Powered By Blogger

fimmtudagur, 27. mars 2008

Minnisleysi

Ég var búin að steingleyma að ég væri byrjuð að blogga og því hefur ekkert heyrst frá mér í nokkra daga. En nú verður bætt úr því hið snarasta.

Það er búið að vera heilmikið að gera undanfarið. Við fórum í vikuferðalag með Ella, Allý og krökkunum og það var meiri háttar gaman. Ferðin var mjög skemmtileg en prógrammið var stíft og það var ekki laust við að mannskapurinn væri lúinn þegar við komum heim aftur. Rúnar Atli var mjög spenntur að fara í ferðalag og hlakkaði mikið til að fara í Etosha af því Tinna var þar um daginn. Eins hlakkaði hann til að komast til Oshakati því pabbi hans fer svo oft þangað. Hann gerði sér náttúrulega litla sem enga grein fyrir hvaða staðir þetta væru en var samt fullur tilhlökkunar. Hann var mjög góður í bílnum á allri þessari keyrslu og í fyrstu var hann alltaf að spurja hvort hann væri í ferðalagi, jú jú við héldum það nú. Svo á öðrum degi spyr hann: Erum við núna í Úganda?? Ha, bíddu vorum við á leiðinni þangað- ekki veit ég hvernig honum datt Úganda í hug.

Ég geri ráð fyrir að Villi bloggi um ferðina svo ég geri nú varla mikið af því. Þið lesið bara síðuna hans Villa ef þið viljið lesa ferðasöguna.

Í gærmorgun flaug fugl hingað inn og settist að í einum glugganum hátt uppi. Greyið kemst ekki út aftur því hann horfir bara út um gluggann og reynir að fljúga í gegnum hann. Við bíðum bara þolinmóð eftir að hann annað hvort detti dauður niður eða finni sér útgönguleið.

Svo var ég að fá þær yndislegu fréttir að menntamálaráðuneytið sé búið að gefa út grunnskóla-kennsluréttindaleyfi á mínu nafni :-) Ja, sko það er alla vega kominn reikningur fyrir leyfisbréfinu og um leið og ég er búin að borga það fæ ég leyfið. Svo er bara að vona að ég komist inn í KHÍ í haust. Ég sótti um að komast í M.Ed nám sem er meistaranám í stjórnun menntastofnana - mjög spennandi.

Jæja læt þetta nægja að sinni. Verð að fara að sinna gestunum sem fara í kvöld.

1 ummæli:

vennesla sagði...

Til hamingju með leyfið þitt:-) Þá er bara að krossa fingur og vona að þú komist inn í kennaraháskólann í haust.

Koss og knús frá okkur í Norge