Powered By Blogger

laugardagur, 26. nóvember 2011

Sögur úr "sveitinni"

Það verður að segjast eins og er að síðasta vika var langt í frá auðveld. Það byrjaði strax á mánudagskvöldið, þá gaus upp þessi rosalega hitalykt eins og það væri að kvikna í. Ég geng hnusandi út um allt og kíki út til að sjá hvort lyktin komi þaðan. En nei, hún var sko hér inni og kom hún frá einu ljósi í ganginum. Ég hringi í dauðansofboði í Villa (hann var í burtu alla vikuna) og segist bara ekki geta sofið í húsinu því það sé lykt eins og það sé að kvikna í. Hann róaði mig nú aðeins niður og benti mér að slökkva á réttum takka í ragmangstöflunni sem ég og gerði. Lyktin dofnaði svo þegar leið á kvöldið en ég lagði þó ekki í að sofa inni í herbergi því ef það myndi kvikna í þá kæmust við ekki út úr húsinu. Hér eru rimlar fyrir öllum gluggum og hurðin sem er næst herbergjunum er hinum megin við þetta ljós. Ég endaði á því að bera Rúnar hálfsofandi inn í stofu og þar sváfum við eitthvað fram á nótt. En það fór afskaplega illa um okkur og rúmlega 3 vildi hann fá að komast aftur inn í herbergi. Þá var lyktin eiginlega alveg farin og ég sá að það yrði óhætt að sofa þar :-)

Morguninn eftir var rafvirki fenginn og jú mikið rétt það hafði brunnið yfir einhver transformer inn í ljósinu þess vegna kom þessi lykt.

Á þriðjudaginn tók svo við vatnsleysi sem stendur enn yfir. Á degi eitt var okkur sagt að það væri bara venjulegt viðhald í gangi og vatn yrði komið á síðar um daginn. En ekkert vatn kom. Á degi tvö var hringt aftur og þá fengum við þau svör að þar sem það væri svo mikill skortur á rafmagni væri ekki hægt að dæla vatni í tankana fyrir þetta hverfi. Á degi þrjú, fjögur og fimm var ekkert verið að hringja til að forvitnast.

Þessa vatnslausu daga hefur þó verið smá vatn í krönum snemma morguns þannig að við gátum burstað tennur og þvegið okkur í framan og sturtað niður í klósetti. En svo er bara varla meira vatn að hafa. Í fyrradag var reyndar hægt að þvo tvær vélar svo átti að reyna í gær en það er allt stopp og þvotturinn enn í vélinni.

Til þess að toppa þessa vatnslausu daga var rafmagnið líka tekið af. Það er nú normið hér í hverfinu sem við búum í, þ.e. að rafmagnið er tekið af okkur nokkrum sinnum á dag í ca 1 - 2 tíma í senn. En í gær tók nú alveg steininn úr, þá var rafmagnslaust í fimm tíma yfir hádaginn í 32 stiga hita og raka. Mjög næs, það var ekki einu sinni hægt að kveikja á viftu. Við höfum reyndar rafal en hann gengur fyrir bensíni og hann er bara notaður spari, því hér er ekki hlaupið á næstu bensínstöð til að kaupa bensín.

Ég bað Villa að athuga með þvottavélina því það þýðir ekki að hafa þvottinn í henni í marga daga, hann myglar bara. Hún var alveg dauð en ef hann ýtti aðeins á innstunguna þá kom smá ljós en svo ekki söguna meir. Hann skoðar þetta þá aðeins betur og það segir sig náttúrulega sjálft að þetta eilífa rafmagnsleysi fer ekki vel með hlutina, eins og þessi mynd sýnir.

Annars reyni ég nú yfirleitt að taka bara Pollýönnu á þetta og er afskaplega æðrulaus en svei mér þá ef Pollýanna er ekki bara farin í frí :-)

Engin ummæli: