Powered By Blogger

sunnudagur, 10. febrúar 2008

Eitt og annað í helgarlok

Ferðin okkar Villa norður í land var bara mjög fín, að vísu soldið mikil keyrsla en ókey. Ég hafði víst bloggað um að Villi þyrfti að funda með sýslustjóranum í Ohakene sýslu. Sýsla með þessu nafni er víst ekki til í Namibíu :-) En sýslurnar þarna fyrir norðan heita allar mjög svipað og eru kallaðar The four O´s. Það er ekki nokkur leið að ég muni hvað þær heita og bæirnir heita líka mjög svipað. En ferðin var sem sagt mjög fín en það var sorglegt að sjá flóðin þar. Það hafa t.a.m 44 skólar þurft að loka vegna flóða - sorglegt.

En það jákvæða (fyrir mig) var hitinn þarna. Ég var síðast fyrir norðan í lok október s.l. og þá var varla hægt að anda fyrir hita. En núna var bara svalt vegna rigninga. Það var svo notalegt.

Villi þurfti líka að funda með einum skólastjóra fyrir norðan. Í þeim skóla eru bara heyrnarlaus og blind börn. Endaði það svo með því að skólastjórinn (Abraham) og kona hans (Rachel)buðu okkur Villa heim til sín í kvöldmat það kvöld. Að þeirra sið var boðið upp á kjúkling og porridge. Það er víst þannig að þegar fólk úr þeirra ættbálkum fær gesti í mat, þá á að bjóða upp á slíkt. Annað er ekki til umræðu og maturinn smakkaðist mjög vel. Kjúklingurinn var með heimagerðri sósu sem var mjög góð. Þessi porridge var nú ekki grautur eins og maður hefði haldið, heldur meira eins og mjög þykk (ja ég veit svei mér ekki hvað). En hann var alveg ókey. Við áttum mjög góða kvölstund með þeim hjónum og litla guttanum þeirra sem er níu mánaða.

Þegar við komum svo heim á föstudaginn þá var líka svalt í veðri í Windhoek og hefur verið alla helgina og rignt mikið. Lidia var t.d. nýbúin að hengja út þvott á föstudagsmorgun þegar fór að rigna og blessaður þvotturinn er ennþá úti, rennandi blautur. En þessi svali hefur verið yndislegur, ég hef verið í síðbuxum alla helgina og m.a.s. í sokkum og lífið gerist varla mikið betra :-)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hér vestur á fjörðum þá er ég að bíða eftir að geta hætt að vera í leggings undir gallabuxunum og bara venjulegum sokkum og getað sett varmasokkana í góða geymslu.Sennilega ekki strax burrrrrr... ískuldi