Powered By Blogger

laugardagur, 14. júlí 2012

Göngutúr 3

Ég komst ekki í göngutúrinn minn fyrir hádegi eins og ég hafði ætlað mér vegna þess að mér var boðið á Reiðsýningu hjá Rúnar Atla í Faxabóli. Þar sem þetta var síðasti dagurinn hans í Framhald 1 spurði hann hvort hann gæti ekki sleppt leikjanámskeiðinu eftir hádegi og verið bara heima í staðinn - eins og hann gerði í fyrra. Jú jú ég hélt það nú, en í staðinn yrði hann að koma í göngutúr með mér. Því var fljótsvarað hjá honum, nei takk þá ætlaði hann frekar að vera á leikjanámskeiðinu :-)

Það er bara ekki séns fyrir mig að draga þennan dreng út að ganga með mér. Við sjáum hvað ég get gert um helgina.

En sem sagt, eftir hádegi í dag fór ég í göngutúr í kringum Rauðavatn. Ég verð nú að segja að ég var ekkert sérstaklega spennt fyrir þessum göngutúr en ákvað að sjá hvort þetta yrði ekki skemmtilegt. Ég veit ekki hvað það er við Rauðavatn, en mér hefur bara ekki fundist neitt spennandi við það. Í den fór ég endalausa reiðtúra meðfram Rauðavatni upp að Geithálsi og maður var nú ekki að velta vatninu fyrir sér hið minnsta :-)

Gönguleið númer 18, Rauðavatn, býður upp á tvær leiðir. Styttri leiðin sem fer í kringum vatnið er 3,2 km en svo er hægt að bæta góðum hring við og þá verður leiðin 3,7 km. Ég ákvað að fara lengri leiðina því það hlyti að vera meira spennandi en að ganga bara í kringum vatnið.

Ég lagði bílnum þar sem ég taldi vera bílastæðin fyrir Rauðavatn, ég vildi ekki leggja alveg upp við Morgunblaðshúsið. Svo byrja ég minn göngutúr, og bíð eftir að göngustígurinn kvíslist þar sem ég eigi að fara upp til vinstri. Jú jú, það kom kvísl í stíginn og ég tek þá leið sem ég held að taki mig upp Lyngdalinn. En þegar ég er komin aðeins af stað þá koma í ljós bílastæði og annar stígur. Nú vissi ég ekki alveg hvert ég ætti að fara. En hélt mig bara á mínum stíg og útsýnið þarna uppi er frábært. Svo rak ég augun í fólk sem var á göngu aðeins ofar og ég gerði þá ráð fyrir að það væri stígurinn sem ég vildi vera á. Ég kom mér þangað og naut útsýnisins á meðan.

Þetta var yndisleg gönguleið og gaman að horfa niður Vatnshlíðina og að sjá byggðina, ótrúlega fallegt. Enda stoppaði ég reglulega til að dást að útsýninu og að taka myndir. Það var bekkur þarna uppi sem ég nýtti mér til að bara horfa yfir. Þarna blöstu Vífilsfell, Bláfjöll, Húsfell og Helgafell við. Svo lá leið mín áfram meðfram Álaskyggni og ég hafði ætlað mér að sjá Selið áður en leiðin liggur niður að vatninu aftur. En auðvitað gat ég ekki haldið mér á réttum stíg og var komin niður að Rauðavatni á kolvitlausum stað. Þannig að ég hélt áfram þar til ég sá stíginn aftur og í smá stund var ég að velta fyrir mér hvort ég hefði orku til að drífa mig upp hlíðina aftur eða bara að halda áfram. En ég ákvað að fara upp aftur því Selið vildi ég sjá. Ég var ánægð með sjálfa mig að klífa þarna upp aftur þó að Selið hefði nú ekki verið eitthvað stórkoslegt - það er mynd af því hérna að neðan. En þetta var ákveðið takmark hjá mér og ég varð ánægð með mig.

Svo var bara að halda aftur niður og klára hringinn um vatnið. Það verður nú að segjast að leiðin um sunnanvert vatnið er ekkert sérstök enda liggur sá göngustígur meðfram Suðurlandsvegi með endalausum bílanið og hávaða. Enda var sá hluti tekinn á hraðri göngu.


Þessi leið tók mig 3,7 km og 90 mínútur. Þegar henni lauk var tími kominn til að skella sér í búðina og versla inn og fara svo að sækja Rúnar Atla úr sínu leikjanámskeiði.

Hér koma nokkra myndir frá Rauðavatni.


Þetta er ótrúlega fallegt. Þarna er hoft niður Vatnshlíðina.

Þessi fugl gekk með mér þó nokkurn spöl og söng fyrir mig. Nú er bar að fletta honum upp í bókinni minni góðu og sjá hvað hann heitir.

 Þetta er Selið, þetta er nú bara grasivaxin bali.

 Vatnið rauða ber nafn með rentu - Rauðavatn


Ég fann mér bækur í gær í Pennanum sem heita Íslenska plöntuhandókin og Íslenskur fuglavísir sem eru akkúrat eins og ég vildi. Flottar uppfletti-handbækur. Nú er bara að læra að nota þær :-)

1 ummæli:

kaj sagði...

Takk fyrír upplýsingarnar