll í London og koma mér yfir á Heathrow. En það á nú ekki að vera mikið mál - bara taka rútu á milli flugvalla.

Á Íslandi verð ég í fimm vikur og verður það mjög gaman. Ég ætla að eiga notarlegan tíma með eldri dóttur minni sem verður tvítug í byrjun júní. Við ætlum í leikhús að sjá Ladda sextugan og í brúðkaup vestur í Ólafsvík. Og við finnum okkur örugglega eitthvað að skemmtilegt að gera saman. Svo þann 18. júní leggjum við mæðgurnar saman af stað hingað út aftur. Hún ætlar að vera hérna í tæpar þrjár vikur og verður það meiri háttar gaman. Á sama tíma verða Doddi bróðir og Emil sonur hans hérna hjá okkur. Við ætlum að ferðast eitthvað saman, grilla, sjálfsagt að opna eins og eina vínflösku og eitthvað annað skemmtilegt :-)

Sem sagt, bara skemmtilegir tímar framundan.

Löng helgi og uppvask!!!

Jæja þá er þessari löngu helgi að ljúka. 1. maí, dagur verkalýðsins, er mikill hátíðisdagur hér í Namibíu og er því frídagur. Nema náttúrulega fyrir afgreiðslufólk, allar búðir voru opnar eins og um sunnudag var að ræða. Mörg fyrirtæki höfðu svo lokað á föstudaginn því á sunnudeginum var Kasingadagur og þegar lögbundinn frídagur ber upp á helgi þá er mánudagurinn á eftir frídagur. þannig að margir hafa verið í fríi síðan á miðvikudagseftirmiðdag. Ég gat þó ómögulega verið án minna aðstoðarkvenna á föstudaginn. En við hjónin vorum hjálparlaus laugardag, sunnudag og mánudag. Villi var duglegur að vaska upp á laugardaginn, ég tók mig til á sunnudaginn og skellti litla fingri í kalt vatn og tók að mér uppvask. En í dag, mánudag, verð ég að viðurkenna að hvorugt okkar hafði "tækifæri" til að vaska upp :-)

Enda er núna bara beðið eftir að Lidia mæti í fyrramálið, því síðustu diskarnir voru notaðir við kvöldverðinn. Það var bara eins gott að Tinna var ekki heima því hún hefði þurft að nota servíettu eða eitthvað annað undir sinn mat :-)

Þetta er nú ekki alveg eins slæmt og það hljómar og er sagt í fullu gríni :-) en öllu gamni fylgir jú einhver alvara hef ég heyrt.

Skóli, skóli, skóli

Jæja þá fékk ég þær fréttir í dag að umsókn mín um að hefja nám í M.Ed í stjórnunarfræði menntastofnana við menntavísindasvið Háskóla Íslands hefði verið samþykkt. Ég er að sjálfsögðu mjög ánægð með þessa stöðu mála. Ég er sem sagt að hefja annað meistaranám. Ég hef nú líka verið að velta mikið fyrir mér að fara í doktorsnám í afbrotafræði en þegar ég hugsa virkilega um hvað ég vil starfa við í framtíðinni, þá er það í grunnskólum og helst í stjórnun þeirra. Þannig að ég reikna með að hefja þetta nám í haust, það er samt ekki alveg hundrað prósent. Þetta nám er byggt upp sem sveigjanlegt nám með staðlotum og þeir vita að ég get ekki sótt nema nokkrar staðlotur, ef nokkrar, vegna búsetu. En það er spennandi að hafa eitthvað ákveðið fyrirliggjandi um hvað ég mun gera næsta vetur. Ég verð sennilega á kafi í bókum og verkefnavinnu - úff það er eins gott að mér finnst það mjög skemmtilegt :-)

sunnudagur, 27. apríl 2008

Fjarlægðin gerir fjöllin blá!!

Ég var að horfa á síðasta þátt Spaugstofunnar á þessum vetri áðan og svei mér þá ef þetta var bara ekki sá albesti þáttur ever. En það getur svo sem verið að heimþrá og söknuður eftir Íslandi hafi sitt að segja í þessu mati mínu. Allt íslenskt, hvort sem það er veður, verðlag eða eitthvað annað, verður því eftirsóknarverðara því lengur sem ég er fjarverandi. En í fúlustu alvöru þá var þátturinn mjög góður og gaman að stjórnmálamenn geti gert grín af sjálfum sér og tekið þátt í þessu.

Ef svo ólíklega vill til að einhver lesenda þessa pistils hafa ekki horft á fyrr téðan þátt þá mæli ég eindregið með að viðkomandi bæti úr því hið fyrsta.

laugardagur, 26. apríl 2008

Netsamband

Jæja þá er mánaðarlöngu netsambandsleysi og svo til algjöru sambandsleysi við umheiminn loksins lokið. Ég get trúað ykkur fyrir því að þetta reyndi töluvert á þolrifin í minni :-) En í gær kom loksins "síma-kallinn" og reddaði málum fyrir okkur. Þegar hann var búinn þá tékkaði ég náttúrulega á tengingunni og ég held svei mér þá að ég hafi setið yfir tölvunni í tvo klukkutíma :-)

sunnudagur, 30. mars 2008

Sunnudagsmorgunn

Klukkan 7.10 í morgun vaknaði sonurinn og þar sem ég var nú ekki alveg tilbúin að fara fram strax fékk hann að koma upp í rúm til okkar og átti að hvíla sig í smá stund. Áður en ég vissi af var hann farinn að hoppa ofan á okkur með tilhlaupi. Hann setur undir sig fæturna og hendir sér á okkur. Tilgangurinn er að fletja okkur út eins og pönnukökur. Það er nú ekki alveg laust við að maður fái olnboga og hné á kaf inn í sig með tilheyrandi óþægindum. Með þessum látum tekst honum furðu fljótt að koma okkur á fætur, enda er það kannski tilgangurinn.

Hvað varð um rólegu sunnudagsmorgnana???

föstudagur, 28. mars 2008

Jedúddamía

Ég gerði nú heldur betur mistök í gær og ég fæ bara hroll við tilhugsunina. Þannig er nefnilega mál með vexti að ég steingleymdi að loka á eftir mér húsinu í gær. Seinni partinn fórum við með Ella, Allý og krakkana í heimsókn í Katatura til að skoða hverfið. Við fengum að kíkja heim til Lidia (heimilishjálpin mín) og það var mjög forvitnilegt. Við höfum sjálfsagt verið í burtu í um einn klukkutíma og bara Tinna var heima því hún var að læra fyrir próf. Þegar við komum svo heim frá Katatura þá er bara allt galopið, úff. Þegar við vorum að fara lenti ég í einhverjum vandræðum með að loka bílskúrnum en hélt það hefði nú tekist að lokum en greinilega ekki því það var allt galopið. Það er innangent í húsið úr bílskúrnum og hver sem er gat hafa farið inn.

Ég rauk beint inn til Tinnu til að tékka hvort hún væri ekki í lagi og sem betur fer var hún bara hress og hafði ekki orðið vör við neitt. Við ákváðum nú samt að ganga einn hring um húsið og gátum ekki séð að neitt hefði horfið. Þá fór ég nú að slaka aðeins á en ég bara skil ekki hvernig ég gat klikkað á að loka húsinu því ég passa þetta alltaf mjög vel. Svo í gærkveldi var Villi eitthvað að vappa í bílskúrnum og rekur þá augun í að reiðhjólið hans er horfið. Það hefur sem sagt einhver séð sér leik á borði og komið inn í bílskúr og haft hjólið á brott með sér. Ég þakka bara guði fyrir að hann fór ekki inn í húsið þar sem Tinna mín var ein heima.

1. í kulda

Jæja þá er farið að hausta hér í Namibíu. Í gærkveldi var orðið þó nokkuð kalt en við ákváðum samt að kveikja ekki upp, en við sleppum sjálfsagt ekki við það í kvöld. Í morgun komu ískaldar tær upp í rúm til okkar og þá var loftkælingin látin hita herbergið svo hægt væri að koma sér framúr. Þannig að það er ljóst að nú styttist óðum í vetur hér á suðurhveli jarðar.

fimmtudagur, 27. mars 2008

Minnisleysi

Ég var búin að steingleyma að ég væri byrjuð að blogga og því hefur ekkert heyrst frá mér í nokkra daga. En nú verður bætt úr því hið snarasta.

Það er búið að vera heilmikið að gera undanfarið. Við fórum í vikuferðalag með Ella, Allý og krökkunum og það var meiri háttar gaman. Ferðin var mjög skemmtileg en prógrammið var stíft og það var ekki laust við að mannskapurinn væri lúinn þegar við komum heim aftur. Rúnar Atli var mjög spenntur að fara í ferðalag og hlakkaði mikið til að fara í Etosha af því Tinna var þar um daginn. Eins hlakkaði hann til að komast til Oshakati því pabbi hans fer svo oft þangað. Hann gerði sér náttúrulega litla sem enga grein fyrir hvaða staðir þetta væru en var samt fullur tilhlökkunar. Hann var mjög góður í bílnum á allri þessari keyrslu og í fyrstu var hann alltaf að spurja hvort hann væri í ferðalagi, jú jú við héldum það nú. Svo á öðrum degi spyr hann: Erum við núna í Úganda?? Ha, bíddu vorum við á leiðinni þangað- ekki veit ég hvernig honum datt Úganda í hug.

Ég geri ráð fyrir að Villi bloggi um ferðina svo ég geri nú varla mikið af því. Þið lesið bara síðuna hans Villa ef þið viljið lesa ferðasöguna.

Í gærmorgun flaug fugl hingað inn og settist að í einum glugganum hátt uppi. Greyið kemst ekki út aftur því hann horfir bara út um gluggann og reynir að fljúga í gegnum hann. Við bíðum bara þolinmóð eftir að hann annað hvort detti dauður niður eða finni sér útgönguleið.

Svo var ég að fá þær yndislegu fréttir að menntamálaráðuneytið sé búið að gefa út grunnskóla-kennsluréttindaleyfi á mínu nafni :-) Ja, sko það er alla vega kominn reikningur fyrir leyfisbréfinu og um leið og ég er búin að borga það fæ ég leyfið. Svo er bara að vona að ég komist inn í KHÍ í haust. Ég sótti um að komast í M.Ed nám sem er meistaranám í stjórnun menntastofnana - mjög spennandi.

Jæja læt þetta nægja að sinni. Verð að fara að sinna gestunum sem fara í kvöld.

þriðjudagur, 11. mars 2008

Mamman greinilega ekki í uppáhaldi lengur!!!

Hann sonur minn getur nú verið ósköp ágætur stundum. Hann hlakkar alltaf mikið til að koma heim úr leikskólanum og fara að leika við Flora. Hún Flora er barnfóstran hans og hefur verið með hann á hverjum degi í rúm tvö ár. Hún nennir endalaust að leika við hann og fíflast og hamast. Það eina sem hún verður stundum þreytt á er að horfa á DVD- myndir á íslensku. Hann tekur svona köst af og til og horfir á sömu myndina í marga daga. Í fyrra, t.d. var í uppáhaldi hjá honum að horfa á Bangsaból. Það endaði með því að Flora spurði hvort hún mætti fela myndina því hún var orðin svo þreytt á henni. Svo tók við DVD diskur þar sem jólasveinn syngur mörg þekkt jólalög á íslensku. Núna er í uppáhaldi einhver mynd með Svampi Sveinssyni sem hann fékk að kaupa sér í London. Sú mynd er nú reyndar á ensku svo Flora skilur hvað er í gangi í myndinni. En ég verð nú að viðurkenna að ekki nenni ég fyrir mitt litla líf að horfa á þessa mynd með syni mínum. Að mínu mati er hún alveg drepleiðinleg.

En alla vega, þá er Rúnar mjög hrifinn af Floru. Svo í gær segir hann við mig, "mamma, núna ert þú ekki konan mín. Flora er konan mín". Hann hefur nú sennilega séð að mér hálfbrá við þessi orð hans því hann var fljótur að bæta við "en þegar Flora er farin heim þá ert þú konan mín". Hann hefur greinilega viljað hafa móður sína góða :-)

föstudagur, 29. febrúar 2008

Tíðarfar

Það er eiginlega með óíkindum hvað veðrið hefur verið leiðinlegt hérna undanfarið. Á hverjum degi núna í langan tíma hafa verið miklar þrumur og eldingar með tilheyrandi rigningu og þegar það rignir hér þá er úrhelli. Um daginn þurfti ég t.d. að skjótast út í ca eina mínútu og ég varð gegndrepa á þessari mínútu, það var bara eins og ég hafði verið dregin upp úr polli. Í gær þurfti ég svo að versla (sem er nú ekki í frásögur færandi) og hentist aðeins í Game. Þegar ég var á kassanum að borga urðu svo mikil læti í úrhellinu að það heyrðist ekki mannamál inni í búðinni. Þetta var með ólíkindum og starfsfólkið stóð bara og brosti sínu breiðasta en það var ekki nokkur leið fyrir okkur að spjalla saman því við hreinlega heyrðum ekki hvert í öðru. Þegar ég er svo komin út úr Game þá sé ég að það er haglél en ekki rigning og ég held ég hafi aldrei séð svona stórt hagl, það var að stærð ca eins og nöglin á þumalputta. En alla vega, við erum sjálfsagt um 20 viðskiptavinir sem húkum þarna saman undir skyggninu og bíðum þess að það stytti upp. En eftir nokkurra mínútna bið var nú þolinmæði minnar á þrotum. Bíllinn minn mjög nálægt og ég vissi að það tæki mig ekki nema nokkur augnablik að komast í öruggt skjól. Svo konan með víkingablóð í æðum, og í örþunnum hlýrabol, beygði höfuðið undir sig og arkaði á móti haglinu. En auðvitað komst ég ekki eins fljótt og auðveldlega inn í fararskjótann og ég hafði hugsað mér. Ég var nefnilega með nokkra stóra innkaupapoka í hvorri hönd og varð að koma þeim af mér í skottið og þetta tók náttúrulega sinn tíma. En í stuttu máli sagt varð ég gjörsamlega gegndrepa eftir þennan verslunarleiðangur.

Svo núna í morgunsárið heilsar rok og rigning og það er ansi dimmt yfir. Þetta er bara eins og ekta íslenskt veður enda skildi Rúnar Atli það vel að hann yrði að fara í peysu í skólann í dag því þetta var bara eins og á Íslandi.

Núna um 7.30 var heimasætan hér í Namibíu að fara í helgarferðalag. Það er nú ekki laust við að ég sé með í maganum. Þær ætla fimm vinkonurnar að keyra upp til Etosha og vera þar um helgina. Veðrið er nú ekki alveg með besta móti til að keyra þetta enda var ein mamman sem ég ræddi við í morgun líka ansi stressuð yfir þessu. Svo eru vegirnir hérna svo hættulegir, eða réttara sagt eru sjálfir vegirnir mjög góðir, eru beinir og breiðir, en fólk keyrir svo hratt og því soldið um framúrakstur. En þessi mamma sem ég ræddi við ætlaði að ítreka það við Dominic (bílstjórann) að hún yrði að keyra varlega. Ég mun sjálfsagt senda slatta af sms-um um helgina bara svona til að tékka á að allt sé í lagi. En svo var mér tilkynnt það í gær að þær vinkonurnar væru búnar að gera það að reglu að þær mættu ekki vera að kjafta í símann að deginum til. Hún mundi senda mér sms að morgni og svo hringja í mig að kveldi. Það var sem sagt verið að benda mér mjög pent á það að það þýddi lítið fyrir mig að vera að senda sms allan daginn. Ég sagðist nú ekki taka mark á svona reglum og ég mun senda FULLT af sms-um allan daginn alla helgina og hún yrði að gjöra svo vel að svara mér - takk fyrir :-)

Það er alla vega alveg á hreinu að ég verð mjög þakklát þegar þessi helgi verður liðin og mánudagsmorgunn runninn upp og allir vaknaðir og að borða morgunmat saman :-)

mánudagur, 25. febrúar 2008

Helgin búin

Nú styttist í að Elli, Allý og börn komi í heimsókn og við förum saman í ferðalag um landið. Það verður án efa mjög skemmtilegt, bæði er náttúrlega félagsskapurinn góður og eins er Namibía alveg afskaplega fallegt land og gaman að ferðast hérna.

Annars er nú lítið um að vera hérna hjá okkur þessa dagana. Tinna fór aftur að fljúga með Sibby snemma á laugardagsmorgun. Þær komust reyndar ekki í langa túrinn en í staðinn flugu þær yfir Okapuka og sáu slatta af dýrum, eins og t.d. oryx og springbok. Fyrir þá sem ekki vita, þá er Okapuka búgarður hérna skammt fyrir norðan borgina með alls kyns dýrum. Gestir eru keyrðir um búgarðinn og leitað að dýrum til að sýna.

Næstu helgi fer Tinna með nokkrum vinkonum sínum til Etosha sem er þjóðgarður í norðurhluta landsins. Þær fara á föstudaginn og koma til baka á sunnudaginn. Þetta verður stelpuhelgi og mikil spenna í gangi :-) Það verður nú að segjast að hún er ekki svona viljug að fara með foreldrum sínum í svona ferðir - ég skil bara ekkert hvernig stendur á því.

Enn einn daginn hafa verið þrumur og eldingar með tilheyrandi rigningu. Á laugardaginn rigndi svo svakalega að það rigndi niður um reykháfinn. Eins fóru nokkrir gluggar að leka, gluggarnir í húsinu þola ekki svona mikið úrhelli. Þetta var voðalega smekklegt, handklæði í öllum gluggakistum :-) En þrumurnar í dag voru svo miklar að gler í ljósakrónum hristust og það glamraði ansi hátt í þeim. Það er eins gott að enginn í þessari fjölskyldu ætlaði að horfa á óskarsverðlaunaafhendinguna í kvöld. Því þegar svona viðrar þá dettur sjónvarpið yfirleitt út :-)

laugardagur, 23. febrúar 2008

Hamingjuóskir

Elsku Jóhanna okkar, innilega til hamingju með daginn :-)

föstudagur, 22. febrúar 2008

Ég er alltaf svo heppin

Þessi eilífa eldamennska er frekar leiðinleg að mínu viti. Enda er ég afskaplega hugmyndasnauð þegar ég stend í eldhúsinu, svona dags daglega. En ég er svo heppin í kvöld að umdæmisstjórinn í Úganda er stödd hér í Namibíu og að sjálfsögðu veldur það því að við "neyðumst" til að fara út að borða í kvöld. Umm, það verður sko pöntuð girnileg steik, ekki spurning.

"Ég lifi í draumi"

Hann Rúnar minn er ansi ágætur. Þannig er mál með vexti að við eigum nokkuð góða digital vigt (nei, ekki bökunar) og við Rúnar skellum okkur oft á vigtina - bara svona til að fylgjast með þyngdinni. Svo áðan þá varð hann að skella sér á hana, ok hann kveikir á vigtinni og bíður eftir að það standi 0,00 því hann veit að þá er vigtin tilbúin. Hann kemur sér fyrir á henni og bíður eftur að þyngdin birtist og mamman les fyrir hann, jú hann er 17,7 kg. Þá er kominn tími fyrir mömmuna að koma sér á vigtina og hann las fyrir mömmu sína. "Mamma, þú ert líka 17,7" - góður :-)

Bútasaumur og flug

Þá er ég loksins komin af stað með bútasaumsteppi. Ég skráði mig á grunnnámskeið í bútasaumi og ég fékk senda uppskrift af einföldu teppi. En afskaplega eru lýsingarnar á því sem ég á að gera lélegar og litlar. Það er greinilega gert ráð fyrir að maður viti sitt hvað um bútasaum. En þrjóskan í minni veldur því að ég er bara að kenna sjálfri mér þetta. Ég er búin að setja nokkra búta saman og var voða hreykin af sjálfri mér og sýndi Tinnu meistarastykkið og var náttúrlega að monta mig aðeins í leiðinni. Heyrist þá í minni "mamma þú ert svo hlédræg". Ég sagðist nú vita það og það hái mér frekar en hitt :-)

En ég er alla vega komin af stað. Nú þarf ég bara að læra að setja munstur ofan á annað efni, ég er ekki alveg að fatta hvernig það er gert án þess að það sjáist saumur. En það kemur eins og annað.

Ein vinkona Tinnu (Sibby) er að læra að fljúga og Tinna fór með henni í flugtíma í dag. Þetta er í annað sinn sem Tinna flýgur með henni. Í fyrra skiptið þá var ég ein taugahrúga, því verður nú ekki neitað. En ég var afskaplega afslöppuð í dag. Þetta átti að vera langur flugtúr, tveggja tíma, en vegna veðurs þá gekk það ekki. Þess í stað var flogið yfir borginni og eitthvað smá í kring. En í fyrramálið ætla þær aftur að fljúga og á að fara í loftið kl. 8. Tinna er rosalega hrifin af þessu og það er efst á óskalistanum hennar að fá að læra að fljúga.

Um daginn var nokkurs konar "framadagur" í skólanum hjá Tinnu og var m.a. verið að kynna þetta flugnám. Mín kom heim með allar upplýsingar um námið. Hún má byrja að læra að fljúga þó hún sé ekki orðin 16 ára, en fær bara ekki réttindin fyrr en eftir sextán ára afmælið. Ég er bara ekki viss um að ég hefði taugar í það að vita af dóttur minni einni uppi að fljúga í lítilli rellu. Úff...

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

ÞÖGN

Jæja þá er ég loksins orðin nettengd aftur. Tengingin datt út á sunnudaginn og komst ekki aftur í gagnið fyrr en seint í gærkveldi. Það er með ólíkindum hvað það hefur verið erfitt að vera netsambandslaus - úff. En nú er sem sagt þögninni lokið. En þá hef ég bara ekkert sniðugt að segja.

Ég vil óska Loga Snæ innilega til hamingju með afmælið í gær. Gæinn bara orðinn fjögurra ára :-)

sunnudagur, 17. febrúar 2008

Arsenal - Man. utd

Ég get lítið sagt um þennan blessaða leik í gær. Ég var þó með rétt úrslit, bara ekki rétt vinningslið - þetta fyrirfórst eitthvað hjá mér þegar ég var að spá fyrir um úrslitin í gær :-)

En það vill bara svo vel til að við gátum ekki horft á þennan hræðilega leik. Þegar það eru miklar þrumur, eldingar með rigningu þá dettur sambandið við gervihnöttinn út og það gerðist í gær akkúrat þegar fyrirliðar liðanna voru búnir að takast í hendur. Þannig að það má segja að ég hafi sloppið við að horfa. Hins hefði Villi verið til í að horfa á leikinn enda unnu hans menn.

En svona er þetta.

laugardagur, 16. febrúar 2008

móttaka, sýning, 4 - 0 fyrir Arsenal

Í gærmorgun fórum við Villi að State House (forsetahúsið) í boði forseta Namibíu. Það er árlegur viðburður að forsetinn býður öllum diplómötum í móttöku skömmu eftir áramót til að bjóða öllum gleðilegs nýs árs. Þetta var rosalega formlegt og flott. Bílstjórinn af skrifstofunni hans Villa keyrði okkur eins og vanalega í svona móttökur. Þegar hann er að renna bílnum upp að hliðinu þá standa þar lífverðir og heilsa að hermannasið. Þeir standa þannig þangað til bíllinn er alveg stopp og þá opna þeir bílhurðarnar fyrir okkur Villa. Svo er annar heilsandi-vörður þegar við göngum upp tröppurnar.

Svo eru tvö eða þrjú security tékk á leiðinni, þar sem við þurfum að segja frá hvaða landi við erum. Svo loksins komust við upp á grasflötina þar sem móttakan er. Þá er okkur vísað á okkar stað í röðinni og þar urðu allir að bíða þar til forsetinn kom. Það voru tvær raðir, önnur fyrir diplómata og maka þeirra og hin fyrir ráðherra og yfirmenn opinberra stofnana í Namibíu. Svo loksins er allt tilbúið og þá eru nöfn og lönd diplómata lesin upp og viðkomandi aðili átti að ganga til foretans og taka í höndina á honum, forsætisráðherranum og mig minnir að þriðji maðurinn hafi verið utanríkisráðherra. Svo voru fluttar ræður og skálað fyrir heilsu og velferð forsetans og allra annarra. Þetta tók nú slatta tíma.

En að þessu loknu var boðið upp á léttar veitingar og drykki. Og þá loksins gat maður farið að hreyfa sig og kjafta við þá sem maður kannast við :-)

Svona móttökur geta nú verið ansi erfiðar fyrir bakið, það verð ég að segja. Því það er ekki auðvelt fyrir mig að standa kjurr í hátt í tvo tíma, á mishæðóttri grasflöt. En þetta var voða gaman.

Svo um kvöldið var okkur boðið á opnun sýningar hér í borg. Þannig vill til að eiginmaður sænska charge des affairs (ég veit ég stafa þetta ekki rétt - þetta er svona eins og Villi er) er blaðamaður og mikill grúskari. Hann gróf upp á sænsku safni eldgömul (og áður óbirt) kort af Namibíu. Það var einhver sænskur gaur sem kom hingað til lands um 1850. Hann hefur verið að skoða sögu þess manns hérna í Namibíu og þetta er mjög forvitnilegt.

Nú bíðum við bara eftir að stórleikur Arsenal og Man utd hefst, þar sem mínir menn munu taka hrokagikkina í utd í nefið :-)

Murder she wrote

Þetta hefur verið algjör letidagur. Villi hefur verið að dunda sér í bílskúrnum að smíða, Rúnar að leika sér í nýju dóti sem hann keypti sér í morgun og ég hef bara verið að sauma. Heimasætan hefur ekki sést hér í allan dag, fyrir utan ca 20 mín áðan. Í gærkvöldi var Valentínusarball í skólanum hennar og hún bauð einum vini sínum með sér. Hann heitir Rasheed og er víst fyrrverandi kærasti :-) Krakkarnir nenntu nú ekki að vera allan tímann á ballinu heldur var farið heim til annars vinar og þar var "hittingur". Svo fékk gellan að sofa heima hjá vinkonu sinni. Og jú jú, ég tékkaði á því og ræddi við mömmu stelpunnar þannig að ég veit fyrir víst að dóttir mín svaf þar en ekki annars staðar :-) Hún rétt rak andlitin hér inn áðan og skellti sér í sturtu og var svo rokin út aftur.

Við Rúnar erum núna að horfa saman á Morðgátu. Ég fékk gefins fyrstu seríuna í jólagjöf og keypti mér aðra seríu. Þetta eru yndislegir þættir. Ég veit ekki hvort þið munið eftir þessum þáttum en þeir voru sýndir í sjónvarpinu fyrir all nokkrum árum. Rúnar hefur voða gaman að því að horfa með mér. Ja, hann situr og horfir í 10 mínútur en er svo rokinn í allt annað. Þolinmæðin við að finna út "who donn´it" er greinilega ekki meiri.

mánudagur, 11. febrúar 2008

Rigning - rigning - rigning

Það er alveg með ólíkindum hvað það rignir mikið hérna þessa dagana. Þetta hefur hinar ýmsu afleiðingar, fyrir utan flóð og aðra erfiðleika fólks fyrir norðan þá er þessi fjölskylda að lenda í vandræðum. Þannig er nefnilega mál með vexti að Lidia þvær og þvær þvottinn af okkur og hengir út en þar rignir hann bara niður. Í morgun varð ég að stoppa hana í að hengja út. Ég á nefnilega hvorki til þurrkara né inni-snúrur. En þetta veldur því að handklæðin á bænum eru að verða uppurin. Það verða sjálfsagt slagsmál í kvöld þegar kemur að sturtu því ég held það sé eitt handklæði til hreint og þurrt. Það verður sem sagt fyrstur kemur fyrstur fær. En Rúnar þyrfti reyndar að fá þetta handklæði í leikskólann á morgun því hann fer í sundtíma á þriðjudögum og þarf þ.a.l. handklæði :-)

Það verður gaman að sjá hvernig þetta fer allt saman. Ég sé fyrir mér að í fyrramálið þegar búðir opna verði ég að laumast út með sólgleraugu og derhúfu (svo ég þekkist ekki) og kaupa nokkur handklæði.

Annars eru þessi handklæða-vandræði ekki stór miðað við vandræði fólksins fyrir norðan. En það sem stendur manni næst.....

sunnudagur, 10. febrúar 2008

Eitt og annað í helgarlok

Ferðin okkar Villa norður í land var bara mjög fín, að vísu soldið mikil keyrsla en ókey. Ég hafði víst bloggað um að Villi þyrfti að funda með sýslustjóranum í Ohakene sýslu. Sýsla með þessu nafni er víst ekki til í Namibíu :-) En sýslurnar þarna fyrir norðan heita allar mjög svipað og eru kallaðar The four O´s. Það er ekki nokkur leið að ég muni hvað þær heita og bæirnir heita líka mjög svipað. En ferðin var sem sagt mjög fín en það var sorglegt að sjá flóðin þar. Það hafa t.a.m 44 skólar þurft að loka vegna flóða - sorglegt.

En það jákvæða (fyrir mig) var hitinn þarna. Ég var síðast fyrir norðan í lok október s.l. og þá var varla hægt að anda fyrir hita. En núna var bara svalt vegna rigninga. Það var svo notalegt.

Villi þurfti líka að funda með einum skólastjóra fyrir norðan. Í þeim skóla eru bara heyrnarlaus og blind börn. Endaði það svo með því að skólastjórinn (Abraham) og kona hans (Rachel)buðu okkur Villa heim til sín í kvöldmat það kvöld. Að þeirra sið var boðið upp á kjúkling og porridge. Það er víst þannig að þegar fólk úr þeirra ættbálkum fær gesti í mat, þá á að bjóða upp á slíkt. Annað er ekki til umræðu og maturinn smakkaðist mjög vel. Kjúklingurinn var með heimagerðri sósu sem var mjög góð. Þessi porridge var nú ekki grautur eins og maður hefði haldið, heldur meira eins og mjög þykk (ja ég veit svei mér ekki hvað). En hann var alveg ókey. Við áttum mjög góða kvölstund með þeim hjónum og litla guttanum þeirra sem er níu mánaða.

Þegar við komum svo heim á föstudaginn þá var líka svalt í veðri í Windhoek og hefur verið alla helgina og rignt mikið. Lidia var t.d. nýbúin að hengja út þvott á föstudagsmorgun þegar fór að rigna og blessaður þvotturinn er ennþá úti, rennandi blautur. En þessi svali hefur verið yndislegur, ég hef verið í síðbuxum alla helgina og m.a.s. í sokkum og lífið gerist varla mikið betra :-)

föstudagur, 8. febrúar 2008

Enn að dunda mér með síðuna

Athygli mín hefur verið vakin á því að ég hef ekki leyft öllum að kommenta á bloggið mitt. Ég hélt nú reyndar að ég hefði hakað við að allir mættu kommenta hjá mér en svo virðist ekki vera. Ég er sem sagt búin að laga það núna og bara vona að það virki.

þriðjudagur, 5. febrúar 2008

Ferðalag

Á morgun þarf Villi að fara norður í land og funda með sýslustjóranum í Ohakene sýslu. Að sjálfsögðu er mér boðið með og það verður fínt að komast aðeins í annað umhverfi. Krakkarnir verða bara heima hjá Flora. Ég er búinn að fylla ísskápinn að ýmsu matarkyns svo þau ættu ekki að þurfa að líða skort :-)

Við komum heim aftur seinni partinn á föstudaginn og þá sjáflsagt læt ég heyra frá mér aftur.

Smá vandkvæði svona i upphafi

Ég á nú í einhverjum smá erfiðleikum með að setja síðuna almennilega upp, en við sjáum til.

Prufa

Þá er að láta á það reyna hvort ég geti sett upp bloggsíðu. Ég var eiginlega búin að ákveða með sjálfri mér að athuga hvort ég gæti ekki sett upp bloggsíðu alveg hjálparlaust. Ég hlýt að geta þetta eins og aðrir :-)