Powered By Blogger

sunnudagur, 25. desember 2011

Aðdragandi jóla


Það verður að segjast að aðdragandi jóla hafi verið óhefðbundinn fyrir okkur en alveg yndislegur tími engu að síður. Stelpurnar komu til okkar 15. des og það varð fjör í húsinu :-) Rúnar hefur saknað þeirra afskaplega mikið og það er það erfiða við að búa svona langt í burtu. En við njótum samverunnar enn meira fyrir vikið þegar við hittumst svona sjaldan. En fljótlega eftir að þær komu fórum við niður í Apaflóa og gistum þar tvær nætur. 

Svo var kominn tími til að gera eitthvað jólalegt og huga að skreytingum. Við útbjuggum trölladeig og notuðum jólasmákökumót og gerðum fullt af skrauti sem við svo máluðum og hengdum á arinhilluna. Þetta kom svo vel út að við ákváðum að þetta yrði "jólatréð" okkar því þar sem arininn er ekki notaður þá gátum við sett pakkana þangað inn. Eins útbjuggu krakkarnir miða þar sem á stendur Gleðileg jól á ýmsum tungumálum og einn veggurinn í stofunni er undirlagður. Ég mun setja myndir inn af þessu síðar. 

Á Þorláksmessu fórum við út að borða og á leiðinni heim sáum við það ótrúlegasta ljósasjóv á himninum. Það voru stanslausar eldingar - þetta var ótrúlega fallegt. Við rúntuðum aðeins um til að komast nær og sjá betur svo bara lögðum við bílnum og horfðum á. Þetta var með ólíkindum. Það var náttúrulega enginn með myndavél en Tinna tók þó nokkrar myndir á símann sinn en ég er ekki viss hvort þær hafi komið vel út.

Malavar taka greinilega fullan þátt í jólastússinu :-) Þegar við vorum að keyra heim á Þorláksmessukvöld þá sáust svo vel jólaskreytingarnar í borginni. Hvert einasta hringtorg í borginni er fallega skreytt með jólaljósum, eins er þinghúsið skreytt alveg meiri háttar fallega. Það verður alveg þess virði að skella sér á rúntinn í kvöld og taka myndir af herlegheitunum.


Engin ummæli: