Powered By Blogger

fimmtudagur, 18. ágúst 2011

Ferðasaga

Ég hef verið alveg sérlega blogg-löt undanfarið en ætla að reyna að bæta úr því :-)

Við lögðum af stað frá Windhoek á Dæjanum á föstudagsmorgni og hlökkuðum við til ferðarinnar. Því verður hins vegar ekki neitað að ég var ansi smeyk vegna þess að við vorum með kerruna okkar í eftirdragi og ég var bara ekki viss um að Dæjinn minn hefði það. Hvað ef það væru brattar brekkur á leiðinni; gæti bílinn drifið upp þær með kerruna?? Ég sá alveg fyrir mér að einhvers staðar yrðum við bara hreinlega að skilja kerruna eftir, eða alla vega að skilja dót úr henni eftir. En það var nú svo sem ekki mikill farangur í kerrunni, eiginlega bara töskurnar okkar sem við komum með frá Íslandi.

En sem sagt við lögðum af stað og fyrsta daginn var nú ekki keyrt mjög langt, einhverja 500 km. Sem er eins gott því við lögðu heldur seinna af stað en til stóð. En við náðum á náttstað fyrir myrkur. Svo var lagt af stað eldsnemma daginn eftir því þá þurfti að keyra heldur lengra, held það hafi verið um 800 km. Við gistum á flottu hóteli í Katima Mulilo og það fór vel um okkur. Kerran var til engra vandræða því Namibía er svo flatt og vegirnir breiðir og beinir. Ég keyrði m.a.s. einhvern hluta leiðarinnar :-)

Þennan dag vorum við rúmlega 10 tíma á ferð og ég þakka bara fyrir að Rúnar Atli er góður í bíl og engin bílveiki sem gerir vart við sig (gerist mjög sjaldan). Svo lá leiðin í gegnum Botswana og inn í Zimbabwe. Þar gistum við tvær nætur í Victoria Falls á ótrúlega flottu hóteli. Við ákváðum að vera einn aukadag þar til að slappa af og hlaða batteríin fyrir næsta legg ferðarinnar.

Við gerðum nú ekki mikið í Victoria Falls, við fórum að sjálfsögðu að skoða fossana sem eru alveg ótrúlega mikilfenglegir. En annað gerðum við svo sem ekki. Við vorum þarna fyrir tveimur árum og þá gerðum við fullt af túristahlutum og nenntum því bara ekki í þetta skipti. Það var mjög gott að bara taka hlutunum rólega og skoða í matvöruverslanir - þar var allt í boði sem hægt er að láta sér detta í hug. Það virðist enginn vöruskortur vera þar.

Mér finnst alveg meiri háttar gaman og gott að vera þarna, það fer svo vel um mann og fólk er svo vinalegt. Seinna kvöldið okkar fórum við að borða á Boma Restaurant sem er frábær staður. Það er mikið trommushow þar sem gestir taka virkan þátt og Rúnar Atli stóð sig frábærlega. Eins fékk hann málað ljón og sebra á kinnarnar. Þetta mátti ekki þrífa af í nokkra daga á eftir :-)

Nú var kominn tími til að halda áfram og fara inn til Zambíu og gistum við næst í Lusaka. Sú borg er alveg svakaleg, lætin og umferðin eru ótrúleg. Við komum reyndar inn í borgin á háannatíma og það tók okkur um klukkutíma að komast í gegnum miðbæinn og að hótelinu sem var hinum megin í borginni. Svo voru endalausir sölumenn að ganga á milli bílaraðanna að selja allt milli himins og jarðar. Það er ekki séns að ég hefði þorað að keyra í borginni.

Daginn eftir kom loks að því að keyra síðasta legginn og komast "heim".

Ferðin gekk mjög vel og hvergi lentum við í vandræðum á landamærum, smá ævintýrum kannski eins og Villi hefur bloggað um :-) Það var ótrúlega lítil umferð alla þessa leið, frá Namibíu til Malawi og átti ég von á einhverju allt öðru.

Það var mjög fallegt að keyra þessa leið og sérstaklega var gaman að keyra í gegnum Zambíu, hérna megin við Lusaka. Það var svo fallegt, við keyrðum í gegnum endalausa fjalladali og mikill gróður út um allt. Það er bara eins gott að ég vissi ekki af þessum fjallvegum því þá hefði ég sko ekki þorað að taka kerruna með :-) En Dæjinn klikkaði ekki og fór upp allar brekkur án þess að finna fyrir því að hafa eitthvaði í eftirdragi. Á þessari leið lentum við m.a. á eftir kosningabílum, þar sem einhver frambjóðandinn var að auglýsa sig. Það voru stór gjallarhorn á öðrum bílnum sem bílstjórinn notaði óspart til að spila einhverja tónlist á útopnu. Það var erfitt að taka framúr bæði þessum bílum sem öðrum því það voru svo svakalega stórar holur í veginum sem maður sá ekki fyrr en komið var að þeim. En þetta hafðist nú allt.

Það var mjög gott að komast loks á leiðarenda og þurfa ekki að fara í bíl strax daginn eftir. Þá var bara hægt að skella sér í að taka upp úr kössum :-)


Engin ummæli: