Powered By Blogger

laugardagur, 17. janúar 2009

Ja hver fja.....

Um daginn heyrist í syninum "mamma, af hverju ertu ekki eins og barbie?". Mamman verður nú bara gjörsamlega orðlaus og kjaftstopp og veltir fyrir sér hvort krakkinn sé kominn með vaxtarlag mömmunnar á heilann (sbr færslu hér um daginn). Ég vissi ekki hvernig ég ætti að svara svona spurningu og ákvað bara að eyða henni og fara að tala um eitthvað allt annað :-) Þar sem það er svo auðvelt að breyta umræðuefni svona ungra krakka þá gekk það bara mjög vel og við fórum að tala um eitthvað allt annað.

Það var svo í dag sem ég fékk skýringu á þessum ummælum sonarins. Feðgarnir höfðu keypt geisladisk í fríhöfninni á Íslandi þegar við vorum að leggja af stað til Namibíu. Geisladiskurinn heitir Gilligill og er barnadiskur með Valdimar Skúlasyni og Memfismafíunni. Þennan disk hlusta feðgarnir alltaf á á morgnana á leiðinni í skólann og eitt lagið á diskinum heitir svo skemmtilega "Mamma og Barbie" og í því lagi er m.a. spurt hvers vegna mamman geti ekki verið eins og Barbie. Þar kom skýringin :-)

En þetta er meiri háttar góður diskur og lagið "Pabbi minn er ríkari en pabbi þinn" er á honum og er snilld.

föstudagur, 9. janúar 2009

Sushi

Nú er búið að stofna klúbb kvenna sem hafa farið reglulega saman í sushi í Namibíu. Þær sem búa á Íslandi fara stundum í sushi hér heima og eins er alltaf farið þegar ég kem heim. Klúbburinn fékk þetta fína nafn: HNSVF - Hnamibíska sushi vinafélag - takk fyrir. Í kvöld var svo stofnfundur félagsins og við mættum, sjö kellurnar, á efri hæðina í Iðu og fengum okkur ljúffengan sushi. Þetta var frábært og þegar upp var staðið lágu sjö diskar hjá hverri, úff :-) En þeir sem til þekkja vita auðvitað að diskarnir eru alveg sérlega litlir og lítið á hverjum diski - he he. En þetta er mjög gaman. Félagið fékk meira að segja sitt eigið tákn (fyrir þá sem tala táknmál) :-)

Gaman að þessu

Algjört æði

Í gærkveldi fór ég í Háskólabíó til að hlýða á Vínartónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þetta var alveg meiri háttar. Ég bauð eiginmanninum með mér en þegar til kom gat hann ekki farið - hann tók vinnuna framyfir kvöldstund með konunni. En ég á svo góða vinkonu sem gat farið með mér :-)

En svona í alvöru þá var þetta alveg meiri háttar og ég var með endalausa gæsahúð. Það er pottþétt að ég fer aftur um næstu áramót.

laugardagur, 3. janúar 2009

"Maga-mál"

Var að byrja að elda kvöldmatinn í kvöld og þurfti nokkrum sinnum að fara í búrið til að sækja ýmislegt til þess. Í eitt skiptið rakst ég utan í einn fjögurra ára sem var að þvælast þar. Heyrist þá í gæjanum: "Mamma ertu með svona stóran maga? Ertu með barn í maganum?"

Ef þetta rekur mann ekki í ræktina þegar ég kem heim þá veit ég ekki hvað mun koma mér þangað :-)