Powered By Blogger

miðvikudagur, 11. júlí 2012

Göngutúr 1

Ég hef verið að velta fyrir mér hvað ég eigi að gera við tímann á meðan Rúnar Atli er á sínum námskeiðum allan daginn. Ekki get ég endalaust farið að versla eitthvað - eins og Villi segir; hvernig ætla ég eiginlega að koma öllu því sem ég hef keypt í ferðatöskuna mína :-)

Um daginn rak ég svo augun í þessa fínu bók í bókahillunum hjá okkur "25 gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu" og hef verið að fletta henni. Mér líst mjög vel á margar þessara gönguleiða og reyndi mitt besta til að fá Rúnar Atla með mér í einn göngutúr í gær. Hann hélt nú ekki, hann var svo þreyttur eftir námskeiðið að hann gat bara varla hreyft sig. Honum fannst ég bara geta gert þetta göngustúss á meðan hann er á námskeiðum.

Það verður nú að viðurkennast að gaurinn var alveg búinn á því, enda er hann úti í endalausu stússi frá kl. 9 á morgnana og til kl. 4 á daginn. En um leið og vinirnir banka upp á þá er þreytan horfin eins og hendi sé veifað :-)

En sem sagt þá dreif ég mig af stað í morgun og ákvað að ganga í kringum Vífilsstaðavatn. Það er ótrúlega fallegt þarna og búið að gera svæðið mjög flott. Gangan er nú ekki nema 2,3 km og með endalausu stoppi til að taka myndir og bara til að dást að umhverfinu tók þessi stutti túr mig 45 mínútur.

Það voru nokkrar andamömmur með ungana sína á vatninu og eins var eitt gæsapar með sína unga. Um leið og ég kom inn á göngustíginn tók Hrossagaukur fallega á móti mér, eins var náttúrulega blessuð krían á staðnum. Hún var ekki sátt við göngugarpa á svæðinu og lét finna fyrir sér :-) Það vildi til að ég var með bókina góðu með mér og gat því borið hönd fyrir höfuð mér, ja eða bók fyrir höfuð mér :-) Góð he he he

Ég er nú ekki þekkt fyrir göngutúra né að velta fyrir mér gróðri og fuglum, en fannst þetta alveg rosalega skemmtilegt. Nú þarf ég bara að finna mér góðar og handhægar bækur yfir íslenskan gróður og fugla til að læra að þekkja svona það helsta. Þetta þurfa að vera þannig bækur að ég geti tekið þær með mér og flett upp því sem fyrir augu ber. Ef þið hafið einhverjar hugmyndir að slíkum bókum, endilega látið mig vita.

En nú er stefnan sett á að taka nýjan göngutúr á hverjum degi næstu tvær vikurnar. Ég á enn eftir að ákveða hvert ég fer á morgun, sef á því í nótt.

Ég er helst hrædd við að villast og finna ekki bílinn minn aftur. Ég tapa svo auðveldlega áttum að það er hræðilegt. Þannig að ef þið heyrið eftirfarandi í útvarpinu þá bið ég ykkur að hafa mig í huga: "Leitað er að konu á fimmtugsaldri sem týndist á höfuðborgarsvæðinu, hálf blind og heyrnarlaus"

Það er gott að geta hlegið að sjálfri sér :-)

Hér koma myndir frá Vífilsstaðavatni



1 ummæli:

Sigga sagði...

Ánægð með þig! maður gerir allt of lítið af því að skoða sig um í næsta nágrenni. Fuglalífið er þó alltaf skemmtilegt í kyrrðinni á Esjunni.