Powered By Blogger

mánudagur, 27. febrúar 2012

Nóg að gera


Ég er á fullu í handavinnunni. Ég kláraði loksins ostabakkann minn, Lazy Susan. Þetta er kringlóttur bakki sem snýst á borðinu. Ég er bara mjög sátt við hann. Litirnir sjást kannski ekki nógu vel á myndinni, en hann kom vel út að mér finnst.

Svo er ég nýbúin að klára krosssaumsmynd og eina í útsaumi. Ég þarf bara að taka myndir og skella þeim inn. Ég var svo að byrja á annarri útsaumsmynd sem er aðeins erfiðari og það verður gaman að vinna í henni. Svo er ég komin áleiðis með nýtt verkefni í mósaíkinu. 
Ég er svo að vona að í apríl fari ég að læra að vinna með pjátur. Ég hlakka mikið til að prófa það. Verður geggjað :-) Bútasaumsteppið mitt er svo við hliðina á mér og bíður eftir að ég haldi áfram með það. Þegar ég loksins gef mér tíma í það þá verð ég ekki lengi að klára það (held ég) :-) 

Ég er ansi virk í alþjóðlega kvenfélaginu sem er hér í Malawi. Ég er í verkefnanefndinni og sjáum við um að velja þau verkefni sem kvenfélagið styrkir. Eins fylgjumst við með verkefnunum sem við styrkjum, þ.e. að fjármunir fari í það sem þeir eiga að fara í. Þetta er mjög skemmtileg vinna og gefur mér mjög gott tækifæri til að kynnast Malövum og aðstæðum margra þeirra. Það er heilmikið stúss í kringum þessa nefnd. Við erum núna á fullu að reyna að finna kennslubækur fyrir einn skóla í borginni. Skólinn sendi okkur beiðni um kennslubækur fyrir alla árganga og alla nemendur skólans, sjálfsagt um 500 nemendur. Það er bara alltof mikið fyrir okkur en við ákváðum að kaupa fimm kennslubækur fyrir tvo árganga í fjórum fögum. En búðin sem selur kennslubækur á lítið á lager, en við sjáum til hvað við getum gert. 
Í gær var svo meðlimum verkefnanefndarinnar boðið í hádegismat hjá einni í nefndinni ásamt níu nunnum sem sjá um eitt verkefnið sem við styðjum. Það var mjög gaman. Nunnurnar koma frá Spáni og Indlandi og hafa verið hér í mörg ár. Sú sem lengst hefur verið kemur frá Spáni og hefur verið hér í 25 ár.

Einhvern veginn datt ég inn í hádegisverðarklúbb asískra kvenna um daginn og mætti í hádegismat með hópnum. Það var mjög gaman að kynnast þeim konum. Margar þeirra hafa búið hér í nokkra tugi ára en tala litla sem enga ensku. Alveg ótrúlegt finnst mér. 
Til að bæta svo aðeins í hjá mér þá var mér boðið í vikulegan spilaklúbb þar sem spilað er Mahjong. Ég hef bara aldrei heyrt um þetta áður og forvitnin rak mig af stað. Þetta var reyndar mjög gaman og skemmtilegar konur sem eru í þessu. 
Það er sem sagt alveg meira en nóg að gera hjá mér. En ég geri nú ekki ráð fyrir að mæta aftur i Mahjongið - ég verð bara einhvers staðar að skera niður. Því ég er að velta fyrir mér að byrja í skrappklúbbi :-) Um daginn fór ég heim til konunnar sem sér um þann klúbb og það var eins og að koma inn í skrappverslun - ótrúlega mikið úrval sem hún er með fyrir þetta. Eins eru þeir munir sem búnir eru til á námskeiðum hjá henni mjög fallegir og mér datt í hug að það gæti verið gaman að skella sér á námskeið. 
Eins er ég í PTA í skólanum hans Rúnars, þetta er foreldra- og kennararáð skólans. Við erum núna á fullu að undirbúa Alþjóðlegan dag sem haldinn verður 16. mars n.k. í skólanum. Þá munu foreldrar koma með mat frá sínu heimalandi og selja. Þetta verður örugglega mjög skemmtilegt. Nemendur skólans koma frá öllum löndum heimsins, eða svo til :-) Ég veit að í einum fjórða bekknum koma nemendur frá 18 löndum.

1 ummæli:

Erla H sagði...

En spennandi! International Day var einn hápunktanna í alþjóðaskólanum. Rosalega skemmtilegt, en mikil vinna fyrir PTA hópin. Nú er verst þú ert ekki komin með upphlut (það hljómar eins og þú hafir nóg að gera í handavinnunni:) - ég mætti í mínum eitt árið í Nam, og lá reyndar við yfirliði vegna hita.
Hér fer reyndar ekki mikið fyrir hitanum, rokið og rigningin lemur gluggana.
Við sendum bestu kveðjur til Afríku.