Það hefur verið svo kalt undanfarnar vikur að það hálfa væri nóg og þar sem ekkert hitakerfi er í húsinu þá verður maður að notast við arininn til að orna sér aðeins. Annars sit ég bara með sultardropa í nefinu og loppnar hendur að reyna að sauma. Þið getið nú rétt ímyndað ykkur hve erfitt það er.
Undanfarið hefur Villi farið fram um 5.30 á morgnana til að kveikja upp og svo hef ég haldið eldinum við allan daginn.
Við höfum líka litla rafmagnsofna í hverju herbergi en þeir segja nú svo sem ekki mikið og þegar eldað er á kvöldin þá þarf að slökkva á ofnunum annars slær rafmagnið út. Þannig að það er heilmikið púsl að hita húsið; þ.e. byrja á því að kveikja upp í arninum; þegar líður á daginn kveiki ég á ofnunum í herbergjunum til að fá smá hita áður en ég fer að elda; slekk svo á öllum ofnum þegar ég byrja að elda; strax eftir matinn kveiki ég aftur og vona að það verði þokkalegur ylur þegar við förum að sofa. Gaman að þessu :-)
Sólin nær ekki að skína inn í húsið og hita það og sum kvöldin hefur verið svo kalt í húsinu að það hefur verið erfitt að koma sér upp í rúm, sérstaklega þegar við komum heim úr ferðunum okkar því þá hafði ekkert verið kveik upp í nokkra daga. Ég man eftir einu kvöldi þar sem ég varð fyrst að vefja mig inn í flísteppi áður en ég lagðist undir sæng, brrr. Mér verður bara kalt við tilhugsunina. Samkvæmt hitamælinum þá fór hitinn stundum niður í um 3 gráður yfir hánóttina og hitinn hélst í ca 7 stigum innan húss.
Það var svo kalt að vatnið fraus í vatnsleiðslum víða í Windhoek. Sem betur fer fraus það nú ekki hjá okkur en það hefur verið nær óbærilegt að þvo sér um hendurnar því vatnið er svo kalt og það virðist bara verða kaldara því lengur sem ég læt það renna (jú jú ég skrúfa frá réttum krana, þ.e. þeim heita). En það er greinilega farið að hlýna aðeins og ég held að vorið sé að vinna á vetrinum. Í gær kveiktum við t.d. ekki upp fyrr en langt var liðið á daginn og nú er bara að vona að veturinn sé að kveðja.
1 ummæli:
Gaman að lesa aftur fréttir hjá þér Gulla mín:-) En mikið rosalega hefur verið kalt hjá ykkur, vona að þú fáir ekki kulsár á puttana.
Koss og knús frá Norge.
Skrifa ummæli