Powered By Blogger

föstudagur, 20. júlí 2012

Göngutúr 4

Eftir að hafa legið í flensu í nokkra daga ákvað ég að skella mér í göngutúr á miðvikudaginn og átti það að verða göngutúr 4. Ég ætlaði að ganga leið nr 23, Búrfellsgjá. Ætli það sé ekki bara best að hafa sem fæst orð um þá tilraun mína þann daginn og var ég komin heim tæpum tveimur tímum eftir að ég lagði af stað, án þess þó að komast í göngu.

Í gær var ég bara að melta þetta aðeins með mér og byggja upp þrjóskuna. Það tókst svona líka vel að í morgun var ég farin af stað aftur. Ákvað ég að taka gönguleið nr 22 í bókinni, eða Vífilsstaðahlíð við Heiðmörk.

Ég lagði bílnum á Maríuvöllum og hélt sem leið lá meðfram Vífilsstaðahlíðinni. Hlíðin var mér á vinstri hönd og Svínahraun á þá hægri. Það er ótrúlega fallegt þarna og trjágróðurinn svakalegur. Þarna hefði sko ekki þýtt neitt að standa bara upp til að horfa yfir trén ef maður villist - svona eins og segir í brandaranum um skóga á Íslandi :-)

Ég var afskaplega ánægð í hvert sinn sem ég gekk fram á einhver kennileiti sem sýndu mér þá að ég var á réttri leið. Hafði lítinn áhuga á að villast þarna. Ég var svo niðursokkin í umhverfið að ég næstum missti af beygjunni á göngustígnum sem lá þvert yfir Heiðmerkurveginn og ég átti að taka til að halda hringnum áfram og koma mér til baka. En sem betur fer rak ég augun í hann á síðustu stundu. Veit ekki alveg hvar ég hefði endað ef ég hefði bara haldið áfram :-) Á bakaleiðinni liggur göngutstígurinn á milli Svínahrauns, á hægri hönd, og Urriðakotshrauns, á vinstri hönd.

Ég er virkilega ánægð með þenan göngutúr og það er frábær tilfinning að fara inn í helgina eftir að hafa náð þessu takmarki mínu í dag :-)

Gönguleiðin var 4,3 km og tók mig 73 mín.

Hér koma nokkrar myndir frá Vífilsstaðahlíð.

 Falleg og hávaxin trén í hlíðinni.

 Fínn staður fyrir lautarferð. Það eru grill við endann á þessari flöt, sem hægt er að nota.



Engin ummæli: