Powered By Blogger

mánudagur, 25. febrúar 2008

Helgin búin

Nú styttist í að Elli, Allý og börn komi í heimsókn og við förum saman í ferðalag um landið. Það verður án efa mjög skemmtilegt, bæði er náttúrlega félagsskapurinn góður og eins er Namibía alveg afskaplega fallegt land og gaman að ferðast hérna.

Annars er nú lítið um að vera hérna hjá okkur þessa dagana. Tinna fór aftur að fljúga með Sibby snemma á laugardagsmorgun. Þær komust reyndar ekki í langa túrinn en í staðinn flugu þær yfir Okapuka og sáu slatta af dýrum, eins og t.d. oryx og springbok. Fyrir þá sem ekki vita, þá er Okapuka búgarður hérna skammt fyrir norðan borgina með alls kyns dýrum. Gestir eru keyrðir um búgarðinn og leitað að dýrum til að sýna.

Næstu helgi fer Tinna með nokkrum vinkonum sínum til Etosha sem er þjóðgarður í norðurhluta landsins. Þær fara á föstudaginn og koma til baka á sunnudaginn. Þetta verður stelpuhelgi og mikil spenna í gangi :-) Það verður nú að segjast að hún er ekki svona viljug að fara með foreldrum sínum í svona ferðir - ég skil bara ekkert hvernig stendur á því.

Enn einn daginn hafa verið þrumur og eldingar með tilheyrandi rigningu. Á laugardaginn rigndi svo svakalega að það rigndi niður um reykháfinn. Eins fóru nokkrir gluggar að leka, gluggarnir í húsinu þola ekki svona mikið úrhelli. Þetta var voðalega smekklegt, handklæði í öllum gluggakistum :-) En þrumurnar í dag voru svo miklar að gler í ljósakrónum hristust og það glamraði ansi hátt í þeim. Það er eins gott að enginn í þessari fjölskyldu ætlaði að horfa á óskarsverðlaunaafhendinguna í kvöld. Því þegar svona viðrar þá dettur sjónvarpið yfirleitt út :-)

1 ummæli:

vennesla sagði...

Ertu búin að kaupa þér innisnúrur til að þú getir þurrkað öll handklæðin? Vona annars að veðrið verði betra þegar gestirnir ykkar koma í heimsókn:-)

Koss og knús frá Maju