Powered By Blogger

þriðjudagur, 23. ágúst 2011

Ævintýri úr umferðinni

Eins og gengur þarf ég reglulega að fara í bæinn og versla í matinn og þess háttar. Þetta hefur valdið mér nokkrum áhyggjum því ég er enn að læra að rata og eins er umferðin hérna í Lilongwe all sérstök. Það eru nokkur umferðarljós í bænum og ekki öll virka. Þannig að þó maður lendi á grænu ljósi þá er svo sem ekkert endilega víst að það sé grænt á mann. Alla vega virðast aðrir bílstjórar - sem koma þá þvert á mig - ekkert viðurkenna það að það sé grænt á mig. Heldur bara vaða þeir áfram. Svo eru ein ljós sem virka bara alls ekki. Þetta virkar oft frekar eins og 4 way stop. En hvað um það.

Eitt gott ráð virðist vera að bara vaða áfram - því einhver mun þurfa að slaka á svo ekki verði slys. En sá sem slakar á mun hins vegar þurfa að bíða í þó nokkra stund áður en hann kemst áfram aftur. Þannig að ég reyni núna eins og ég get að bara láta mig vaða áfram.

Ég þekki orðið leiðir í nokkrar búðir og eins heim til hinna Íslendinganna sem búa í borginni. Ég er þó nokkuð viss um að ef ég myndi reyna að bæta við einn leið í viðbót í heilabúið á mér þá myndi eitthvað annað detta út :-) Það er bara ekki pláss fyrir meira í bili. Alla vega þangað til ég er orðin öruggari á þessum leiðum sem ég nú rata.

Þegar ég fer í bæinn þá þarf ég alltaf að fara eina ákveðna götu. Sú gata er rosaleg. Þetta er stutt gata en maður keyrir hana ekki hraðar en á ca 10 eða 20. Það eru svakalegar holur. Þær eru bæði djúpar og breiðar og væri reyndar réttara að segja að þetta væru holur með smá malbiki á milli og þá helst á miðju götunnar. Ég fæ alltaf verki þegar ég fer þessa götu og reyni að sikk sakka á billi holanna, en það er ekki nokkur séns að losna framhjá þeim. En Dæjinn minn drattast þetta, þessi elska.

Ég reyni að versla snemma á morgnana því þá er enn nokkuð róleg umferð. Strax upp úr 9 er hún orðin meiri.

En í dag þurfti ég að skjótast út seinni partinn. Umferðin var náttúrulega þokkaleg, bæði af gangandi vegfarendum og bílum. En út þurfti ég. Ég held mína leið og kemst í búðina og á leiðinni til baka fer ég þessa HOLÓTTU götu (vinkonu mína). Þar voru nokkrir bílar á undan mér og við reynum öll að sikk sakka eins og hægt er fyrir umferðinni sem kom á móti. Svo eru nokkrir bílar fyrir framan mig á gatnamótunum tekur þá ekki leigubíll fram úr mér (þetta eru litlir sendiferðabílar) og fer fram fyrir alla hina bílana líka. Fyrst bölvaði ég viðkomandi bílstjóra fyrir frekjuna. En datt svo í hug að sennilega væru allir hinir bílarnir að bíða eftir að geta beygt í hina áttina. Þannig að ég bara ákvað að elta leigubílinn og "bruna" fram úr ca 5 bílum á gatnamótunum. Kemur þá ekki í ljós að hafði elt leigubílstjórann upp á gangstétt og troðið mér fram fyrir alla hina. Ég þurfti að koma mér niður af gangstéttarbrúninni og inn á götuna aftur.

Úbbs, mín fékk smá fyrir brjóstið en gaf bara í og gat andað rólegar þegar ég var komin í öryggið heima hjá mér. Ég neita því ekki að hafa farið með eins og eina eða tvær bænir þegar heim var komið.

Annars er ég viss um að þessi umferð er ekki góð fyrir blóðþrýstinginn :-)

2 ummæli:

davíð sagði...

Heitir þetta ekki að vera fljót að aðlagast menningunni?

Erla sagði...

Æji, Dæjinn búinn í dekrinu, blessaður. Nú fer hann að launa þér allar ljúfu stundirnar með því að koma þér heilli á húfi í gegnum umferðina í borginni. Ég sé ykkur alveg fyrir mér :)