Powered By Blogger

miðvikudagur, 5. september 2012

St. Mary's Rehabilitation Centre

Eins og ég hef nefnt áður er ég meðlimur í IWAM sem stendur fyrir International Women Association of Malawi. Þessi samtök stunda fjáröflun til að styðja ýmis kvenna- og barnaverkefni hér í Malawi. Eitt þessara verkefna sem við höfum verið að styðja við kallast St. Mary's Rehabilitation Centre. Þessu verkefni er stjórnað af nunnum frá Indlandi og Spáni. Þarna búa að staðaldri 122 munaðarlaus börn, á laugardögum koma svo önnur munaðarlaus börn úr nærhverfinu sem búa þó hjá fjölskyldum sínum og fá þau mat og föt. Eins reka þessi samtök fimm hreyfanlegar heilsugæslur. Á staðnum er einnig heilsugæsla þar sem er starfandi læknir. Auk þessa, koma 240 eldri borgarar einu sinni í mánuði og fá morgunmat og 10 kílóa poka af maísmjöli.

Þetta er mjög fallegur staður og gaman að heimsækja þessi samtök og hitta nunnurnar og eldri borgarana. Andrúmsloftið þarna er yndislegt og bara gott að vera þarna. Í síðustu viku fórum við nokkrar úr IWAM í heimsókn og tók ég þessar myndir þá.

Nunnurnar hugsa vel um garðinn sinn og blómin. Eins eru þær með mjög stóran grænmetisgarð sem veitir ekki af því þær sjá um mörg börn.

Gamla fólkið mætir snemma þann dag mánaðarins sem þau koma í mat. Á hverju ári eru þeim gefin ný föt (nokkurs konar einkennisbúningur). Allir eiga að mæta í þessum búningi og vera hreinir og snyrtilegir.

 Svo setjast allir í fínar raðir og bíða eftir matnum.

Það er eldaður nokkurs konar hafragrautur í tveimur svona stórum pottum eins og sést á þessari mynd. Það dugar til þess að allir geta fengið sér tvisvar á diskinn.

Þennan dag fengu allir aukaglaðning, fengu poka með salti, kryddi, elspýtustokk, handsápu og þvottaefni. Þetta vakti mikla gleði og var mikið sungið og þessi gamli maður varð svo glaður að hann steig dans fyrir okkur.

 Allir bíða kurteisir og þolinmóðir eftir því að röðin komi að þeim.


Þegar maturinn er búinn fá allir 10 kílóa poka af mjöli með sér heim. Mikið af þessu gamla fólki sér um barnabörnin sín og eru með marga á framfæri. Því veitir þeim sko ekki af þessum mjölpoka en ég velti oft fyrir mér hve lengi hann dugar. En þetta er þó betra en að fá ekkert og bjargar mörgum.

Ég skil nú ekki hvernig þau fara að því að bera 10 kíló á höfðinu og sumir eru reyndar það gamlir að ættingi bíður fyrir utan og tekur pokann fyrir þau. En flestir taka þetta á hausinn og ganga langar leiðir heim, allt upp í nokkra kílómetra.


Flestir þeirra sem mæta eru um og upp úr 70. Sá elsti sem er skráður í þetta prógramm er fæddur 1916 en hann er of lasburða til að mæta svo ættingi hans mætir og tekur 10 kíló pokann heim fyrir hann. 

Matarprógrammið fyrir eldra fólkið var stutt af Spáni en eftir efnahagshrunið urðu þeir því miður að draga í land (eins og fleiri) og hættu stuðningi við þetta prógramm. En það var alls ekki hægt að bara hætta með þetta því oft á tíðum er þetta eina örugga máltíðin sem gamla fólkið fær í einhverja daga. Þannig að það var farið í að safna peningum fyrir hvern mánuð. Það kostar um 13.000 ísl krónur á mánuði að halda þessu prógrammi gangandi. Við í IWAM reynum að finna fólk eða fyrirtæki til að styðja þetta verkefni mánuð fyrir mánuð og Kvenfélagið á Suðureyri borgaði fyrir maímánuð á þessu ári. Í janúar n.k. mun svo Eygló tengdó borga fyrir matinn þann mánuðinn. Ástarþakkir fyrir það Eygló og Jóhanna :-)

Þarna erum við nokkrar úr IWAM ásamt Sister Rosmary (önnur frá vinstri) hún er reyndar að hætta og flytja aftur til Indlands. Sister Lissy situr á miðri mynd og hún mun taka við stjórninni.

Engin ummæli: