Ég hef alla tíð átt við mikla myrkfælni að stríða og það hefur reynst mér mjög erfitt þegar Villi er á ferðalögum og ég ein heima með krakkana. Á meðan Tinna bjó hérna þá varð hún alltaf að sofa hérna uppi þegar pabbi hennar var í burtu til þess að veita móður sinni smá andlegan styrk. Hún hefur alltaf verið voða dugleg við þetta greyið og ekkert sett sig upp á móti því að þurfa að yfirgefa eigið herbergi til að "passa" mömmu sína :-) En nú er Tinnan mín farin að heiman og þá er það bara ég og Rúnar Atli. Ég hef haft þann háttinn á að um leið og Rúnar fer upp í rúm á kvöldin þá fer ég líka inn í herbergi og fer ekkert meira fram.
Myrkfælnin var orðin svo slæm að við réðum alltaf næturvörð þegar Villi var í burtu. En svo hætti það að virka því ég var farin að ímynda mér að þar sem næturvörðurinn vissi náttúrulega að ég væri ein heima og lítil fyrirstaða ef hann vildi ráðast inn. Þannig að það varð ekkert auðveldara að hafa hann. Svo hef ég líka heyrt af öryggisfyrirtæki sem stundar það að ráðast inn á heimili sem það er að verja. Þannig að þetta er nú ekki BARA bilun í mér. Ég man síðast þegar við vorum með næturvörð þá svaf ég ekki í tvær nætur en þriðju nóttina bara gafst ég upp og steinsofnaði um leið og ég lagðist á koddann. Ég var búin að ákveða það að ef ég svæfi ekki þriðju nóttina þá færi ég með Rúnar Atla á hótel þar til Villi kæmi heim. Þannig að síðast þegar Villi fór í ferðalag þá bað ég ekki um næturvörð og heldur ekki núna, eins og lesendur kannski vita þá er Villi staddur þessa vikuna í Mósambík á fundastússi.
Í gærkveldi þurfti ég að fara á fund og kom ekki heim fyrr en um 20.30 þá var orðið dimmt og Flora fór heim um leið og ég kom og Rúnar sofnaður. Heyrðu, mín bara sest inn í stofu og fer að horfa á sjónvarp eins og venjuleg manneskja og dundar sér svo við að læsa húsinu og svoleiðis og leið bara skolli vel - ekkert hrædd. Ég gat m.a.s. farið aftur fram án nokkurra vandræða :-) Ég varð náttúrulega voða ánægð með sjálfa mig og hugsa hvort ég sé kannski loksins farin að þroskast og fullorðnast hvað myrkfælnina varðar. Þetta var bara frábært.
Svo um leið og ég leggst á koddann kemur þá ekki næturgestur í formi fljúgandi kakkalakka (held þetta sé kakkalakki) og sest á vegginn beint fyrir ofan hausinn á okkur Rúnari (Rúnar fær alltaf að sofa hjá mér þegar Villi er ekki heima). Ég hélt ég yrði ekki eldri - þetta var ógeðslega stórt kvikindi og það var ekki góð tilhugsun að hafa kvikindið fyrir ofan okkur alla nóttina. Svo ég reyni að stugga við honum og þá datt hann á milli rúmsins og veggjarins alveg við höfuðið á Rúnari. Þetta þýddi það náttúrulega að mér kom varla dúr á auga í alla nótt því ég var alltaf að passa að kvikindið væri ekki komið upp í rúm og væri rétt hjá Rúnari. Ég var með ljósin á í alla nótt til að sjá ef kvikindið kæmi og var sífellt að tékka á hvort nokkuð sæist til hans á koddunum eða í sængunum. Svo einhvern tímann í nótt sný ég mér á hina hliðina - bara svona eins og gengur og gerist - og opna augun er þá ekki kvikindið bara á koddanum mínum og horfir beint á mig. Ég er þess fullviss að helv.... glotti að mér. En ég náði að reka hann aftur niður á gólf.
Svo þegar ég loks drattast fram úr í morgun þá er það það fyrsta sem ég sé að kvikindið er aftur komið á vegginn fyrir ofan rúmið. Okey nú varð mín fúl, dríf Rúnar Atla í föt og hendi honum fram því nú skyldi drepa helv.... kvikindið með Doom. Ég leita um allt hús að Doom-i því venjulega erum við með nokkra brúsa en í morgun fannst ekki einn einasti brúsi sama hvað ég leitaði. En ég gat bara ekki hugsað mér að hafa kvikindið hérna inni í herbegi og eiga svo aðra svefnlitla nótt framundan. Þannig að mér datt sú snilldarlausn í hug að reyna að veiða hann með því að setja ruslatunnu yfir hann og smeygja svo spjaldi á milli tunnunnar og veggjarins.
Heyrðu, þetta tókst í fyrstu tilraun og það var mikill léttir þegar þetta var búið. Nú er bara að losa sig við kvikindið og ég ætla að henda honum út á lóðina hérna fyrir neðan - það býr enginn þar svo það er okey.
En ég tók mynd að "vini" mínum til að sýna að ég er sko ekki að ýkja, hvorki hvað stærð né ógeðslegheit varðar.
Nú er bara að vona að hvorugt mæti aftur, þ.e. myrkfælnin né óboðinn næturgestur.
4 ummæli:
Gott er nú að vita að tilvera mín í þessum heimi hefur einhvern verðugan tilgang ;-)
Jesús minn þvílíkt kvikindi... ég hefði sennilega tapað mér úr hræðslu!!!!!!!!!
Dugleg Gulla! Alveg skil ég þig vel, ég fer nú ekki einu sinni niður í kjallara hérna þegar það er orðið dimmt úti, veit aldrei hverjum ég gæti mætt.
kv.
Sigga.
Gott að heyra að ég er ekki ein um að þjást af myrkfælni þó fullorðin sé :-)
Skrifa ummæli