Powered By Blogger

sunnudagur, 30. mars 2008

Sunnudagsmorgunn

Klukkan 7.10 í morgun vaknaði sonurinn og þar sem ég var nú ekki alveg tilbúin að fara fram strax fékk hann að koma upp í rúm til okkar og átti að hvíla sig í smá stund. Áður en ég vissi af var hann farinn að hoppa ofan á okkur með tilhlaupi. Hann setur undir sig fæturna og hendir sér á okkur. Tilgangurinn er að fletja okkur út eins og pönnukökur. Það er nú ekki alveg laust við að maður fái olnboga og hné á kaf inn í sig með tilheyrandi óþægindum. Með þessum látum tekst honum furðu fljótt að koma okkur á fætur, enda er það kannski tilgangurinn.

Hvað varð um rólegu sunnudagsmorgnana???

föstudagur, 28. mars 2008

Jedúddamía

Ég gerði nú heldur betur mistök í gær og ég fæ bara hroll við tilhugsunina. Þannig er nefnilega mál með vexti að ég steingleymdi að loka á eftir mér húsinu í gær. Seinni partinn fórum við með Ella, Allý og krakkana í heimsókn í Katatura til að skoða hverfið. Við fengum að kíkja heim til Lidia (heimilishjálpin mín) og það var mjög forvitnilegt. Við höfum sjálfsagt verið í burtu í um einn klukkutíma og bara Tinna var heima því hún var að læra fyrir próf. Þegar við komum svo heim frá Katatura þá er bara allt galopið, úff. Þegar við vorum að fara lenti ég í einhverjum vandræðum með að loka bílskúrnum en hélt það hefði nú tekist að lokum en greinilega ekki því það var allt galopið. Það er innangent í húsið úr bílskúrnum og hver sem er gat hafa farið inn.

Ég rauk beint inn til Tinnu til að tékka hvort hún væri ekki í lagi og sem betur fer var hún bara hress og hafði ekki orðið vör við neitt. Við ákváðum nú samt að ganga einn hring um húsið og gátum ekki séð að neitt hefði horfið. Þá fór ég nú að slaka aðeins á en ég bara skil ekki hvernig ég gat klikkað á að loka húsinu því ég passa þetta alltaf mjög vel. Svo í gærkveldi var Villi eitthvað að vappa í bílskúrnum og rekur þá augun í að reiðhjólið hans er horfið. Það hefur sem sagt einhver séð sér leik á borði og komið inn í bílskúr og haft hjólið á brott með sér. Ég þakka bara guði fyrir að hann fór ekki inn í húsið þar sem Tinna mín var ein heima.

1. í kulda

Jæja þá er farið að hausta hér í Namibíu. Í gærkveldi var orðið þó nokkuð kalt en við ákváðum samt að kveikja ekki upp, en við sleppum sjálfsagt ekki við það í kvöld. Í morgun komu ískaldar tær upp í rúm til okkar og þá var loftkælingin látin hita herbergið svo hægt væri að koma sér framúr. Þannig að það er ljóst að nú styttist óðum í vetur hér á suðurhveli jarðar.

fimmtudagur, 27. mars 2008

Minnisleysi

Ég var búin að steingleyma að ég væri byrjuð að blogga og því hefur ekkert heyrst frá mér í nokkra daga. En nú verður bætt úr því hið snarasta.

Það er búið að vera heilmikið að gera undanfarið. Við fórum í vikuferðalag með Ella, Allý og krökkunum og það var meiri háttar gaman. Ferðin var mjög skemmtileg en prógrammið var stíft og það var ekki laust við að mannskapurinn væri lúinn þegar við komum heim aftur. Rúnar Atli var mjög spenntur að fara í ferðalag og hlakkaði mikið til að fara í Etosha af því Tinna var þar um daginn. Eins hlakkaði hann til að komast til Oshakati því pabbi hans fer svo oft þangað. Hann gerði sér náttúrulega litla sem enga grein fyrir hvaða staðir þetta væru en var samt fullur tilhlökkunar. Hann var mjög góður í bílnum á allri þessari keyrslu og í fyrstu var hann alltaf að spurja hvort hann væri í ferðalagi, jú jú við héldum það nú. Svo á öðrum degi spyr hann: Erum við núna í Úganda?? Ha, bíddu vorum við á leiðinni þangað- ekki veit ég hvernig honum datt Úganda í hug.

Ég geri ráð fyrir að Villi bloggi um ferðina svo ég geri nú varla mikið af því. Þið lesið bara síðuna hans Villa ef þið viljið lesa ferðasöguna.

Í gærmorgun flaug fugl hingað inn og settist að í einum glugganum hátt uppi. Greyið kemst ekki út aftur því hann horfir bara út um gluggann og reynir að fljúga í gegnum hann. Við bíðum bara þolinmóð eftir að hann annað hvort detti dauður niður eða finni sér útgönguleið.

Svo var ég að fá þær yndislegu fréttir að menntamálaráðuneytið sé búið að gefa út grunnskóla-kennsluréttindaleyfi á mínu nafni :-) Ja, sko það er alla vega kominn reikningur fyrir leyfisbréfinu og um leið og ég er búin að borga það fæ ég leyfið. Svo er bara að vona að ég komist inn í KHÍ í haust. Ég sótti um að komast í M.Ed nám sem er meistaranám í stjórnun menntastofnana - mjög spennandi.

Jæja læt þetta nægja að sinni. Verð að fara að sinna gestunum sem fara í kvöld.

þriðjudagur, 11. mars 2008

Mamman greinilega ekki í uppáhaldi lengur!!!

Hann sonur minn getur nú verið ósköp ágætur stundum. Hann hlakkar alltaf mikið til að koma heim úr leikskólanum og fara að leika við Flora. Hún Flora er barnfóstran hans og hefur verið með hann á hverjum degi í rúm tvö ár. Hún nennir endalaust að leika við hann og fíflast og hamast. Það eina sem hún verður stundum þreytt á er að horfa á DVD- myndir á íslensku. Hann tekur svona köst af og til og horfir á sömu myndina í marga daga. Í fyrra, t.d. var í uppáhaldi hjá honum að horfa á Bangsaból. Það endaði með því að Flora spurði hvort hún mætti fela myndina því hún var orðin svo þreytt á henni. Svo tók við DVD diskur þar sem jólasveinn syngur mörg þekkt jólalög á íslensku. Núna er í uppáhaldi einhver mynd með Svampi Sveinssyni sem hann fékk að kaupa sér í London. Sú mynd er nú reyndar á ensku svo Flora skilur hvað er í gangi í myndinni. En ég verð nú að viðurkenna að ekki nenni ég fyrir mitt litla líf að horfa á þessa mynd með syni mínum. Að mínu mati er hún alveg drepleiðinleg.

En alla vega, þá er Rúnar mjög hrifinn af Floru. Svo í gær segir hann við mig, "mamma, núna ert þú ekki konan mín. Flora er konan mín". Hann hefur nú sennilega séð að mér hálfbrá við þessi orð hans því hann var fljótur að bæta við "en þegar Flora er farin heim þá ert þú konan mín". Hann hefur greinilega viljað hafa móður sína góða :-)