Powered By Blogger

fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Staðalímyndir

Mér finnst oft merkilegt að velta staðalímyndum fyrir mér og hve oft við höfum rétt/rangt fyrir okkur þegar við notum þær um fólk sem við ekki þekkjum.

Um daginn bauð Villi mér að mæta á fund sem þeir í vinnunni voru með þar sem sérfræðingar í ECD (early childhood development) mættu og ræddu sín á milli hvað sé hægt að gera í þessum málum hér í Namibíu (það stendur nefnilega til að styrkja þennan málaflokk hérna). Ég sem sagt mæti á þennan fund og akkúrat þegar ég kem er hópurinn að vinna í nokkrum litlum hópum og því enginn í fundarherberginu þá stundina. Ég geng bara um og læt lítið fara fyrir mér, fljótlega tek ég eftir manni sem er einhvers staðar á milli þrítugs og fertugs. Ástæðan fyrir því að ég tók eftir honum er sú að hann var með stóra gullhringi á nokkrum fingrum beggja handa og sennilega með fimm þykkar gullkeðjur um hálsinn. Eins var hann vel klæddur og með hatt á höfði og það skein af honum sjálfsöryggið og það var eins og hann ætti staðinn. Það fyrsta sem mér datt í hug var að þetta væri ekta gangster-týpa (með alla þessa hringi og gullkeðjur).

Þegar hópurinn kom svo saman aftur í fundarherbergið þá er þessi maður meðal þeirra. Þá kom í ljós að "gangsterinn" minn er einn af sérfræðingunum í ECD og kom bara skolli vel fyrir og greinilega fær í sínu fagi. En svona getur maður verið fljótur að ákveða hvað einhver einstaklingur sem maður ekki þekkir sé.

1 ummæli:

Villi sagði...

Svona til útskýringar þá má þýða ECD sem leikskólafræði.