Powered By Blogger

mánudagur, 2. apríl 2012

Sóun

Námið í skólanum hans Rúnars Atla er ekki þetta hefðbundna sem ég þekki, t.d. sér stærðfræðitími, enskutími og þess háttar. Heldur er valið eitthað ákveðið efni og inn í það er öllum þessum fögum blandað. Þetta kallast "cycle" eða hringur. Það sem af er þessu ári hafa verið fimm slíkir hringir, t.d. arkitektúr, framleiðsla, vatn og ferðalög. Þau nota nokkrar vikur í hvert efni og tengja öll önnur fög inn í. Þetta hefur flækst soldið fyrir mér en ég er að ná þessu núna. Mér fannst t.a.m. mjög skrítið að geta ekki fengið að skoða stærðfræðibókina hans, nú eða enskubókina. Það eru engar slíkar bækur.

En alla vega, þá finnst Rúnari mjög gaman að þessum hringjum, og þessi námsaðferð hentar honum greinilega vel. Þegar þau eru með einhvern ákveðinn "hring" þá læra þau mikið um það ákveðna efni. T.d. arkitektúrinn, það var alveg með ólíkindum hvað þau lærðu mikið um það efni.

Þau voru að ljúka við vantshringinn og það var greinilega farið mikið í það hvað takmarkað er af hreinu vatni í heiminum og ekki megi sóa því. Rúnar hefur tekið þessu mjög alvarlega og það hefur haft áhrif á heimilislífið, það er nú ekki hægt að segja annað. Það liggur við að ég sé sökuð um að sóa vatni ef ég voga mér að skrúfa frá krana. Hann virðist nýta sér þetta út í það ýtrasta, t.d. þegar hann á að þvo sér um hendur. Þá tekur slíkur þvottur mjöööög stuttan tíma því hann er að spara vatnið :-)  Svo þegar ég sagði honum að hann eigi að fara í bað því hann verði hreinlega að liggja í bleyti til að losa allan skítinn eftir útiveruna. Nei takk. "Sko mamma, að fara í bað eyðir helmingi meira vatni heldur en að fara í sturtu, svo ég fer bara í sturtu."

Um daginn kom hann heim með einhverja bókina sem hann var að vinna í varðandi vatnshringinn og leyfði okkur að lesa. Þar hafði hann skrifað "skammarsögu" um bílaþvott hjá okkur. Á þessum bæ er bílinn þveginn með því að nota vantsslöngu. Þetta finnst Rúnari alveg sérlega slæmt. Það á að nota vatnsfötu og tusku. Ekki vatnsslöngu sem rennur endalaust úr.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta hljómar allt mjög spennandi í skólanum hans Rúnars. Spurning um að fara að tileinka sér ný vinnubrögð hérna hmm. Nemendur mínir hafa farið heim með 12 orð til að læra síðan þú bloggaðir um það hérna - skilar sér nokkuð vel.
kv.
Sigga

Villi sagði...

Sæl Sigga.

Þú getur fengið einhverjar upplýsingar um þetta nám á
http://www.ibo.org/pyp/
Þetta kallast „primary years programme“ og virðist þróað af alþjóðaskólum sem kenna að gráðu sem kallast „international baccalaureate“ - IB. Mig minnir að MH hafi verið með framhaldsskólavalkost í þessu IB námi.