Powered By Blogger

miðvikudagur, 1. ágúst 2012

Hvað á barnið að heita?

Í vor lét Filimone, garðyrkjumaðurinn minn, mig vita að hann og eiginkona sín ættu von á sínu fjórða barni núna í endaðan júní eða byrjun júlí. Eins sagði hann mér að þau hjón hefðu ákveðið að biðja mig að velja nafn á barnið. Það kom nú hálfvegis á mig en að sjálfsögðu gat ég ekki skorist undan slíkum heiðri :-)

Af og til hugsaði ég svo um hvað ég ætti að láta barnið heita en gekk illa svo ég ákvað bara að bíða með það þar til barnið fæddist. Það hlyti að verða auðveldara að finna nafn þegar ég vissi hvort það væri strákur eða stelpa.

Loks að morgni 9. júlí lét Filimone Villa vita að þau hjónin væru að fara upp á spítala. Fljótlega upp úr hádegi er hann svo mættur aftur í vinnu með þær fréttir að þau hafi eignast litla stúlku og móður og dóttur heilsist vel og séu komnar heim. Villi vildi senda Filimone heim aftur og njóta þess að vera í fríi með fjölskyldunni. Nei, ekki að ræða það, hann vildi vera í vinnunni  :-)

En nú lá á að finna nafn á barnið. Ég var með nokkur atriði sem ég varð að taka tillit til hvað nafn varðar. T.d. fannst mér nafnið verða að ganga bæði á íslensku og ensku, ekki vildi ég hafa rl í nafninu því Malawar ruglast gjarnan í framburði á þessum tveimur stöfum. Ef stúlkan yrði t.d. látin heita Rakel, gæti hún verið kölluð Laker og mér fannst það ekki passa. Eins fannst mér nafnið verða að vera stutt og laggott. Enn gekk mér illa að finna gott nafn og var ég undir nokkurri pressu því það lá á að nefna stúlkuna.

Loks kom nafnið til mín, Emma. Mér finnst þetta fallegt nafn, það er bæði stutt og auðvelt í framburði. Mér finnst eiginlega magnað að ég skuli hafa dottið niður á þetta nafn því ég þekki enga Emmu, ég hef ekki verið að hugsa né lesa um neina Emmu eða neitt þess háttar. En þetta nafn kom til mín og þá þýddi ekkert annað en að nota það nafn.

Auðvitað varð ég að vita hvað nafnið þýðir og gúgglaði það. Nafnið Emma er fornt germansk nafn sem merkir iðin, húsleg. Eins hét drottning Knúts mikla Danakonungs (1017) Emma. Villi kom þessum skilaboðum til Filimones og þau hjónin eru ánægð.

Ég er hins vegar ansi forvitin að komast að því hvað, eða hvort, það þýðir hjá Malöwum að velja nafn á barn. Ég er kannski búin að koma mér í það að þurfa að sjá um alla skólagöngu Emmu :-) Æi það er gaman að þessu.

3 ummæli:

Erla H sagði...

Til hamingju með þetta, frábær nafngift, það voru einmitt tvær Emmur í bekk með Stefáni í alþjóðaskólanum, og þær úr sitt hvorri heimsálfunni. Sannarlega alþjóðlegt nafn. Þetta er efalaust mikill heiður í malawískri menningu að fá að ráða nafngiftinni. Hjá Owambo, þá fá t.d. bara afarnir í föðurætt að ráða nafninu.

Nafnlaus sagði...

flott nafn sem þú valdir á stúlkuna... og alveg örugglega einhver heiður fólginn í því að fá að nefna malawískt barn:)

Nafnlaus sagði...

og já ég hefði kannski átt að láta vita að þetta var ég Maja sem var að hrósa þér fyrir nafnavalið