Þessi vika hefur verið ansi góð hjá okkur Rúnari, eins og reyndar allt sumarið. Á föstudagskvöldið s.l. var okkur boðið austur fyrir fjall í grill/afmælisveislu. Það var rosalega gaman og góður matur. Á grillið var sett folaldakjöt og ég held ég segi rétt frá að ég hef aldrei smakkað slíkt áður. Kjötið var ofsalega gott en ég er nokkuð viss um að ef ég hefði vitað fyrirfram að þetta væri folaldakjöt þá hefði ég sennilega ekki fengið mér :-) Það var endalaust hægt að spjalla og rifja upp gamla tíð svo tíminn leið mjög hratt :-)
Við Rúnar gistum þarna um nóttina og vorum komin heim upp úr hádegi á laugardeginum. Þá höfðum við smá stund til að slappa af áður en næsta veisla byrjaði. Nú var það kaffiboð í Vesturbænum og þar lá maður í tertunum. Við vorum svo komin heim upp úr kvöldmat og vorum bara nokkuð þreytt en ánægð og fórum snemma upp í rúm. Enda slöppuðum við vel af á sunnudeginum. Öllu heldur slappaði ég vel af. Rúnar sást ekki allan daginn, hann var úti að leika fram að háttatíma, eða svo gott sem.
Á mánudagsmorgun gerði ég mig klára í minn göngutúr og ætlaði ég nú að ganga um Gálgahraun í Hafnarfirði. Ég lagði bílnum og kom mér út, en fann hvergi göngustíginn!!! Þetta er bara ekki einleikið. Ég rölti þarna um í smá stund en gafst svo upp og fór heim. Ákvað í staðinn að hendast á músaveiðar, sem gengu vel. Seinni partinn lá svo leið okkar Rúnars aftur austur fyrir fjall til að hitta fleiri "gamla" vini og ekki var minna spjallað núna. Á þriðjudagsmorgun fékk ég gesti í kaffi og sátum hér og spjölluðum í góðan tíma. Á miðvikudaginn skellti ég mér svo upp á Skaga og hitti "Vínsystur" mínar. Endalaust spjallað og hlegið. Rúnar var orðinn þreyttur á þessu eilífa flandri á móður sinni þannig að ég ákvað að nota tímann á meðan hann var á námskeiðinu og var því mætt upp á Skaga fyrir hádegi.
Í fyrramálið er svo reiðsýning hjá Rúnari og krökkunum í reiðskólanum og ég verð að mæta og taka myndir og fylgjast með hvað þeir eru orðnir duglegir :-) Seinni partinn verður svo rokið til Grundarfjarðar þar sem við verðum í góðu yfirlæti um helgina.
Þannig að ekki hef ég gefið mér tíma í göngutúrana mína, fyrir utan þessa tilraun á mánudaginn :-)
Alltaf nóg að gera :-)
1 ummæli:
Hlakka til að fá ykkur í Grundó!
Skrifa ummæli