Powered By Blogger

föstudagur, 9. desember 2011

Hitt og þetta

Það hefur verið rólegt hjá okkur Rúnari undanfarna daga. Villi hefur verið í Namibíu og kemur heim á sunnudaginn. Þetta var síðasta vikan hans Rúnars í skólanum fyrir jólafrí og í fyrradag var jólaskemmtun í skólanum. Allir bekkirnir í barnaskólanum (upp í 6.bekk) sýndu atriði og þetta var voða gaman. Árgangurinn hans Rúnars flutti "The night before Christmas in Africa"sem var mjög flott hjá þeim. Í morgun var svo bekkjarpartý :-) 

Rúnar hefur hlakkar mikið til að komast í jólafrí og er alveg hissa hvað hann fær langt frí miðað við krakka á Íslandi. Enda fljótur að nefna það að hann ætlar sko ekki í skóla á Íslandi á næstunni :-)  

Hann er samur við sig og meiðir sig reglulega. Eins og ég bloggaði um um daginn þá slasaðist hann á fæti í afmælisveislu sem hann var í. Þrátt fyrir góðar ábendingar um að láta lækni kíkja á hann þá lét ég það hjá líða og treysti bara á guð og lukkuna. Sem betur fer virðist hann vera alveg ókey í fætinum. Ég hef ekki einu sinni farið á stúfana að leita að sjúkrahúsi eða heilsugæslu til að vita hvert ég eigi að fara með hann ef eitthvað alvarlegt kemur upp. Ég hef lofað sjálfri mér að um leið og Villi kemur heim þá verði farið að leita. Þá er bara að vona að ekkert komi upp í millitíðinni :-)
Í gær rak hann upp þetta rosa öskur og kom grátandi til mín. Þegar ég var búin að róa hann niður og spurði hvað hefði eiginlega gerst jú þá fékk ég söguna. Sko hann var að setjast í sófann og rak hnéð í tennurnar. Ég velti fyrir mér hvernig í ósköpunum þetta er eiginlega hægt. En drengurinn getur ekki sest eins og venjulegt fólk heldur þarf að vera með einhverjar tilfæringar og hann var greinilega að hoppa til að setjast niður og rak þá hnéð svona illa beint undir tennurnar. Framtennurnar eru mjög beittar þar sem hann braut upp úr þeim í sumar, og Villi bloggaði um, og það sást mjög greinilega far eftir þær á hnénu á honum. En ég var nú aðallega með áhyggjur af tönnunum og honum fannst þær eitthvað lausari en venjulega. Ég bara krosslegg fingur um að þær jafni sig eins og þær gerðu í sumar. Stundum fæ ég smá áhyggjur af því að þessi lukka okkar hljóti að renna sitt skeið fyrr en síðar.
Ég er alveg undrandi hvað drengurinn er alltaf að meiða sig, það líður varla sú vika sem hann er ekki með stórt sár á öðruhvoru hnénu. Ég man bara ekki eftir stelpunum svona, en ég hef svo sem heyrt um krakka sem eiga sitt annað lögheimili á slysó :-)

Engin ummæli: