Powered By Blogger

föstudagur, 29. febrúar 2008

Tíðarfar

Það er eiginlega með óíkindum hvað veðrið hefur verið leiðinlegt hérna undanfarið. Á hverjum degi núna í langan tíma hafa verið miklar þrumur og eldingar með tilheyrandi rigningu og þegar það rignir hér þá er úrhelli. Um daginn þurfti ég t.d. að skjótast út í ca eina mínútu og ég varð gegndrepa á þessari mínútu, það var bara eins og ég hafði verið dregin upp úr polli. Í gær þurfti ég svo að versla (sem er nú ekki í frásögur færandi) og hentist aðeins í Game. Þegar ég var á kassanum að borga urðu svo mikil læti í úrhellinu að það heyrðist ekki mannamál inni í búðinni. Þetta var með ólíkindum og starfsfólkið stóð bara og brosti sínu breiðasta en það var ekki nokkur leið fyrir okkur að spjalla saman því við hreinlega heyrðum ekki hvert í öðru. Þegar ég er svo komin út úr Game þá sé ég að það er haglél en ekki rigning og ég held ég hafi aldrei séð svona stórt hagl, það var að stærð ca eins og nöglin á þumalputta. En alla vega, við erum sjálfsagt um 20 viðskiptavinir sem húkum þarna saman undir skyggninu og bíðum þess að það stytti upp. En eftir nokkurra mínútna bið var nú þolinmæði minnar á þrotum. Bíllinn minn mjög nálægt og ég vissi að það tæki mig ekki nema nokkur augnablik að komast í öruggt skjól. Svo konan með víkingablóð í æðum, og í örþunnum hlýrabol, beygði höfuðið undir sig og arkaði á móti haglinu. En auðvitað komst ég ekki eins fljótt og auðveldlega inn í fararskjótann og ég hafði hugsað mér. Ég var nefnilega með nokkra stóra innkaupapoka í hvorri hönd og varð að koma þeim af mér í skottið og þetta tók náttúrulega sinn tíma. En í stuttu máli sagt varð ég gjörsamlega gegndrepa eftir þennan verslunarleiðangur.

Svo núna í morgunsárið heilsar rok og rigning og það er ansi dimmt yfir. Þetta er bara eins og ekta íslenskt veður enda skildi Rúnar Atli það vel að hann yrði að fara í peysu í skólann í dag því þetta var bara eins og á Íslandi.

Núna um 7.30 var heimasætan hér í Namibíu að fara í helgarferðalag. Það er nú ekki laust við að ég sé með í maganum. Þær ætla fimm vinkonurnar að keyra upp til Etosha og vera þar um helgina. Veðrið er nú ekki alveg með besta móti til að keyra þetta enda var ein mamman sem ég ræddi við í morgun líka ansi stressuð yfir þessu. Svo eru vegirnir hérna svo hættulegir, eða réttara sagt eru sjálfir vegirnir mjög góðir, eru beinir og breiðir, en fólk keyrir svo hratt og því soldið um framúrakstur. En þessi mamma sem ég ræddi við ætlaði að ítreka það við Dominic (bílstjórann) að hún yrði að keyra varlega. Ég mun sjálfsagt senda slatta af sms-um um helgina bara svona til að tékka á að allt sé í lagi. En svo var mér tilkynnt það í gær að þær vinkonurnar væru búnar að gera það að reglu að þær mættu ekki vera að kjafta í símann að deginum til. Hún mundi senda mér sms að morgni og svo hringja í mig að kveldi. Það var sem sagt verið að benda mér mjög pent á það að það þýddi lítið fyrir mig að vera að senda sms allan daginn. Ég sagðist nú ekki taka mark á svona reglum og ég mun senda FULLT af sms-um allan daginn alla helgina og hún yrði að gjöra svo vel að svara mér - takk fyrir :-)

Það er alla vega alveg á hreinu að ég verð mjög þakklát þegar þessi helgi verður liðin og mánudagsmorgunn runninn upp og allir vaknaðir og að borða morgunmat saman :-)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sama veður og hér heima :-). nema bara snjór ekki haglél.
kv Fanney.

vennesla sagði...

Smá munur á veðrinu hjá okkur systkinunum, sól og flott veður hjá mér:-) Vona að allt hafi gengið vel hjá henni Tinnu Rut og að hún komi heim í heilu lagi:-)
Koss og knús frá okkur í Norge