Powered By Blogger

mánudagur, 14. júlí 2008

39 dagar!!!!!!!!

Var að telja hve langt er síðan ég bloggaði síðast og ég get ekki betur séð en að það séu komnir 39 dagar síðan síðast. Það er svo margt búið að gerast á þessum tíma að það er erfitt að koma sér að því að blogga um þá, og því lengra sem líður því erfiðara verður það :-)

Íslandsferðin var mjög góð en það var samt gott að komast heim aftur. Daginn eftir að við Dagmar lentum í Windhoek komu Doddi og Emil sonur hans. Þeir voru hér í tæpar þrjár vikur og við ferðuðumst töluvert á meðan. Við fórum til Etosha sem er þjóðgarður fyrir norðan og sú ferð var meiri háttar. Við keyrðum um garðinn um leið og við komum þangað og sáum nú slatta af dýrum. En seinni partinn og kvöldið sátum við bara við vatnsbólið sem er hjá húsunum þar sem gist er. Það var alveg stórkostlegt að sitja þar. Það voru svo margir fílar við bólið og taldist okkur til að það hafi verið um 77 fílar í tveimur stórum hópum. Þetta var meiri háttar. Morguninn eftir keyrðum við lítinn hring í garðinum á leiðinni út og þar sáum við á bilinu 20 og 30 gíraffa á rölti við veginn. Stórkostlegt. Svo voru náttúrulega fullt af sebrahestum og alls kyns antilópum. En þar sem fílar og gíraffar eru uppáhaldsdýrin mín þá var þessi heimsókn til Etosha alveg ógleymanleg.

Frá Etosha lá leiðin til Opuwo sem er í norð-vestur hluta landsins. Þar gistum við á frábæru hóteli með stórkostlegu útsýni. Við heimsóttum að sjálfsögðu Himbana og það er alltaf jafn forvitnilegt og gaman að hitta þá. Maður lærir alltaf eitthvað nýtt í hverri heimsókn.

Við komum til Opuwo á föstudegi og vorum þar í aflsöppun fram á sunnudagsmorgun þegar lagt var af stað heim. Ferðin heim tekur um 8 klukkutíma og það er alveg merkilegt hvað Rúnar Atli er rólegur í bíl á svona langferðum.

Svo var að sjálfsögðu farið til Swakopmund og á fjórhjól. Mér finnst ferlega gaman að vera á fjórhjóli í eyðimörkinni en ég velti því nú fyrir mér hvort ég fái aldrei leið á því. Ég veit ekki hvað ég er búin að fara oft á fjórhjól og það er alltaf jafn gaman.

Ég, Dagmar, Doddi og Emil fórum svo til Omaruru og gistum þar í eina nótt. Það er frábær staður. Ætli það sé ekki tæplega þriggja tíma keyrsla þangað frá Windhoek. Þetta er svo yndislegur staður, vatnsbólið er alveg við húsin sem gist er í og dýrin koma alveg að veitingastaðnum. Emil var í því að klappa nashyrningum, strútum og kúdu og gefa dýrunum að borða. Svo fórum við í gamedrive og kíktum á flóðhesta.

Svo var þetta frí náttúrulega búið áður en maður náði að snúa sér við og allir farnir heim aftur og það varð hálftómlegt í kofanum satt að segja.

Það er verst að allar myndirnar sem við tókum á ferðalaginu eru á hinni tölvunni og ég þarf eiginlega að sækja nokkrar til að velja úr og setja á bloggið mitt.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að heyra frá þér og þínum :-) kv Fanney