Um daginn kom upp sú staða að mér var boðin kennarastaða í Hólabrekkuskóla fyrir þetta skólaár. Það hefði þýtt að ég hefði þurft að rjúka til Íslands innan við viku eftir að fá þetta tilboð. Ég var mjög heit fyrir þessu og rauk í það að fara í gegnum saumadótið mitt svo það yrði tilbúið í kassa og svo í gáminn. Því ekki treysti ég Villa til að fara í gegnum saumadótið mitt ;-) En þegar til kom, þá guggnaði ég á að taka tilboðinu frá Hólabrekkuskóla. Þetta var bara of stuttur fyrirvari fyrir mig. En hvað sem því líður, þá fékk ég aftur handavinnu-bakteríuna, á háu stigi, við það að fara í gegnum dótið mitt :-)
Ég fann nokkur stykki sem ég er langt komin með og þarf nokkra daga til að klára. Því ákvað ég að taka nú skurk í þessu og klára þessi stykki. Mér hættir greinilega til að byrja á of mörgum stykkjum án þess að klára hin fyrri. Ég er nefnilega með svo margar hugmyndir að því sem ég vil sauma og get ekki beðið eftir að byrja á næsta stykki, en það leiðir oft til þess að ég klára ekki það sem ég var með á undan.
En áður en ég gat byrjað að klára nokkuð stykki, þá datt mér í hug að henda í einn jólalöber fyrir sjálfa mig. Ég kláraði hann á nokkrum dögum og er núna loksins dottin í það að klára stóran borðdúk. Ég á svo lítið eftir af honum og mun ég klára hann í næstu viku. Ég hlakka svo til að sjá hann fullkláraðan. Munstrið í þeim dúk er alveg rosalega fallegt og ég vona að dúkurinn líti eins vel út þegar ég klára hann :-)
Svo þarf ég að klára myndir fyrir krakkana mína, þetta eru svona myndir þar sem fram koma fæðingardagur, klukkan hvað þau fæddust og hve stór þau voru. Ég hef nokkrum sinnum byrjað á svona mynd fyrir Dagmar Ýr en alltaf verið óánægð með útkomuna, þannig að ég hætti alltaf við. Þangað til í fyrra, eða hitteðfyrra, þá ákvað ég loks að hunskast í þetta og er búin með Dagmarar og Tinnu myndir og er hálfnuð með Rúnars.
Svo þarf ég líka að klára svona mynd fyrir lítinn frænda norðan heiða :-)
Eins er ég á fullu að hanna bútateppi (í huganum) og verður teppið með afrísku þema. Ég á nokkur afrísk krosssaumsmunstur og ætla ég að tengja saman krossaumaðar afrískar myndir ásamt hefðbundnum bútasaum. Ég er búin að kaupa efni í teppið með afrísku munstri. Þetta teppi verður geggjað og ég get ekki beðið eftir að byrja á því.
En mér finnst alveg yndislegt að geta bara einbeitt mér að handavinnu og eins gott að nýta tímann vel fram að áramótum. Því þá tekur alvaran við og sjálfsagt gefst mér lítill tími til handavinnu :-)
1 ummæli:
Gaman gaman gaman... öfund að geta setið við handavinnu alla daga, verkefni og ritgerðir eru mín handavinna og verður það næstu 2 árin en svoo.... MINN TÍMI MUN KOMA ... hehe
Yndislegt blogg og gangi þér vel í öllum útsaumnum, hlakka til að sjá útkomuna á AKE mynd :))))
Bestu kveðjur úr norðrinu
Skrifa ummæli