Við Rúnar Atli brunuðum í Grundarfjörð á föstudaginn til að taka þátt í hátíðinni "Á góðri stundu". Við mættum í ansi mannmarga grillveislu á föstudagskvöldið og fengum fínan mat. Rúnar mætti í brekkusönginn ásamt einhverjum af Smiðjustígnum en ég horfði á Opnunarhátíðina. Á laugardagskvöldið var farið í skrúðgöngu með Gula hverfinu niður á bryggju og voru menn mismikið skreyttir. Rúnar vildi endilega fara í eitthvað snúnings leiktæki á bryggjunni og tókst að plata mig með sér. En jeminn eini, þetta var svakalegt. Tækið ætlaði bara ekki að hætta að snúast, það voru endalausir veltingar og snúningar upp og niður, hratt og hægt. Úff þetta var rosalegt. En Rúnar skemmti sér afskaplega vel og hló allan tímann. En fljótlega eftir tækið fórum við nú bara heim. Snúningurinn og veltingurinn fóru alveg með mig :-)
Á sunnudagsmorgun var svo vaknað snemma til að horfa á Ísland - Argentína í handboltanum. Eitthvað hafði mér gengið illa að fá fólk til að horfa á handboltann með mér þannig að ég kunni ekki við að setja sjónvarpið á fullt kl. 8.30 á sunnudagsmorgni. Því fylgdist ég bara með fyrri hálfleik á tölvunni. En á seinni hálfleik horfði ég í sjónvarpinu. Eitthvað fjölgaði nú fólki fyrir framan sjónvarpið og ég horfði ekki alein :-)
Seinni partinn rúlluðum við Rúnar Atli svo af stað til Reykjavíkur. Rétt fyrir utan Grundó voru tvær löggur sem stoppuðu alla umferð til að kanna ástand bílstjóra. Bílstjórinn fyrir framan mig var látinn blása og ég gerði ráð fyrir að blása líka því ég var stoppuð og fannst það nú bara forvitnilegt því ég held ég hafi aldrei blásið áður. En nei nei, önnur löggan kom til mín og eftir að horfa inn í bíllinn og á mig sagði hann að ég væri nú bara sennilega alveg okey og svo hlógu þeir báðir. Löggurnar virtust skemmta sér hið besta :-)
Frændurnir tilbúnir í skrúðgöngu með Gula hverfinu.
Hér erum við sest í snúningstækið: "Mamma, þetta verður ókey"
Engin ummæli:
Skrifa ummæli