Powered By Blogger

laugardagur, 9. ágúst 2008

Kraftur kvenna

Síðastliðna þrjá daga hef ég setið kvennaráðstefnu hér í Windhoek, Namibian Women Summit. Þetta er annað árið í röð sem þessi ráðstefna er haldin og er stefnt á að halda hana árlega. Þessi ráðstefna er haldin til að virkja kraft kvenna og hjálpa þeim að mynda vináttu- eða samstarfstengsl við aðrar konur. Konur alls staðar af landinu komu og hver sýsla átti sína fulltrúa, og skipti þá engu máli hve langt í burtu, og afskekkt, konurnar búa. Ráðstefnan í fyrra tókst svo vel að fjöldi ráðstefnugesta snarhækkaði þetta árið og komu miklu fleiri konur en skipuleggjendur áttu von á. Þær konur sem búa í rafmagns- og símaleysi gátu að sjálfsögðu ekki skráð sig til þátttöku fyrirfram og því kom fjöldinn á óvart. En það var bara gaman.

Ráðstefnan var sett á miðvukudagseftirmiðdaginn og var m.a. boðið upp á leikrit frá Suður Afríku um líf konu. Leikritið var rosalega gott og "powerful". Svo klukkan 7.30 á fimmtudagsmorgun var mætt í ráðstefnusalinn og var byrjað á sameiginlegum morgunmat. Eftir morgunmat voru fyrirlestrar og workshops. Um kvöldið var svo gala dinner og það var meiri háttar gaman.

Á föstudagsmorgun var aftur mætt kl. 7.30 í morgunmat. Á meðan við vorum að borða kom söngkona og ætlaði að syngja eitt lag. En fljótlega eftir að hún byrjar að syngja þá stendur ein kona upp og fer að dansa með tónlistinni. Áður en maður vissi af voru fullt af afrískum konum í traditional kjólum farnar að dansa sína dansa. Við hinar sátum og klöppuðum. Þetta var meiri háttar. Svo lýkur laginu en þá var farið fram á annað lag og söngkonan átti nú ekki í erfiðleikum með það og hóf að syngja annað lag. Þá skipti engum togum að við hinar vorum dregnar út á gólfið og allar konur í salnum (sjálfsagt vel á þriðja hundrað) vorum farnar að dansa saman. Þetta var stórkostlegt, ég vildi að ég hefði haft myndavél en reynið að sjá þetta fyrir ykkur. Konur á öllum aldri, sú yngsta sjálfsagt um tvítugt og sú elsta ekki undir 70, flestar í fallegum litsterkum kjólum með höfuðfat í stíl, að dansa saman á milli borðanna og syngja með. Enda var þetta svo skemmtilegt að söngkonan endaði með að syngja þrjú lög í stað eins eins og til stóð í upphafi.

Vel að merkja þá var þetta klukkan um 8.30 að morgni þegar fjörið var sem mest. Getið þið ímyndað ykkur að hefðbundnar ráðstefnur hefjist svona?? :-) Sjáið þið karlana fyrir ykkur dansandi á milli matarborðanna og klappandi og veifandi höndum??? :-)

Engin ummæli: