Powered By Blogger

fimmtudagur, 12. júlí 2012

Göngutúr 2

Jæja í morgun ákvað ég að ganga í kringum Reynisvatn. Viðurkenni fúslega að ég hef ekki oft komið á þessar slóðir og var því nokkuð spennt. Notaði Maps á paddanum mínum til að finna leiðina þangað og það gekk bara eins og í sögu.

Hægt er að velja um tvær gönguleiðir um Reynisvatn, hægt er að fara bara í kringum vatnið og er það 1,2 km, eða að bæta dágóðum hring við og verður göngutúrinn þá 3,1 km. Mér fannst nú styttri hringurinn heldur stuttur og fannst því tilvalið að bæta á mig stærri hringnum.

Mér gekk reyndar illa að finna hvar ég færi út af til að fara stærri hringinn. Ég rakst á hóp ungs fólks sem var að vinna við göngustíginn og spurði þau hvort þau gætu bent mér á rétta leið. Sjálfsagt hefur þeim fundist eitthvað skrítið við mig því einn spurði mig hvort ég væri í ratleik :-) Jú jú, ég viðurkenndi að vera í ratleik við sjálfa mig. En einn úr hópnum hjálpaði mér og benti mér á einhvern troðning og þar færi ég upp. Þetta gerði ég en eftir smá stund hætti göngustígurinn og girt var fyrir frekari göngutúr þar. Á leiðinni til baka á aðal göngustíginn hitti ég hópinn aftur og þau spurðu mig hvort þetta hefði ekki verið rétt leið. Þá mundi einn þeirra að ég þyrfti að fara aðeins lengra, þar kvíslist stígurinn og ég ætti að beygja til vinstri. Ég geri þetta og eftir smástund kvíslast stígurinn og ég held mín leið til vinstri.

Ég geng upp hæðina og þar uppi er útsýnið ótrúlega fallegt. Esjan blasti við ásamt Móskarðahnúkum og Skálafelli. Eftir að hafa dáðst að útsýninu í smá stund og tekið myndir, ætlaði ég að halda hringnum áfram en kom þá hvergi auga á göngustíg. Hann virtist bara hafa hætt þarna. Þannig að ég varð að fara aftur niður á aðalstíginn. Fljótlega kvíslast stígurinn aftur og mér datt í hug að fara aftur upp hlíðina og athuga hvort þetta væri kannski hringurinn minn - því hringinn ætlaði ég. Eftir að hafa gengið aftur upp hlíðina og lent á þó nokkrum kvíslum á stígnum var ég komin upp og eftir smá rölt þar blöstu hitavatnstankarnir við mér - sá staður kallast Mýrarskyggnir.

Eftir að hafa gengið slatta um þarna uppi ákvað ég að halda til baka og klára litla hringinn í kringum vatnið. Þar voru nokkrir að veiða og hægt er að veiða bæði regnbogasilung og bleikju í vatninu. Á hverju sumri veiðast víst um 20 þúsund fiskar í Reynisvatni.

Þessi gönguleið, númer 17 í bókinni minni, var nokkuð góð. En ég varð fyrir vonbrigðum með skort á merkingum um hvar átti að beygja út af til að fara lengri hringinn. Eins gat ég hvergi séð rústir útihúsa gamla bæjarins. En náttúrufegurðin er meiri háttar og mikið um trjágróður.

Ég reikna með að hafa gengið um 2,5 km með öllu, þ.e. upp og niður hlíðar og hringinn um vatnið. Það fóru 70 mínútur í þetta ráp mitt.

Hér koma nokkrar myndir frá Reynisvatni
 Þetta er ótrúlega fallegt og að hugsa sér að þetta er bara innan borgarmarkanna.


 Það var mikið um "jólatré" á leið minni upp.

Þarna sjást hitavatnstankarnir.

1 ummæli:

Sigga sagði...

Dugleg ertu! Held að rústirnar séu þarna rétt hjá veiðihúsinu - hef einmitt farið að veiða þarna.