Powered By Blogger

þriðjudagur, 9. mars 2010

Rehoboth

Við í framkvæmdanefnd makaklúbbsins höfum verið ansi duglegar það sem af er ári. Eins og ég bloggaði um um daginn þá fórum við til Góbabis með frystikistu með okkur. Svo erum við að vinna að verkefni í Mount Sinai Centre í Katutura sem ég á eftir að blogga um.

Í dag skelltum við okkur til Rehoboth, sem er bær rúmlega 80 km fyrir sunnan Windhoek. Við heimsóttum elliheimili þar og fengum að skoða okkur um og spjalla við starfsfólkið. Þarna búa 11 vistmenn með fjóra starfsmenn. Húsið sjálft er í góðu standi og það er mjög hreinlegt þar en það er ekki neitt til neins. Það búa þrír vistmenn saman í herbergi og enginn er með persónulega hluti með sér. Tveir af þremur hafa náttborð og dýnurnar eru nú ekki til að hrópa húrra fyrir. Við töldum átta brotnar rúður og hurðar að herbergjum hafa ekki hurðarhúna og þ.a.l. ekki hægt að loka þeim. Það er sár þörf á pípulagningarmanni til að laga klósett, þau virka fá. Það er ekki borð fyrir vistmennina til að borða við og ekkert heitt vatn. Þetta er svona það helsta. Reyndar er þvottavélin ónýt og sú sem sér um þvottinn þarf að handþvo allan þvott daglega og notar til þess baðkarið sem hún þarf að bogra yfir.

Við tókum fullt af myndum og munum svo á næsta fundi ræða um hvað/hvort makaklúbburinn geti gert til að aðstoða þetta yndislega fólk. Því þrátt fyrir það sem við köllum bágar aðstæður þá eru vistmenn ánægðir með sitt og glaðir.


Hluti vistmanna.

Sem þakklætisvott, færðum við öllum vistmönnum poka með ýmsum hreinlætisvörum, kexi og súkkulaði. Þessi maður (hér að ofan) fór strax með sinn poka inn í herbergi og passaði vel upp á sitt :-)

Framkvæmdanefndin ásamt Silvíu, húsmóðir heimilisins, f.v. Maarika, Silvia, Teresa, Margret og ég. Á morgun heimsækjum við svo skóla í Katutura og sjáum til hvort við getum ekki greitt skólagjöld fyrir einhverja nemendur. Svo eigum við fund með Khomas Women for Development og fáum að heyra hvað þær eru að gera og að lokum kíkjum við í Mount Sinai Centre. Það verður sem sagt enn einn dagurinn á morgun þar sem lærdómur kemst ekki að :-)


2 ummæli:

Jóhanna sagði...

ég fékk nú bara tár í augun við að lesa þessa færslu, ömurlegt að vita af fólki sem þarf að eyða ævikvöldinu við þessar aðstæður :( langar að fylgjast með þessu verkefni ykkar áfram

Gulla sagði...

Ég mun blogga um áframhaldið, þ.e. hvort við ákveðum að hjálpa þeim og þá hvernig.